10.9.2022

Heift í bandarískri pólitík

Morgunblaðið, laugardagur 10. septenber 2022.

In­dependence Hall er sögu­leg bygg­ing í Fíla­delfíu í Penn­sylvan­íu í Banda­ríkj­un­um. Þar var sjálf­stæðis­yf­ir­lýs­ing Banda­ríkj­anna rædd og samþykkt og einnig banda­ríska stjórn­ar­skrá­in fyr­ir meira en tveim­ur öld­um. Bygg­ing­in er á heims­minja­skrá UNESCO. Vegna þess hve In­dependence Hall hef­ur mikið menn­ing­ar­legt, sögu­legt og stjórn­mála­legt gildi fyr­ir Banda­ríkja­menn má líkja staðnum við Þing­velli í huga okk­ar Íslend­inga.

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti valdi þessa sögu­legu um­gjörð um ræðu 1. sept­em­ber þar sem hann sakaði and­stæðinga sína á heima­velli um að vega að lýðræðis­hefðum Banda­ríkj­anna og sjálfu rétt­ar­rík­inu.

06400000-0aff-0242-6c84-08da8c9219de_w408_r1_sJoe Biden Bandaríkjaforseti flytur ræðuna í Independence Hall 1. september 2022.

Gagn­rýn­end­ur for­set­ans undruðust að hann dirfðist að nota fæðing­arstað lýðveld­is­ins til að tala á þenn­an veg um Trump og þá tugi millj­óna manna sem fylgja hon­um að mál­um.

Verj­end­ur Bidens svara að sem for­seti hafi Trump oft notað þjóðmenn­ing­arstaði í flokks­leg­um til­gangi. Hann valdi Lincoln-minn­is­merkið sem svið til árása á póli­tíska and­stæðinga í Fox News-sjón­varps­stöðinni. Hann stóð við Mount Rus­hmore und­ir risa­vöxn­um and­lit­um fjög­urra Banda­ríkja­for­seta, Geor­ge Washingt­ons, Thom­as Jef­fer­sons, Theodor­es Roosevelts og Abra­hams Lincolns, í kletta­vegg, þegar hann fór hörðum orðum um „ný-fas­isma vinstri öfga­manna“ sem vildu „afmá“ sögu þjóðar­inn­ar, „gera lítið úr hetj­um“ henn­ar, „upp­ræta gildi“ henn­ar og „inn­ræta börn­um“ nýja siði. Hann samþykkti á hlaði Hvíta húss­ins til­nefn­ingu re­públi­kana um end­ur­fram­boð árið 2020 og spáði því að Joe Biden, fram­bjóðandi demó­krata, myndi „eyðileggja stór­feng­leika“ Banda­ríkj­anna.

Efnt verður til kosn­inga í Banda­ríkj­un­um 8. nóv­em­ber 2022 þar sem kosið er um öll 435 þing­sæt­in í full­trúa­deild Banda­ríkj­anna, 35 af 100 sæt­um í öld­unga­deild­inni og sæti 39 rík­is­stjóra auk þess sem kosið verður til ein­stakra rík­isþinga og sveit­ar­stjórna.

Ræða Bidens markaði form­legt upp­haf kosn­inga­bar­átt­unn­ar af hálfu demó­krata. Úrslit­in skipta for­set­ann og völd hans miklu. Demó­krat­ar hafa nú hrein­an meiri­hluta í full­trúa­deild­inni og at­kvæði vara­for­seta Banda­ríkj­anna ræður úr­slit­um í öld­unga­deild­inni, þar sem þing­menn­irn­ir 100 skipt­ast jafnt á milli flokk­anna, 50:50. For­seti án þing­meiri­hluta á al­mennt erfitt upp­drátt­ar og kann að standa höllum fæti þegar kosið er um hann tveim­ur árum síðar. Ólík­legt er að Biden verði oft­ar í kjöri. Ald­ur­inn set­ur hon­um mörk eins og öðrum.

Biden var ómyrk­ur í máli um nauðsyn þess að verja og treysta lýðræðis­stoðir Banda­ríkj­anna. Um þess­ar mund­ir drottnuðu Don­ald Trump og MAGA-stuðnings­menn hans í flokki re­públi­kana, flokkskraft­ur­inn kæmi þaðan og þeir væru beitt­ir of­ríki inn­an flokks­ins sem and­mæltu þeim. MAGA stend­ur fyr­ir Make America Great Again – end­ur­vekj­um stór­feng­leika Banda­ríkj­anna – helsta slag­orð Trumps.

Biden tók af all­an vafa um að flokk­ur hans væri á réttri leið en Trump-flokk­ur­inn á rangri. Það færi ekki sam­an að beita sér fyr­ir upp­reisn og segj­ast hliðholl­ur Banda­ríkj­un­um. Það væri rangt að líta á of­beldi sem eðli­leg­an hlut í banda­rísku sam­fé­lagi. Þetta eru þung orð um fyrr­ver­andi Banda­ríkja­for­seta.

Biden vakti at­hygli á að menn í op­in­ber­um stöðum ýttu jafn­vel und­ir uppþot á göt­um úti. Án þess að for­set­inn nefndi nöfn bentu álits­gjaf­ar á að þar hefði hann haft í huga öld­unga­deild­arþing­mann­inn Linds­ey Gra­ham, stuðnings­mann Trumps, og fleiri sem hótuðu „götuó­eirðum“ yrði Trump lát­inn svara til saka fyr­ir að hafa tekið trúnaðarskjöl með sér heim úr Hvíta hús­inu.

Frá því að Trump tapaði kosn­ing­un­um 2020 hef­ur kjarni mál­flutn­ings hans snú­ist um að sigr­in­um hafi verið „stolið“ frá hon­um vegna brota­lam­ar eða jafn­vel svika við fram­kvæmd kosn­ing­anna og taln­ingu at­kvæða. Þrátt fyr­ir tæp­lega tveggja ára bar­áttu und­ir þess­um merkj­um, rann­sókn­ir og mála­ferli hafa úr­slit­in ekki hagg­ast. Stuðnings­menn Trumps vilja nú breyta kosn­inga­lög­um að hans höfði.

Biden sner­ist gegn þess­um mál­flutn­ingi í ræðu sinni og sagðist ekki ætla að una því að Banda­ríkja­menn yrðu svipt­ir þeim grund­vall­ar­rétti að fá að kjósa og að at­kvæði þeirra yrðu tal­in.

Dav­id Frum sem var ræðurit­ari re­públi­kan­ans Geor­ge H. Bush for­seta (Bush I.) sagði eft­ir ræðu Bidens að árið 2022 væri ekki unnt að segja að Trump­ismi væri jaðar­stefna í banda­rísk­um stjórn­mál­um. Hann væri orðinn að ráðandi stefnu flokks re­públi­kana.

Árið 2020 hefði Biden fengið at­kvæði frá mörg­um sem hrif­ust ekki endi­lega af stefnu demó­krata en vonuðu að und­ir for­sæti Bidens yrði að nýju eðli­legt stjórn­málastarf í Banda­ríkj­un­um. Tap Trumps yrði til að flokk­ur hans viður­kenndi að nýju lýðræðis­leg­ar leik­regl­ur. Dav­id Frum sagðist þekkja þetta af eig­in raun, hann væri einn þess­ara kjós­enda.

Hann sagði þess­ar von­ir hafa orðið að engu 6. janú­ar 2021. Trump­ismi væri ekki til marks um liðna tíð í flokki re­públi­kana, hann mótaði næstu framtíð flokks­ins. Fengi flokk­ur­inn meiri­hluta í báðum þing­deild­um í nóv­em­ber 2022 og í næst­um öll­um ríkj­um yrði Trump­ism­inn næsta framtíð þjóðar­inn­ar.

„Trump breytti regl­um stjórn­mál­anna. All­ir, hvar sem þeir standa í stjórn­mál­um, hafa ekk­ert annað val en laga sig að því. Sum­ir kunna að sakna liðins tíma, þetta er samt svona núna,“ sagði Frum í lok grein­ar sinn­ar.

Trump svaraði Biden og sagði hann hafa slegið öll met illinda, hat­urs og sundr­ung­ar. „Hann er óvin­ur rík­is­ins,“ sagði Trump um for­set­ann.

Er þetta lokafram­lag þess­ara manna til stjórn­mál­anna? Það verður tæp­lega lengra gengið á sömu sundr­ung­ar­braut.