5.9.2018

Handbók gegn harðstjórum

Umsögn um bókina Um harðstjórn í Morgunblaðinu 5. september 2018.

Textinn í bókinni Um harðstjórn eftir sagnfræðinginn Timothy Snyder er ekki auðveldur til þýðingar. Um er að ræða handbók sem reist er á tuttugu lærdómum sem höfundurinn telur að draga megi af tuttugustu öldinni. Hver lærdómur er birtur í knöppum feitletruðum texta og síðan fylgir mismunandi löng röksemd til að skýra fyrir lesandanum hvernig hann getur nýtt sér lærdóminn.

Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og þingmaður Samfylkingarinnar, þýðir textann og ferst það vel úr hendi. Stundum vaknar spurning um hvort textinn sé of hátíðlegur og bókmenntalegur miðað við að þetta er handbók. Lesandinn á að nýta sér bókina sem leiðarvísi við að greina strauma og stefnur í stjórnmálum líðandi stundar og skynja hvort hætta sé á ferðum - hætta um að vegið sé að rótum lýðræðis og frelsis.
Í erlendum fréttatextum er gjarnan talað um lönd, borgir og jafnvel byggingar eins og um gerendur sé að ræða: Þýskaland og Tyrkland deila, Washington og Moskva skiptast á fúkyrðum, Hvíta húsið mótmælir, Kreml hefur í hótunum. Vissulega skilst þetta á íslensku en betra er að segja: stjórnir Þýskalands og Tyrklands deila, ráðamenn í Washington og Moskvu skiptast á fúkyrðum, talsmaður Bandaríkjaforseta mótmælir, Kremlverjar hafa í hótunum. Guðmundur Andri velur báðar þessar leiðir í þýðingu sinni.
Brot bókarinnar er lítið og handhægt, sem staðfestir þá ætlan höfundar að lesandinn geti auðveldlega tekið hana með sér og gripið ofan í textann þegar tóm gefst til þess.
Timothy Snyder er prófessor í sagnfræði við Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Þegar lesin er skrá yfir bækur og greinar hans blasir við að hann hefur sérhæft sig í málefnum Rússlands og þeirra þjóða sem féllu undir áhrifasvæði Sovétríkjanna og standa nú í þeim sporum að Vladimír Pútín Rússlandsforseti og félagar láta eins og þeir eigi einhvern rétt til áhrifa meðal þeirra eða til að koma í veg fyrir að þær ráði sjálfar samskiptum sínum við ríkjabandalög eins og NATO og ESB.

Í bókinni Um harðstjórn sækir höfundur efnivið sinn í þekkinguna sem hann hefur aflað sér með rannsóknum á sögu Evrópu, bókin er hins vegar skrifuð fyrir Bandaríkjamenn. Forsetinn sem nefndur er til sögunnar oftar en einu sinni án þess að hann sé nafngreindur er Donald Trump, kviknar jafnan á rauðum viðvörunarljósum þegar höfundur nálgast hann.
Undanfarin misseri hafa komið út nokkrar bækur sem snúast um að frjálslyndir, lýðræðislegir stjórnarhættir eigi undir högg að sækja vegna aukins fylgis stjórnmálaafla með annað að leiðarljósi en hollustu við þá. Kjósendur verði að gæta sín og taka »ábyrgð á ásýnd heimsins« eins og því er lýst í fjórða lærdómsorði: »Tákn dagsins í dag raungera veruleika morgundagsins. Gefið gaum hakakrossum og öðrum haturstáknum. Ekki líta undan og ekki venjast þeim. Fjarlægið þau sjálf og gangið þannig á undan með góðu fordæmi.«
Lesendur eru hvattir til að styðja fjölflokkakerfið og til að verja lýðræðislegar leikreglur við kosningar. Kjósa í sveitarstjórnarkosningum og til þings hvenær með þeir geta. Hugleiða sjálfir að fara í framboð. Þeir eru einnig hvattir til að standa vörð um stofnanir, þær verndi sig ekki sjálfar heldur falli hver af annarri nema hver og ein sé frá upphafi varin: »Veldu því stofnun sem þér er annt um - dómstól, dagblað, lagastofnun, verkalýðsfélag - og stattu með henni,« segir í öðru lærdómsorði. Þarna er ekki boðuð byltingarkennd afstaða heldur varðstaða um stofnanir samfélagsins með lýðræðilegri þátttöku. (Orðið »lagastofnun« er óljóst í þessu samhengi. Er átt við stofnun við lögfræðideild háskóla? Eða löggjafarstofnun?)
Til að verkið nýtist lesandanum til hlítar þarf hann að vera sæmilega vel að sér í sögu, einkum evrópskri. Hann þarf jafnframt að eiga rétt til þátttöku í bandarískum stjórnmálum. Varla hafa Bandaríkjamenn almennt nokkru sinni ímyndað sér að varnaðarorð sem þessi ættu við um þeirra eigið samfélag.

Miðað við hve lengi bókin var á bandarískum metsölulistum höfðaði hún greinilega til þeirra sem enn kaupa þar bækur, en í níunda lærdómsorði segir: »Reyndu að sneiða hjá internetinu. Lestu bækur.«
Í stuttum eftirmála býr Timothy Snyder lesendur sína undir bókina sem hann gaf út fyrr á þessu ári. Hún heitir The Road to Unfreedom - Leiðin til ófrelsis. Þar er að finna nákvæma útlistun á því sem Snyder nefnir »pólitískan óhjákvæmileika« í eftirmála Um harðstjórn, það er þeirri hugmynd að sagan stefni aðeins í eina átt, hugmynd sem hann segir að sé »vitsmunalegt svefnþorn sem við höfum stungið okkur sjálfum«. Og einnig útlistun á því sem hann nefnir »eilífðarstjórnmálin« sem snúist um fortíðina á »sjálfsupptekinn hátt, og með öllu ótrufluð af staðreyndum«. Mælir hann sterklega gegn þróun til þessarar áttar. Þess vegna beri okkur hverju og einu að sýna ábyrgð og ekki óttast að skera okkur úr hópnum með sérstöðu. Dæmið sem hann tekur af Winston Churchill þessari skoðun til stuðnings hittir í mark.
Ekkert af þessu er einfalt eða auðvelt. Þó er nauðsynlegt að greina eigin pólitíska samtíð í von um að sjá hvert stefnir; hvort við í raun stöndum um þessar mundir á krossgötum þar sem gæta verði sérstakrar varúðar til að villast ekki inn á leiðina til ófrelsis.Erfitt er að ímynda sér að einhvern dreymi um að feta í spor Stalíns eða Hitlers. Fái viðhorfið sem kynnt er í bókinni Um harðstjórn notið sín má verjast að draumurinn verði að martröð milljóna.