29.12.2025

Halldór Blöndal - minning

Morgunblaðið, mánudagur 29. desember 2025.

Mánudaginn 29. desember klukkan 13. var útför Halldórs Blöndal frænda míns gerð frá Hallgrímskirkju. Séra Sigurður Arnarson annaðist hana. Mikið fjölmenni var við útförina og í erfidrykkju á Kjarvalsstöðum. Í Morgunblaðinu birtust minningargreinar á 8 bls. og hér fylgir sú sem ég skrifaði. Neðan við hana afritaði ég æviágrip Halldórs eins og það birtist í blaðinu.


Með Halldóri Blöndal er genginn góður, hjartahlýr frændi og hugrakkur stjórnmálamaður sem bar hag þjóðar sinnar og virðingu alþingis fyrir brjósti. Þegar ég ræddi við hann í haust var áhuginn á landsins gagni og nauðsynjum sami og áður auk þess sem hann vék orðum að ætt okkar og fortíðinni. Reynsla hans af stjórnmálastarfi var mikil en það var þó aðeins brot af því sem átti hug hans. Hjartað var opið og þaðan streymdi vinátta og velvilji í garð þeirra sem um var rætt.

Sem forseti alþingis flutti Halldór sköruglegar ræður til varnar þinginu. Við þingsetningu í október 2000 sagði Halldór þingræðið Íslendingum í merg og blóð runnið. Lýðræði án þingræðis væri hugmynd í lausu lofti á meðan lýðræði reist á þingræði væri besta þjóðfélagsformið. Þingmenn yrðu að una dómi kjósenda á fjögurra ára fresti. Þá reyndi á trúverðugleika þeirra og manndóm. Enginn væri sjálfkjörinn, sagði Halldór.

Voru orð hans túlkuð sem svar við innsetningarræðu Ólafs Ragnars Grímssonar í ágúst 2000 þegar hann tók sjálfkjörinn við forsetaembættinu öðru sinni og gerði því skóna að alþingi og störf þess endurspegluðu ekki höfuðþætti þjóðlífsins á hverjum tíma eða gjá hefði myndast milli stjórnmálaflokka og almennings.

41db492b-f6ae-4c48-97bb-f676285cf0ca

Enn flutti Halldór eftirminnilega ræðu til varnar alþingi við þingsetningu í október 2004 eftir að Ólafur Ragnar hafði í fyrsta sinn beitt synjunarvaldi og neitað að árita lög frá alþingi 2. júní 2004. Það sýnir hvernig andrúmsloftið var í stjórnmálum þess tíma að hópur þingmanna stjórnarandstöðunnar yfirgaf þingsalinn í mótmælaskyni við ræðu þingforsetans.

Halldór hikaði aldrei við að segja skoðun sína og gera það á þann hátt að eftir yrði tekið. Minnist ég þess frá þingum ungra sjálfstæðismanna á sjöunda áratugnum hve oft gustaði af honum þar. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í mars 2025 steig hann í ræðustól og heillaði þéttsetna Laugardalshöllina með orðum sínum. Undir miklu lófataki sneri hann aftur í ræðustólinn og sagðist ætla að ávarpa landsfund aftur næst þegar hann yrði haldinn.

Þótt svo verði ekki lifir minningin um Halldór Blöndal með sjálfstæðismönnum og öllum sem höfðu af honum kynni. Á einni ferð okkar um kjördæmi hans ókum við um Þingeyjarsýslu þar sem afi okkar, Benedikt Sveinsson, hafði verið í kjöri til þings mörgum áratugum áður. Halldór vissi ekki aðeins hverjir bjuggu á hverjum bæ heldur einnig hvernig forfeður þeirra kusu í tíð Benedikts.

Halldór naut góðs af þeirri arfleifð og lagði mikla og einlæga rækt við hana til dæmis með því að beita sér fyrir því sem forseti alþingis að árið 2002 kom í fyrsta sinn á Íslandi út ritsafn Snorra Sturlusonar í myndarlegri þriggja binda útgáfu.

Halldór Blöndal hafði oft á orði að hann hefði setið þingflokksfundi sjálfstæðismanna frá 1961 þegar Ólafur Thors var formaður og haft kynni af öllum formönnum flokksins nema Jóni Þorlákssyni. Nú slitnar þessi sögulegi þráður til veraldar sem var.

Við Rut vottum ástvinum Halldórs Blöndal samúð, blessuð sé minning hans.


---

Halldór Blöndal, ráðherra og forseti Alþingis, var fæddur í Reykjavík 24. ágúst 1938. Hann lést 16. desember 2025. Foreldrar Halldórs voru Lárus Þórarinn Haraldsson Blöndal, f. 4.11. 1905, d. 2.10. 1999, alþingisbókavörður í Reykjavík, og Kristjana Benediktsdóttir, kölluð Stella, f. 10.2. 1910, d. 17.3. 1955, húsmóðir. Fósturmóðir Halldórs var Margrét Ólafsdóttir, f. 4.11. 1910, d. 7.6. 1982, skrifstofustjóri.

Systkini Halldórs eru: 1) Benedikt, hæstaréttardómari, f. 11.1. 1935, d. 22.4. 1991. Hann var kvæntur Guðrúnu Karlsdóttur, húsmóður. 2) Kristín, framhaldsskólakennari, f. 5.10. 1944, d. 11.12. 1992. Hún var gift Árna Þórssyni, lækni. 3) Haraldur Blöndal, hæstaréttarlögmaður, f. 6.7. 1946, d. 14.4. 2004. 4) Ragnhildur, bókasafnsfræðingur, f. 10.2. 1949. Eiginmaður hennar var Knútur Jeppesen, arkitekt.

Halldór kvæntist 16.4. 1960 Renötu Brynju Kristjánsdóttur, f. 31.10. 1938, d. 3.6. 1982. Þau skildu 1967. Hún var dóttir Kristjáns P. Guðmundssonar, f. 8.3. 1913, d. 6.12 1991, forstjóra og útgerðarmanns á Akureyri, og Úrsúlu Beate Guðmundsson, f. Piernay, bókara, f. 4.12. 1915, d. 26.9. 2002.

Dætur Halldórs og Renötu eru Ragnhildur, f. 22.9. 1960, bókasafns- og upplýsingafræðingur, og Kristjana Stella, f. 28.12. 1964, prófessor við Háskóla Íslands. Ragnhildur á tvær dætur, Renötu Blöndal verkfræðing og Önnu Margréti Sigurbergsdóttur jarðfræðing. Renata er gift Óskari Inga Magnússyni verkfræðingi og eiga þau þrjú börn, Ragnhildi Lilju, Magnús Inga og Bjarka Leví. Sambýlismaður Önnu Margrétar er Pétur Sigurðsson tölvunarfræðingur og eiga þau tvö börn, Urði og Kára Hrafn.

Sambýlismaður Kristjönu Stellu er Ólafur Rastrick, prófessor við Háskóla Íslands. Hún á tvö börn. Halldór Reynir Tryggvason er tölvunarfræðingur og sambýliskona hans er Guðrún Baldvinsdóttir bókmenntafræðingur. Ragnheiður Davíðsdóttir er kynjafræðingur og laganemi og sambýlismaður hennar er Hrafn Helgi Helgason kvikmyndagerðarmaður.

Halldór kvæntist 27.12. 1969, Kristrúnu Eymundsdóttur, f. 4.1. 1936, d. 8.12. 2018, framhaldsskólakennara. Hún var dóttir Eymundar Magnússonar, f. 21.4. 1893, d. 13.1. 1977, skipstjóra í Reykjavík, og Þóru Árnadóttur, f. 28.2. 1903, d. 21.12 1998.

Sonur Halldórs og Kristrúnar er Pétur, f. 6.12. 1971, blaðamaður, en kona hans er Anna Sigríður Arnardóttir lögfræðingur og framkvæmdastjóri. Þau eiga tvö börn. Ólöf Kristrún hefur lokið grunnnámi í verkfræði og einnig sambýlismaður hennar Davíð Jóhann Diego. Örn Óskar er verkfræðinemi.

Synir Kristrúnar og fóstursynir Halldórs eru Eymundur Matthíasson Kjeld, f. 1.2. 1961, d. 16.8. 2019, eðlis- og stærðfræðingur, og Þórir Bjarki Matthíasson Kjeld, f. 20.11. 1965, d. 17.6. 2023.

Halldór lauk stúdentsprófi frá MA 1959 og stundaði nám í lögfræði við HÍ um skeið.

Halldór vann við hvalskurð í hvalveiðistöðinni í Hvalfirði á fimmtán vertíðum 1954-74, var kennari við Réttarholtsskóla, Gagnfræðaskólann á Akureyri, Menntaskólann á Akureyri, Lindargötuskóla og Gagnfræðaskóla Austurbæjar 1959-71, var blaðamaður á Morgunblaðinu með hléum frá 1961 til 1979, erindreki Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1963-67 og vann á endurskoðunarskrifstofu Björns Steffensen og Ara Ó. Thorlacius 1976-78.

Halldór settist fyrst á þing sem varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 2.12. 1971 og var kjörinn alþingismaður 2.12. 1979, á fæðingardegi afa síns, Benedikts, þingforseta. Halldór var þingmaður Norðurlands eystra 1983-2003 og alþingismaður Norðausturkjördæmis 2003-2007.

Halldór var landbúnaðar- og samgönguráðherra 1991-95, samgönguráðherra 1995-99 og forseti Alþingis 1999-2005. Hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var formaður Samtaka eldri Sjálfstæðismanna frá 2009-2024. Þá hefur hann setið í ýmsum nefndum og ráðum. Nú síðast var hann forseti Hins íslenska fornritafélags frá 2018 til 2025.