6.12.2025

Hækkun á halla og sköttum

Morgunblaðið, laugardagur 6. nóvember 2025.

Í kosningabaráttunni fyrir ári og við myndun ríkisstjórnarinnar um þetta leyti í fyrra hamraði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, á því hve illa væri staðið að fjármálum ríkisins. Það gerði henni erfitt að mynda ríkisstjórn og þegar það hafði tekist 21. desember 2024 sagði hún við Morgunblaðið:

„Þetta verður áskorun og við erum mjög meðvitaðar um að þetta verður áskorun. Þetta verður ekki auðvelt, ekki frekar en neitt annað sem skiptir máli í lífinu.“

Kristrún og félagar drógu upp áróðursmynd af slæmri stöðu ríkissjóðs til að sanna eigið ágæti. Eftir að þau tóku að stjórna með eigin ráðum hefur margt farið á annan veg en vænst var og lofað.

Fjárlögum ársins 2025 var lokað með um 58,6 milljarða kr. gati en af hálfu þeirra sem að afgreiðslunni stóðu var því spáð að í árslok 2025 yrði staða ríkissjóðs betri. Sú spá hefur ræst á árinu. Sama verður ekki sagt um aðrar spár.

Í áliti fjárlaganefndar um fyrsta fjárlagafrumvarp Daða Más Kristóferssonar (Viðreisn) segir að við framlagningu ráðherrans á frumvarpinu hafi verið spáð 2,2% hagvexti í ár og 2,6% árið 2026. Síðan hafi hagvaxtarhorfur versnað nokkuð en nú sé spáð 1,8% hagvexti árið 2026. Ýmsir erfiðleikar í atvinnulífinu hafi valdið þessum versnandi horfum og birtist það fyrst og fremst í minni vexti útflutnings. Í upphaflegu hagspánni hafi verið reiknað með að útflutningur ykist um 2,5% á næsta ári en nú sé reiknað með nánast engum útflutningsvexti árið 2026.

Í september sagði fjármálaráðherra að hallinn yrði 15 milljarðar kr. á ríkissjóði árið 2026. Nú liggur fyrir að heildarafkoma ríkissjóðs verður neikvæð um 27,5 milljarða kr. á næsta ári samkvæmt frumvarpinu.

Ríkisstjórnin boðar 25 milljarða skattahækkanir árið 2026. Sérstök gagnrýni hefur beinst að hækkun á erfðafjárskatti. Yfirskattanefnd hefur slegið á fingur ríkisskattstjóra. Honum beri að líta til bókfærðs verðs en ekki almenns markaðsverðs fasteigna við ákvörðun erfðafjárskatts. Fjármálaráðherra vill með lagabreytingu þóknast ríkisskattstjóra. Breyting á skattstofni frá fasteignamati landareigna í markaðsvirði hækkar erfðafjárskatt verulega ef eignir dánarbús falla undir nýja lagaákvæðið. Þetta heftir nýliðun í landbúnaði, ögrar bændum og byggðafestu.

IMG_3084

Horfur varðandi grunnþætti í ríkisbúskapnum eru dekkri nú en við framlagningu frumvarps Daða Más í september:

Samkvæmt mælingu Hagstofu Íslands var atvinnuleysi fólks á aldrinum 16 til 74 ára 4,4% í október 2025. Samanborið við sama mánuð 2024 jókst atvinnuleysið um 1,5 prósentustig.

Í hagspá Alþýðusambands Íslands (ASÍ) frá 31. október 2025 segir að vinnumarkaðurinn sýni merki um kólnun og líkur séu á auknu atvinnuleysi út árið 2027. Atvinnuleysi verði 4,5% á þessu ári og það aukist í 4,9% á árinu 2026. Helstu áhrifaþættir eru taldir minni umsvif í ferðaþjónustu og samdráttur á byggingamarkaði.

Um miðjan nóvember var sagt frá nýrri könnun Maskínu fyrir Samtök iðnaðarins (SI) sem sýndi mikla breytingu á væntingum íslenskra stjórnenda til efnahagsmála. Í maí 2025 töldu 56% að hagkerfið myndi vaxa næstu 12 mánuði. Í nóvember 2025 var hlutfallið komið niður í 26%. Á sama tíma hafði hlutfall þeirra sem búast við samdrætti farið úr 18% í 46%.

Þrátt fyrir þessar tölur sem benda til þrenginga í þjóðarbúinu á komandi misserum breytist afkomuspáin ekki fyrir ríkissjóð. Fjármálaráðherrann gaf þá skýringu á þingi 2. desember að afkoma ríkisins væri einfaldlega meira háð afkomu heimila og þróun einkaneyslu heldur en þróuninni í raunhagkerfinu. Það væri í sjálfu sér vel vegna þess að það gerði að verkum að við gætum betur treyst þeirri spá sem fyrir lægi.

Ráðherrann kynnti þó enga spá um vöxt einkaneyslu sem hefði styrkt stöðu ríkissjóðs á þennan veg á milli fyrstu og annarrar umræðu um fjárlagafrumvarpið þvert á spár um almennan samdrátt í hagkerfinu. Er þessi stefna í samræmi við markmið um að draga úr verðbólgu? Hefðbundin hagstjórn myndi frekar gera ráð fyrir að hemja einkaneyslu en að veðja á hana.

Í lok svars við fyrirspurn frá Ingibjörgu Isaksen, þingflokksformanni framsóknar, um þróun fjárlaga til ársloka 2027 sagði Daði Már:

„Mig langar til að segja eitt: Það er auðvitað athyglisvert að setja breytinguna sem fjárlaganefnd leggur til á fjárlagafrumvarpinu fram sem tvöföldun á halla. Ég vil þó í þessu samhengi benda á að þessi tala, sem er af stærðargráðunni 19 milljarðar, er dvergvaxin samanborið við þá breytingu sem fjárlaganefnd lagði til við síðustu fjárlög, sem, ef ég man rétt, var upp á 70 milljarða. Svo ég segi: Vel gert, fjárlaganefnd.“

Hrós ráðherrans til nefndarinnar missir illilega marks af því að hann fór með rangt mál. Í fyrra hækkuðu tillögur meirihluta fjárlaganefndar halla ríkissjóðs ekki um 70 milljarða kr. heldur um 17,6 milljarða kr. til viðbótar við 41 milljarðs kr. halla í frumvarpinu. Samtals var því áætlað að heildarhalli í ár gæti orðið um 58,6 milljarðar kr. eða 1,2% af vergri landsframleiðslu (VLF).

Nú er því spáð að í ár verði hallinn 0,4% af VLF, sem jafngildir um 15-20 milljörðum kr. eða lægri en 27,5 milljarða hallinn sem spáð er á næsta ári.

Miðað við háleitu markmiðin sem sett voru við myndun ríkisstjórnarinnar fyrir ári, sjálfshól ráðherranna og hrós fjármálaráðherra um fjárlaganefnd stendur þjóðarbúið verr í desember 2025 en í fyrra og þar með ríkissjóður.

Verkstjórnin hefur veikt þjóðarhag að hætti vinstri stjórna.