Grænlandsstjórn lítur í vestur
Morgunblaðið, laugardagur, 11. janúar 2025.
Fyrir um fimm árum þegar sá sem þetta ritar vann að gerð tillagna um utanríkis- og öryggismál fyrir norrænu utanríkisráðherrana vaknaði að sjálfsögðu spurningin um hvernig ætti að ná til Grænlands. Átti að ræða við fulltrúa stjórnvalda landsins beint eða með aðstoð danska utanríkisráðuneytisins?
Ljóst varð að öll samskipti við grænlensk stjórnvöld skyldu fara um utanríkisráðuneytið í Kaupmannahöfn. Niðurstaðan var að hitta grænlenska sendinefnd á fundi í Reykjavík að viðstöddum sérlegum sendimanni frá Kaupmannahöfn. COVID-19 kom í veg fyrir fundinn.
Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur hefur síðan skerpt sérstaka ábyrgð landanna þriggja innan danska konungdæmisins í utanríkis- og varnarmálum. Nú síðast brást ráðherrann við Grænlandsáreiti Donalds Trumps, verðandi Bandaríkjaforseta, með þeim orðum að framtíð Grænlands yrði ákvörðuð í Nuuk enda væri um framtíð Grænlendinga að ræða.
Þriðjudaginn 7. janúar gerði Donald Trump skipulagt og árangursríkt átak til að draga athygli heimsins alls að áhuga sínum á Grænlandi. Þann dag sendi hann son sinn og alnafna í einkaflugvél sinni til Nuuk, höfuðborgar Grænlands. Hann skyldi hitta fylgismenn Trumps. Sjónvarpsmenn fylgdust með þegar þeim voru afhentar rauðar Trump-húfur. Trump yngri ræddi ekki við neina fulltrúa grænlenskra stjórnvalda, hann sagðist vera túristi.
Á meðan Trump-flugvélin var á Nuuk-flugvelli efndi verðandi Bandaríkjaforseti til blaðamannafundar heima hjá sér í Mar-a-Lago í Palm Beach í Flórída. Í svari við spurningu sagðist hann ekki útiloka hervald til að ná stjórn á Grænlandi. Kæmu dönsk stjórnvöld ekki fram á þann hátt sem honum líkaði kynni hann að leggja refsitolla á danskar vörur. Í Bandaríkjunum er mikilvægasti erlendi markaðurinn fyrir danskar útflutningsvörur.
Þetta var einstök almannatengslaaðgerð til að árétta hve Grænland vegur þungt í huga Trumps. Hann telur landið skipta sköpum fyrir öryggi Bandaríkjanna, hvort heldur litið sé til hernaðar eða auðlinda. Hann vill koma í veg fyrir að þær falli í hendur Kínverja sem þegar hafa fengið aðgang að rússnesku gullkistunum á norðurslóðum. Hann sýnist fús til að hafa allar venjulegar reglur um samskipti vina- og bandalagsþjóða að engu vegna áhugans á Grænlandi.
Mette Frederiksen forsætisráðherra var greinilega brugðið þegar hún svaraði spurningum danska ríkisútvarpsins, DR, að kvöldi 7. janúar. Hún var varkárari í orðum en 2019 þegar hún sagði hugmynd Trumps um að kaupa Grænland „fráleita“. Hann svaraði þá að hún væri „kvikindisleg“. Sumir fréttaskýrendur segja þessi orðaskipti skýringu á miklum Trump-áhuga á Grænlandi. Forsetinn verðandi gleymi aldrei neinum sem svari honum fullum hálsi.
Þetta er kannski eins góð skýring og hver önnur því að enginn veit með neinni vissu hvað vakir í raun fyrir Trump. Hann talar þó ekki fyrir daufum eyrum á Grænlandi.
Úr sal þings Grænlands, Inatsisartut.
Eftir margra ára bið kynnti grænlenska landstjórnin, Naalakkersuisut, stefnu sína í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum 2024 til 2033 miðvikudaginn 21. febrúar 2024. Ekkert um okkur, án okkar er leiðarstef grænlensku stefnunnar.
Þar er lögð áhersla á að Grænland eigi nánara samstarf við ríkisstjórnir og þjóðþing í Norður-Ameríku, þar á meðal Alaska-ríki í Bandaríkjunum. Mælt er með auknum samskiptum við Íslendinga t.d. í ferðaþjónustu, samgöngum og við nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum.
Í nýársávarpi sínu boðaði Múte B. Egede, formaður grænlensku landstjórnarinnar, nýtt skref til sjálfstæðis en kosið verður til grænlenska þingsins í apríl. Egede er úr róttæka vinstri flokknum, Inuit Ataqatigiit, og hvetur nú til þess að Grænlendingar sameinist og gefi sér tóm til að huga að framtíðinni.
Siumut er Jafnaðarflokkur Grænlands, sjálfstæðis- og utanríkisráðherra landstjórnarinnar, Vivian Motzfeldt, kemur úr honum. Hún sendi frá sér tilkynningu 9. janúar um að sjálfstæðisbaráttan sé í höndum Grænlendinga, þeir ákvarði framtíð sína.
Danska konungdæmið er ekki nefnt. Tilkynningin er um samstarf við Bandaríkjamenn:
(1) Grænlendingar vilja ræða við þá um hugsanlegt samstarf í atvinnumálum, nýtingu hráefna Grænlands, þar á meðal mikilvægra steinefna, auk annarra sviða.
(2) Grænlendingar hafa unnið með Bandaríkjamönnum, einni helstu samstarfsþjóð sinni, og munu gera það áfram. Í meira en 80 ár hefur Grænland átt varnarsamstarf við Bandaríkin og tryggt öryggi beggja landa auk alls vestræna heimsins. Landstjórnin fagnar því að taka upp samskipti við verðandi forseta, Donald Trump, og nýja stjórn hans.
(3) Grænlendingum er ljóst að staða öryggismála hefur breyst á norðurslóðum. Þeir skilja og viðurkenna að Grænland gegnir ótvíræðu og mikilvægu hlutverki fyrir þjóðaröryggishagsmuni Bandaríkjanna. Einmitt þess vegna er mikilvæg bandarísk herstöð á Norður-Grænlandi. Grænlendingar fagna samstarfi við næstu ríkisstjórn Bandaríkjanna og aðra bandamenn í NATO um að tryggja öryggi og stöðugleika á norðurslóðum.
Þarna fer ekkert á milli mála. Enginn þarf lengur leyfi danska utanríkisráðuneytisins til að kanna hug grænlenskra stjórnvalda í varnar- og öryggismálum. Stefnan er ótvíræð. Landstjórnin vill milliliðalaus samskipti við Bandaríkjastjórn um lífshagsmunamál sín.
Verði samið á þessum grundvelli milli stjórnvalda í Nuuk og Washington er lagður grunnur að næsta skrefi til sjálfstæðis Grænlands. Norðurslóðir taka á sig nýja mynd – Íslendingar verða að laga sig að henni.