11.1.2025

Grænlandsstjórn lítur í vestur

Morgunblaðið, laugardagur, 11. janúar 2025.

Fyr­ir um fimm árum þegar sá sem þetta rit­ar vann að gerð til­lagna um ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mál fyr­ir nor­rænu ut­an­rík­is­ráðherr­ana vaknaði að sjálf­sögðu spurn­ing­in um hvernig ætti að ná til Græn­lands. Átti að ræða við full­trúa stjórn­valda lands­ins beint eða með aðstoð danska ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins?

Ljóst varð að öll sam­skipti við græn­lensk stjórn­völd skyldu fara um ut­an­rík­is­ráðuneytið í Kaup­manna­höfn. Niðurstaðan var að hitta græn­lenska sendi­nefnd á fundi í Reykja­vík að viðstödd­um sér­leg­um sendi­manni frá Kaup­manna­höfn. COVID-19 kom í veg fyr­ir fund­inn.

Mette Frederik­sen for­sæt­is­ráðherra Dan­merk­ur hef­ur síðan skerpt sér­staka ábyrgð land­anna þriggja inn­an danska kon­ung­dæm­is­ins í ut­an­rík­is- og varn­ar­mál­um. Nú síðast brást ráðherr­ann við Græn­lands­áreiti Don­alds Trumps, verðandi Banda­ríkja­for­seta, með þeim orðum að framtíð Græn­lands yrði ákvörðuð í Nuuk enda væri um framtíð Græn­lend­inga að ræða.

Þriðju­dag­inn 7. janú­ar gerði Don­ald Trump skipu­lagt og ár­ang­urs­ríkt átak til að draga at­hygli heims­ins alls að áhuga sín­um á Græn­landi. Þann dag sendi hann son sinn og al­nafna í einka­flug­vél sinni til Nuuk, höfuðborg­ar Græn­lands. Hann skyldi hitta fylg­is­menn Trumps. Sjón­varps­menn fylgd­ust með þegar þeim voru af­hent­ar rauðar Trump-húf­ur. Trump yngri ræddi ekki við neina full­trúa græn­lenskra stjórn­valda, hann sagðist vera túristi.

Á meðan Trump-flug­vél­in var á Nuuk-flug­velli efndi verðandi Banda­ríkja­for­seti til blaðamanna­fund­ar heima hjá sér í Mar-a-Lago í Palm Beach í Flórída. Í svari við spurn­ingu sagðist hann ekki úti­loka hervald til að ná stjórn á Græn­landi. Kæmu dönsk stjórn­völd ekki fram á þann hátt sem hon­um líkaði kynni hann að leggja refsitolla á dansk­ar vör­ur. Í Banda­ríkj­un­um er mik­il­væg­asti er­lendi markaður­inn fyr­ir dansk­ar út­flutn­ings­vör­ur.

Þetta var ein­stök al­manna­tengslaaðgerð til að árétta hve Græn­land veg­ur þungt í huga Trumps. Hann tel­ur landið skipta sköp­um fyr­ir ör­yggi Banda­ríkj­anna, hvort held­ur litið sé til hernaðar eða auðlinda. Hann vill koma í veg fyr­ir að þær falli í hend­ur Kín­verja sem þegar hafa fengið aðgang að rúss­nesku gull­kist­un­um á norður­slóðum. Hann sýn­ist fús til að hafa all­ar venju­leg­ar regl­ur um sam­skipti vina- og banda­lagsþjóða að engu vegna áhug­ans á Græn­landi.

Mette Frederik­sen for­sæt­is­ráðherra var greini­lega brugðið þegar hún svaraði spurn­ing­um danska rík­is­út­varps­ins, DR, að kvöldi 7. janú­ar. Hún var var­kár­ari í orðum en 2019 þegar hún sagði hug­mynd Trumps um að kaupa Græn­land „frá­leita“. Hann svaraði þá að hún væri „kvik­ind­is­leg“. Sum­ir frétta­skýrend­ur segja þessi orðaskipti skýr­ingu á mikl­um Trump-áhuga á Græn­landi. For­set­inn verðandi gleymi aldrei nein­um sem svari hon­um full­um hálsi.

Þetta er kannski eins góð skýr­ing og hver önn­ur því að eng­inn veit með neinni vissu hvað vak­ir í raun fyr­ir Trump. Hann tal­ar þó ekki fyr­ir dauf­um eyr­um á Græn­landi.

Screenshot-2025-01-11-at-18.47.42Úr sal þings Grænlands, Inatsisartut.   

Eft­ir margra ára bið kynnti græn­lenska land­stjórn­in, Na­alakk­ersuisut, stefnu sína í ut­an­rík­is-, ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um 2024 til 2033 miðviku­dag­inn 21. fe­brú­ar 2024. Ekk­ert um okk­ur, án okk­ar er leiðar­stef græn­lensku stefn­unn­ar.

Þar er lögð áhersla á að Græn­land eigi nán­ara sam­starf við rík­is­stjórn­ir og þjóðþing í Norður-Am­er­íku, þar á meðal Alaska-ríki í Banda­ríkj­un­um. Mælt er með aukn­um sam­skipt­um við Íslend­inga t.d. í ferðaþjón­ustu, sam­göng­um og við nýt­ingu á end­ur­nýj­an­leg­um orku­gjöf­um.

Í ný­ársávarpi sínu boðaði Múte B. Egede, formaður græn­lensku land­stjórn­ar­inn­ar, nýtt skref til sjálf­stæðis en kosið verður til græn­lenska þings­ins í apríl. Egede er úr rót­tæka vinstri flokkn­um, Inuit Ataqatigiit, og hvet­ur nú til þess að Græn­lend­ing­ar sam­ein­ist og gefi sér tóm til að huga að framtíðinni.

Siumut er Jafnaðarflokk­ur Græn­lands, sjálf­stæðis- og ut­an­rík­is­ráðherra land­stjórn­ar­inn­ar, Vi­vi­an Motz­feldt, kem­ur úr hon­um. Hún sendi frá sér til­kynn­ingu 9. janú­ar um að sjálf­stæðis­bar­átt­an sé í hönd­um Græn­lend­inga, þeir ákv­arði framtíð sína.

Danska kon­ung­dæmið er ekki nefnt. Til­kynn­ing­in er um sam­starf við Banda­ríkja­menn:

(1) Græn­lend­ing­ar vilja ræða við þá um hugs­an­legt sam­starf í at­vinnu­mál­um, nýt­ingu hrá­efna Græn­lands, þar á meðal mik­il­vægra steinefna, auk annarra sviða.

(2) Græn­lend­ing­ar hafa unnið með Banda­ríkja­mönn­um, einni helstu sam­starfsþjóð sinni, og munu gera það áfram. Í meira en 80 ár hef­ur Græn­land átt varn­ar­sam­starf við Banda­rík­in og tryggt ör­yggi beggja landa auk alls vest­ræna heims­ins. Land­stjórn­in fagn­ar því að taka upp sam­skipti við verðandi for­seta, Don­ald Trump, og nýja stjórn hans.

(3) Græn­lend­ing­um er ljóst að staða ör­ygg­is­mála hef­ur breyst á norður­slóðum. Þeir skilja og viður­kenna að Græn­land gegn­ir ótví­ræðu og mik­il­vægu hlut­verki fyr­ir þjóðarör­ygg­is­hags­muni Banda­ríkj­anna. Ein­mitt þess vegna er mik­il­væg banda­rísk her­stöð á Norður-Græn­landi. Græn­lend­ing­ar fagna sam­starfi við næstu rík­is­stjórn Banda­ríkj­anna og aðra banda­menn í NATO um að tryggja ör­yggi og stöðug­leika á norður­slóðum.

Þarna fer ekk­ert á milli mála. Eng­inn þarf leng­ur leyfi danska ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins til að kanna hug græn­lenskra stjórn­valda í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um. Stefn­an er ótví­ræð. Land­stjórn­in vill milliliðalaus sam­skipti við Banda­ríkja­stjórn um lífs­hags­muna­mál sín.

Verði samið á þess­um grund­velli milli stjórn­valda í Nuuk og Washingt­on er lagður grunn­ur að næsta skrefi til sjálf­stæðis Græn­lands. Norður­slóðir taka á sig nýja mynd – Íslend­ing­ar verða að laga sig að henni.