Geistlegur heiðursborgari
Morgunblaðið, 17. desember 2025
Bókin Séra Bragi – ævisaga séra Braga Friðrikssonar eftir Hrannar Braga Eyjólfsson lýsir horfnum hlut prests og kirkjulegs starfs í samfélaginu. Án séra Braga, búsetu hans í Garðahreppi, síðar Garðabæ, frá 1958 hefði samfélagið þar þróast og blómstrað með öðrum svip. Geistlegur andi séra Braga sveif yfir mannlífinu. Garðbæingar mátu gífurlegt framlag hans í verki. Séra Bragi er fyrsti heiðursborgari Garðabæjar og þegar sonarsonur hans fagnaði útgáfu bókar sinnar við hátíðarmessu í Vídalínskirkju á dögunum sóttu meira en 500 manns athöfnina.
Séra Bragi Friðriksson (1927-2010) var fyrstur íslenskra presta til að vígjast til prestþjónustu meðal Vestur-Íslendinga í Kanada, þar sem hann þjónaði á árunum 1953-1956. Þar kynntist hann hve miklu skipti fyrir prestinn að lifa og hrærast með söfnuði sínum. Þannig þjónaði hann söfnuðum sínum í Garðabæ, á Vatnsleysuströnd og Álftanesi frá 1966 til starfsloka 1997.
Í Kanada tók sr. Bragi á móti þáverandi borgarstjóra í Reykjavík, Gunnari Thoroddsen. Þau kynni urðu til þess að Gunnar fól sr. Braga að hafa forystu um nýskipan æskulýðsmála í Reykjavík.
Segir í bókinni að þá hafi „ein náðargáfa“ séra Braga komið í ljós, það er „hæfileikinn til að sannfæra fólk til að vinna óeigingjarnt starf í þágu góðra málefna“ (196).
Hvarvetna þar sem sr. Bragi lét að sér kveða lagði hann grunn að fjölbreyttu starfi á mörgum sviðum og virkjaði fjölda fólks í þágu kirkju, íþrótta, mennta og tónlistar.
Nú á tímum setja tónleikar af öllu tagi sterkan svip á undirbúning jólanna. Hrannar Bragi segir að sr. Bragi hafi verið upphafsmaður fyrstu íslensku jólatónleikanna eftir að hafa kynnst jólasöngvum á aðventunni í Kanada: „Séra Braga datt í hug að þetta væri hægt að gera á Íslandi og hóf að skipuleggja jólatónleika fyrir aðventuna 1956. Í nóvember höfðu sex tónleikar verið skipulagðir á vegum Æskulýðsráðs en þeir fyrstu voru haldnir í Gamlabíói. Þar söng unglingakór undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar innlend og erlend jólalög og var þeim sem voru viðstaddir ætlað að taka undir sönginn. Hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands önnuðust undirleik“ (198).
Ári síðar voru jólatónleikar líka haldnir í kirkjum en sr. Bragi hafði þá verið skipaður formaður Æskulýðsnefndar þjóðkirkjunnar.
Þetta dæmi um framtakssemi sr. Braga sýnir að strax eftir heimkomuna frá Kanada var hann óhræddur við að fara ótroðnar slóðir. Styrkur hans til þess jókst síðan jafnt og þétt með kynnum safnaðanna af prestsstörfum hans og nánustu samstarfsmanna af dugnaði hans við að leiða mál til farsælla lykta.

Stóru línurnar
Bókin skiptist í 15 kapítula og í hverjum þeirra eru fjölmargir kaflar. Auk formála höfundar er aftan við meginmál að finna tímalínu yfir viðburði á ævi sr. Braga og skrár yfir tilvísanir, heimildir og nöfn. Mikill fjöldi mynda er í bókinni og hefur alúð verið lögð við að nafngreina þá sem eru á hópmyndum.
Frásögnin hefst á lýsingu á forfeðrum sr. Braga og æsku hans. Strax frá unga aldri lærir hann að standa á eigin fótum og laga sig að ólíkum uppalendum sem allir gáfu honum mikið. Þegar hann fékk Akureyrarveikina sem nemandi í Menntaskólanum á Akureyri hét hann Guði að helga líf sitt honum fengi hann að lifa (92). Hann var góður íþrótta- og reglumaður sem bar höfuð og herðar yfir aðra.
Hrannar Bragi er lögfræðingur og á átta árum við ritun ævisögu afa síns studdist hann við mikið magn heimilda. Tilvísanir í þær eru 1.486 og spannar tilvísanaskráin 20 blaðsíður. Sr. Bragi hafði lesið inn æskuminningar, hann skráði dagbók alla ævi og varðveitti bréf og önnur skjöl af kostgæfni. Hrannar Bragi ræddi við rúmlega 40 samferðamenn sr. Braga og birtir umsagnir margra þeirra undir nafni. Þá leitar hann heimilda í opinberum skjölum, blöðum og tímaritum. Viðkvæmum stundum í lífi fjölskyldunnar og andláti sr. Braga, 27. maí 2010, er lýst af nærgætni og nálægð.
Eftir að starfsævi sr. Braga hefst velur Hrannar Bragi þá leið að fjalla um hvern efnisþátt hennar fyrir sig í sérstökum kapítulum og því eru lítils háttar endurtekningar óhjákvæmilegar. Þegar þannig er að verki staðið er matsatriði hve leiða á lesandann djúpt inn í málaflokkinn. Víða er það gert af svo mikilli nákvæmni að gagnast þeim sem sérstakan áhuga hafa á viðkomandi efni. Smáatriðin ná þó aldrei yfirhöndinni því að þótt sr. Bragi léti sig þau varða missti hann aldrei sjónar á stóru línunum. Sögufélag Garðabæjar var stofnað í tilefni af bókinni og er útgefandi hennar.
Fékk fjölmörgu áorkað
Lengsti kapítulinn ber fyrirsögnina Garðaklerkur og er hann 166 bls. af 652 bls. bókarinnar. Sr. Bragi lagði sig fram um að skapa kirkjuvitund í Garðabæ. Sigurður Björnsson óperusöngvari var formaður sóknarnefndar þegar dró að starfslokum sr. Braga. Hann segir í bókinni:
„Sr. Bragi var maður hár; í prédikunarstólnum var hann stór. Hann talaði af mikilli sannfæringu og trúarinnsæi; hann trúði því sem hann var að boða og reyndist trúr vígsluheiti sínu um að boða orðið „hreint og ómengað“. Hann fór aldrei leynt með hverjum hann þjónaði. Ekki spillti fyrir honum að hann hafði fagra og hljómmikla tal- og söngrödd“ (326).
Sr. Bragi þjónaði sem prestur fyrir Garðbæinga frá 1959 í samvinnu við séra Garðar Þorsteinsson prófast í Hafnarfirði sem bauð honum að verða sóknarprestur á Keflavíkurflugvelli sem hann varð árið 1964, fyrstur Íslendinga til að gegna prestsstarfi þar fyrir „meðlimi þjóðkirkjunnar, sem búsettir eru innan flugvallarsvæðisins“, sagði í bréfi biskups til sr. Braga (233).
Vegna þessa verkefnis var sr. Bragi kallaður herprestur í Þjóðviljanum. Þar er nefnt að hann hafi starfað að æskulýðsmálum í Reykjavík og eigi að gera það einnig á Suðurnesjum, nú geti hann haldið „uppi sálmasöng á kynningarmótum hermanna og reykvískra ungmeyja og framkvæmt skyndigiftingar ef á þarf að halda, til þess að tryggt sé að vestrænar varnir samræmist kristilegu siðgæði í einu og öllu“ (234).
Sr. Bragi gætti þess alla tíð að halda sig fjarri afskiptum af stjórnmálum eða almennt pólitískum átakamálum. Ofangreind orð sýna á hinn bóginn að um tveimur áratugum eftir aðra heimsstyrjöldina setti „ástand“ stríðsáranna svip á afstöðu og málflutning herstöðvaandstæðinga.
Fyrir utan myndina af sóknarprestinum og önnum hans er sr. Bragi kynntur til sögunnar sem glaðsinna maður sem kastaði fram vísum, sagði gamansögur og naut þess að skjótast á kaffihús og fá sér köku yfir góðu spalli að athöfn lokinni. Hann var morgunsvæfur en sat við skriftir fram eftir nóttu. Hann gat verið þungur á bárunni ef því var að skipta.
Sr. Bragi fékk fjölmörgu áorkað á lífsgöngu sinni. Höfundur leynir hvergi hrifningu sinni á söguhetjunni. Hann fer einnig fögrum orðum um Katrínu Eyjólfsdóttur, eiginkonu Braga, sem bjó manni sínum heimili og sóknarskrifstofu við Faxatún í Garðabæ: „Hún var kletturinn hans“ (415). Þau bjuggu í Faxatúni 29 í 58 ár en 2007 fluttu þau í Sjálandshverfi í Garðabæ. Katrín lifði eiginmann sinn í rúm 11 ár. Hún andaðist í júní 2021.
Í upphafi þessara orða var sagt að í bókinni væri lýst horfnum hlut prests og kirkjulegs starfs í samfélaginu. Hólfa- eða verkaskiptingin í sveitarfélögum hefur markvisst vegið að tengslum kirkju og presta við skóla og íþróttafélög. Þjóðfélagið hefur tekið stakkaskiptum með fjölmenningunni og kirkjan hefur aðra stöðu en áður.
Séra Bragi flutti með sér ferskan blæ frá Vesturheimi fyrir sjötíu árum og breytti rótgrónu íslensku kirkjustarfi. Árangurinn varð glæsilegur eins og þessi mikla bók sýnir.