25.7.2020

Friðrik Erlingsson um Sæmund fróða

Friðrik Erlingsson í Hlöðunni að Kvoslæk - 25. júlí 2020.

Laugardaginn 25, júlí 2020 flutti Friðrik Erlingsson rithöfundur erindi í Hlöðunni að Kvoslæk í Fljótshlíð sem hann nefndi Fingraför Sæmundar fróða. Ég bauð hann velkominn með þessum orðum:

Við komum hér saman í dag til að hlusta á Friðrik Erlingsson rithöfund og sveitunga okkar í Rangárþingi eystra ræða um Sæmund fróða Sigfússon í Odda.

Friðrik ætlar að nota fingraför Sæmundar til að rekja sögu hans.

Í ársskýrslu Oddafélagsins fyrir árið 2019 segir að 23. janúar hafi Vigdís Finnbogadóttir, verndari Oddafélagsins, og Friðrik Erlingsson, stjórnarmaður í félaginu, hitt Graham Paul, sendiherra Frakklands á Íslandi, til að koma á tengslum fyrir hönd félagsins við háskólann í borginni Angers enda sé líklegt að Sæmundur fróði hafi stundað nám við Nikulásarklaustur í borginni.

Þetta sýnir að Friðrik telur sig sjá fingraför Sæmundar fróða utan Parísar í Frakklandi.

Við heyrum rökin fyrir því nú á eftir. Hér má nefna að enginn vafi er um fingraför Friðriks sjálfs á fimm ára rannsóknaverkefni sem hrundið var af stað af ríkisstjórninni nú í vor og snýr að ritmenningu íslenskra miðalda.

IMG_1840Fyrirlestur Friðriks um Sæmund fróða var fjölsóttur.

Snemma árs 2019 tók Friðrik þátt í hugmyndavinnu sem lögð var til grundvallar í viðræðum við forsætisráðherra, fjármálaráðherra og menntamálaráðherra um verkefnið.

Nú í vor fagnaði Oddafélagið því að Oddarannsóknin svonefnda fékk 7 milljón króna styrk úr sjóði sem komið var á fót vegna ritmenningarverkefnisins.

Helgi Þorláksson prófessor fer fyrir rannsókninni fyrir hönd Oddafélagsins. Hún snýr að fornleifum, umhverfi og mannvist og lærdóms-, kirkju og valdamiðstöðinni í Odda.

Það er ekki að ástæðulausu að við Rut báðum Oddastjórnarmanninn Friðrik að tala hér í Hlöðunni í dag. Við þökkum honum hve vel hann tók beiðni okkar og er mér ánægja að gefa honum orðið.