Fréttastjórinn kveður RÚV
Morgunblaðið, laugardag 13. nóvember 2021,
Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri ríkisútvarpsins (RÚV), tilkynnti þriðjudaginn 9. nóvember að hún hefði ákveðið að láta af störfum frá næstu áramótum. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri boðaði að starf fréttastjóra yrði „auglýst laust til umsóknar fljótlega á nýju ári“. Heiðar Örn Sigurfinnsson varafréttastjóri tæki við af Rakel um áramótin og sæti þar til nýr fréttastjóri yrði ráðinn.
Sagan kennir að harka getur hlaupið í skipan fréttastjóra RÚV. Þegar Auðun Georg Ólafsson var ráðinn í stöðu fréttastjóra hljóðvarpsins töldu fréttamenn þar vegið að starfsheiðri sínum. Þeir samþykktu 10. mars 2005 vantraust á útvarpsstjóra vegna ráðningarinnar. Hún væri augljóslega á pólitískum forsendum einvörðungu og með henni vegið að sjálfstæði og óhlutdrægni fréttastofunnar.
Auðun Georg hóf í raun aldrei störf hjá RÚV en árið 2017 var hann ráðinn fréttastjóri K100, útvarpsstöðvar Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins.
Árið 2005 voru tveir fréttastjórar hjá RÚV, fyrir sjónvarp og hljóðvarp. Þetta breyttist í september 2008 þegar stofnuð var ein fréttastofa RÚV undir stjórn Óðins Jónssonar, fréttastjóra hljóðvarps.
Rakel Þorgeirsdóttir (f. 1971) tók síðan við af Óðni vorið 2014 eftir að hafa starfað um skeið sem varafréttastjóri RÚV. Heiðar Örn Sigurfinnsson, núverandi varafréttastjóri, keppti um fréttastjórastarfið við Rakel árið 2014.
Ríkisútvarpið rekur fjölmennustu fréttastofu landsins í krafti mikilla fjármuna sem renna úr vösum skattgreiðenda og frá auglýsendum til RÚV. Útvarpsstjóri ræður fréttastjóra og skal starf hans auglýst opinberlega. Óvenjulegt er að útvarpsstjóri tilkynni eins og nú að starf fréttastjóra verði ekki auglýst til umsóknar fyrr en „fljótlega á nýju ári“. Almennt er opinbert starf auglýst skömmu eftir að því er sagt lausu. Mannaskipti dragi sem minnst úr óvissu og festa sé tryggð.
Þótt almennt traust til fréttastofu RÚV mælist mikið sæta efnistök starfsmanna hennar og meðferð einstakra mála sem þeir setja á oddinn oft harðri gagnrýni.
Þess gætir að fréttamenn eigni sér einstök mál eða málaflokka. Umræður vegna fréttameðferðar snúast því gjarnan meira um persónur og leikendur en efni málsins. Þá gætir þess að fréttamenn taki til máls á samfélagsmiðlum til að setja ofan í við þá sem finna að framsetningu einstakra frétta. Þetta er óvenjulegt í ljósi kröfunnar um óhlutdrægni fréttastofunnar. Fréttastjóri á að svara fyrir fréttastofuna en ekki einstakir fréttamenn.
Áður en Rakel Þorbergsdóttir varð fréttastjóri eða undir lok mars 2012 var gerð húsleit í skrifstofum Samherja á Akureyri og í Reykjavík að kröfu Seðlabanka Íslands. Þegar leitin hófst voru myndatökumenn RÚV með vélar sínar fyrir utan þessar skrifstofur Samherja. Samtímis birtist frétt á heimasíðu RÚV um húsleitina. Var fréttin unnin fyrir fram í samvinnu starfsmanna Seðlabankans og fréttamanna RÚV.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði samskipti fréttastofu RÚV og Seðlabankans í aðdraganda húsleitarinnar „mjög óeðlileg“. Húsleitin bar ekki þann árangur sem að var stefnt með málatilbúnaðinum.
Í gær, 12. nóvember, voru rétt tvö ár liðin frá upphafi annars átakamáls fréttastofu RÚV og Samherja, Namibíumálsins, í Kveik, þætti fréttastofu RÚV.
Í Namibíu er talað um Fishcor- og Namgomar-málin. Þau voru formlega sameinuð í eitt sakamál 21. október 2021. Hvorki Íslendingar né félög undir stjórn Íslendinga eru þar meðal sakborninga. Að óbreyttu hljóta því engir Íslendingar dóm.
Vegna Namibíumálsins hefur málafylgja Samherja og gagnrýni á vinnubrögð fréttastofu RÚV hleypt mikilli hörku í samskipti fyrirtækisins og fréttastofunnar. Átök Samherja og RÚV setja svip á stjórnmálaumræður og á nýliðnu kjörtímabili nýtti stjórnarandstaðan þetta mál óspart til að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Kristján Þór Júlíusson, fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sat til dæmis undir ómaklegum árásum.
Namibíumálið hefur hvorki verið til lykta leitt hér á landi né í Windhoek, höfuðborg Namibíu. Þar er það átakamál innan réttarkerfisins og valdaflokks landsins. Tekst forseti Namibíu á við fyrrverandi samstarfsmenn með gagnkvæmum ásökunum um spillingu.
Hér skal engu spáð um niðurstöðu Namibíumálsins en fari svo sem horfir bendir margt til þess að fréttastofa RÚV hafi reitt of hátt til höggs í sumum frásögnum sínum og ályktunum. Merkilegt er að svo virðist sem fréttastofunni þyki lítt eða ekkert fréttnæmt við sameiningu málanna í eitt sakamál 21. október 2021 og að Íslendingar séu ekki ákærðir.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri boðar að hann ætli ekki að huga að ráðningu nýs fréttastjóra fyrr en „fljótlega“ á næsta ári. Sameinaða sakamálið verður tekið fyrir í Windhoek fljótlega á næsta ári.
Þegar á reyndi í mars 2005 tókst starfsmönnum fréttastofu hljóðvarps ríkisins að hindra að sá sem var upphaflega ráðinn kæmi til starfa sem fréttastjóri. Síðan hafa tveir innanbúðarmenn verið ráðnir. Fundist hefur samnefnari sem skapar frið meðal starfsmanna. Sjálfstjórn fréttastofu telst þó hvergi algild aðferð til að tryggja hámarksgæði.
Vinir fréttastofunnar segja gagnrýni á hana aðför að óháðri skoðanamyndun. Þetta verður stöðugt úreltari skoðun vegna tæknilegrar byltingar í fjölmiðlun og reynslu liðinna ára. Styrkur fréttastofunnar endurspeglar sorglega veika stöðu íslenskra fréttamiðla í skugga ríkidæmis RÚV.