30.4.2021

Farsæll varnarsamningur í 70 ár

Morgunblaðið, föstudagur 30. apríl 2021.

Um þess­ar mund­ir fyr­ir 70 árum var lögð loka­hönd á varn­ar­samn­ing Íslands og Banda­ríkj­anna sem var ritað und­ir 5. maí 1951. Fyrstu her­menn­irn­ir í liðinu sem síðan sat í Kefla­vík­ur­stöðinni til 30. sept­em­ber 2006 komu hingað 7. maí 1951.

Í inn­gangi samn­ings­ins, sem er aðeins átta grein­ar, seg­ir að þar sem Íslend­ing­ar geti ekki sjálf­ir varið land sitt en reynsl­an hafi sýnt að varn­ar­leysi lands stofni ör­yggi þess sjálfs og friðsamra ná­granna þess í voða og þar sem tví­sýnt sé um alþjóðamál hafi Norður-Atlants­hafs­banda­lagið (NATO) farið þess á leit við Íslend­inga og Banda­ríkja­menn að þeir geri ráðstaf­an­ir til að lát­in verði í té aðstaða á Íslandi til varn­ar land­inu og þar með einnig til varn­ar svæði því sem Norður- Atlants­hafs­samn­ing­ur­inn, stofn­skrá NATO, taki til með sam­eig­in­lega viðleitni NATO-ríkj­anna til að varðveita frið og ör­yggi á því svæði fyr­ir aug­um. Varn­ar­samn­ing­ur­inn var gerður sam­kvæmt þess­um til­mæl­um. Fyr­ir hönd NATO og sam­kvæmt skuld­bind­ing­um sín­um með stofn­samn­ingi NATO tóku Banda­ríkja­menn að sér að gera ráðstaf­an­ir til varn­ar Íslandi og Íslend­ing­ar skuld­bundu sig til að láta í té þá aðstöðu í landi sínu sem báðir aðilar væru ásátt­ir um að væri nauðsyn­leg.

Um miðjan nóv­em­ber 1950 beindu hernaðar­yf­ir­völd NATO þeim til­mæl­um til banda­rískra og ís­lenskra stjórn­valda að semja sín á milli um varn­ir Íslands. Í janú­ar 1951 kynntu her­for­ingj­ar NATO ís­lensk­um stjórn­völd­um hernaðaráætlan­ir þar sem sagði að næðu Sov­ét­menn tang­ar­haldi á Íslandi með skyndi­árás þyrfti 84.000 manna lið til að hrekja þá af landi brott. Um miðjan janú­ar 1951 svöruðu ís­lensk stjórn­völd full­trú­um NATO að þau væru reiðubú­in að hefja samn­ingaviðræður á þeim grund­velli sem full­trú­ar banda­lags­ins höfðu kynnt. Þá lýstu full­trú­ar Banda­ríkja­stjórn­ar hlut­verki liðsins svo að það mundi vernda flug­vell­ina, sam­göngu­leiðir, hafn­ir og ol­íu­geyma í Reykja­vík og Kefla­vík.

Þegar á reyndi var minni andstaða á póli­tísk­um vett­vangi við gerð varn­ar­samn­ings­ins 1951 en aðild­ina að NATO árið 1949. Síðar varð brott­för varn­ar­liðsins hins veg­ar sam­starfs­skil­yrði af hálfu Alþýðubanda­lags­ins við mynd­un rík­is­stjórna allt til árs­ins 1978, það er 1956 og 1971. Á ár­inu 1974 lýstu 55.522 ís­lensk­ir kjós­end­ur stuðningi við dvöl varn­ar­liðsins með því að rita und­ir áskor­un Var­ins lands. Eft­ir það féll Alþýðubanda­lagið frá kröf­unni um brott­för liðsins en beindi þess í stað gagn­rýni að fram­kvæmd­um í þágu þess. Leif­ar þeirr­ar stefnu sjást nú hjá VG.

Með varn­ar­samn­ingn­um féll Kefla­vík­ur­samn­ing­ur­inn svo­nefndi frá 7. októ­ber 1946 milli Íslands og Banda­ríkj­anna um bráðabirgðaaf­not af Kefla­vík­ur­flug­velli úr gildi. Íslend­ing­ar tóku í sín­ar hend­ur stjórn og ábyrgð á al­mennri flug­starf­semi á Kefla­vík­ur­flug­velli. Tryggt skyldi að flug­völl­ur­inn yrði „jafn­framt notaður í þágu varn­ar Íslands“.

Banda­ríkja­stjórn vildi ekki upp­sagn­ar­á­kvæði í samn­ing­inn held­ur að hann gilti jafn­lengi og NATO starfaði. Íslensk stjórn­völd vildu hafa rétt til upp­sagn­ar og er það unnt með 18 mánaða fyr­ir­vara. Áður en til upp­sagn­ar kem­ur þarf að afla um­sagn­ar Atlants­hafs­ráðsins, ut­an­rík­is­ráðherra NATO-ríkj­anna, um hvort hún sam­ræm­ist hernaðaráætl­un­um banda­lags­ins. NATO hef­ur þó ekk­ert úr­slita­vald í mál­inu og get­ur því ekki komið í veg fyr­ir ein­hliða upp­sögn. Í tíð tveggja vinstri stjórna 1956-58 og 1971-74 hef­ur reynt á þetta ákvæði en í báðum til­vik­um runnu áform um upp­sögn út í sand­inn.

Varnarlidid-Adalmynd-RGBBandarískir hermnenn í Keflavíkurstöðinn.

 

Far­sælt sam­starf

Varn­ar­samn­ing­ur­inn er óbreytt­ur eft­ir 70 ár. Bók­an­ir hafa verið gerðar við samn­ing­inn eins og á tí­unda ára­tugn­um um dvöl banda­rískra orr­ustuþotna hér og síðan nú á öðrum ára­tug 21. ald­ar um fram­kvæmd­ir við nýj­ar og gjör­breytt­ar aðstæður á Kefla­vík­ur­flug­velli.

Tekið var fram í yf­ir­lýs­ingu sem ut­an­rík­is­ráðherr­ar Íslands og Banda­ríkj­anna rituðu und­ir í Washingt­on 11. októ­ber 2006 í til­efni af brott­för varn­ar­liðsins að varn­ar­samn­ing­ur­inn frá 5. maí 1951 gilti áfram og skuld­bind­ing­ar ríkj­anna sam­kvæmt hon­um. Þá var til dæm­is ákveðið að á Kefla­vík­ur­flug­velli yrði sér­stakt ör­ygg­is­svæði til reiðu fyr­ir Banda­ríkja­her og banda­menn Íslend­inga í NATO.

Í þjóðarör­ygg­is­stefnu fyr­ir Ísland sem alþingi samþykkti 13. apríl 2016 seg­ir „að varn­ar­samn­ing­ur Íslands og Banda­ríkj­anna frá 1951 tryggi áfram varn­ir Íslands og áfram verði unnið að þróun sam­starfs­ins á grund­velli samn­ings­ins þar sem tekið verði mið af hernaðarleg­um ógn­um, sem og öðrum áhættuþátt­um þar sem gagn­kvæm­ir varn­ar- og ör­ygg­is­hags­mun­ir eru rík­ir“.

Varn­ar­mála­lög um stjórn­sýslu varn­ar­mála á ís­lensku yf­ir­ráðasvæði og sam­starf og sam­skipti ís­lenskra stjórn­valda við er­lend ríki, her­mála­yf­ir­völd og alþjóðastofn­an­ir á sviði ör­ygg­is- og varn­ar­mála tóku gildi 31. maí 2008 og degi síðar tók varn­ar­mála­stofn­un ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins til starfa.

Verk­efni stofn­un­ar­inn­ar voru meðal ann­ars rekst­ur ís­lenska loft­varna­kerf­is­ins, þátt­taka í sam­ræmdu loft­rýmis­eft­ir­liti og loft­rým­is­gæslu NATO, rekst­ur, um­sjón og hag­nýt­ing ör­ygg­is­svæða og mann­virkja, und­ir­bún­ing­ur og um­sjón varn­aræf­inga hér­lend­is, þátt­taka í starfi nefnda og und­ir­stofn­ana NATO, verk­efni sem varða fram­kvæmd varn­ar­samn­ings­ins, sam­starf við alþjóðastofn­an­ir og fram­kvæmd alþjóðasamþykkta á sviði varn­ar­mála, ráðgjöf til ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins og sam­starf við há­skóla og alþjóðleg sam­tök.

Með sam­komu­lagi ut­an­rík­is­ráðherra og inn­an­rík­is­ráðherra frá 11. des­em­ber 2010 tók land­helg­is­gæsl­an að sér flest verk­efni varn­ar­mála­stofn­un­ar við niður­lagn­ingu henn­ar.

Áður en land­helg­is­gæsl­an tók við þessu verk­efni höfðu starfs­menn henn­ar strax í nóv­em­ber 2006 æft með liðsmönn­um banda­ríska flot­ans. Voru þetta til dæm­is sam­ræmd­ar aðgerðir skips og þyrlu gæsl­unn­ar með eft­ir­lits­flug­vél banda­ríska flot­ans (P-3 Ori­on) við leit og björg­un á sjó og landi sem og við eft­ir­lit með um­ferð skipa inn­an efna­hagslög­sög­unn­ar.

Frá ár­inu 2008 hef­ur land­helg­is­gæsl­an verið tengiliður við NATO-flugsveit­ir sem koma hingað til loft­rým­is­gæslu, við stjórn­end­ur kaf­báta­leit­ar­véla sem nota Kefla­vík­ur­flug­völl auk þátt­töku í æf­ing­um, til dæm­is æf­ing­unni miklu Tri­dent Junct­ure 2018. Óhjá­kvæmi­legt er að skerpa á þessu hlut­verki gæsl­unn­ar.

Allt ger­ist þetta inn­an ramma NATO-aðild­ar­inn­ar og varn­ar­samn­ings­ins á grund­velli henn­ar. Samn­ing­ur­inn hef­ur því staðist tím­ans tönn.

 

Fjöl­breytt sam­starf

Ut­an­rík­is­ráðuneytið kom á sín­um tíma fram gagn­vart banda­ríska varn­ar­málaráðuneyt­inu fyr­ir öll ís­lensk ráðuneyti og stóð að öll­um rekstri á Kefla­vík­ur­flug­velli. Frá ár­inu 2006 breytt­ist þessi skip­an. Lög­gæsla féll und­ir dóms­málaráðuneytið, toll­gæsla und­ir fjár­málaráðuneytið og rekst­ur flug­vall­ar­ins und­ir sam­gönguráðuneytið. Ut­an­rík­is­ráðuneytið hélt hernaðarlega þætt­in­um, varn­ar­mál­un­um.

Þá var stofnað til reglu­legs sam­ráðs af hálfu Íslend­inga um varn­ar- og ör­ygg­is­mál við vin­veitt­ar ná­grannaþjóðir. Gengið var til sam­starfs við nor­rænu rík­in und­ir merkj­um NOR­D­EFCO á ár­inu 2009. Tengsl við Eystra­salts­rík­in hafa styrkst. Fyr­ir nokkr­um dög­um, 20. apríl, urðu Íslend­ing­ar tí­unda þjóðin í sam­starfi um ör­ygg­is- og varn­ar­mál sem Bret­ar leiða und­ir merkj­um sam­eig­in­legr­ar viðbragðssveit­ar (e. Jo­int Exped­iti­on­ary Force, JEF).

Fyr­ir rúm­um tveim­ur árum rituðu Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra og Jeremy Hunt, þáver­andi ut­an­rík­is­ráðherra Bret­lands, und­ir sam­komu­lag milli Íslands og Bret­lands um að efla tví­hliða sam­starf ríkj­anna í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um.

Þetta fjöl­breytta sam­starf fell­ur að varn­ar­samn­ingn­um. Ut­an­rík­is­ráðuneytið tek­ur stefnu­mót­andi ákv­arðanir varðandi samn­ing­inn, borg­ara­lega fram­kvæmd­in af Íslands hálfu frá degi til dags er hins veg­ar rétti­lega hjá land­helg­is­gæsl­unni.