Faggilding gegn kyrrstöðu
Morgunblaðið, laugardagur 12. október 2024.
Viðskiptaráð birti 27. ágúst úttekt undir heitinu Réttum kúrsinn: Umbætur í opinberu eftirliti. Þar er fullyrt að opinbert eftirlit standi samkeppnishæfni Íslands fyrir þrifum. Íþyngjandi útfærslur hafi verið valdar auk þess sem fjöldi og umsvif eftirlitsstofnana séu mikil samanborið við grannríki.
Sagt er að á Íslandi starfi um 3.750 manns hjá 50 opinberum stofnunum sem sinni eftirliti. Tæplega 2.200 manns starfi við löggæslu, tollgæslu og eftirfylgni með greiðslu skatta og gjalda, það er stjórnsýslueftirlit. Þá starfi um 1.600 manns við svokallað sérhæft eftirlit. Þar framfylgi starfsfólk afmörkuðum eftirlitsreglum sem beinist að fyrirtækjum og einstaklingum.
Gagnrýnt er að opinberum aðilum sé falið bæði reglusetningarvald og framkvæmd eftirlits þó svo að fleiri leiðir séu færar, t.d. útvistun eftirlits til faggiltra eftirlitsaðila. Hagkvæmari leiðir eins og faggilding hafi verið vannýttar þrátt fyrir jákvæða reynslu af slíkri útfærslu.
Sem dæmi um ágæti faggildingar er bent á öryggiseftirlit með bifreiðum sem var til ársins 1989 í höndum Bifreiðaeftirlits ríkisins. Þá varð til Bifreiðaskoðun Íslands hf., sem var í helmingseigu ríkisins, með það að markmiði að faggilda starfsemina og færa framkvæmd eftirlitsins á samkeppnismarkað.
Árið 1995 var framkvæmd eftirlitsins síðan gefin frjáls og hófu einkareknar skoðunarstofur að veita þjónustuna. Bifreiðaskoðun Íslands var síðan skipt í tvær einingar árið 1997. Annars vegar skráningarhluta, sem nú er Samgöngustofa og fer með stjórnsýsluhluta eftirlitsins, og hins vegar skoðunarhluta, sem fór með framkvæmd eftirlitsins. Ríkið seldi síðar skoðunarhlutann og nú eru starfandi fjórar einkareknar skoðunarstöðvar með faggildingu sem framkvæma eftirlit með öryggi bifreiða um allt land.
Þrátt fyrir fjölgun skoðunarskyldra ökutækja í umferð um 19% hefur starfsmönnum skoðunarfyrirtækja fækkað lítillega frá 2016. Afköst skoðunarfyrirtækja hafa þannig aukist stöðugt á undanförnum árum.
Yjirþyrmandi eftirlitskerfi veldur stöðnun.
Viðskiptaráð viðrar þá skoðun að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga verði lagðar niður. Í stað þeirra verði stjórnsýsluþáttur heilbrigðiseftirlits færður til eftirlitsstofnana og framkvæmdaþáttur til einkaaðila með faggildingu.
Í úttektinni er sérstaklega fjallað um heilbrigðiseftirlit undir fyrirsögninni: Óheilbrigt fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits. Þar er þess getið að dagleg framkvæmd heilbrigðiseftirlits sé að verulegum hluta hjá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga á níu heilbrigðissvæðum undir forsjá tveggja ríkisstofnana, Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar. Fimm mismunandi tegundir gagnagrunna séu notaðar við framkvæmd eftirlitsins og gjaldskrár ósamræmdar.
Í tillögum að landbúnaðarstefnu sem samþykkt var 1. júní 2023 segir að tryggja beri að framkvæmd heilbrigðis- og matvælaeftirlits sé samræmd um land allt þannig að ójafnvægi myndist ekki milli aðila eða landshluta. Við undirbúning stefnunnar kom í ljós að þeir sem vildu stunda heimaslátrun eða fullvinnslu á afurðum á búum sínum sátu ekki við sama borð vegna ólíkra skilyrða eða gjalda á heilbrigðissvæðunum níu.
Í úttekt sinni leggur Viðskiptaráð til að stjórnsýsluþáttur heilbrigðiseftirlitsins varðandi hollustuhætti og mengunarvarnir verði hjá Umhverfisstofnun en varðandi matvæli hjá Matvælastofnun. Framkvæmd eftirlitsins verði útvistað til faggiltra aðila.
Faggilding er formleg viðurkenning þar til bærs stjórnvalds á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat, svo sem að prófa eiginleika efna, skoða ástand tækja og verksmiðja eða votta stjórnunarkerfi. Samræmismat er mat á því hvort vara, ferli, kerfi eða aðili uppfylli kröfur.
Í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir frá 1998 er í 56. gr. heimild fyrir ráðherra til „að ákveða með reglugerð, að höfðu samráði við Umhverfisstofnun, að starfsemi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga skuli hljóta faggildingu vegna rannsóknar og eftirlits og þá hvernig að henni skuli staðið“. Sömuleiðis er heilbrigðisnefndum og Umhverfisstofnun heimilt að fela tiltekna þætti heilbrigðiseftirlitsins faggiltum skoðunaraðilum. Svipaðar heimildir til að fela faggiltum vottunar-, prófunar- eða skoðunarstofum tiltekna þætti opinbers eftirlits er einnig að finna í 23. gr. laga um matvæli frá 1995. Þessar heimildir hafa hins vegar lítið sem ekkert verið nýttar til þessa.
Undanfarin ár hefur styrkur faggildingarsviðs Hugverkastofu (ISAC) aukist með gagnkvæmri viðurkenningu faggildinga. Í júní 2024 fór fram jafningjamat á starfsemi faggildingarsviðs Hugverkastofunnar á vegum evrópsku faggildingarsamtakanna EA. Matið er grundvöllur gagnkvæmrar viðurkenningar á faggildingu og samræmismati meðal aðila EA, niðurstaða þess var jákvæð.
Aðkoma að mótun landbúnaðarstefnu og leiða til að auka byggðafestu hefur sannfært mig um mikinn nýsköpunaráhuga meðal bænda. Sé svigrúm til nýsköpunar aukið, til dæmis með því að nýta faggildingu til eftirlits á meiri jafningjagrundvelli, verður auðveldara að laða yngra fólk til að stunda landbúnað.
Það er verðugt og brýnt verkefni að skapa nýtt viðhorf bænda og annarra til nauðsynlegs eftirlits. Sanngjarnt svigrúm ýtir undir fjölbreyttari atvinnuhætti og stuðlar þar með að byggðafestu. Þekkingin er fyrir hendi, faggildingarkerfið hefur verið hannað, lagaheimildir hafa verið veittar. Andstöðu við breytingar þarf að skilgreina og yfirvinna.