20.4.2018

Eiturörvum Assads breytt í VG-vanda og Katrínar

Morgunblaðið föstudag 20. apríl 2018

Þegar leið á síðustu viku drógu ýmsir fréttaskýrendur í Evrópu og Bandaríkjunum í efa að Bashar al-Assad Sýrlandsforseta yrði refsað fyrir að beita eiturefnum í bænum Douma, skammt frá Damaskus, höfuðborg Sýrlands. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði skömmu eftir árásina laugardaginn 7. apríl að nú skyldu þeir sem stóðu að árásinni gæta sín, henni yrði svarað af hörku.

Eftir því sem fleiri dagar liðu án þess að nokkuð gerðist var bent á að ekki væri alltaf að marka allt sem Bandaríkjaforseti segði, eitt í dag annað á morgun. Líklega yrði Assad ekki refsað. Eftir árásir Bandaríkjamanna, Breta og Frakka með rúmlega 100 stýriflaugum aðfaranótt 14. apríl reyndust allar getgátur um aðgerðaleysi ríkisstjórna landanna marklausar. Þá breyttist gagnrýnin og tók að snúast um árásina, hana hefði ekki átt að gera eða hún skilaði ekki nægum árangri.

Þetta eru sígild umræðuefni í hvert sinn sem lýðræðisríkin telja nauðsynlegt að grípa til sameiginlegra aðgerða. Sú breyting hefur þó orðið frá fyrri tíð að allur heimurinn getur fylgst með öllu sem gerist á sama tíma og þegar það gerist. Þess vegna er enn brýnna en nokkru sinni fyrr að allt sem lýðræðisríkin gera sé á þann veg að það þoli beina útsendingu í öllum heimshornum.

Árásirnar á Sýrland stóðust kröfuna um að ekkert færi úrskeiðis. Þær voru takmarkaðar við þrjár efnavopnastöðvar, stóðu aðeins í 45 mínútur og ekki einn almennur borgari féll.

Forherðing Sýrlandsforseta er ef til vill of mikil til að hann átti sig á nauðsyn þess að halda frekar aftur af efnavopnasveitum sínum en gefa þeim fyrirmæli um árás. Að búast við að hann játi á sig beitingu efnavopna er borin von. Þetta er ekki aðeins vegna ótta hans við að upplýsa um eigin gjörðir heldur einnig til að stuðningsmenn Assads í lýðræðisríkjunum (já, þeir eru til) geti sagt að allt sem gert er á hlut þeirra manns sé án sannana um brot. Þetta er sama aðferð og rússnesk stjórnvöld og sporgöngumenn þeirra í opnum samfélögum nota Rússum til varnar vegna ásakana um eiturefnaárásina í Salisbury.

Óvandaður eftirleikur


Í heila viku lá fyrir að í höfuðborgum Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands ræddu ráðamenn hvort, hvernig og hvenær ætti að refsa fyrir efnavopnaárásina. Í sömu viku ræddu íslenskir þingmenn skýrslu utanríkisráðherra. Í umræðunum um hana fá þingmenn opið og víðtækt tækifæri til að ræða hvað sem þeim kemur til hugar varðandi utanríkismál. Af fréttum var ekki ráðið að þeim hefði legið þungt á hjarta að fá upplýsingar um afstöðu ríkisstjórnar Íslands til þess ef ráðist yrði á Sýrland í refsingarskyni vegna eiturefnaárásanna. Fátt bar þó hærra á alþjóðavettvangi þá stundina.

Eftir árásina fóru fréttamenn ríkisútvarpsins á stjá og er afrakstrinum lýst á þennan veg í leiðara Morgunblaðsins mánudaginn 16. apríl:

„Í fréttum „RÚV“ í gær var sagt frá ruglingslegum umræðum í boði hússins, þar sem látið var eins og NATO hefði ákveðið loftárásirnar á Sýrland. Var vitnað í orð Stoltenberg framkvæmdastjóra um að allir fastafulltrúar bandalagsins hefðu lýst yfir stuðningi við þessar aðgerðir. Árásirnar ultu ekki á þeirri yfirlýsingu. Ruglingstal um það að einhver ríki hefðu getað beitt neitunarvaldi og hefðu þá jafnvel orðið að segja sig úr NATO(!) fylgdi í kjölfarið.“

Í umræðunum sem þarna eru nefndar voru ráðherrar og alþingismenn  spurðir um afstöðu sína á þann veg að ætla hefði mátt að svarið við efnavopnum Assads hefði á einhvern hátt ráðist hér á landi. Skortur á þekkingu á því hvernig staðið er að töku ákvarðana um mál af þessum toga eða ranghugmyndir um stöðu Íslands kunna að hafa ráðið spurningum fréttamannanna.

Svörin tóku mið af spurningunum. Þegar vitlaust er spurt er ekki von á öðru en svörin hljómi undarlega, sýni svarandinn þá kurteisi að benda ekki á villuna í forsendum spyrjandans.

Að sauma að VG


Nú hefur skýrst að tilgangur fréttamanna ríkisútvarpsins var að gera Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG (á móti NATO) og forsætisráðherra, erfitt að komast frá málinu. Tækist það yrði einnig komið höggi á ríkisstjórn Katrínar. Tilgangurinn var með öðrum orðum að breyta Sýrlandsmálinu í ágreiningsefni innan lands. Það tókst að nokkru leyti eins og heyra mátti á málflutningi Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, í Kastljósi mánudaginn 16. apríl. Hann taldi sig þá skorta sannanir til að styðja árásina á Assad. Hann var kokhraustari um nauðsyn þess að refsa Assad fyrst þegar rætt var við hann um árásina, engu er líkara en fréttamennirnir hafi snúið honum.

Fyrir Katrínu Jakobsdóttur snerist þetta mál ekkert um ákvarðanir fyrr en að loknu verkinu og skýrsla var gefin um það í höfuðstöðvum NATO í Brussel síðdegis laugardaginn 14. apríl. Þar fluttu fulltrúar Bandaríkjanna, Breta og Frakka bandamönnum sínum skýrslu og þeir lýstu stuðningi við það sem gerst hafði.

Það er rétt sem segir í leiðara Morgunblaðsins að ákvarðanir um að eyðileggja efnavopn Sýrlandsstjórnar réðust ekki af yfirlýsingu Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra NATO, eftir að verkinu var lokið. Til samanburðar má minna á að árið 2011 var ákvörðun um loftárásir á Líbíu kynnt fyrir Atlantshafsráðinu og síðan barist undir merkjum NATO. Um það segir í fyrrnefndum leiðara Morgunblaðsins: „Fyrsta „hreina vinstristjórnin“ [stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur 2009 til 2013] er hin eina sem borið hefur fulla og ótakmarkaða ábyrgð á styrjöldum NATO í „vorhreingerningunum“ svokölluðu og hefði getað komið í veg fyrir að þær árásir yrðu gerðar í nafni NATO.“

Að telja sjálfkrafa að VG sé í andstöðu við allt sem gert er í nafni vestrænnar samstöðu á vegum NATO er í raun tímaskekkja eða pólitísk óskhyggja. Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG, lýsti stöðunni réttilega í Fréttablaðinu þriðjudaginn 17. apríl þegar hann sagði: „Ef vinstri græn ætluðu alltaf að halda þessu til ýtrasta málstaðar, þá sætu þau náttúrulega aldrei í ríkisstjórn því þetta er eini flokkurinn á Íslandi sem vill úrsögn úr NATO og er andvígur öllum hernaðaríhlutunum.“

Ari Trausti lét þess að vísu ógetið að VG samþykkti þjóðaröryggisstefnuna þar sem segir að aðild að NATO og varnarsamstarf við Bandaríkin séu grunnþættir hennar.

Rússar eru í tilvistarkreppu og hræddir við NATO. Hvað skyldi valda ótta VG?