4.10.2025

Drónavarnir eru sérsveitarmál

Morgunblaðið, laugardagur, 4. október 2025

Þjóðaröryggisráð hittist á reglulegum fundi í gær. Á dagskránni voru meðal annars nýlegar fréttir um drónaatvik í Danmörku og aðrar ögranir í garð nágrannaríkja. Þar hefur komið í ljós hve erfitt er að bregðast við flugi óþekktra dróna, greina þá og ákveða hvað gera skuli annað en að banna almenna flugumferð eða loka flugvöllum.

Aðfaranótt 10. september voru skráð 19 drónabrot á lofthelgi Póllands. Orrustuþotur undir merkjum NATO, þar á meðal hollenskar F-35 þotur, skutu þá niður rússneska dróna. Pólski herinn sagði atvikið „fordæmalaust“, það hefði skapað „raunverulega ógn“ við borgara Póllands.

Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, greindi frá því að pólskar F-16 og hollenskar F-35 orrustuþotur, ítölsk AWACS-eftirlitsflugvél, eldsneytisflugvél og þýskt Patriot-loftvarnakerfi hefðu verið virkjuð vegna innrásarinnar.

Forsætisráðherrann Donald Tusk sagði að Pólverjar hefðu vísað í 4. grein Atlantshafssáttmálans og kallað eftir samráði við önnur NATO-ríki um viðbrögð. Hann staðfesti að að minnsta kosti þrír drónar hefðu verið skotnir niður og hugsanlega fjórir. Tusk sagði að sumir drónanna hefðu komið beint frá Belarús og aðrir yfir Úkraínu.

Rússnesk stjórnvöld neituðu öllum ásökunum og sögðu engin skotmörk í Póllandi hafa verið í sigti hjá sér.

Þrjár rússneskar MiG-31-orrustuþotur flugu vopnaðar í 12 mínútur innan lofthelgi Eistlands 19. september. Ítalskar F-35 orrustuþotur við loftrýmisgæslu á vegum NATO í Eistlandi flugu í veg fyrir Rússana.

Ríkisstjórn Eistlands ákvað að fara að fordæmi pólsku stjórnarinnar og nýtti sér 4. gr. Atlantshafssáttmálans. Fastafulltrúar 32 NATO-ríkja komu saman mánudaginn 22. september og sendu frá sér harðorða ályktun:

Rússar bæru fulla ábyrgð á þessum stigvaxandi aðgerðum sem ykju hættu á mistökum og ógnuðu mannslífum, þeim yrði að linna. NATO myndi bregðast við ábyrgðarleysi Rússa með markvissum aðgerðum og hefði strax 12. september stofnað til aðgerðarinnar Eastern Sentry til að styrkja viðbúnað bandalagsins á austurvængnum, meðal annars með skilvirkum loftvörnum. Rússar ættu ekki velkjast í vafa um að NATO og bandalagsríkin myndu, í samræmi við alþjóðalög, beita öllum nauðsynlegum úrræðum, hernaðarlegum sem óhernaðarlegum, til að verjast og stemma stigu við ógnum hvaðan sem þær kæmu. Skuldbinding bandalagsríkjanna samkvæmt 5. grein sáttmálans væri óhagganleg, árás á eitt ríki væri árás á þau öll.

Þarna fór ekkert á milli mála. Að kvöldi sama dags og þessi ályktun var samþykkt, mánudagskvöldið 22. september, ákváðu dönsk stjórnvöld að loka Kastrup-flugvelli við Kaupmannahöfn vegna ferða ókunnra dróna sem stefndu flugöryggi í hættu.

Screenshot-2025-10-04-at-19.50.28

Þar með var málið á því stigi að ákveðið var að taka drónamál á dagskrá þjóðaröryggisráðs hér. Utanríkisráðherra vildi jafnvel að efnt yrði til skyndifundar í ráðinu. Forsætisráðherra, formaður ráðsins, taldi þess ekki þörf.

Í Danmörku eru drónaatvikin fyrst og fremst skilgreind sem lögreglumál þar sem ríkislögreglustjóri og greiningar- og leyniþjónusta lögreglunnar (PET) leiða rannsóknir, safna gögnum, meta hættuna og taka ákvarðanir um viðbrögð.

Gripið er til hernaðarlegra ráða í samvinnu við lögreglu ógni drónar herstöðvum eða mikilvægum varnarmannvirkjum.

Þá er það hlutverk ráðuneytis almannavarna (d. samfundssikkerhed og beredskab) að samhæfa borgaralegan viðbúnað og tryggja samfélagsleg viðbrögð við fjölþátta ógnum eins og stafa af ókunnum drónum.

Í stuttu máli má lýsa danska aðgerðakerfinu vegna drónahættunnar þannig að lögreglan leiði, herinn sé til stuðnings og almannavarnakerfið tryggi áfallaþolið. Utanríkisþjónustan gætir pólitískra hagsmuna út á við og utanríkisráðherra ákveður til hvaða ráða beri að grípa meðal bandamanna. Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra tók til dæmis af skarið um að Danir myndu ekki vísa til 4. gr. Atlantshafssáttmálans.

Í vikunni hafa Danir verið gestgjafar fjölmennra evrópskra leiðtogafunda og notið aðstoðar við gæslu öryggis vegna þeirra. Evrópsk herskip eru á Eystrasalti. Búnaður til drónavarna hefur borist frá Finnlandi og Svíþjóð og sérfræðingar frá Úkraínu.

Hér er þess skemmst að minnast að vegna fjölmenns leiðtogafundar Evrópuráðsins í Hörpu í maí 2023 var gæsla efld með erlendum lögreglumönnum og breskar orrustuþotur tóku að sér gæslu íslenskrar lofthelgi.

Það sem rakið er hér að ofan segir að skynsamlegast sé að tryggja vörn gegn fjölþátta ógnum og ögrunum með því að efla borgaralegar stofnanir, lögreglu, landhelgisgæslu, netöryggissveit og almannavarnir. Fá megi aðstoð bandamanna sé hennar þörf.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir samstarf við nágrannaþjóðir hugsanlegt um stórt loftvarnakerfi gegn drónum. Málið hafi verið rætt við ráðamenn norrænna ríkja. Jafnframt þurfi að huga að lagasetningu um eftirlit með drónum.

Utanríkisráðherra hefur löggæslu til lands og sjávar eða almannavarnir ekki á sinni könnu. Innlend kerfi til varnar drónum falla að störfum sérsveitar lögreglunnar. Til að efla þessar varnir þarf að styrkja hana að mannafla og tækjum.

Drónavarnir eru ekki á verksviði utanríkisráðuneytisins. Hugmyndir í þá veru sýna aðeins hve mikilvægt er að skilgreina ábyrgðarkeðjuna vegna aðgerða í öryggismálum. Í því efni hvílir ábyrgðin á forsætisráðherra. Það þarf ekki nýjar einingar eða stofnanir heldur skýr fyrimæli um hlutverk þeirra sem fyrir eru og starfa aðeins lögum samkvæmt.