Brusselmenn leggja ESB-línurnar
Morgunblaðið, laugardagur 26. júlí 2025
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sagði hér í blaðinu miðvikudaginn 23. júlí að hún hefði í upphafi árs fengið að vita að ESB-umsókn Íslands væri enn í gildi. Ekki hefði verið fjallað um stöðu mála á Íslandi í stækkunarskýrslum Evrópusambandsins vegna þess að fyrri ríkisstjórnir Íslands hefði skort vilja og áhuga til þess að fylgja umsókninni eftir. Það hefði komið skýrt fram á fundum sínum með forsvarsmönnum Evrópusambandsins að litið væri á umsóknina sem „sofandi en samt sem áður í gildi“.
Frá því var óvænt skýrt í fréttum ríkisútvarpsins (RÚV) 15. janúar 2025 að ESB liti á Ísland sem sofandi umsóknarríki. Þorgerður Katrín var þá í fyrstu ferð sinni sem utanríkisráðherra til Brussel. Opinberlega var ekki skýrt frá því að hún hefði hitt neinn í stækkunardeild ESB en Björn Malmquist, fréttaritari ríkisútvarpsins í Brussel, ræddi við Guillaume Mercier, talsmann stækkunarstjóra ESB, í tengslum við heimsókn utanríkisráðherrans.
Guillaume Mercier sagði í fréttum RÚV 15. janúar 2025 að stækkunardeildin liti þannig á að umsókn Íslands um aðild að ESB væri enn í gildi (e. valid). Rök fyrir því voru að hún hefði aldrei verið „formlega afturkölluð, þannig að í lagalegum skilningi [væri] hún gild“.
Þegar Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, var á blaðamannafundi á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli 17. júlí 2025 sagði hún: „Ég tel að það sé mikilvægt að minna á að umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið er enn þá í gildi.“ Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra stóð við hlið von der Leyen og þagði þessu til samþykkis.
Þegar frá líður heimsókn forseta framkvæmdastjórnar ESB skýrist sífellt betur að raunverulegur tilgangur hennar snerist um að dusta rykið af 16 ára gamalli umsókn. Hún hafði legið í skúffum Brusselmanna í tæp 10 ár þegar Þorgerður Katrín vildi að lífi yrði blásið í hana að nýju. Var hér heiðarlega að málum staðið?
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á blaðamannafundi með Stefan Füle, stækkunarstjóra ESB, í júní 2013 þegar hann kynnti ESB að ríkisstjórnin hefði hætt ESB-aðildarviðræðunum (mynd:ESB).
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sendi 12. mars 2015 bréf til formanns ráðherraráðs ESB og stækkunarstjóra sambandsins og skýrði afstöðu ríkisstjórnar Íslands til aðildarviðræðna við ESB sem hófust árið 2009.
Utanríkisráðherra sagði að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem tók við völdum vorið 2013 hefði mótað skýra stefnu varðandi aðildarviðræðurnar við ESB.
Meginþættir stefnunnar hefðu í fyrsta áfanga verið að stöðva aðildarviðræðurnar að fullu, leysa upp það skipulag sem sett hefði verið um þær og hefja mat á aðildarferlinu og jafnframt þróun mála innan Evrópusambandsins.
Þá hefði ríkisstjórnin ákveðið að víkja frá allri þátttöku í starfi sem rekja mætti til stöðu landsins sem umsóknarríkis enda væri það í samræmi við þá ákvörðun að stöðva aðildarferlið að fullu.
Á fundum forsætisráðherra Íslands, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og forseta leiðtogaráðs ESB í júlí 2013 hefði þessi nýja stefna verið útskýrð.
Ríkisstjórnin hefði engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju. Þessi nýja stefna kæmi í stað hvers kyns skuldbindinga af hálfu fyrri ríkisstjórnar í tengslum við aðildarviðræður.
Það væri því bjargföst afstaða ríkisstjórnarinnar að ekki skyldi líta á Ísland sem umsóknarríki ESB og rétt væri að ESB lagaði verklag sitt að þessu.
Gunnar Bragi Sveinsson flutti Alþingi munnlega skýrslu í tilefni af þessu bréfi 17. mars 2015 og sagði því tryggilega komið til skila að ríkisstjórnin liti ekki á Ísland sem umsóknarríki. Hann taldi að til að endurvekja þetta ferli þyrfti að endurnýja umsóknina og það færi best á því að það yrði þjóðin sem það gerði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvernig að því yrði staðið væri mál seinni tíma, síðari ríkisstjórna en ekki síður ESB sem í raun legði línurnar um það hvernig staðið skyldi að málum. Það væri sambandsins að vega og meta viðbrögð við bréfinu.
Hefði ekki verið heiðarlegt af Þorgerði Katrínu að gera Alþingi og þjóðinni allri grein fyrir því áður en hún fór í fyrstu ráðherraferð sína til Brussel að hún ætlaði að hverfa frá þeirri stefnu sem Gunnar Bragi kynnti í mars 2015? Að hún ætlaði í ljósi nýrrar stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar að kanna afstöðu stækkunarstjóra ESB?
Svörin við þessum spurningum eru augljós. Að sjálfsögðu átti utanríkisráðherra að kynna tilgang ferðar sinnar fyrir þingi og þjóð. Þess í stað gerði málsvari stækkunardeildar ESB það í óvæntu samtali við fréttaritara RÚV. Vöktu orð hans minni athygli og umræður en ætla hefði mátt. Málið fékk hins vegar þá athygli sem því ber þegar forseti framkvæmdastjórnarinnar lýsti skoðun Brusselmanna.
Gunnar Bragi sagði réttilega á Alþingi 17. mars 2015 að hann réði ekki viðbrögðum ESB. Gagnvart ráðherranum var farið að óskum hans og Ísland tekið af lista yfir umsóknarríki. Á heimavelli biðu Brusselmenn hins vegar þegjandi átekta. Heimsókn Þorgerðar Katrínar í janúar 2025 gaf þeim öruggt tilefni til að lýsa afstöðu sinni. Þeir vissu að utanríkisráðherra Íslands vildi auðvelda leið inn í ESB.
Hér eftir leggur framkvæmdastjórn ESB línurnar í öllu sem varðar aðildarviðræðurnar við ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur. Í Samfylkingunni hefur hávær ESB-aðildarsinni, Dagur B. Eggertsson, krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðslunni verði hraðað, 2027 sé of seint. Þorgerður Katrín er höll undir sama sjónarmið. Þau og Brusselmenn telja heppilegasta tækifærið núna.