26.7.2025

Brusselmenn leggja ESB-línurnar

Morgunblaðið, laugardagur 26. júlí 2025

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra sagði hér í blaðinu miðviku­dag­inn 23. júlí að hún hefði í upp­hafi árs fengið að vita að ESB-um­sókn Íslands væri enn í gildi. Ekki hefði verið fjallað um stöðu mála á Íslandi í stækk­un­ar­skýrsl­um Evr­ópu­sam­bands­ins vegna þess að fyrri rík­is­stjórn­ir Íslands hefði skort vilja og áhuga til þess að fylgja um­sókn­inni eft­ir. Það hefði komið skýrt fram á fund­um sín­um með for­svars­mönn­um Evr­ópu­sam­bands­ins að litið væri á um­sókn­ina sem „sof­andi en samt sem áður í gildi“.

Frá því var óvænt skýrt í frétt­um rík­is­út­varps­ins (RÚV) 15. janú­ar 2025 að ESB liti á Ísland sem sof­andi um­sókn­ar­ríki. Þor­gerður Katrín var þá í fyrstu ferð sinni sem ut­an­rík­is­ráðherra til Brus­sel. Op­in­ber­lega var ekki skýrt frá því að hún hefði hitt neinn í stækk­un­ar­deild ESB en Björn Malmquist, frétta­rit­ari rík­is­út­varps­ins í Brus­sel, ræddi við Guillaume Mercier, tals­mann stækk­un­ar­stjóra ESB, í tengsl­um við heim­sókn ut­an­rík­is­ráðherr­ans.

Guillaume Mercier sagði í frétt­um RÚV 15. janú­ar 2025 að stækk­un­ar­deild­in liti þannig á að um­sókn Íslands um aðild að ESB væri enn í gildi (e. valid). Rök fyr­ir því voru að hún hefði aldrei verið „form­lega aft­ur­kölluð, þannig að í laga­leg­um skiln­ingi [væri] hún gild“.

Þegar Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar ESB, var á blaðamanna­fundi á ör­ygg­is­svæðinu á Kefla­vík­ur­flug­velli 17. júlí 2025 sagði hún: „Ég tel að það sé mik­il­vægt að minna á að um­sókn Íslands um inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið er enn þá í gildi.“ Kristrún Frosta­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra stóð við hlið von der Leyen og þagði þessu til samþykk­is.

Þegar frá líður heim­sókn for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar ESB skýrist sí­fellt bet­ur að raun­veru­leg­ur til­gang­ur henn­ar sner­ist um að dusta rykið af 16 ára gam­alli um­sókn. Hún hafði legið í skúff­um Brus­selmanna í tæp 10 ár þegar Þor­gerður Katrín vildi að lífi yrði blásið í hana að nýju. Var hér heiðarlega að mál­um staðið?

45754.2e16d0ba.fill-1006x580-c100Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á blaðamannafundi með Stefan Füle, stækkunarstjóra ESB, í júní 2013 þegar hann kynnti ESB að ríkisstjórnin hefði hætt ESB-aðildarviðræðunum (mynd:ESB).

Gunn­ar Bragi Sveins­son ut­an­rík­is­ráðherra sendi 12. mars 2015 bréf til for­manns ráðherr­aráðs ESB og stækk­un­ar­stjóra sam­bands­ins og skýrði af­stöðu rík­is­stjórn­ar Íslands til aðild­ar­viðræðna við ESB sem hóf­ust árið 2009.

Ut­an­rík­is­ráðherra sagði að rík­is­stjórn Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæðis­flokks und­ir for­sæti Sig­mund­ar Davíðs Gunn­laugs­son­ar sem tók við völd­um vorið 2013 hefði mótað skýra stefnu varðandi aðild­ar­viðræðurn­ar við ESB.

Meg­inþætt­ir stefn­unn­ar hefðu í fyrsta áfanga verið að stöðva aðild­ar­viðræðurn­ar að fullu, leysa upp það skipu­lag sem sett hefði verið um þær og hefja mat á aðild­ar­ferl­inu og jafn­framt þróun mála inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins.

Þá hefði rík­is­stjórn­in ákveðið að víkja frá allri þátt­töku í starfi sem rekja mætti til stöðu lands­ins sem um­sókn­ar­rík­is enda væri það í sam­ræmi við þá ákvörðun að stöðva aðild­ar­ferlið að fullu.

Á fund­um for­sæt­is­ráðherra Íslands, Sig­mund­ar Davíðs Gunn­laugs­son­ar, með for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins og for­seta leiðtogaráðs ESB í júlí 2013 hefði þessi nýja stefna verið út­skýrð.

Rík­is­stjórn­in hefði eng­in áform um að hefja aðild­ar­viðræður að nýju. Þessi nýja stefna kæmi í stað hvers kyns skuld­bind­inga af hálfu fyrri rík­is­stjórn­ar í tengsl­um við aðild­ar­viðræður.

Það væri því bjarg­föst afstaða rík­is­stjórn­ar­inn­ar að ekki skyldi líta á Ísland sem um­sókn­ar­ríki ESB og rétt væri að ESB lagaði verklag sitt að þessu.

Gunn­ar Bragi Sveins­son flutti Alþingi munn­lega skýrslu í til­efni af þessu bréfi 17. mars 2015 og sagði því tryggi­lega komið til skila að rík­is­stjórn­in liti ekki á Ísland sem um­sókn­ar­ríki. Hann taldi að til að end­ur­vekja þetta ferli þyrfti að end­ur­nýja um­sókn­ina og það færi best á því að það yrði þjóðin sem það gerði í þjóðar­at­kvæðagreiðslu. Hvernig að því yrði staðið væri mál seinni tíma, síðari rík­is­stjórna en ekki síður ESB sem í raun legði lín­urn­ar um það hvernig staðið skyldi að mál­um. Það væri sam­bands­ins að vega og meta viðbrögð við bréf­inu.

Hefði ekki verið heiðarlegt af Þor­gerði Katrínu að gera Alþingi og þjóðinni allri grein fyr­ir því áður en hún fór í fyrstu ráðherra­ferð sína til Brus­sel að hún ætlaði að hverfa frá þeirri stefnu sem Gunn­ar Bragi kynnti í mars 2015? Að hún ætlaði í ljósi nýrr­ar stefnu ís­lensku rík­is­stjórn­ar­inn­ar að kanna af­stöðu stækk­un­ar­stjóra ESB?

Svör­in við þess­um spurn­ing­um eru aug­ljós. Að sjálf­sögðu átti ut­an­rík­is­ráðherra að kynna til­gang ferðar sinn­ar fyr­ir þingi og þjóð. Þess í stað gerði mál­svari stækk­un­ar­deild­ar ESB það í óvæntu sam­tali við frétta­rit­ara RÚV. Vöktu orð hans minni at­hygli og umræður en ætla hefði mátt. Málið fékk hins veg­ar þá at­hygli sem því ber þegar for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar lýsti skoðun Brus­selmanna.

Gunn­ar Bragi sagði rétti­lega á Alþingi 17. mars 2015 að hann réði ekki viðbrögðum ESB. Gagn­vart ráðherr­an­um var farið að ósk­um hans og Ísland tekið af lista yfir um­sókn­ar­ríki. Á heima­velli biðu Brus­sel­menn hins veg­ar þegj­andi átekta. Heim­sókn Þor­gerðar Katrín­ar í janú­ar 2025 gaf þeim ör­uggt til­efni til að lýsa af­stöðu sinni. Þeir vissu að ut­an­rík­is­ráðherra Íslands vildi auðvelda leið inn í ESB.

Hér eft­ir legg­ur fram­kvæmda­stjórn ESB lín­urn­ar í öllu sem varðar aðild­ar­viðræðurn­ar við rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur. Í Sam­fylk­ing­unni hef­ur há­vær ESB-aðild­arsinni, Dag­ur B. Eggerts­son, kraf­ist þess að þjóðar­at­kvæðagreiðslunni verði hraðað, 2027 sé of seint. Þor­gerður Katrín er höll und­ir sama sjón­ar­mið. Þau og Brus­sel­menn telja heppi­leg­asta tæki­færið núna.