18.5.2024

Bjástrað við bensínstöðvalóðir

Morgunblaðið, laugardagur 18. maí 2024.

Nú eru fimm ár frá því að samþykkt voru samn­ings­mark­mið í borg­ar­ráði Reykja­vík­ur í viðræðum borg­ar­yf­ir­valda við rekstr­araðila og lóðar­hafa bens­ín­stöðvalóða í Reykja­vík.

Þar má miða við dag­setn­ing­una 9. maí 2019. Þá setti borg­ar­ráð það mark­mið að semja við olíu­fé­lög­in um fækk­un bens­ín­stöðva í borg­inni. All­ir flokk­ar í borg­ar­stjórn stóðu að baki ákvörðun­inni. Á þeim tíma var hins veg­ar eng­um ljóst, nema ef til vill Degi B. Eggerts­syni borg­ar­stjóra, að ætl­un­in væri að veita um­fangs­mikl­ar upp­bygg­ing­ar­heim­ild­ir á lóðunum án end­ur­gjalds.

Í fram­haldi af samþykkt borg­ar­ráðs ritaði borg­ar­stjóri, 14. maí 2019, und­ir er­ind­is­bréf fyr­ir samn­inga­nefnd Reykja­vík­ur­borg­ar vegna viðræðna við rekstr­araðila og lóðar­hafa bens­ín­stöðva í Reykja­vík. Ætl­un­in var að viðræður um breyt­ingu lóðanna gengju hratt fyr­ir sig. Hætt­an af hlýn­un jarðar vegna lofts­lags­breyt­inga réð för.

Í sum­ar­leyfi borg­ar­stjórn­ar, 24. júní 2021, fengu borg­ar­ráðsmenn „minn­is­blað um áfanga­skil samn­ingaviðræðna við rekstr­araðila og lóðar­hafa eldsneyt­is­stöðva í Reykja­vík um upp­bygg­ingu á ýms­um lóðum“. Þá voru einnig lögð fram ramma­sam­komu­lög við olíu­fé­lög­in og samn­ing­ar um upp­bygg­ingu á lóðunum.

Borg­ar­ráðsfull­trú­ar meiri­hlut­ans, Sam­fylk­ing­ar, Viðreisn­ar, Pírata og Vinstri grænna, töldu í bók­un að gögn­in sýndu „stórt skref í bættri og grænni land­nýt­ingu“.

Full­trú­ar minni­hlut­ans á fundi borg­ar­ráðs, Sjálf­stæðis­flokks og Miðflokks­ins, lýstu and­stöðu við af­greiðslu máls­ins. „Hér er um stórt og mikið hags­muna­mál að ræða sem þarf að vanda mun bet­ur en leggja það fyr­ir fund borg­ar­ráðs í sum­ar­fríi borg­ar­stjórn­ar sem trúnaðar­mál,“ sögðu sjálf­stæðis­menn. Full­trúi Miðflokks­ins sagði í bók­un sinni að nú hefði komið í ljós að fækk­un bens­ín­stöðvanna sner­ist ekki um um­hverf­is­mál og orku­skipti held­ur um að „út­hluta dýr­mæt­um lóðum á besta stað í borg­inni til valdra aðila til að viðhalda þétt­ing­ar- og þreng­ing­ar­stefnu borg­ar­inn­ar“.

Miðflokks­full­trú­inn lagði síðan 1. fe­brú­ar 2022 fram til­lögu í borg­ar­stjórn um að innri end­ur­skoðun borg­ar­inn­ar yrði falið að skoða og leggja mat á lög­mæti trúnaðarsamn­ing­anna frá 24. júní 2021 við olíu­fé­lög­in.

Meiri­hlut­inn sagði enga óvissu ríkja um lög­mætið en vísaði til­lög­unni til borg­ar­ráðs. Sjálf­stæðis­menn töldu sjálfsagt og eðli­legt að innri end­ur­skoðun færi yfir þessa samn­inga til að tryggja að jafn­ræðis væri gætt meðal þeirra sem hefðu hug á upp­bygg­ingu í borg­inni. Þarna væri um að ræða margra millj­arða verðmæti. Full­trúi Flokks fólks­ins, sem einnig studdi til­lögu Miðflokks­ins, varaði við því að með breyt­ingu á lóðanýt­ingu bens­ín­stöðvanna „hagn­ist nú­ver­andi lóðar­haf­ar um millj­arða“.

Samn­ing­arn­ir sem voru kynnt­ir 24. júní 2021 náðu ekki til allra bens­ínsala í borg­inni og á borg­ar­ráðsfundi 10. fe­brú­ar 2022 kynnti borg­ar­stjóri samn­inga við þá sem eft­ir stóðu.

Í bók­un meiri­hlut­ans til stuðnings þess­um samn­ing­um sagði að í lofts­lags­stefnu borg­ar­inn­ar væri lagt til að þróaðir yrðu hvat­ar til að fækka eldsneyt­is­stöðvum í Reykja­vík. Þarna mátti sjá að meiri­hlut­inn reyndi að fóta sig á rök­um fyr­ir sér­kjör­um handa olíu­fé­lög­un­um.

Á borg­ar­ráðsfundi 28. apríl 2022 vísaði meiri­hlut­inn frá til­lög­unni um að innri end­ur­skoðun kannaði lög­mæti bens­ín­stöðvasamn­ing­anna. Þannig lauk mál­inu fyr­ir borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arn­ar 14. maí 2022.

Það eina sem borg­ar­stjórn hef­ur sam­ein­ast um í þessu máli á fimm árum er samþykkt­in um samn­ings­mark­miðin frá 9. maí 2019. Þar var ekki vikið að vild­ar­kjör­un­um sem síðan birt­ust. Allt sem gerst hef­ur eft­ir þann dag er á ábyrgð meiri­hlut­ans. Nú er fram­sókn­ar­maður borg­ar­stjóri í stað sam­fylk­ing­ar­manns. Fram til kosn­ing­anna 2022 var Eyþór Arn­alds odd­viti sjálf­stæðismanna.

Bens­ín­lóðunum verður ekki breytt án nýs deili­skipu­lags og 5. mars 2024 urðu umræður í borg­ar­stjórn um skipu­lag bens­ín­lóðar­inn­ar við Ægisíðu 102. Íbúar í Vest­ur­bæ hafa mót­mælt áform­um um um­fangs­mikla upp­bygg­ingu á lóðinni.

Frétta­kon­an María Sigrún Hilm­ars­dótt­ir sagði frá þessu máli í Kast­ljósi rík­is­sjón­varps­ins 6. maí 2024 og af­hjúpaði gjafa­gjörn­inga Dags B. Eggerts­son­ar til olíu­fé­lag­anna.

Meiri­hluti borg­ar­ráðs samþykkti 7. maí 2024 til­lögu sjálf­stæðismanna um að innri end­ur­skoðun borg­ar­inn­ar kannaði þá samn­inga sem gerðir hafa verið við olíu­fé­lög­in í skipt­um fyr­ir bygg­ing­ar­rétt.

R_1716056236824

Dag­ur B. Eggerts­son gaf út bók­ina Nýja Reykja­vík árið 2021. Þar seg­ir hann á blaðsíðu 228:

„Fólk þarf að kjósa ein­hvern ann­an flokk en Sam­fylk­ing­una í Reykja­vík ef það vill gefa lóðir eða upp­bygg­ing­ar­heim­ild­ir til einkaaðila á und­ir­verði en koma kostnaðinum vegna upp­bygg­ing­ar­inn­ar á borg­ar­sjóð og borg­ar­búa.“

Samn­ing­arn­ir sem höf­und­ur þess­ara orða gerði við bens­ínsal­ana í borg­inni ómerkja orð hans í bók­inni og sjálfs­hólið þar.

Í lög­fræðilegu áliti borg­ar­lög­manns frá 28. mars 2022 er aflétt­ing gjalda af olíu­fé­lög­un­um vegna upp­bygg­ing­ar­heim­ilda rétt­lætt, hún sé til „að ná því lög­mæta mark­miði sem að er stefnt í lofts­lags­stefnu og aðal­skipu­lagi um kol­efn­is­hlut­leysi með fækk­un bens­ín­stöðva“. Þetta sé ekki eina dæmið um slíka aflétt­ingu gjalda. Má skilja álitið á þann veg að þarna ráði geðþótti hverju sinni. Í þessu sam­bandi hef­ur til dæm­is verið vak­in at­hygli á ráðstöf­un borg­ar­stjórn­ar á bygg­ing­ar­landi til rík­is­út­varps­ins árið 2015. Hvaða yf­ir­mark­mið réðu þar?

Hitt er síðan grát­bros­legt þegar látið er eins og fækk­un bens­ín­stöðva fækki bens­ín­dæl­um og skapi kol­efn­is­hlut­leysi.