18.1.2018

Baráttusaga Finna

Umsögn í Morgunblaðinu 18. janúar 2018

Finnar minntust 100 ára sjálfstæðis síns á árinu 2017. Í tilefni af því sendi Borgþór Kjærnested frá sér bókina Milli steins og sleggju. Saga Finnlands. Hann segist hafa skrifað bókina vegna þess hve lítið sé um heildstæðar upplýsingar um Finnland og Finna á íslensku. Þá hafi Finnland verið sér mjög kært annað heimaland um áratugaskeið.

Borgþór kom fyrst til Finnlands 4. júlí 1961 en á þeim tíma var hann félagi í Æskulýðsfylkingunni. Auralítill fékk hann að borða í menningarmiðstöð finnska kommúnistaflokksins. Naut hann þar vináttu Einars Olgeirssonar, leiðtoga kommúnista á Íslandi, sem ritaði bréf til flokkssystur sinnar Herttu Kuusinen, formanns finnska kommúnistaflokksins, sem sá til þess að Borgþór fengi fast fæði í miðstöðinni. Nýlega var þriggja þátta mynd um Herttu Kuusinen og hlutskipti finnskra kommúnista í ríkissjónvarpinu.

Bók Borgþórs er 423 þéttritaðar blaðsíður með nafnaskrá og ljósmyndum. Hún er innbundin og prentuð á vandaðan myndapappír.

Borgþór hefur dregið saman mikinn sögulegan fróðleik sem snýr í upphafi ekki síður að sögu Svíþjóðar en Finnlands. Vart verður greint þar á milli fyrr en á 19. öld. Sænska ríkisskjaldarmerkið var jafnframt skjaldarmerki Finnlands til ársins 1809 þegar Svíar og Rússar gerðu með sér friðarsamning og Finnland varð stórfurstadæmi undir Rússakeisara, hélst sú skipan til byltingarinnar í Rússlandi árið 1917 þegar Finnland varð fullvalda.

Þetta er saga mikilla átaka, í hernaði og á stjórnmálavettvangi. Svíar voru stórveldi Norður-Evrópu þar til skarst í odda milli þeirra og Rússa. Þegar litið er yfir langvinna átakasögu Svía er ekki einkennilegt að á 20. öld hafi þeir kosið að leita skjóls í vopnuðu hlutleysi. Þeir héldu sig meira að segja til hlés þegar Finnar þurftu mjög á þeim að halda vegna sambúðarinnar við Sovétstjórnina.

Finnska stórfurstadæmið bjó við sjálfstæða stjórnsýslu og lög innan rússneska keisaradæmisins. Þannig var lagður grunnur að sjálfstæðu finnsku stjórnkerfi undir handarjaðri Rússakeisara. Kerfi sem hrundi ekki við byltingu bolsévika.

Pähr Svinhufud, forsætisráðherra borgaralegrar ríkisstjórnar Finnlands, sendi fulltrúa sinn til St. Pétursborgar til að fá það staðfest að miðstjórn bolsévika samþykkti sjálfstæði og fullveldi Finnlands í árslok 1917. Borgþór segir: »Lenín vildi helst komast hjá því að hitta þessa fulltrúa borgarastéttarinnar og spurði Felix Dzerzhinsky, ráðherra öryggismála, hvort hann vildi ekki fara fram [af fundi og hitta þá]. Hann baðst undan og kvaðst einungis geta tekið þá fasta. Þá á Leon Trotsky að hafa lagt til að hann færi bara fram og gerði það! Lenín reis hægt úr sæti sínu og fór fram og spurði hvort Finnar væru enn ekki ánægðir? Carl Enckell [iðjuhöldur og yfirmaður finnsku herdeildanna] varð þá fyrir svörum og staðfesti að Finnar væru afar ánægðir en vildu fá að þakka Lenín persónulega.

Síðar lýsti Lenín þessari stund, í hófi Pétursborg með landflótta byltingarforingjum Finna, sem þeirri ógeðfelldustu á stjórnarferli sínum.«

Bók Borgþórs geymir margar stuttar frásagnir eins og þessa sem bregða ljósi á söguna. Oft er þó erfitt að átta sig á auka- og aðalatriðum í því mikla magni upplýsinga sem hann miðlar til lesenda sinna. Þótt sagan sé skráð í tímaröð sveiflast frásögnin innan einstakra meginkafla sem síðan skiptast í undirkafla.

Textinn kveikir áhuga lesandans á að kynna sér einstaka þætti þessa stóra samhengis betur. Þarna er til dæmis dregin upp brotakennd mynd af því hvers vegna Gustaf Mannerheim marskálkur er einstakt stórmenni í finnskri sögu.

Í fyrra var þess minnst að 150 ár voru frá fæðingu hans. Í um það bil 25 ár (1918-1946) hafði Mannerheim úrslitaáhrif í sögu Finnlands. Allt frá þriðja áratugnum hafa fjölmargar bækur verið skrifaðar um hann, þar á meðal ævisaga hans í átta bindum. Tvær nýjar ævisögur birtust um hann í fyrra. Þegar Finnar segja frá þessu minna þeir jafnframt á að ævisaga Urhos Kekkonens Finnlandsforseta hafi verið gefin út í níu bindum.

Urho Kekkonen kemur að sjálfsögðu við sögu í bók Borgþórs og segir hann að í veiðiferð í Víðidalsá árið 1980 hafi ferðafélögum Kekkonens orðið ljóst að hann væri of þungt haldinn af Alzheimersjúkdómnum til að gegna forsetaembættinu. Dró hann sig í hlé þá um haustið.

Á stöku stað er minnst á samskipti Finna og Íslendinga og í bókarlok er kafli þar sem sagt er frá Íslendingum sem lögðu Finnum lið í vetrarstríðinu 1939 þegar Sovétmenn réðust inn í Finnland.

Nokkrar villur er að finna í bókinni, til dæmis þegar rætt er um stríðsskuldir Finna við Rússa er á einum stað talað um 600.000 eða 300.000 en annars staðar um 300 milljónir dollara. Í myndatexta segir að Alexej Kosygin, forsætisráðherra Sovétríkjanna, hafi farið í leyniferð til Finnlands »á útmánuðum 1969« til að skýra ástæður sovésku innrásarinnar í Tékkóslóvakíu. Í meginmáli segir hins vegar að þetta hafi verið í »október 1968« og er það vafalaust rétt enda var innrásin gerð í ágúst það ár.

Í upphafi bókarinnar er sagt frá sagnaljóðunum Kalevala, þjóðardjásni Finna, og sagt að hann sé aðgengilegur í sænskri þýðingu frá 1999. Þarna hefði mátt geta þess að Karl Ísfeld þýddi meginhluta Kalevala á íslensku, kom fyrri hlutinn út árið 1957 og sá síðari 1962 eftir að Karl dó.

Það er réttnefni að skrifa sögu Finnlands undir heitinu milli steins og sleggju. Finnar voru stuðpúði milli stórvelda Rússa og Svía og guldu þess að landamærin voru dregin of nærri St. Pétursborg til að leiðtogar Rússlands væru í rónni. Einir og yfirgefnir eftir vetrarstríðið treystu þeir á Þjóðverja um vopn í síðari heimsstyrjöldinni án þess að Mannerheim léti Hitler draga sig í átök við Rússa. Mannerheim stóð gegn því að Rússar fengju sömu aðstöðu í Finnlandi og þeir fengu í Eystrasaltsríkjunum þremur í síðari heimsstyrjöldinni sem leiddi til innlimunar þeirra í Sovétríkin.