21.4.2017

Bandaríkin komin aftur – eða hvað?

Morgunblaðsgrein 21. apríl 2017.

Söguleg tíðindi urðu fyrir tveimur vikum þegar Donald Trump lýsti yfir á blaðamannafundi í Hvíta húsinu með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, að Atlantshafsbandalagið væri ekki lengur úrelt eins og hann hélt fram í kosningabaráttunni og eftir að hafa náð kjöri. Þvert á móti væri það öflugur samstarfsvettvangur Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra.

Þetta var miðvikudaginn 12. apríl sama dag og Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var í Moskvu og sagði að samskipti Rússa og Bandaríkjamanna hefðu sjaldan verið í meiri lægð. Trump flutti svipaðan boðskap á blaðamannafundinum en var þó fáorður um Rússa. 

Vegna þessa og ákvörðunar Trumps um að senda 59 stýriflaugar á sýrlenska flugherstöð (7. apríl) til að hefna fyrir efnavopnaárás sýrlenska flughersins (4. apríl) sagði bandaríski álitsgjafinn Charles Krauthammer í The Washington Post fimmtudaginn 13. apríl:

„Assad [Sýrlandsforseti] braut gegn alþjóðlegu banni gegn efnavopnum. Hverjir aðrir en við geta tryggt að banninu sé framfylgt? Frambjóðandinn Trump hefði svarað: Ekki okkar mál. Forsetinn Trump greip til Tomahawk-stýriflauganna.

Utanríkisstefna hans snýst ekki lengur aðeins um heimavarnir heldur einnig um ákveðna hagsmuni, gildi og herstjórnarleg verðmæti erlendis. Hér er ekki um tímabundið viðfangsefni að ræða. Af því leiðir að við höfum jafnan látið að okkur kveða erlendis eftir síðari heimsstyrjöldina. […] Við höfum varanlegra hagsmuna að gæta. […]

Með þessu er ekki sagt að allt kunni ekki að breytast á morgun. Við höfum einmitt núna orðið vitni að einni kúvendingu. Undir stjórn forseta sem telur það sér til tekna að vera ófyrirsjáanlegur kann stefnunni auðveldlega að verða breytt á ný.

Hvað sem öðru líður halda fylgjendur hefðbundinnar stefnu um taumana núna. Stefna Bandaríkjanna er komin í eðlilegt horf. Heiminum hefur verið gert viðvart: Átta ára svefngöngu er lokin. Bandaríkin eru komin aftur.“

Þarna er fagnað að átta ára aðgerðaleysi og vandræðagangi á alþjóðavettvangi undir forystu Baracks Obama skuli lokið.

Tillerson í Moskvu


Þegar fylgst var með blaðamannafundi utanríkisráðherranna Rex Tillersons og Sergeis Lavrovs í Moskvu 12. apríl mátti greina óvenjulegt öryggisleysi hjá Lavrov. Hann talaði lengi og vildi forðast orðaskak við gest sinn. Tillerson var fámáll að venju. Hann var nýkominn af tæplega tveggja klukkustunda fundi með Vladimír Pútín. 

Á blaðamannafundinum talaði enginn um Tillerson, fyrrverandi forstjóra Exxons, sem rússneskan vinuáttu-orðuhafa. Allt annað og alvarlegra andrúmsloft ríkti en þeir höfðu vænst sem litu á Tillerson sem sérstakan vin Rússa – myndir af mönnum með Pútín segja ekki alla söguna um hug þeirra til hans.

Fundurinn í Moskvu var áður en bandaríski flugherinn kastaði (13. apríl) stærstu sprengju í vopnabúri sínu fyrir utan kjarnorkusprengju á greni Daseh-hryðjuverkamanna í fjallahéraði í Afganistan við landamæri Pakistans. Tillerson hefur ef til vill sagt rússneskum viðmælendum sínum að slík stóraðgerð væri á næsta leiti?

Misheppnað eldflaugaskot


Undanfarna daga hefur Mike Pence, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, heimsótt bandamenn Bandaríkjanna í nágrenni Norður-Kóreu og áréttað samstöðu Trump-stjórnarinnar með þeim. Í Kína heyrast raddir um að kínversk stjórnvöld eigi meiri samleið með Suður en Norður-Kóreu.

Daginn (15. apríl) sem fagnað var 105 ára afmæli fyrsta alræðisherra Norður-Kóreu af Kim-ættinni voru nýjar langdrægar eldflaugar eða eftirlíkingar þeirra dregnar á vögnum fyrir framan núverandi alræðisherra landsins. 

Í nafni Kims var síðan reynt (16. apríl) að skjóta flaug á loft en hún sprakk við skotpallinn. Kann henni að hafa verið grandað með bandarískum rafeindaboðum. Obama gaf fyrirmæli um leynilegar aðgerðir gegn kjarnorku- og elflaugavæðingu N-Kóreumanna á sínum tíma.

Þrjár flugur í einu höggi


Í tilefni af öllu þessu var rætt við sérfróða menn um öryggismál í alþjóðlegum fjölmiðlum og töldu ýmsir þeirra að Bandaríkjastjórn hefði reist sér hurðarás um öxl með þremur hernaðarlegum stóraðgerðum svo til samtímis. Hún gæti aldrei fylgt þessu eftir af nægum þunga.

Hvað sem því líður er augljóst að það sem Charles Krauthammer sagði og vitnað var til hér að ofan er rétt: Bandaríkin eru komin aftur.

Robert Kagan er sérfræðingur hjá hugveitunni Brookings og dálkahöfundur í The Washington Post.  Hann var meðal þjóðkunnra áhrifamanna inna flokks repúblíkana sem sagði skilið við flokkinn vegna framboðs Donalds Trumps og lýsti yfir stuðningi við Hillary Clinton meðal annars með þeim orðum að Trump væri „Frankenstein-skrímsli“.

Kagan hefur aldrei farið leynt með andstöðu sína við utanríkisstefnu Baracks Obama og sagði (7. apríl) eftir árásina á Sýrland undir forystu Trumps að sagnfræðingar framtíðarinnar yrðu að ákvarða hvort Vladimír Pútin hefði fyllst svo miklu oflæti vegna þess að Obama fylgdi ekki eftir hótunum sínum í garð Sýrlandsstjórnar vegna efnavopna að hann innlimaði Krímskaga eða hvort aðgerðarleysi Obama hefði ýtt undir ákvörðun Kínverja um að láta að sér kveða með sóknarstefnu á Suður-Kyrrahafi. Nú þyrftu bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Austur-Asíu þó ekki lengur að efast um staðfestu Bandaríkjastjórnar. 

Kagan birti grein sína í The Washington Post áður en risasprengjunni var varpað í Afganistan og áður en Norður-Kóreumönnum misheppnaðist að senda flaug sína á loft. Kagan sagði að ein sending af stýriflaugum dygði að vísu ekki til að sannreyna einbeittan vilja Trumps, meira þyrfti til svo að menn um heim allan sannfærðust um að Bandaríkin væru í raun komin aftur. Kagan lauk grein sinni á þessum orðum:

„Við skulum vona að Trump-stjórnin sé tilbúin að stíga næsta skref. Sé svo er raunverulega hugsanlegt að unnt sé að snúa af braut undanhaldsins sem Obama hóf um heim allan. Öflugt svar Bandaríkjastjórnar í Sýrlandi mundi gera mönnum á borð við Pútín., Xi Jinping, Ayatollah Ali Kkameini og Kim Jong-un ljóst að dagar bandarísks aðgerðaleysis eru að baki.“

Trump á alþjóðabraut


Hér hefur verið lýst breytingum á viðhorfi Bandaríkjastjórnar undir forystu Donalds Trumps og skýru marki þeirra á framvindu alþjóðamála undanfarnar tvær vikur. Ef til vill verður síðar vitnað til þessara atburða sem mikilvægra þáttaskila, daganna sem Bandaríkjamenn stigu að nýju fram sem virkt og ráðandi afl í alþjóðastjórnmálum.

Bæði Krauthammer og Kagan hafa fyrirvara í spám sínum. Þeir treysta ekki að fullu Trump og duttlungum hans. Forsetinn og stjórn hans hafa þó lagt svo mikið undir á skömmum tíma á alþjóðavettvangi að ekki er auðvelt að hverfa aftur til fyrra horfs. 

Sagan geymir mörg dæmi um að bandarískir forsetaframbjóðendur hafa heitið að helga sig málum á heimavelli en sogast svo inn í framvindu alþjóðamála að ekki var aftur snúið. Trump er á þeirri braut.