23.6.2023

Árni Johnsen – minning

Morgunblaðið, 23. júní 2023.

Árni Johnsen (fæddur í Vestmannaeyjum 1. mars 1944 - dáinn 6. júní 2023) blaðamaður, rithöfundur og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins var jarðsunginn frá Landakirkju í Vestmannaeyjum föstudaginn 23. júní 2023.

1419710-arni

Árni Johnsen bjó yfir einstökum hæfileika til að setja svip á umhverfi sitt. Vegna þess hve hann var stórhuga breytti hann auðveldlega hversdagslegu atviki í eftirminnilega stund.

Þessu kynntist ég fyrst á sjöunda áratugnum þegar við unnum saman á ritstjórn Morgunblaðsins. Þá skapaðist með okkur vinátta sem síðar var reynt að snúa upp í pólitísk vandræði fyrir báða. Strengurinn slitnaði aldrei þótt samskiptin minnkuðu með árunum og eftir að heilsan brást Árna.

Árni lét ekki aðeins að sér kveða með alkunnum dugnaði í Vestmannaeyjum og á Íslandi öllu heldur varð hann ekki síður þjóðkunnur í Færeyjum og á Grænlandi.

Hann sagðist hafa siglt einn síns liðs á gúmmíbáti frá Höfn í Hornafirði til að komast á ball í Færeyjum.

Sem alþingismaður tók hann virkan þátt í Vestnorræna þingmannaráðinu og beitti sér meðal annars fyrir því að endurreist var kirkja í Brattahlíð við Eiríksfjörð, Þjóðhildarkirkja.

Þangað fór stór hópur Íslendinga árið 2000 til að minnast þess hátíðlega að Leifur heppni fann Vínland og kristni festi rætur á Grænlandi.

Árni var í þeirri ferð með gítarinn og söng á íslensku, færeysku og grænlensku. Af alkunnri forsjálni hafði hann tekið með sér lambakjöt og grænmeti að heiman og lét kjötsúpuna malla í um það bil fjóra tíma í 40 lítra potti á meðan siglt var á tveimur smáskipum í steikjandi sól á milli ísjaka í djúpum grænlenskum fjörðum. Sjálfur átti Árni þarna eigin Zodiac-gúmmibát til að fara um Eiríksfjörð og víðar.

Framtakssemi Árna voru engin mörk sett. Hann var vakinn og sofinn vegna kjördæmis síns á Suðurlandi. Kom hann að fleiri nýmælum þar en upp verða talin. Minnisstætt er hve Þórður Tómasson safnvörður að Skógum fór lofsamlegum orðum um hlut Árna þegar hann opnaði Samgönguminjasafnið þar í júlí 2002.

Þá var rétt ár liðið frá því að Árni sagði af sér þingmennsku vegna frétta af ámælisverðri framgöngu hans sem formanns bygginganefndar Þjóðleikhússins. Reyndist um lögbrot að ræða og tók Árni út refsingu sína með fangelsisvist. Enginn þingmaður hafði sagt af sér þingmennsku vegna ávirðinga af þessum toga frá því að alþingi var endurreist árið 1843. Að lokinni refsivistinni bauð Árni sig fram í prófkjöri fyrir þingkosningar 2007 og 2009 og náði í bæði skiptin öruggu sæti á lista og sat á þingi til 2013.

Ég átti opinbert erindi í Duus-hús í Keflavík 12. febrúar 2004. Óvænt hitti ég þar Árna Johnsen við að setja upp sýningu á steinverkum, sem hann hafði gert á meðan hann sat inni á Kvíabryggju. Skoðaði ég verkin undir hressilegri leiðsögn hans. Þennan dag losnaði hann einmitt úr fangavistinni.

Yfir samskiptum okkar var oft eitthvað óskýranlegt.

Þegar litið er yfir farinn veg er gleði yfir minningum mínum um stundirnar með Árna, ökuferðirnar, fundina og hve glæsilega þau Halldóra tóku oftar en einu sinni á móti okkur á heimili sínu, þar var komið í ævintýrahöll elskulegra vina.

Blessuð sé minning Árna Johnsen.