Ævisaga vandlætara
Morgunblaðið, föstudagur 14. nóvember 2025.
Í upphafi bókarinnar Fröken Dúllu – ævisögu segist Kristín Svava Tómasdóttir hafa setið eitt föstudagssíðdegi yfir bjór í Stúdentakjallarunum með vinkonu sinni og útlistað fyrir henni þrjú skilyrði sem manneskja yrði að hafa til að hún skrifaði um hana ævisögu.
Skilyrðin voru (1) bókin yrði um konu; (2) fyrir lægju áhugaverðar heimildir, stórt og óvenjulegt heimildasafn og (3) persónan hefði verið breysk á einhvern hátt – gölluð. Hún vildi ekki freistast til að setja viðfangsefnið á stall. Hún vildi að það væri „blæbrigðaríkt, flókið og ögrandi“.
Vinkonan horfði á Kristínu Svövu eitt augnablik og sagði svo: Jóhanna Knudsen (18-19).
Áður hafði Kristín Svava kynnt sögupersónu sína á þann veg að haustið 2023 hefði einn í Facebook-hópi sagnfræðinga velt fyrir sér af nokkurri léttúð hver væri „íslenski skúrkurinn“, versti Íslendingur sögunnar. Þar hefði Jóhanna Knudsen verið eina 20. aldar manneskjan sem komst á blað og eina konan sem náð hefði einhverju máli (16).
Vafalaust undrast fleiri en sá sem hér ritar að þetta orð hafi farið af hjúkrunarkonunni Jóhönnu meðal sagnfræðinga. Ólíklegt er að þetta sé orðspor þessarar fályndu konu hjá almenningi, fæstir þekkja líklega til hennar. Jóhanna lést 8. september 1950, mánuði fyrir 53 ára afmælisdaginn sinn.

Siðferðisrannsókn og eftirlit
Kristín Svava lauk meistaranámi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2014 og sinnir ritstörfum bæði sem fræðimaður og ljóðskáld. Þá hefur hún lagt stund á þýðingar. Undanfarin ár hefur hún m.a. skrifað eða átt hlut að þessum bókum: 2024 Duna: Saga kvikmyndagerðarkonu (með Guðrúnu Elsu Bragadóttur); 2022 Farsótt: Hundrað ár í Þingholtsstræti 25; 2020 Konur sem kjósa (ásamt Erlu Huldu Halldórsdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur).
Bókin Fröken Dúlla er vel úr garði gerð. Sagan er sögð í tímaröð og skiptist í sjö kafla með styttri undirköflum. Myndir eru í meginmáli, skrár eru yfir þær, tilvísanir, heimildir og nöfn. Hönnun er skemmtilega útfærð af Elinu Mejergren milli kápu og kaflaskipta.
Við upprifjanir sagnfræðinga og almennt á annarri heimsstyrjöldinni staldra menn við „ástandið“, samskipti íslenskra kvenna og hermanna, en í bókinni gerir Kristín Svava nákvæma grein fyrir hlut Jóhönnu við greiningu á því.
Jóhanna vann árið 1941 í tvo mánuði að siðferðisrannsókn fyrir lögregluna í Reykjavík að tilstuðlan lögreglustjórans, Agnars Kofoed-Hansen, og forsætis- og dómsmálaráðherrans, Hermanns Jónassonar.
Átti rannsóknin að verða aðdragandi þess að undirbúa stofnun kvenlögreglu. Þá hafi Hermann Jónasson ef til vill einnig viljað sýna að hann hefði meiri áhyggjur af siðferðisástandinu í höfuðborginni tæpu ári eftir hernámið en samstarfsmenn hans í ríkisstjórn (164).
Hermann var ekki dóms- og kirkjumálaráðherra nema í um það bil eitt ár frá því að Jóhanna tók að sér þetta verkefni fyrir hann og lögreglustjórann. Jakob Möller tók þá við af Hermanni sem dómsmálaráðherra fram í desember 1942 þegar Einar Arnórsson settist í embættið. Kristín Svava minnist ekki á Jakob í bókinni en segir frá samtölum Jóhönnu við Einar sem í september 1943 lokaði vistheimili á Kleppjárnsreykjum en þar dvöldust fáeinar stúlkur að opinberum fyrirmælum til að bjarga þeim úr „ástandinu“ (230).
Tók Jóhanna lokunina nærri sér enda var reksturinn á Kleppjárnsreykjum og kerfið um unglingaeftirlit, dómstól og vistheimili sem hún lagði grunn að henni hjartans mál. Agnar Kofoed-Hansen tilkynnti Jóhönnu ári síðar að hún ætti að hætta störfum í árslok 1944 (244).
Stríðsárin og kynni hennar af þeirri hlið mannlífsins sem þá átti hug hennar mótuðu síðan afstöðu Jóhönnu og lífsviðhorf. Segir Kristín Svava að hjá henni hafi aldrei dregið úr „lífsháskakenndinni“ sem hernámið vakti, „hún trúði því statt og stöðugt að allt væri að fara til fjandans“ (245). Sömu leið og allt unglingaeftirlitskerfi hennar.
Gengið freklega á rétt fólks
Ættingjar Jóhönnu afhentu Þjóðskjalasafni Íslands skjalaböggla árið 1961 með kvöð um að þeir yrðu ekki opnaðir fyrr en eftir 50 ár. Þegar það gerðist kom í ljós „stórt og óvenjulegt heimildasafn“. Skjölin frá Jóhönnu snerust að verulegu leyti um siðferðisrannsóknina og nýtir Kristín Svava þau. Við rannsóknina var beitt aðferðum sem brutu gegn friðhelgi einkalífs og gengu freklega á rétt margra.
Persónulegar heimildir um Jóhönnu eru litlar og tengjast einkum fjölskyldu hennar eða bréfavinkonum og þeim sem veittu henni skjól þegar að henni var sótt. Oft var stormasamt í kringum hana. Hún hætti sem yfirhjúkrunarkona á Reykjahæli í Hveragerði 1. september 1932 vegna ósamkomulags milli hennar og sjúklinganna (127). Bæjarráð Ísafjarðar rak hana úr starfi yfirhjúkrunarkonu á sjúkrahúsinu þar árið 1940 og neitaði að segja ástæðuna fyrir uppsögninni (149).
Stundum gengur Kristín Svava sjálf inn í frásögnina og gefur álit sitt. Stíll hennar er lágstemmdur. Hún gerir síst meira úr útistöðum söguhetju sinnar vegna manna og málefna en vert er. Það er í senn styrkur bókarinnar og veikleiki.
Styrkurinn felst í að leitast jafnan við að hafa það sem sannara reynist. Veikleikinn birtist í því að textinn hefði orðið dýpri og líflegri ef meira af samtímanum hefði verið skrifað inn í hann til að lesandinn áttaði sig enn betur á því hve Jóhanna valdi sér þröngan stíg vandlætarans í gegnum lífið.
Í febrúar 1947 hóf Jóhanna útgáfu á tímaritinu Syrpu. Hún notaði það síðar til að lýsa andstöðu gegn aðild Íslands að varnarsamstarfi vestrænna ríkja og Atlantshafsbandalaginu.
Í sögu hennar má sjá augljósa tengingu við stefið í hugsjónum og starfi hernáms- og herstöðvandstæðinga. Þeir eins og Jóhanna skilgreindu sig sem varðmenn íslensks þjóðernis og menningar og litu fram hjá þörfinni fyrir varnir og öryggisgæslu. „Lífsháskakenndin“ hverfur ekki.