19.7.2025

Aðildin að ESB er komin á dagskrá

Morgunblaðið, laugardagur 19. júlí 2025,

Heim­sókn Ursulu von der Leyen, for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar ESB, hingað til lands í vik­unni er skref í und­ir­bún­ingi rík­is­stjórn­ar­inn­ar und­ir þjóðar­at­kvæðagreiðsluna fyr­ir árs­lok 2027 um viðræður Íslands við ESB.

Eng­inn veit enn hvaða spurn­ing verður lögð fyr­ir þjóðina. Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra talaði hins veg­ar við evr­ópska vef­blaðið Politico eins og at­kvæðagreiðslan væri óþörf. Þjóðin vildi ræða aðild við ESB.

Ursula von der Leyen sagðist sömu skoðunar og rík­is­stjórn­in, ESB-um­sókn­in frá 2009 væri enn gild gagn­vart ESB. Það var er­indi henn­ar hingað að taka af skarið um þetta. Á þenn­an hátt lagði hún rík­is­stjórn­inni lið og hlutaðist til um viðkvæmt inn­lent ágrein­ings­mál.

Hvorki hún né ís­lensku ráðherr­arn­ir viður­kenna að rík­is­stjórn Sig­mund­ar Davíðs Gunn­laugs­son­ar hafi form­lega slitið viðræðunum árið 2015 þegar óskað var eft­ir að Ísland yrði afmáð af lista yfir um­sókn­ar­ríki ESB.

Rík­is­stjórn­in tel­ur sig ör­ugga í 16 ára gamla far­inu. Hún skipaði Stefán Hauk Jó­hann­es­son sendi­herra gagn­vart ESB í Brus­sel. Hann leiddi ESB-viðræðurn­ar árið 2009 til 2013. Stefán Hauk­ur fór ekki leynt með áhuga sinn á aðild Íslands að ESB.

Þjóðin verður samt spurð: Vilt þú að viðræðurn­ar fari fram á grund­velli ESB-aðild­ar­um­sókn­ar­inn­ar árið 2009? Verður það spurn­ing­in? Eða: Á að halda viðræðum við ESB áfram á þeim grund­velli sem Össur Skarp­héðins­son ut­an­rík­is­ráðherra skildi við málið í janú­ar 2013?

50ce49fe-00e1-4801-a884-a6dc29d16f99

Ursula von der Leyen og Kristrún Frostadóttir 17. júlí 2025 (mynd Morg­un­blaðið/​Eyþór).

Fyr­ir 16 árum virt­ist sú skoðun ráðandi inn­an ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins að EES/​EFTA-rík­in nytu ein­hverra sér­kjara þegar kæmi að ESB-aðild­ar­viðræðum. Íslensku er­ind­rek­arn­ir ráku sig þó fljótt á að svo er ekki. Þess er kraf­ist af ís­lensk­um stjórn­völd­um að þau lagi sig að öllu reglu­verki ESB eins og það legg­ur sig. Ágrein­ing­ur verður leyst­ur með lengd aðlög­un­ar­tíma en ekki nein­um var­an­leg­um und­anþágum.

Op­in­ber­lega var látið eins og aðal­er­indi Ursulu von der Leyen hingað væri að ræða ör­ygg­is- og varn­ar­mál. Eina fram­lag ESB til varna á Norður-Atlants­hafi snýr að ör­ygg­is­gæslu vegna strengja og kapla neðan­sjáv­ar. Til að þróa þá starf­semi frek­ar kann sam­bandið að hafa áhuga á sam­starfi við borg­ara­lega aðila hér. Varla kom for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar til að ræða þetta mál?

Ríki utan ESB leggja mest af mörk­um til varna á Norður-Atlants­hafi: Banda­rík­in, Kan­ada, Bret­land og Nor­eg­ur. Það er ekki vegna þrýst­ings frá ESB sem Dan­ir ætla nú að leggja meira af mörk­um til varna Græn­lands. Þar ráða áhrif frá Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta og stjórn hans mestu. Græn­lend­ing­ar samþykktu fyr­ir 40 árum að segja skilið við ESB. Hvað sem líður póli­tísk­um sam­skipt­um þeirra við önn­ur ríki líta þeir á sig sem frænd­ur frum­byggja í Kan­ada og Alaska.

Í stríðum í Evr­ópu á liðinni öld sneru Íslend­ing­ar sér vest­ur á bóg­inn til að tryggja aðföng og ör­yggi. Í þeim efn­um hef­ur ekk­ert breyst. Aðild að ESB myndi þrengja svig­rúm ís­lensku þjóðar­inn­ar að þessu leyti. Aðild­in kynni jafn­vel að spilla fyr­ir nánu sam­starfi á grund­velli tví­hliða varn­ar­samn­ings okk­ar og Banda­ríkja­manna.

Allt önn­ur viðhorf voru í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um árið 2009 en núna. Þótt Pútín hefði vegið að Banda­ríkj­un­um á ör­ygg­is­ráðstefn­unni í München snemma árs 2007 sá eng­inn fyr­ir nei­kvæðu þró­un­ina á hernaðarsviðinu sem varð öll­um sýni­leg árið 2014 þegar Pútín gleypti Krím.

Ursula von der Leyen hef­ur mik­inn áhuga á fót­festu á Norður-Atlants­hafi til að styrkja stöðu ESB gagn­vart Banda­ríkja­stjórn. Sem fyrr­ver­andi varn­ar­málaráðherra Þýska­lands veit hún að Norður-Atlants­haf skap­ar dýpt í varn­ir Norður-Am­er­íku og þar skipt­ir Ísland máli. Viðræður Íslands og ESB um varn­ar- og ör­ygg­is­mál verða ábreiða yfir annað.

Við aðild að ESB fengi ut­an­rík­is­mála­stjóri ESB stjórn sam­skipta Íslands við þriðju ríki, þar á meðal Banda­rík­in, í sín­ar hend­ur. Brus­sel­menn vona að fót­festa á Íslandi auki póli­tísk­an slag­kraft ESB hvað sem líður her­styrkn­um. Þeir vita að ESB kem­ur aldrei í stað Breta og Banda­ríkja­manna til varn­ar norður­slóðum og Norður-Atlants­hafi.

Þá hef­ur ESB augastað á hafsvæðum og land­grunni Íslands. Efna­hagslög­sag­an er mjög víðfeðm, um 758 þúsund fer­kíló­metr­ar. Land­grunns­rétt­ur­inn er tal­inn ná yfir allt að 1,2 millj­ón­um fer­kíló­metra.

Með aðild að ESB félli þetta svæði und­ir yf­ir­ráð Brus­selmanna. Það yrði heim­an­mund­ur sem kannski tryggði Íslend­ing­um brot af heild­arafla á sam­eig­in­leg­um ESB-miðum þar sem regl­an um hlut­falls­leg­an stöðug­leika ræður og þar með for­gang­ur ríkj­anna sem eiga nú þegar aðild að ESB.

Keppn­in um vinnslu fáséðra jarðefna harðnar og land­grunnið um­hverf­is Ísland yrði nýtt vopn ESB í henni.

Hanna Katrín Friðriks­son at­vinnu­vegaráðherra ritaði 15. júlí und­ir vilja­yf­ir­lýs­ingu um af­skipti ESB af mál­efn­um hafs­ins og sjáv­ar­út­vegi á Íslandi. Þetta er grunn­ur að auknu framtíðarsam­starfi á sviði fisk­veiða og haf­mála og skap­ar form­lega um­gjörð um það. ESB hef­ur form­lega stigið inn í ís­lenska fisk­veiðilög­sögu.

Að velja ein­mitt 15. júlí til að viður­kenna hlut ESB í lög­sögu og á land­grunni Íslands sýn­ir djúp­stæða óvirðingu við málstað okk­ar Íslend­inga í land­helg­is­mál­inu.

Matth­ías Bjarna­son, sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Sjálf­stæðis­flokks­ins, ritaði 15. júlí 1975 und­ir reglu­gerðina sem leiddi til út­færslu lög­sögu Íslands í 200 sjó­míl­ur 15. októ­ber 1975. Hver hefði trúað því þá að 50 árum síðar myndi ráðherra ís­lensks sjáv­ar­út­vegs minn­ast dags­ins á þenn­an hátt?

Bar­átt­unni fyr­ir rétt­in­um yfir 200 míl­un­um er ekki lokið.