Aðildin að ESB er komin á dagskrá
Morgunblaðið, laugardagur 19. júlí 2025,
Heimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, hingað til lands í vikunni er skref í undirbúningi ríkisstjórnarinnar undir þjóðaratkvæðagreiðsluna fyrir árslok 2027 um viðræður Íslands við ESB.
Enginn veit enn hvaða spurning verður lögð fyrir þjóðina. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra talaði hins vegar við evrópska vefblaðið Politico eins og atkvæðagreiðslan væri óþörf. Þjóðin vildi ræða aðild við ESB.
Ursula von der Leyen sagðist sömu skoðunar og ríkisstjórnin, ESB-umsóknin frá 2009 væri enn gild gagnvart ESB. Það var erindi hennar hingað að taka af skarið um þetta. Á þennan hátt lagði hún ríkisstjórninni lið og hlutaðist til um viðkvæmt innlent ágreiningsmál.
Hvorki hún né íslensku ráðherrarnir viðurkenna að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi formlega slitið viðræðunum árið 2015 þegar óskað var eftir að Ísland yrði afmáð af lista yfir umsóknarríki ESB.
Ríkisstjórnin telur sig örugga í 16 ára gamla farinu. Hún skipaði Stefán Hauk Jóhannesson sendiherra gagnvart ESB í Brussel. Hann leiddi ESB-viðræðurnar árið 2009 til 2013. Stefán Haukur fór ekki leynt með áhuga sinn á aðild Íslands að ESB.
Þjóðin verður samt spurð: Vilt þú að viðræðurnar fari fram á grundvelli ESB-aðildarumsóknarinnar árið 2009? Verður það spurningin? Eða: Á að halda viðræðum við ESB áfram á þeim grundvelli sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skildi við málið í janúar 2013?
Ursula von der Leyen og Kristrún Frostadóttir 17. júlí 2025 (mynd Morgunblaðið/Eyþór).
Fyrir 16 árum virtist sú skoðun ráðandi innan utanríkisráðuneytisins að EES/EFTA-ríkin nytu einhverra sérkjara þegar kæmi að ESB-aðildarviðræðum. Íslensku erindrekarnir ráku sig þó fljótt á að svo er ekki. Þess er krafist af íslenskum stjórnvöldum að þau lagi sig að öllu regluverki ESB eins og það leggur sig. Ágreiningur verður leystur með lengd aðlögunartíma en ekki neinum varanlegum undanþágum.
Opinberlega var látið eins og aðalerindi Ursulu von der Leyen hingað væri að ræða öryggis- og varnarmál. Eina framlag ESB til varna á Norður-Atlantshafi snýr að öryggisgæslu vegna strengja og kapla neðansjávar. Til að þróa þá starfsemi frekar kann sambandið að hafa áhuga á samstarfi við borgaralega aðila hér. Varla kom forseti framkvæmdastjórnarinnar til að ræða þetta mál?
Ríki utan ESB leggja mest af mörkum til varna á Norður-Atlantshafi: Bandaríkin, Kanada, Bretland og Noregur. Það er ekki vegna þrýstings frá ESB sem Danir ætla nú að leggja meira af mörkum til varna Grænlands. Þar ráða áhrif frá Donald Trump Bandaríkjaforseta og stjórn hans mestu. Grænlendingar samþykktu fyrir 40 árum að segja skilið við ESB. Hvað sem líður pólitískum samskiptum þeirra við önnur ríki líta þeir á sig sem frændur frumbyggja í Kanada og Alaska.
Í stríðum í Evrópu á liðinni öld sneru Íslendingar sér vestur á bóginn til að tryggja aðföng og öryggi. Í þeim efnum hefur ekkert breyst. Aðild að ESB myndi þrengja svigrúm íslensku þjóðarinnar að þessu leyti. Aðildin kynni jafnvel að spilla fyrir nánu samstarfi á grundvelli tvíhliða varnarsamnings okkar og Bandaríkjamanna.
Allt önnur viðhorf voru í varnar- og öryggismálum árið 2009 en núna. Þótt Pútín hefði vegið að Bandaríkjunum á öryggisráðstefnunni í München snemma árs 2007 sá enginn fyrir neikvæðu þróunina á hernaðarsviðinu sem varð öllum sýnileg árið 2014 þegar Pútín gleypti Krím.
Ursula von der Leyen hefur mikinn áhuga á fótfestu á Norður-Atlantshafi til að styrkja stöðu ESB gagnvart Bandaríkjastjórn. Sem fyrrverandi varnarmálaráðherra Þýskalands veit hún að Norður-Atlantshaf skapar dýpt í varnir Norður-Ameríku og þar skiptir Ísland máli. Viðræður Íslands og ESB um varnar- og öryggismál verða ábreiða yfir annað.
Við aðild að ESB fengi utanríkismálastjóri ESB stjórn samskipta Íslands við þriðju ríki, þar á meðal Bandaríkin, í sínar hendur. Brusselmenn vona að fótfesta á Íslandi auki pólitískan slagkraft ESB hvað sem líður herstyrknum. Þeir vita að ESB kemur aldrei í stað Breta og Bandaríkjamanna til varnar norðurslóðum og Norður-Atlantshafi.
Þá hefur ESB augastað á hafsvæðum og landgrunni Íslands. Efnahagslögsagan er mjög víðfeðm, um 758 þúsund ferkílómetrar. Landgrunnsrétturinn er talinn ná yfir allt að 1,2 milljónum ferkílómetra.
Með aðild að ESB félli þetta svæði undir yfirráð Brusselmanna. Það yrði heimanmundur sem kannski tryggði Íslendingum brot af heildarafla á sameiginlegum ESB-miðum þar sem reglan um hlutfallslegan stöðugleika ræður og þar með forgangur ríkjanna sem eiga nú þegar aðild að ESB.
Keppnin um vinnslu fáséðra jarðefna harðnar og landgrunnið umhverfis Ísland yrði nýtt vopn ESB í henni.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra ritaði 15. júlí undir viljayfirlýsingu um afskipti ESB af málefnum hafsins og sjávarútvegi á Íslandi. Þetta er grunnur að auknu framtíðarsamstarfi á sviði fiskveiða og hafmála og skapar formlega umgjörð um það. ESB hefur formlega stigið inn í íslenska fiskveiðilögsögu.
Að velja einmitt 15. júlí til að viðurkenna hlut ESB í lögsögu og á landgrunni Íslands sýnir djúpstæða óvirðingu við málstað okkar Íslendinga í landhelgismálinu.
Matthías Bjarnason, sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins, ritaði 15. júlí 1975 undir reglugerðina sem leiddi til útfærslu lögsögu Íslands í 200 sjómílur 15. október 1975. Hver hefði trúað því þá að 50 árum síðar myndi ráðherra íslensks sjávarútvegs minnast dagsins á þennan hátt?
Baráttunni fyrir réttinum yfir 200 mílunum er ekki lokið.