29.3.2007

Okkar ábyrgð - öryggi og varnir Íslendinga.

Erindi á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs, 29. mars, 2007.

 

Þegar ég bauð mig fyrst fram til þings fyrir 16 árum sagði ég í grein í Morgunblaðinu (3. apríl, 1991):

 

„Íslendingar verða að taka virkan þátt í mótun og framkvæmd öryggisstefnunnar. Við eigum að leysa bandaríska varnarliðið af hólmi, þar sem það samræmist markmiði varnarsamningsins um að tryggja öryggi landsins og hafsvæðanna umhverfis það.Við eigum að knýja á dyr Evrópuþjóða og óska efir nánara samstarfi við þær um öryggismál.“

 

Ætlun mín hér í dag er að lýsa stöðunni í öryggis- og varnarmálum okkar Íslendinga á þessari stundu.  Ég viðurkenni fúslega, að það tók lengri tíma en ég ætlaði árið 1991, að við leystum varnarliðið af hólmi.  Raunar gerum við það ekki enn, því að landvarnir Íslands eru áfram í höndum Bandaríkjamanna.

 

Ég tel íslenskum stjórnvöldum alls ekki um megn að taka á sig öryggisskyldur sjálfstæðs ríkis og bregðast við ógnum með skjótum og skilvirkum hætti til þess að tryggja og verja öryggi borgara sinna.  Ef við viljum getum við verið virkir og áreiðanlegir þátttakendur með vinaþjóðum við að tryggja öryggi í okkar heimshluta.  Ef við höldum rétt á málum getum við tekist á við gerbreyttar aðstæður á skynsamlegan og öflugan hátt.

 

Öryggis- og varnarmálin eru nú enn frekar en áður innanríkismál fremur en utanríkismál. Vissulega eru meginstoðir landvarnarstefnu Íslands enn sem fyrr varnarsamningurinn við Bandaríkin og þátttaka okkar í NATO.  Við gæslu öryggis borgaranna skiptir samstarf við aðrar stofnanir en hermálayfirvöld austan hafs og vestan hins vegar meira máli en fyrr í sögu okkar, þegar lagt er mat á hættur, sem að kunna að steðja.

 

Þessar staðreyndir birtast okkur í samkomulaginu, sem gert var við Bandaríkjamenn síðastliðið haust, þar sem lagt er á ráðin um samvinnu við bandarísku strandgæsluna, alríkislögregluna, tollgæslu og landamæraverði. Öryggisgæsla í þágu flugs og siglinga hefur flust i hendur borgaralegra yfirvalda hér og annars staðar með alþjóðareglum um flugvernd og siglingavernd. Bandaríska heimavarnaráðuneytið kemur að þeim málum en ekki varnarmálaráðuneytið, svo að dæmi sé tekið.

 

Inntakið í samstarfinu um öryggismál við Bandaríkjamenn breyttist verulega með hinu nýja samkomulagi á grundvelli varnarsamningsins. Áherslan fluttist frá landvörnum í hefðbundnum skilningi þess orðs til heimavarna, þar sem borgaralegar stofnanir koma sífellt meira til sögunnar.

 

Sé litið til samstarfs Evrópuríkja er þróunin hin sama. Innan ramma Schengen-samstarfsins er sífellt meiri áhersla lögð á lögreglusamvinnu í þágu aukins öryggis. Á það hefur verið bent, að Evrópusambandið sé samstarfsaðili bandaríska heimavarnaráðuneytisins og slík borgaraleg samvinna í þágu öryggis skipti hinn almenna borgara jafnvel meiru eins og málum sé nú háttað en herafli grár fyrir járnum.

 

Er ábyrgð okkar Íslendinga á sviði öryggismála meiri en nokkru sinni bæði með vísan til samstarfsins við Bandaríkjamenn og vegna stefnu, sem ríkisstjórn Íslands mótaði við brottför varnarliðsins.

 

Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg hafa í tæpa hálfa öld stuðlað að málefnalegum umræðum um öryggi Íslands og hinar bestu leiðir til að tryggja það. Stefna og starf félaganna hefur stutt skynsamlega og farsæla stefnu íslenskra stjórnvalda. Þegar við stöndum enn á tímamótum í þessu efni er enginn vettvangur betur til þess fallinn en einmitt þessi til að lýsa stöðunni eins og hún er og líta fram á veginn.

 

*

Samkomulag um framtíðarskipan landvarna Íslands á grundvelli varnarsamningsins við Bandaríkin frá 1951 var gert í september 2006. Þegar ríkisstjórn Íslands kynnti samkomulagið hinn 26. september 2006 birti hún yfirlýsingu um ný verkefni íslenskra stjórnvalda við brottför varnarliðsins.

 

Unnið hefur verið á grundvelli yfirlýsingarinnar síðan. Þar hefur allt gengið til þeirrar áttar, sem að var stefnt.

 

Í fyrsta lagi var lýst yfir því, að stofnað yrði hlutafélag í eigu ríkisins um framtíðarþróun og umbreytingu fyrrverandi varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli. Skyldi félagið koma svæðinu og mannvirkjum á því með skipulegum hætti í arðbær borgaraleg not án þess að valda röskun á samfélaginu í næsta nágrenni vallarins.

Félagið var stofnað í október 2006 og hefur nú auglýst eignir til sölu og hafa margir sýnt áhuga á að nýta sér aðstöðuna í Keflavíkurstöðinni. Hinn 15. mars síðastliðinn var til dæmis sagt frá hugmyndum um að reka þar alþjóðlegan háskóla.

Hluti af fyrrverandi varnarsvæði verður svokallað öryggissvæði, þar sem tekið verður á móti herflugvélum undir gæslu á forræði utanríkisráðuneytisins. Ráðuneytið hafði í samskiptum við varnarliðið alla innlenda yfirstjórn á varnarsvæðunum, en er nú eins og eðlilegt er að draga úr umsvifum sínum og stofnana sinna á Keflavíkurflugvelli.

Í öðru lagi lýsti ríkisstjórnin yfir því, að til að efla almennt öryggi yrði við endurskoðun laga um almannavarnir komið á fót miðstöð, þar sem tengdir yrðu saman allir aðilar, sem koma að öryggismálum innanlands, hvort heldur vegna náttúruhamfara eða vegna hættu af mannavöldum. Til að tryggja sem best samhæfingu innan miðstöðvarinnar skyldu forsætisráðherra, utanríkisráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra, samgönguráðherra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og umhverfisráðherra sitja í yfirstjórn hennar. Dagleg stjórn miðstöðvarinnar yrði á vegum dóms- og kirkjumálaráðherra, en honum var falið að leggja fram frumvarp til nýrra almannavarnalaga.

Að þessu frumvarpi hefur verið unnið undanfarna mánuði og er það nú fullsmíðað af minni hálfu og lagði ég það fram í ríkisstjórn í fyrstu viku þessa mánaðar og sendi það síðan þingflokkum ríkisstjórnarinnar. Mér var ljóst, að frumvarpið væri of viðamikið til að hljóta afgreiðslu á þessu þingi en hins vegar tel ég eðlilegt, að um efni þess sé rætt á opinberum vettvangi.

Markmið almannavarna er samkvæmt frumvarpinu að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir, sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkams- eða eignatjóni af völdum náttúruhamfara, farsótta, hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða annarar hættu, og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns, sem hugsanlega kann að verða eða sem hefur orðið.

Hér er með öðrum orðum bæði um að ræða varnir vegna hamfara af völdum náttúrunnar og af mannavöldum. Gerð viðbragðsáætlana á grundvelli laganna á að taka mið af þessari víðtæku skilgreiningu og er í frumvarpinu lögð mikil áhersla á forvarna- og viðbragðsþátt almannavarna. Ríkinu er ætlað að fara  með almannavarnir í landinu öllu, hvort heldur á landi, í lofti eða á sjó, en sveitarfélög fara hins vegar með, í samvinnu við ríkisvaldið, almannavarnir í héraði.

Dóms- og kirkjumálaráðherra er æðsti yfirmaður almannavarna í landinu. Honum er ætlað að gefa út reglur um almannavarnastig að fenginni tillögu ríkislögreglustjóra, sem annast málefni almannavarna og tekur ákvörðun um almannavarnastig hverju sinni og tilkynnir ráðherranum.

Við embætti ríkislögreglustjóra mun starfa samhæfingar- og stjórnstöð undir sérstakri stjórn. Í stöðinni fer fram samhæfing og yfirstjórn almannavarnaaðgerða með hliðsjón af almannavarnastigi og viðeigandi viðbragðsáætlun. Stöðina er einnig unnt að virkja vegna hvers kyns aðgerða við leit og björgun.

Hér er tekið mið af reynslunni af björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð, en hún er virkjuð æ oftar af viðbragðsaðilum, vegna þess hve góð reynsla hefur fengist af því samhæfingarstarfi, sem unnið er undir merkjum hennar.

Hugmynd mín er, að samhæfingar- og stjórnstöðin lúti stjórn níu manna, ráðherra skipi formann án tilnefningar en aðrir komi frá ríkislögreglustjóra, landhelgisgæslu, landlækni, slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, samræmdri neyðarsímsvörun, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, auk þess tilnefni samgönguráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga hvor sinn fulltrúa. Hlutverk stjórnarinnar er huga að innra skipulagi, rekstri og samstarfi viðbragðsaðila en við stjórn aðgerða verði farið eftir viðbragðsáætlunum.

Segja má, að í því, sem hér hefur verið rakið komi fram lýsing á skipulagi, sem hrundið hefur verið í framkvæmd hin síðustu misseri með sífellt nánara samstarfi viðbragðsaðila og nú sé það sett í lögbundið form.

Ramminn utan um þetta skipulag er hins vegar alveg nýr samkvæmt frumvarpi mínu, því að þar er gert ráð fyrir, að almannavarnaráð víki fyrir nýju almannavarna- og öryggismálaráði, sem starfi undir formennsku forsætisráðherra og er þá tekið mið af því, sem sagði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við brottför varnarliðsins.

Hlutverk almannavarna- og öryggismálaráðs er að marka stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum, en í stefnunni skal gera grein fyrir ástandi og horfum í þessum málum, fjalla um áhersluatriði varðandi skipulag almannavarna- og öryggismála, forvarnarstarf, nauðsynlega samhæfingu á efni viðbragðsáætlana og starfsemi opinberra stofnana á því sviði, nauðsynlegar birgðir til þess að tryggja lífsakomu þjóðarinnar á hættutímum, endurreisn eftir hamfarir og aðrar aðgerðir, sem ráðið telur nauðsynlegar til að ná því markmiði að tryggja öryggi landsmanna sem best. Umsýsla vegna ráðsins og undirbúningur funda þess yrði í höndum dóms- og kirkjumálaráðherra.

Þeir ráðherrar, sem ég hef áður nefnt, skulu eiga sæti í almannavarna- og öryggismálaráði en auk þeirra er forsætisráðherra heimilt að kveðja allt að tvo ráðherra til setu í ráðinu í senn vegna sérstakra mála. Með ráðherrunum tækju ráðuneytisstjórar og forstöðumenn stofnana á vegum einstakra ráðuneyta sæti í ráðinu, þar ættu Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn, samræmd neyðarsímsvörun og sveitarfélögin einnig fulltrúa.

Með því að leggja fram og kynna þetta frumvarp til laga um almannavarnir tel ég mig hafa lokið því verkefni, sem mér var ætlað að þessu leyti í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006.

Fleiri verkefni öryggismála falla undir dóms- og kirkjumálaráðherra samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. 

Í þriðja lið yfirlýsingarinnar segir, að samhliða því sem unnið verði að nýskipan lögreglumála, verði samstarf lögreglu, landhelgisgæslu, slökkviliða og björgunarsveita aukið enn frekar, þannig að tryggja megi þátttöku varaliðs hvarvetna þar sem þess kunni að verða þörf í landinu.

Með frumvarpinu um almannavarnir fylgir tillaga mín um breytingu á lögreglulögum, þar sem ríkislögreglustjóra er heimilað með samþykki dómsmálaráðherra að bæta við varalögreglumönnum til að gæta öryggis.

Heimild af þessu toga var í lögreglulögum frá 1940 til 1996, þegar hún var felld úr gildi, en ég þekki ekki rökin fyrir því.

Björgunarsveitir hafa verið ómetanlegar sem hjálpar- og varalið við björgunarstörf, almannavarnir og önnur almenn gæslustörf. Lögregla kann hins vegar að þurfa á annars konar liðsauka að halda og hafa mér verið kynntar tillögur embættis ríkislögreglustjóra um 240 manna launað varalið lögreglu og almannavarna vegna sérstaks löggæsluviðbúnaðar. Yrðu varaliðsmenn kallaðir til starfa úr röðum björgunarsveitarmanna, slökkviliðsmanna, sjúkraliðsmanna, öryggisvarða, friðargæsluliða og fyrrverandi lögreglumanna eftir sérstaka þjálfun á vegum ríkislögreglustjóra.

Ríkislögreglustjóri heldur utan um þetta lið og búnað þess samkvæmt frumvarpinu, en hvort tveggja tæki mið af varðgæslu mikilvægra mannvirkja eða staða, landamæragæslu, verkefnum vegna öryggisgæslu, mannfjöldastjórnun, almennum löggæsluverkefnum, umferðarstjórn og sérstökum verkefnum.

Samkvæmt mati er talið að stofnkostnaður við að koma varaliðinu á fót yrði um 244 milljónir króna en árlegur rekstrarkostnaður um 222 m. kr.

Með þessum liðsafla gæti lögreglan kallað út um 1000 manna þjálfað lið til verkefna á sínu sviði en auk þess yrði síðan treyst á björgunarsveitir, slökkvilið og aðra eftir aðstæðum hverju sinni.

Þess má geta, að sérstaklega hefur verið samið við slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu um viðbrögð vegna hættu frá efna-, sýkla- eða geislavopnum. Viðbúnað á því sviði þarf enn að auka.

Í fjórða lið yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar er sagt, að tryggja verði íslenskum yfirvöldum lögheimildir til náins samstarfs við stjórnvöld og. alþjóðastofnanir, þar sem skipst er á trúnaðarupplýsingum

 Á grundvelli skýrrar lagaheimildar sem alþingi veitti á árinu 2006 var komið á fót sérstakri greiningardeild á vegum ríkislögreglustjóra um síðustu áramót og þar með var stigið mikilvægt skref til að framkvæma þennan lið í yfirlýsingunni. Á þeim fáu mánuðum, sem deildin hefur starfað, hefur hún sannað gildi sitt en hlutverk hennar er m.a. að greina áhættu í samstarfi við sambærilegar stofnanir hjá öðrum þjóðum.

Þá var ákveðið, að íslenskur tengslafulltrúi skyldi starfa í höfuðstöðvum Europol í Haag og er hann þegar tekinn til við að vinna úr upplýsingum með íslenska hagsmuni í huga.

Á liðnu sumri beitti ég mér fyrir úttekt sérfræðinga Evrópusambandsins í baráttunni gegn hryðjuverkum á stöðu íslensku lögreglunnar með hliðsjón af hryðjuverkavörnum. Þeir lögðu til að komið yrði á fót sérstakri þjóðaröryggisdeild, sem ég hef síðan kallað öryggis- og greiningarþjónustu, og mundi hún hafa heimildir til að hefja rannsókn mála, án þess að fyrir lægi rökstuddur grunur um, að afbrot hefði verið framið, auk þess sem alþingi kysi menn til eftirlits með starfseminni.

Í nýlegri skýrslu Evrópunefndar um tengsl Íslands og Evrópusambandsins segir, að Ísland hafi ekki aðgang að samstarfi ESB-ríkjanna í baráttunni gegn hryðjuverkum, utan þess, sem leiðir af Schengen-samstarfinu. Með stofnun sérstakrar öryggis- og greiningarþjónustu lögreglu hérlendis ætti Ísland hins vegar að geta tekið aukinn þátt í samstarfi ESB á þessu sviði, m.a. samstarfi við aðgerðamiðstöð ESB í Brussel (Situation Centre, SITCEN),  auk þess að eiga aðild að samtökum  landsbundinna öryggisstofnana aðildarríkja Evrópusambandsins, Noregs og Sviss. Einnig væri þá hægt að taka þátt í Club of Berne, sem er óformlegur samstarfsvettvangur fyrir yfirmenn frá öryggisstofnunum í Evrópu, en á þeim vettvangi er m.a. rætt um varnir gegn hryðjuverkum. Club of Berne er ekki hluti af starfsemi ESB og Noregur og Sviss eiga til að mynda fulltrúa á þeim samstarfsvettvangi.

Ég hef í samvinnu við réttarfarsnefnd og eftir samráð við fulltrúa þingflokka kannað, hver ætti að vera lögformlegur rammi starfs af þessu tagi. Getum við í því efni hæglega stuðst við reynslu nágrannaþjóða, til dæmis Dana og Norðmanna.

Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli var í sérstöku trúnaðarsamstarfi við stofnanir á vegum NATO, þegar embætti hans heyrði undir utanríkisráðuneytið. Með brotthvarfi varnarliðsins hefur utanríkisráðuneytið þessi verkefni enn í sínum höndum. Embætti sýslumannsins hefur nú verið flutt undir stjórn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og starfar sem embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Til að samhæfa öflun og úrvinnslu allra upplýsinga um öryggismál, hvort sem þær koma frá NATO eða öðrum, er eðlilegt, að þær renni nú til  hinnar nýju greiningardeildar og landhelgisgæslu, sem hafa lögbundið hlutverk við öryggisgæslu á sjó og landi. Slík skipan þjónar öryggishagsmunum þjóðarinnar best.

Í fimmta lið yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar segir, að unnið verði að því að koma á öflugu öruggu fjarskiptakerfi, Tetra kerfi, sem nái til alls landsins.

Hinn 20. október 2006 gengum við fjármálaráðherra og samgönguráðherra  frá samkomulagi við 112 hf. um stofnun nýs fjarskiptafyrirtækis, Öryggisfjarskipti ehf., sem mun byggja upp og reka fullkomið Tetra fjarskiptakerfi fyrir öryggis- og neyðarþjónustu um allt land.

Gert er ráð fyrir að uppbyggingu kerfisins ljúki nú í maí. Samið hefur verið við Slysavarnafélagið Landsbjörgu um notkun kerfisins og allir helstu viðbragðsaðilar í landinu hafa lýst yfir vilja til að nota það auk margra annarra.

Með þessu stóreflda Tetra kerfi eignast Íslendingar  fullkomnasta fjarskiptakerfi fyrir öryggis- og neyðarþjónustu sem völ er á. Kerfið þjónar öllu landinu og gegnir lykilhlutverki við leit og björgun.

Kostir Tetra eru fjölmargir. Það er langdrægt og í senn hóptalkerfi og sími. Allir sem koma að björgunaraðgerðum geta verið í sömu talhópum án aðildar utanaðkomandi aðila. Upplýsingar geta því borist hratt og vel og stjórnun og samhæfing aðgerða verður markvissari en ella. Unnt er að ferilvakta öll farartæki og mannskap og fylgjast þannig með aðgerðum af meiri nákvæmni en áður, auk þess sem ferilvöktun getur stytt viðbragðstíma verulega.

Í sjötta lið yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar er skýrt frá ráðstöfunum til að efla þyrluþjónustu landhelgisgæslunnar auk þess sem ný flugvél og nýtt varðskip verði keypt.

Áður en Bandaríkjamenn skýrðu frá því 15. mars 2006, að þeir yrðu á brott með allt sitt lið frá Íslandi fyrir 30. september 2006, hafði ríkisstjórnin tekið ákvarðanir um að efla þyrlusveit landhelgisgæslunnar.

Hinn 18. apríl 2006 var skýrt frá því, að ríkisstjórnin hefði samþykkt tillögu mína um, að leigðar yrðu til landsins tvær þyrlur af sambærilegri gerð og þá voru í rekstri hjá landhelgisgæslunni, starfsfólki gæslunnar yrði fjölgað til

að reka mætti fleiri þyrlur og halda úti tveimur þyrluvöktum allan sólarhringinn allan ársins hring.  Þá yrði búnaði til töku eldsneytis fyrir þyrlur komið fyrir um borð í varðskipum landhelgisgæslunnar. 

 

Þetta hefur gengið eftir og í flugflota landhelgisgæslunnar eru nú fjórar þyrlur og ein flugvél.

 

Verkefnið á þessari stundu er tvíþætt: Í fyrsta lagi að leita eftir tilboðum í nýjar stórar þyrlur og í öðru lagi að brúa bilið, þar til þær koma til sögunnar.

 

Hinn 20. mars síðastliðinn samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um framtíðarlausn á þyrlurekstri landhelgisgæslunnar en hún er í þremur liðum:

 

1.Áfram verði rætt við norsk stjórnvöld um sameiginlegt útboð Íslands og Noregs vegna kaupa beggja ríkja á nýjum, sérhönnuðum, stórum og langdrægum björgunarþyrlum samkvæmt þeirri útboðslýsingu, sem kynnt hefur verið í Noregi, og stefnt að útboði síðar á þessu ári. Jafnframt verði stefnt að nánu samstarfi ríkjanna við framtíðarrekstur þyrlanna.

2. Stefnt verði að því, að í þyrlusveit landhelgisgæslunnar verði áfram tiltæk a.m.k. ein minni þyrla, sem nýtt verði til þeirra flugverkefna, sem henni hentar.

3. Fram að afgreiðslu nýrra, stórra og langdrægra björgunarþyrla, væntanlega á árunum 2011-2014, leigi Landhelgisgæsla Íslands áfram vel búnar Eurocopter Super Puma og/eða Dauphin þyrlur til leitar- og björgunarflugs, svipaðar þeim sem landhelgisgæslan hefur rekið undanfarna rúma tvo áratugi.

Nokkrar umræður hafa orðið um staðarval fyrir þyrlur gæslunnar, eftir að þeim fjölgaði. Nú er komið að því að huga sérstaklega að þeim þætti í rekstri þyrlusveitarinnar.

Hinn 1. desember 2006 veitti ríkisstjórnin okkur fjármálaráðherra umboð til að ljúka samningum við ASMAR skipasmíðastöðina í Chile um smíði nýs varðskips og var ritað undir samningana 20. desember 2006 en skipið á að vera fullsmíðað á miðju ári 2009.

Varðskipið verður 93 m. langt og 16 m. breitt og togkraftur þess verður um 100 tonn sem gerir því kleift að draga stór flutningaskip. Varðskipið verður mun stærra, öflugra og betur búið en þau varðskip sem nú eru í rekstri. Ægir og Týr eru um 71 m á lengd og 10 á breidd og um 1.300 brúttótonn með 56 tonna togkraft. Fjöldi í áhöfn nýja varðskipsins verður svipaður og á varðskipum LHG.

Úrvinnsla á tilboðum vegna nýrrar flugvélar fyrir landhelgisgæsluna er á lokastigi

Góðir áheyrendur.

Þetta eru þau verkefni í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem falla beint undir verksvið mitt sem dóms- og kirkjumálaráðherra. Að þeim öllum hefur verið unnið.

Þrír aðrir liðir eru í þessari yfirlýsingu.

Hinn sjöundi er um að komið verði á laggirnar samstarfsvettvangi fulltrúa stjórnmálaflokkanna, þar sem fjallað verði um öryggi Íslands á breiðum grundvelli.

Hér starfaði öryggismálanefnd með fulltrúum stjórnmálaflokkanna allan níunda áratuginn og voru samdar skýrslur á hennar vegum. Þótti það almennt gefa góða raun. Þegar ég varð formaður Evrópunefndar sumarið 2004 leit ég til reynslunnar af störfum okkar í öryggismálanefnd við skipulag starfa nefndarinnar. Niðurstaða okkar í Evrópunefnd varð hins vegar sú að láta ekki vinna fyrir okkur skýrslur heldur að ljúka starfi okkar með skýrslu nefndarinnar, sem samin var af Hreini Hrafnkelssyni, starfsmanni okkar, og byggðist á rannsóknum nefndarinnar og fundum með fjölmörgum sérfræðingum.

Ég tel almennt gagnlegt, að komið sé á laggirnar nefndum með fulltrúum stjórnmálaflokkanna til að vinna að úttektum á mikilvægum sviðum utanríkis- eða öryggismála.

Áttundi liður í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar snertir breytingar innan stjórnarráðsins, þegar verkefni færast frá utanríkisráðuneyti til annarra.

Okkur er tamt að hugsa um öryggis- og varnarmál þjóðarinnar sem utanríkismál af þeirri einföldu ástæðu að íslenska utanríkisþjónustan annaðist öll samskipti við herlið Bandaríkjamanna og úrlausn mála tengdum framkvæmd varnarsamningsins.  Við höfum áratuga langa reynslu af því að ræða við aðra um það, hvað þeir kunni að vilja gera til að tryggja öryggi Íslands og hafsvæðanna umhverfis landið.

 

Nú þegar varnarliðið er farið og engin landsvæði geta lengur kallast varnarsvæði í skilningi varnarsamningsins, eftir að Bandaríkjaher skilaði þeim aftur til íslenskra stjórnvalda, breytist hlutverk einstakra ráðuneyta í samræmi við það. Samgönguráðuneytið mun að sjálfsögðu fara með yfirstjórn Keflavíkurflugvallar eins og annarra flugvalla og eins og hér hefur verið rakið axla stofnanir á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins aukna ábyrgð í öryggismálum.

 

Lokaliðurinn í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006 snýst um, að gerðar verði ráðstafanir til að lesa úr öllum merkjum frá ratsjárstofnun, sem þýðingu hafa varðandi eftirlit með flugvélum í lofthelgi Íslands.

 

Ég tel, að eftirlit með þessum merkjum eigi annars vegar að vera hjá flugumferðarstjórum og hins vegar þeim, sem manna vaktstöðina við Skógarhlíð auk þess sem þau séu send inn í eftirlitskerfi NATO. Með öllu er óþarft að halda úti sérstakri vaktstöð vegna þeirra merkja, sem aflað er með tækjum ratsjárstofnunar.

 

 

Góðir áheyrendur!

 

Íslensk stjórnvöld hafa ekkert umboð til þess að sinna hernaðarlegum málum. Tillögur um aukinn hlut okkar Íslendinga á því sviði hafa fallið í grýtta jörð.  Þá eru landvarnir að víkja fyrir annars konar öryggisráðstöfunum, þar sem fremur er treyst á lögreglumenn en hermenn.

 

Við Íslendingar erum einfaldlega þiggjendur, þegar um hernaðarlegt samstarf við aðra er að ræða. Við getum tekið á móti hervélum og herskipum hér á landi og lagt ríkjum borgaralegan stuðning við æfingar. Við erum hins vegar ekki virkir þátttakendur í gagnkvæmu samstarfi við önnur ríki á sviði öryggismála nema með aðild borgarlegra stofnana.

 

Borgaralegir þættir öryggis- og varnarmála miða að því að tryggja öryggi í fjarskiptum, upplýsingatækni, samgöngum og viðskiptum, treysta ytri landamæri, koma í veg fyrir að hættu- eða upplausnarástand skapist vegna skipulagðrar glæpastarfsemi, hryðjuverka og ólögmætra innflytjenda, og koma í veg fyrir að lönd verði griðastaður til fjármálamisferla eða hvers konar illvirkja.

 

Við verðum að búa stofnunum, sem að þessum öryggisþáttum koma, þann starfsgrundvöll, að þær hafi burði til þess að takast á við krefjandi verkefni hér heima og erlendis í samstarfi við systurstofnanir sínar. Fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og stofnana þess eru virkir þátttakendur í viðræðum við aðrar þjóðir um framtíðarsamvinnu á þessum sviðum.

 

Hér að framan hef ég rakið áherslubreytingar í þessa átt í samstarfi okkar við Bandaríkjamenn samkvæmt samkomulaginu á síðasta ári og við Evrópuþjóðir á grundvelli Schengen-samstarfsins.

Landhelgisgæslan  á náið og gott samstarf við Dani og  Norðmenn eins og aðrar þjóðir, sem láta sig öryggismál á Norður-Atlantshafi varða. Hinn 11. janúar síðastliðinn rituðum við Sören Gade, varnarmálaráðherra Dana, undir samkomulag um nánara samstarf Landhelgisgæslu Íslands og danska flotans við eftirlit, leit og björgun á N-Atlantshafi.  Norðmenn hafa lýst sig fúsa til þess að ganga til formlegs samstarfs við landhelgisgæsluna um fleira en kaup á nýjum björgunarþyrlum.

Þá er unnið að því, að við Íslendingar verðum aðilar að samstarfi Breta, Kanadamanna og Bandaríkjamanna um leitar- og björgunarstarf á Norður- Atlantshafi.

Sérsveit ríkislögreglustjóra hefur verið efld og almennur vilji er til þess, að hún sé búin og þjálfuð til að takast á við hin erfiðustu verkefni. Það markmið næst ekki nema með góðu samstarfi við sambærilegar sveitir í öðrum löndum og að efnt sé til æfinga með þeim.

 

Góðir áheyrendur!

 

Á tímum kalda stríðsins jókst hernaðarlegt mikilvægi Íslands í réttu hlutfalli við spennuna í samskiptum austurs og vesturs. Á komandi árum mun mikilvægi siglingaleiðanna umhverfis Ísland stóraukast vegna flutninga á olíu og gasi frá Barentshafi til Norður-Ameríku.

 

Hvergi er lögð meiri áhersla á að tryggja öryggi en á slíkum siglingaleiðum og þar á ég við öryggi í víðtækum skilningi, bæði gegn hryðjuverkum og sjóslysum. Mengunarslys vegna skaða við olíu- eða gasflutninga eru ein skelfilegustu umhverfispjöll samtímans.

 

Nýskipan Landhelgisgæslu Íslands verður að taka mið af þessum breytingum. Hún þarf einnig að taka mið af því, að ferðum skemmtiferðaskipa með þúsundir manna innan borðs fjölgar ár frá ári hér á okkar slóðum.

 

Ekkert eitt ríki getur glímt við stórslys á hafi úti, en sérhvert strandríki verður að búa yfir búnaði til fyrstu hjálpar, sem dregur úr bráðri hættu og dugar, þar til fleiri koma á vettvang. Þetta gerir ekki neinar smákröfur til okkar Íslendinga, ef svo fer fram sem horfir um stórskipaferðir.

 

Með hliðsjón af áherslu bandaríska þingsins og Bandaríkjastjórnar á að tryggja öryggi á siglingaleiðum með olíu og gas, sýnir það mikla skammsýni og raunar óraunsæi hjá bandarískum yfirvöldum að kalla allan öryggisviðbúnað sinn frá Íslandi.

 

Núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna er með fangið svo fullt af alþjóðlegum vandamálum, að hún hefur hvorki tök né tíma til að glíma við þann vanda allan – og ekki er hann betri, sé hann heimatilbúinn.

 

Ekki kæmi á óvart, þegar fram líða stundir, að bandarískir sérfræðingar í öryggismálum mætu stöðuna þannig, að hagsmunum þeirra yrði enn á ný betur borgið á Norður-Atlantshafi með eigin viðbúnaði á Íslandi. Þá mun á það reyna, hvort viðskilnaðurinn á árinu 2006 lokaði dyrum hér á landi til frambúðar.

*

 

Tuttugasta öldin var mannkyni grimm, en Íslendingum góð, hin langbesta í allri sögu þjóðarinnar.

 

Á seinni helmingi  liðinnar aldar vegnaði Íslendingum betur en flestum þjóðum og betur en nokkru sinni fyrr í eigin sögu og enn er mikið hagsældarskeið hér á landi. Fjöreggið er í okkar eigin höndum og við verðum að gæta þess.

 

Við verðum að hafa kjark til að leysa úr þeim viðfangsefnum, sem við blasa. Þau hverfa ekki með því að sópa þeim undir teppið eða með því að telja sér trú um, að veröldin sé svo góð, að ekki sé þörf á varúðarráðstöfunum, jafnt með hervaldi og öðrum viðbúnaði.

 

Öryggis- og varnarmál ber ekki hátt nú í aðdraganda þingkosninganna. Sagt hefur verið að enginn vinni kosningar með slík mál á oddinum, þegar vel gengur, en hins vegar sé auðvelt að tapa kosningum, ef eitthvað fer úrskeiðis og öryggi borgaranna er ógnað.

 

Ef menn hafa ekki stefnu flokka í öryggis- og varnarmálum í huga, þegar þeir greiða atkvæði sitt, geta þeir auðveldlega vaknað upp við þann vonda draum að kosningum loknum, að valdhafar séu tilbúnir til að fórna því, sem vel hefur reynst og láta frekar óskhyggju ráða en kalt mat.

 

Við skulum minnast þess, að stefnan ein segir ekki alla söguna, því að reynslan er ólygnust og hún getur kennt okkur margt um það, hverjum sé best treystandi til að fara með öryggismál okkar af nauðsynlegri festu.

 

Íslandssagan geymir vissulega dæmi um skjót sinnaskipti í öryggis- og varnamálum. Samtök um vestræna samvinnu voru einmitt stofnuð fyrir tæpum 50 árum til að vinna málstað friðar og öryggis fylgi, þegar illa horfði vegna afstöðu stjórnvalda til samstarfs vestrænna ríkja.

 

Ævintýramennska íslenskra stjórnvalda í öryggis- og varnarmálum hefur ávallt verið hættuleg. Hættan minnkar ekki við aukna ábyrgð okkar sjálfra á þessum mikilvæga málaflokki. Einmitt þess vegna skiptir starf Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs enn miklu. Hér hafa menn komið saman til að ræða þessi mál af raunsæi og í leit að bestu úrræðum fyrir land og þjóð.

 

Ég vona, að erindi mitt hér í dag, sýni, að íslenskum stjórnvöldum hefur verið full alvara með aðgerðum sínum í öryggismálum undanfarna mánuði. Ef haldið er áfram á sömu braut er ég viss um, að enn mun okkur takast í samvinnu við vinveittar nágrannaþjóðir að tryggja í senn öryggi okkar sjálfra og á Norður-Atlantshafi.