20.2.2003

Skuldasvar borgarstjóra

Borgarstjórn, 20. febrúar, 2003

 

 

 

Á síðasta borgarráðsfundi afhenti borgarstjóri okkur sjálfstæðismönnum svar við spurningum okkar, sem voru til umræðu hér á síðasta fundi og lúta að skuldasöfnun Reykjavíkurborgar og nauðsyn þess að gera úttekt á henni.

 

Ég vil þakka borgarstjóra fyrir svarið. Þar er allt staðfest, sem við sjálfstæðismenn höfum sagt um þróun fjármála borgarinnar og ekki hnekkt neinu af því, sem fram hefur komið í máli okkar.  Með svari borgarstjóra er enn hið sama staðfest og talsmenn R-listans viðurkenndu á síðasta fundi borgarstjórnar, að skuldir Reykjavíkurborgar hafa margfaldast frá því að þeir tóku við fjármálastjórn borgarinnar.

 

Verður sífellt sérkennilegra að eiga orðastað við fulltrúa R-listans um þetta mál í ljósi þess, að þeir hafa hvað eftir annað lofað Reykvíkingum að lækka skuldir þeirra. Nú er staðan hins vegar orðin sú, að skuldabagginn á mann er þyngstur hér í Reykjavík, þegar borið er saman við stóru sveitarfélögin í landinu, það er 733 þúsund krónur.

 

Mér finnst það ekki sýna mikið raunsæi hjá nýjum borgarstjóra að tala um þá þróun, sem hann lýsir í svari sínu, eins og til fyrirmyndar sé og hún sé einmitt á þann veg, sem vönum manni úr fyrirtækjarekstri líki. Að hafa endaskipti á hlutunum lofar aldrei góðu og að verja vondan málstað með innantómum slagorðum breytir ekki þeirri staðreynd, að Reykvíkingar verða  fyrr eða síðar að greiða þessar skuldir. Er sorglegt að verða vitni að því, þegar talsmenn R-listans fagna því að hafa kastað þessum byrðum á komandi kynslóðir og telja sér það til sérstaks hróss.

 

Það kemur mér á óvart, að borgarstjóri skuli ekki draga skarpari ályktun af eigin svörum og vísa til tæknilegra þátta og uppgjörs frá árinu 1994 í stað þeirrar pólitísku stefnumörkunar, sem hefur leitt til þess, að skuldir Reykvíkinga hafa  hækkað um 1100% , þegar litið er á tímann frá árslokum 1993 til ársloka 2003, eins við sjálfstæðismenn gerum.

 

Í svari borgarstjóra er því miður ekki miðað við þessi sömu ártöl. Hefði það verið betra til að samanburðurinn á okkar tölum og þeim, sem notaðar eru í svarinu, væri enn skýrari. Þetta er þó aðeins tæknilegt atriði, sem ræður engu um niðurstöðuna – hún er á þann veg í báðum tilvikum, að hreinar skuldir borgarinnar hafa vaxið um mörg hundruð prósent á síðustu árum, þegar staða efnahagsmála hefur verið einstaklega góð og ríkissjóður hefur til dæmis kappkostað að greiða niður skuldir sínar.

 

Í svari borgarstjóra er leitað leiða til að gera hlut ríkissjóðs verri en fram kemur í þeim tölum, sem við höfum birt, og talið, að með því sé staða Reykjavíkurborgar bætt í samanburðinum. Þegar allt er talið segir í svari borgarstjóra, að upplýsingar bendi til, að skuldir ríkisins hafi aukist um 10% á föstu verðlagi frá 1994 til 2001. Hins vegar hafi hreinar skuldir Reykjavíkursamstæðunnar vaxið um 389% á tímabilinu 1994 til 2002. Segir þetta meira en mörg orð um muninn á því, hvernig stjórnmálamenn og opinberir aðilar hafa nýtt sér góðærið til að búa í haginn fyrir framtíðina.

 

Um einstök atriði í svari borgarstjóra vil ég segja þetta:

 

Efst á blaðsíðu þrjú segir, að skatttekjur standi að baki skulda borgarsjóðs en framtíðartekjur af seldri þjónustu standi undir skuldum fyrirtækja borgarinnar. Þetta er ekki rétt. Nefni ég tvö dæmi því til staðfestingar. Í fyrsta lagi hefur staða borgarsjóðs verið styrkt með millifærslum frá Orkuveitu Reykjavíkur og óeðlilega háum arðgreiðslum fyrirtækisins til Reykjavíkurborgar. Í öðru lagi leggur borgarsjóður fram fé til Félagsbústaða hf., samkvæmt fjárhagsáætlun 2001 nam þetta framlag til dæmis 268 milljónum króna auk 80 milljóna króna til hlutafjárkaupa.

 

Þegar rætt er um fjárfestingar borgarsjóðs og fyrirtækja hans á árunum 1994 til 2002 og nefnt að þær hafi numið 75 milljörðum króna, er nauðsynlegt að hafa í huga, að samkvæmt fjárhagsáætlun 2003 eru tilgreindar afskriftir fastafjármuna og nema þær 6,5 milljörðum króna. Miðað við að þær afskriftir endurspegli árlega úreldingu og virðisrýrnun varanlegra fastafjármuna (fasteigna og annarra mannvirkja, s.s. mannvirki OR og Reykjavíkurhafnar), eins og þeim er ætlað að gera, þá hefði þurft að fjárfesta fyrir um 58,5 milljarða króna á þessum 9 árum (6,5 x 9) til að halda óbreyttri eignastöðu Reykjavíkurborgar. Rauneignaaukning á umræddu árabili er því aðeins 16,5 milljarðar króna. (75 Mkr – 58,5 Mkr.) Hreinar skuldir borgarinnar á þessu árabili hækkuðu um 40,4 milljarða. Samkvæmt þessu hefur meginhluti þessarar skuldaaukningar eða 23,9  milljarðar kr. ( 40,4 – 16,5) farið til að halda óbreyttri eignastöðu borgarinnar. Með öðrum orðum þá hefur rekstrarafgangur borgarinnar (borgarsjóðs og fyrirtækja) verið langt frá því að halda í horfinu.  Þetta styður það sem við sjálfstæðismenn höfum margoft bent á að það er augljóst að það er eitthvað verulega mikið að í rekstri borgarinnar. Þetta ætti nýr borgarstjóri að þekkja eftir að hafa stundað rekstur á hinum almenna markaði.

 

Mér koma á óvart skýringarnar á bls. 4, þegar vísað er til reglugerðar félagsmálaráðuneytisins og sagt, að til hennar megi rekja nýja 5,8 milljarði króna í útkomuspá ársins 2002, þegar litið er til skuldaaukingar á því ári. Það er varla unnt að kenna félagsmálaráðuneytinu um það til dæmis, að skuldir Orkuveitu Reykjavíkur aukast um 2,6 milljarði króna vegna dótturfélaga – ekki dettur mönnum í hug, að eigna nýjum reglum ráðuneytisins, hvernig til hefur tekist við rekstur Línu.nets. Einkennilegt er einnig að sjá skuldir Félagsbústaða aukast um einn milljarð, án þess að gert hafi verið ráð fyrir því í áætlun. Rekstur fyrirtækisins er í svo föstum skorðum, að þessi tala kallar á aðrar skýringar en fram koma í svari borgarstjóra.

 

Ég vek athygli á því, að þess er ekki sérstaklega getið til skuldaaukningar umfram áætlun, að keyptar voru eignir af Jóni Ólafssyni, sem kenndur er við Norðurljós eða Skífuna, fyrir 140 milljónir skömmu eftir borgarstjórnarkosningarnar. Lóðakaupin af Jóni Ólafssyni, utan fjárhagsáætlunar, eru eina áþreifanlega dæmið um sérstakt framtak borgarinnar á miðborgarsvæðinu og staðfesta enn sérstöðu þess kaupsamnings.

 

Þegar birtar eru tölur um skuldir í lok árs 2002, undrast ég, að ekki skuli notaðar tölur úr útkomuspá ársins eins og þær voru kynntar okkur í samstæðureikningnum fyrir árið 2003. Tölurnar, sem þar birtast, eru 3,7 milljörðum krónum hærri en í yfirliti borgarstjóra. Er nauðsynlegt að fá skýringu á þessu.

 

Í niðurlagi svars borgarstjóra felst þýðingarmikil viðurkenning á réttmæti þess, sem við sjálfstæðismenn höfum sagt, þegar rætt er um færslur milli Félagsbústaða hf. og borgarsjóðs annars vegar og Orkuveitu Reykjavíkur og borgarsjóðs hins vegar. Segir orðrétt í svarinu: „Reiknað á verðlagi í árslok 2002 hafði stofnun þessara tveggja fyrirtækja í för með sér lækkun á hreinni skuld borgarsjóðs um 8 milljarða króna. Hins vegar hafði þetta ekki áhrif á skuldir samstæðunnar.“ Ég endurtek: „Hins vegar hafði þetta ekki áhrif á skuldir samstæðunnar.“

 

Þetta er kjarninn í því, sem við höfum sagt: Það nægir ekki að líta á fegraðan borgarsjóð, þegar rætt er um skuldir Reykvíkinga – það verður að líta á skuldir Reykjavíkursamstæðunnar. Aðeins með því fáum við rétta mynd af þeim skuldum, sem hvíla á Reykvíkingum fyrir tilverknað R-listans.

 

Mér finnst ástæða að harma, að borgarstjóri fellst ekki á tillögu okkar um úttekt á fjármálum borgarinnar, þegar hann tekur við ábyrgðarmiklu starfi sínu. Ég hefði talið skynsamlegt fyrir hann að hafa slíka úttekt í handraðanum, þegar tekið verður til við að leggja fjárhagslega mælistiku á verk hans.

 

Í lok svars síns leggur borgarstjóri áherslu á, að skipuð hafi verið sparnaðarnefnd til að „fara yfir öll útgjöld borgarinnar og leita leiða til að auka á hagkvæmni og skilvirkni í rekstri.“ Opinberir aðilar skipa ekki slíkar nefndir fyrr en þeir sjá, að í óefni er komið. Það sjáum við, þegar við íhugum 30% frávik frá skuldaáætlun á síðasta ári og þær veiku forsendur, sem eru fyrir fjárhagsáætluninni fyrir árið 2003. Við höfum áður rætt hér í borgarstjórn um þessa sparnaðarnefnd, meðal annars þegar R-listinn hafnaði öllum tillögum okkar sjálfstæðismanna til sparnaðar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2003. Við munum óhikað flytja fleiri tillögur til sparnaðar í rekstri Reykjavíkurborgar, hvað sem líður þessari nefnd.

 

Við störfum nú samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2003. Þegar hún var samþykkt lýsti ég áhyggjum yfir því, hvernig staðið yrði að framkvæmd hennar vegna skorts á pólitískri forystu hér í borgarstjórn. Þær áhyggjur hafa ekki minnkað síðustu vikur og svar borgarstjóra um fjármálastöðu borgarinnar dregur ekki úr þeim.  Við erum ekki að fjalla hér um tæknilegt úrlausnarefni heldur hvernig staðið er að því að framkvæma fyrirheit við kjósendur. R-listinn lofaði að lækka skuldir Reykvíkinga. Þvert á þau loforð hafa þær margfaldast undir stjórn hans. Viðurkenningin sem fengist hefur á þeirri staðreynd er mikilvæg.

 

Enn segist R-listinn vilja minnka skuldir, þótt þær vaxi ár frá ári og um 30% umfram áætlun á árinu 2002. Er það af ótta við, að það stefni í sömu átt á árinu 2003, að borgarstjóri treystir sér ekki til að miða við fjárhagsáætlun þess árs í svari sínu?