11.10.2025

200 mílna lögsaga í 50 ár

Morgunblaðið, laugardagur 11. október 2025.

Miðvikudaginn 15. október verða 50 ár liðin frá því að efnahagslögsaga Íslands var færð út í 200 sjómílur. Frá þeim degi árið 1975 fram til 1. júní 1976 var þriðja þorskastríðið háð. Harkan þá var meiri en í fyrri þorskastríðunum tveimur. Fyrir Guðs mildi týndi enginn lífi þótt litlu munaði stundum.

Þegar Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, flutti stefnuræðu sína á alþingi 5. nóvember 1974 boðaði hann að á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem þá var haldin, ætlaði ríkisstjórnin að vinna að stuðningi við 200 sjómílna efnahagslögsögu.

518297577_1309534911174945_8267627518237468078_nHorfinn heimur - mynd: Iðnaðarsafnið á Akureyri.

Óljóst var í nóvember 1974 hvort og hvenær samkomulag næðist á ráðstefnunni um 200 mílurnar. Kynnti Geir þá stefnu að næðist ekki heildarsamkomulag ríkja á milli ætlaði ríkisstjórnin að reyna að fá skjalfestan stuðning sem flestra ríkja við sem víðtækasta efnahagslögsögu því að fiskveiðilögsaga Íslands yrði stækkuð í 200 sjómílur árið 1975.

„Útfærsla fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur á næsta ári er lokamarkið í þeirri viðleitni og stefnu Íslendinga, sem mörkuð var með landgrunnslögunum frá 1948, og lokasigur í baráttunni fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar,“ sagði Geir í stefnuræðunni.

Sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins, Matthías Bjarnason, gaf út reglugerð um 200 mílna útfærsluna 15. júlí 1975. Jafnframt kynnti forsætisráðherra að eðlilegt væri að hefja viðræður við þær þjóðir sem þess óskuðu þar sem 200 mílurnar hefðu ekki hlotið alþjóðlegt samþykki, þótt allt stefndi til þeirrar áttar.

Taldi Geir að ósveigjanleg afstaða okkar til viðræðna gæti styrkt þær þjóðir í sessi sem vildu takmarka rétt strandríkja sem mest, auk þess yrðu menn að meta hvort þeir teldu sig ná betri árangri við fiskvernd með eða án samninga.

Hér verður saga 200 mílna útfærslunnar ekki rakin. Guðmundur J. Guðmundsson sagnfræðingur segir hana í bókinni Síðasta þorskastríðið sem kom út árið 2007.

Árið áður, 2006, gaf Hafréttarstofnun Íslands út bókina Þorskastríðin þrjú eftir Guðna Th. Jóhannesson, sagnfræðing og síðar forseta Íslands. Þar rekur hann í stuttu máli sögu landhelgismálsins 1948-1976. Í niðurstöðukafla bókarinnar segir Guðni Th.:

„Hafi þorskastríðin snúist um sjálfstæði þjóðarinnar má segja að þeim sé ekki lokið því sjálfstæðisbaráttu ljúki í sjálfu sér aldrei. Þeir Íslendingar sem hafa barist gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa líka haldið á lofti þeim rökum að ekki megi hleypa erlendum fiskiskipum inn í lögsöguna á nýjan leik því til hvers hafi þá verið barist í öll þessi ár?“

Í bókarlok segir Tómas H. Heiðar, forstöðumaður hafréttarstofnunarinnar og forseti Alþjóðlega hafréttardómsins, að þorskastríðin þrjú hafi í raun verið hluti af sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Á hinn bóginn sé ljóst að barátta Íslendinga fyrir yfirráðum yfir auðlindum hafsins kringum landið haldi áfram og henni ljúki í raun aldrei. Standa þurfi dyggan vörð um það sem áunnist hafi og glíma við ný og brýn viðfangsefni á sviði hafréttar og séu landgrunnsmálin gott dæmi um það.

Hér á þessum vettvangi var fyrr á árinu fagnað sögulegum árangri í landgrunnsbaráttunni þegar yfirráð Íslands á 570 mílna landgrunni suður Reykjaneshrygg hlutu alþjóðlega viðurkenningu.

Í baráttunni frá 1948 til 2025 fyrir yfirráðum yfir Íslandsmiðum og landgrunninu sannaðist að góðir hlutir gerast hægt. Vilji menn hins vegar eyðileggja árangur áratuganna þarf ekki nema eitt pennastrik til þess.

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur, Samfylkingu, hefur boðað að fyrir árslok 2027 verði þjóðin spurð um skref inn í Evrópusambandið. Þegar kannað er hvert þetta skref verði fást ekki svör. Látið er eins og haldið verði áfram viðræðum sem hófust árið 2009! Ríkisstjórn Íslands sleit þeim fyrir sitt leyti í mars 2015.

Stjórnarflokkarnir boðuðu þjóðaratkvæðagreiðsluna fyrir tæpu ári. Síðan hefur ekki verið upplýst um hvert sé efnislegt markmið skrefsins sem ríkisstjórnin vill stíga. Viðreisn hafði frumkvæði að atkvæðagreiðslunni við myndun ríkisstjórnarinnar. Flokkurinn var stofnaður um slíka atkvæðagreiðslu. Hann hverfur kannski úr sögunni að henni lokinni?

Hinir sem hugsa um efni málsins vilja vita hvert sé viðræðumarkmiðið. Þar skipta 200 mílurnar og landgrunnið höfuðmáli. Ætlar ríkisstjórnin að krefjast varanlegra sérreglna til að tryggja íslensk yfirráð á um 1,2 milljón ferkílómetra svæði umhverfis landið? Eða er það ætlun ríkisstjórnarinnar að leggja þetta svæði í ESB-púkkið?

Án varanlegrar sérreglu yrði hafsvæðið frá 12 til 200 mílna við Ísland að union waters – sambandshafsvæði – þar sem öll aðildarríki hefðu rétt til veiða samkvæmt reglunni um hlutfallslegan stöðugleika (e. relative stability). Reglan gildir um veiðar á ESB-hafsvæðum og ræðst veiðikvóti hvers ríkis af henni. Ný aðildarríki sitja við sama borð og þau sem fyrir eru.

Til að halda fullum yfirráðum yfir 200 mílunum þyrfti Ísland: (1) að fá undanþágu frá reglum ESB um sameiginleg hafsvæði og kvótahlutföll; (2) að festa þessa undanþágu sem varanlegt ákvæði í aðildarsamningnum og (3) að fá samþykki allra ESB-ríkja fyrir henni, ríkisstjórna og þjóðþinga.

Slík undanþága yrði fordæmalaus. Eigi að tryggja hana verður strax að hefjast handa við það. Ríkisstjórnin þegir um þetta álitamál. Hún ætti að minnast 50 ára afmælis 200 mílnanna með því að lýsa ævarandi varðstöðu um þær. Þögnin er því miður vísbending um annað – svik við landhelgismálstaðinn.