22.3.2025

Yfirráð með lagarökum

Morgunblaðið, laugardagur 22. mars 2025

Frétt­ir eru oft­ast um mál eða at­vik sem valda ekki endi­lega þátta­skil­um. Þar er lýst gangi hluta í þekkt­um far­vegi eða at­vik­um sem kalla á at­hygli þá stund­ina. Í vik­unni sem nú er að líða var skýrt frá niður­stöðu í stóru hags­muna­máli þjóðar­inn­ar sem unnið hef­ur verið að ára­tug­um sam­an og mark­ar tíma­mót.

Sam­kvæmt haf­rétt­ar­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna (SÞ) ræður strand­ríki sjálf­krafa yfir land­grunni (þ.e. botni og neðri jarðlög­um) í efna­hagslög­sögu sinni út að 200 sjó­míl­um frá grunn­lín­um, hvort sem ríkið nýt­ir þenn­an rétt eða ekki. Í sátt­mál­an­um er jafn­framt gert ráð fyr­ir að strand­ríki geti eign­ast rétt til yf­ir­ráða á land­grunni utan 200 mílna.

Alþingi samþykkti 14. mars 1983 til­lögu frá Eyj­ólfi Kon­ráði Jóns­syni og Pétri Sig­urðssyni, þing­mönn­um Sjálf­stæðis­flokks­ins, þar sem rík­is­stjórn­inni var falið „að gera ráðstaf­an­ir til að tryggja form­lega þau ótví­ræðu rétt­indi til hafs­botns­ins á Reykja­nes­hrygg og út frá hlíðum hans sem Ísland á til­kall til sam­kvæmt 76. gr. haf­rétt­ar­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna“.

Eyj­ólf­ur Kon­ráð fylgdi kröf­unni um rétt­inn á Reykja­nes­hrygg eft­ir með til­lög­um á alþingi til árs­ins 1993. Raun­ar barðist hann ekki síður fyr­ir rétti Íslend­inga á Rockall-svæðinu und­an strönd Bret­lands. Það mál er enn óleyst.

Landgrunn-Islands-a-Reykjaneshrygg-og-AEgisdjupiKortið er af vefsíðu stjórnarráðsins. Rauðu línurnar sýna svæði á landgrunni utan 200 mílna sem falla undir yfirráðasvæði Íslands. Ægisdjúp í norðaustri og á Reykjabeshrygg í suðvestri.

Ut­an­rík­is­ráðuneytið til­kynnti mánu­dag­inn 17. mars 2025 að land­grunns­nefnd SÞ hefði 14. mars kom­ist að mjög hag­felldri og far­sælli niður­stöðu varðandi rétt Íslands á Reykja­nes­hrygg að loknu um ald­ar­fjórðungs ferli.

Árið 2000 hóf ut­an­rík­is­ráðuneytið mark­viss­an und­ir­bún­ing grein­ar­gerðar um rétt Íslands á Reykja­nes­hrygg til að leggja fyr­ir land­grunns­nefnd SÞ. Tóm­as H. Heiðar, þjóðréttar­fræðing­ur ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins, nú for­seti Alþjóðlega haf­rétt­ar­dóms­ins í Ham­borg, leiddi starfið af hálfu ráðuneyt­is­ins til 2014 þegar Birg­ir Hrafn Búa­son, deild­ar­stjóri lög­fræðisviðs, tók við verk­efn­inu.

Hall­dór Ásgríms­son var ut­an­rík­is­ráðherra árið 2000 og gerði rík­is­stjórn­in þá ráð fyr­ir að það þyrfti um einn millj­arð króna til að kort­leggja land­grunnið í suðri.

Í sept­em­ber 2021 svaraði Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra spurn­ingu frá Andrési Inga Jóns­syni, þing­manni Pírata, um gerð grein­ar­gerða ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins vegna af­mörk­un­ar land­grunns­ins.

Var meðal ann­ars spurt um heild­ar­kostnað, þar með talið við rann­sókn­ar­vinnu við gerð grein­ar­gerðanna. Ráðherra sagði að upp­reiknuð sam­an­tekt á kostnaðinum lægi ekki fyr­ir, ætla mætti að hann væri ríf­lega millj­arður króna frá ár­inu 2000. Meg­in­hluti kostnaðar­ins væri vegna rann­sókn­ar­vinnu, mæl­inga og úr­vinnslu sem hefði verið unn­in af stofn­un­um og fræðimönn­um.

Auk sér­fræðinga ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins nefndi ráðherr­ann sér­fræðinga frá Íslensk­um orku­rann­sókn­um (áður Orku­stofn­un), Há­skóla Íslands, land­helg­is­gæsl­unni, öðrum ráðuneyt­um og fyrr­ver­andi full­trúa í land­grunns­nefnd Sam­einuðu þjóðanna.

Þegar haf­rétt­ar­sátt­mál­inn var gerður árið 1982 var al­menn­ur skiln­ing­ur og helsta sér­fræðings okk­ar, Hans G. And­er­sen sendi­herra, að 350 sjó­míl­ur væri há­mark til yf­ir­ráða á land­grunni utan 200 mílna á Reykja­nes­hrygg þar sem hann teld­ist „neðan­sjáv­ar­hrygg­ur“ í merk­ingu haf­rétt­ar­sátt­mála SÞ. Í grein­ar­gerðinni sem send var land­grunns­nefnd SÞ árið 2009 taldi ut­an­rík­is­ráðuneytið hins veg­ar að rök væru fyr­ir því að skil­greina Reykja­nes­hrygg sem „neðan­sjáv­ar­hæð“ í merk­ingu sátt­mál­ans og þar með stækka yf­ir­ráðasvæði Íslands á hryggn­um.

Eft­ir um­fangs­mikla um­fjöll­un land­grunns­nefnd­ar SÞ taldi hún ekki full­nægj­andi gögn fyr­ir hendi til að fall­ast að öllu leyti á kröf­ur Íslands í grein­ar­gerðinni frá 2009 um land­grunn utan 350 sjó­mílna. Af þeim sök­um var grein­ar­gerðin end­ur­skoðuð á grund­velli viðbótar­rann­sókna og þró­un­ar­inn­ar í land­grunns­mál­un­um. Einnig var lagt mat á niður­stöður land­grunns­nefnd­ar­inn­ar í mál­um annarra. Var end­ur­skoðuð grein­ar­gerð send land­grunns­nefnd SÞ í lok mars 2021.

Nú fjór­um árum síðar ligg­ur fyr­ir end­an­leg niðurstaða land­grunns­nefnd­ar­inn­ar um að ís­lensk yf­ir­ráð nái 570 míl­ur suður á Reykja­nes­hrygg­inn.

Efna­hags­lega kann þetta að reyn­ast þjóðhags­lega mjög mik­il­vægt fyr­ir Ísland til lengri tíma. Niðurstaðan frá 14. mars 2025 stækk­ar svæði þar sem Íslend­ing­ar ráða land­grunnsauðlind­um úr um 758 þúsund ferkm (efna­hagslög­sag­an inn­an 200 mílna) í tölu­vert meira en eina millj­ón ferkm.

Ekki er ljóst hvort eða hvaða auðlind­ir á Reykja­nes­hrygg eru nýt­an­leg­ar. Ólík­legt er að þar finn­ist olía og gas. Á hryggn­um er mik­ill jarðvarmi og eld­virkni. Neðan­sjáv­ar falla þá til ýmis fá­gæt jarðefni. Þekk­ing­ar- og tæknigeta þjóðar­inn­ar ætti að efl­ast: verk­efni á svæðinu myndu kalla á þjálf­un sér­fræðinga í djúp­sjáv­ar­verk­fræði, jarðfræði og um­hverf­is­vökt­un. Þó ber að hafa í huga að arðsemi er lík­lega fjar­læg.

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra sagði rétti­lega í til­kynn­ingu ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins að full­veld­is­rétt­indi Íslands væru nú tryggð þarna og þá tryggði niðurstaðan að ákv­arðanir um hvort ætti að nýta eða vernda auðlind­ir svæðis­ins yrðu á for­ræði Íslands og engra annarra.

Hér er því lýst að alþjóðalög gera smáþjóð með sterk rök að vopni kleift að auka yf­ir­ráðarétt sinn. At­b­urðarás­in og ávinn­ing­ur­inn er áminn­ing um að standa vörð um alþjóðalög og að þola ekki of­ríki í krafti hervalds. Íslend­ing­ar vita nú að þeir ein­ir eiga til­kall til auðlinda þarna. Gæsla svæðis­ins er vanda­söm. Full­veldi Íslands þar ber að tryggja. Því yrði til dæm­is af­salað með aðild að Evr­ópu­sam­band­inu.