16.4.2021

Vopnaglamur og áreiti Rússa

Morgunblaðið, föstudagur 16. apríl 2021.

Hafi það verið til­gang­ur Vla­dimirs Pút­ins Rúss­lands­for­seta að minna Joe Biden Banda­ríkja­for­seta á hernaðarmátt sinn með vopnaglamri um 80.000 her­manna við aust­ur­landa­mæri Úkraínu og á Krímskaga und­an­farna daga kann til­gangi hans að hafa verið náð þriðju­dag­inn 13. apríl. Þá hringdi Biden í Pút­in og lagði til að þeir hitt­ust ein­hvern tíma á kom­andi mánuðum. Frá Kreml barst til­kynn­ing um að Rúss­lands­for­seti ætlaði að íhuga málið.

Dæm­in sanna hve mörg­um er kapps­mál að skipa sér við hlið Banda­ríkja­for­seta. Ekki síst þeim sem skort­ir burði til þess. Sannaðist það á eft­ir­minni­leg­an hátt í Singa­púr um árið, þar hitt­ust Don­ald Trump for­seti og Kim Jong-un, ein­ræðis­herra í Norður-Kór­eu. Fund­ur­inn reynd­ist með öllu ár­ang­urs­laus en Kim taldi þjóð sinni trú um að hann sæti á stalli með Banda­ríkja­for­seta.

Pút­in hef­ur tryggt sér for­seta­embættið til 2036 við sím­innk­andi vin­sæld­ir heima fyr­ir. Hann jók mjög vin­sæld­ir sín­ar á heima­velli fyr­ir sjö árum þegar hann lagði á ólög­mæt­an hátt und­ir Rússa Krímskaga og hóf op­in­ber­an stuðning við aðskilnaðarsinna í aust­ur­hluta Úkraínu. Hernaður þar hef­ur síðan kostað um 14.000 manns lífið. Þarf Pút­in slík­an upp­slátt aft­ur?

Nú segja rúss­nesk­ir áróðursmiðlar að sótt sé að rúss­nesku-mæl­andi minni­hlut­an­um í Aust­ur-Úkraínu, landið lúti stjórn spilltra ráðamanna í Kænug­arði og sé á barmi borg­ara­styrj­ald­ar. Rúss­ar líði ekki slíkt ástand við landa­mæri sín.

Sam­hliða sím­tali Bidens við Pút­in fór Ant­ony Blin­ken, ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, til Brus­sel og hitti Dmíjtro Ku­leba, ut­an­rík­is­ráðherra Úkraínu, í höfuðstöðvum NATO. Blin­ken lýsti „óbif­an­leg­um stuðningi við full­veldi og lands­yf­ir­ráðarétt Úkraínu“. Þá fór Lloyd Aust­in, varn­ar­málaráðherra Banda­ríkj­anna, til Berlín­ar og sagði að banda­rísk­um her­mönn­um í Þýskalandi yrði fjölgað um 500.

Loks hef­ur Banda­ríkja­stjórn sent tvo tund­ur­spilla til eft­ir­lits­starfa á Svarta­hafi.

Sé það mark­mið Rússa að hindra aðild Úkraínu að NATO með herút­kalli sínu brást Jens Stolten­berg, fram­kvæmda­stjóri NATO, við með þeim orðum að það væri NATO-ríkj­anna 30 að ákveða hvenær kæmi að NATO-aðild Úkraínu og „eng­inn ann­ar hefði neinn rétt til að blanda sér í eða skipta sér af því ferli“.

Til­gang­ur þessa mikla hersafnaðar Rússa við landa­mæri Úkraínu er óljós. Ser­gei Shoigu varn­ar­málaráðherra sagði þriðju­dag­inn 13. apríl að þetta væri „viðbragðskönn­un“ og henni lyki inn­an tveggja vikna. Ser­gei Rja­b­kov var­aut­an­rík­is­ráðherra sagði hins veg­ar að Banda­ríkja­menn væru and­stæðing­ar Rússa og best væri fyr­ir banda­rísku tund­ur­spill­ana að halda sig frá Krímskaga og Svarta­hafs­strönd­inni, annað kynni að verða þeim hættu­legt. Banda­ríkja­menn ætluðu að breyta Úkraínu í „púðurtunnu“.

_methode_times_prod_web_bin_1d6836b8-92fc-11eb-930d-e9e6e3751f8fRússneskir hermenn við landamæri Úkarínu.

 

Áreiti gagn­vart Banda­ríkja­mönn­um

Stig af stigi leiddu at­b­urðirn­ir í Úkraínu árið 2014 til þess að NATO-rík­in beindu meiri at­hygli en nokkru sinni á rúm­um 30 árum að sam­eig­in­leg­um vörn­um sín­um í Evr­ópu og síðan á Norður-Atlants­hafi og norður­slóðum.

Hvert svo sem mark­mið Rússa er núna hef­ur þeim tek­ist að valda upp­námi með hernaðarbrölti sínu á þess­um viðkvæma stað. Sum­ir telja að ein­mitt upp­námið sé mark­miðið, það er að reyna á þanþol nýrr­ar stjórn­ar í Banda­ríkj­un­um.

Bröltið beri að skoða í ljósi at­b­urða á Suður-Kína­hafi þar sem 220 varaliðsskip kín­verska hers­ins sigldu sem fiski­skip í var við eyja­klasa sem Fil­ipps­ey­ing­ar segja falla und­ir lög­sögu sína. Banda­ríkja­stjórn lýsti stuðningi við Fil­ipps­ey­inga, sem töldu þetta ögr­un, og áréttaði and­stöðu við yf­ir­gang Kín­verja með því að senda flug­móður­skip og fylgd­ar­skip á vett­vang. Þá er kín­versk­um hervél­um flogið tug­um sam­an í loft­varna­svæði Taív­ana sem njóta ör­ygg­is­trygg­ing­ar af hálfu Banda­ríkja­manna.

Áreiti í garð Banda­ríkja­stjórn­ar og banda­manna henn­ar inn­an NATO birt­ist ekki aðeins í hernaðarbrölti Rússa í og við Úkraínu eða ögr­un­um kín­verska flot­ans og flug­hers­ins í garð Fil­ipps­ey­inga og Taív­ana.

 

Vegið að ut­an­rík­is­ráðherra

Sér­kenni­legt at­vik varð í sam­skipt­um rúss­neskra og ís­lenskra stjórn­valda í mars 2021. Ber að halda því til haga meðal ann­ars við mat á fjölþátta ögr­un­um af rúss­neskri hálfu í garð nor­rænna rík­is­stjórna.

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra ritaði grein sem birt­ist í Morg­un­blaðinu 11. mars 2021. Þar gat hann þess að kjarn­orku­af­vopn­un væri mik­il­væg­ur þátt­ur í sögu NATO. Kjarn­orku­vopn hefðu verið mest rúm­lega 7.000 frá Banda­ríkj­un­um í Evr­ópu þegar kalda stríðið stóð hæst en væru nú 150-200.

Mark­mið Atlants­hafs­banda­lags­ins væri að heim­ur­inn yrði kjarna­vopna­laus. Rúss­ar hefðu nú þróað nýj­ar teg­und­ir kjarna­vopna og end­ur­nýjað þau sem fyr­ir væru. Frek­ari fækk­un kjarna­vopna þyrfti að taka mið af alþjóðlegu ör­ygg­is­um­hverfi. Á meðan Rúss­land, Kína, Norður-Kórea og fleiri ríki byggju yfir kjarna­vopn­um yrðu NATO-rík­in að gera það líka. „Ein­hliða kjarn­orku­af­vopn­un er firr­ing og glapræði. Ein­ung­is með gagn­kvæmri af­vopn­un er ör­yggi tryggt,“ sagði ut­an­rík­is­ráðherra.

Þessi orð urðu til þess að María Zak­harova, upp­lýs­inga­full­trúi Ser­geis Lavr­ovs, ut­an­rík­is­ráðherra Rúss­lands, sendi Guðlaugi Þór tón­inn á blaðamanna­fundi í Moskvu 18. mars. Það væri rangt að ríki Atlants­hafs­banda­lags­ins hefðu komið sér upp kjarn­orku­vopn­um sem svari við kjarn­orku­víg­væðingu Sov­ét­ríkj­anna sál­ugu.

Vegna frétt­ar í Morg­un­blaðinu um þetta 19. mars hafnaði Guðlaug­ur Þór rétti­lega að hann hefði sagt eitt­hvað sem félli að orðum Zak­harovu. Hvergi er minnst á Sov­ét­rík­in og kjarn­orku­vopn þeirra í grein ráðherr­ans held­ur bent á að Rúss­ar hafi und­ir stjórn Pútíns þróað nýj­ar teg­und­ir kjarna­vopna og end­ur­nýjað eldri gerðir slíkra vopna frá Sov­ét­tím­an­um. Vla­dimir Pút­in hef­ur hvað eft­ir annað gortað sig af nýju ógn­ar­vopn­un­um.

Morg­un­blaðið sneri sér til rúss­neska sendi­ráðsins í Reykja­vík og óskaði skýr­inga á orðum Zak­harovu.

Svar sendi­ráðsins birt­ist 20 mars. Þar seg­ir að ekki þurfi að vera sér­fræðing­ur í alþjóðastjórn­mál­um til að lesa á milli lín­anna í grein ráðherra, og að „aug­ljós­ar“ álykt­an­ir hafi verið dregn­ar af orðum hans, þær séu til­efni um­mæla Zak­harovu. Sam­kvæmt rök­um Guðlaugs Þórs sé Atlants­hafs­banda­lagið eini horn­steinn ör­ygg­is og friðar í heim­in­um, banda­lagið hafi sem sagt víg­bú­ist til að svara víg­búnaði Sov­ét­ríkj­anna. Þessi túlk­un sé ein­hliða, ráðherr­ann hafi hvorki getið þátt­ar Rússa í nær öll­um af­vopn­un­ar­samn­ing­um né þess að Rúss­ar hafi aldrei sagt sig ein­hliða frá nein­um þeirra, ólíkt Banda­ríkja­mönn­um.

Þetta er skrýt­in at­huga­semd. All­ir sem þekkja sögu evr­ópskra ör­ygg­is­mála í kalda stríðinu vita að á átt­unda ára­tugn­um var hart tek­ist á um hvort svara ætti meðaldræg­um sov­ésk­um kjarna­eld­flaug­um gegn vest­ur­hluta Evr­ópu með banda­rísk­um flug­skeyt­um. Svo­nefnd­ar friðar­hreyf­ing­ar sem marg­ar nutu sov­ésks stuðnings urðu und­ir í þeirri bar­áttu.

Að rúss­neska ut­an­rík­is­ráðuneytið sjái ástæðu til að lesa á milli lína í blaðagrein ut­an­rík­is­ráðherra Íslands til þess síðan að gagn­rýna hann með rang­færsl­um á blaðamanna­fundi ráðuneyt­is­ins er ný­mæli. Hvaða aug­um ber að líta slík af­skipti? Er þetta liður í ögr­andi mál­flutn­ingi rúss­neskra stjórn­valda í garð ráðherra og rík­is­stjórna á Norður­lönd­un­um al­mennt? Eða er Ísland und­ir smá­sjá í Moskvu?

Hver sem svör­in eru við spurn­ing­un­um hafa Rúss­ar sýnt and­lit gagn­vart Íslandi sem minn­ir á kalda­stríðsdraug.