12.11.2017

Viðtal við Manfred Nielson flotaforingja á ÍNN

Manfred Nielson flotaforingi var hér á landi 12. október 2017 og tók þátt í ráðstefnu MSC og Hringborði norðursins. Flotaforinginn er annar æðsti yfirmaður herstjórnar NATO í Norfolk í Bandaríkjunum. Viðtalið var textað og er þetta íslensk þýðing þess.

BB: Velkominn aðmíráll, þakka þér fyrir að koma. Ég var að segja áhorfendum að þú sért frá Norfolk í Bandaríkjunum, annar æðsti yfirmaður í herstjórn NATO þar. Segðu okkur hvert er hlutverk ykkar.

N: Herstjórn mín ber heitið Bandalagsherstjórn umbreytinga, alltaf má velta fyrir sér hvað er umbreyting. Herstjórnin er stoð NATO í Bandaríkjunum og við lítum til framtíðar, hver verði verkefnin og hvaða áhrif þau hafi á herafla NATO.

B: Þetta var áður flotaherstjórn, nú snýst starfið um umbreytingar.

N: Það er rétt. Áður fyrr var herstjórnin Atlantshafsherstjórn NATO og yfirmaður hennar var alltaf bandarískur hershöfðingi eða flotaforingi. Þessu var breytt fyrir um það bil átta árum og nú er æðsti yfirmaðurinn alltaf frá Frakklandi en Þjóðverjar og Ítalir skiptast á skipa næst æðsta sætið. Ég er fyrsti þýski flotaforinginn sem fæ tækifæri til að gegna þessari stöðu.

B: Þegar við tölum um umbreytingar og sjáum hvað er að gerast á Norður-Atlantshafi þá hefur verið rætt um að NATO kynni að þurfa að koma á fót nýrri Atlantshafsherstjórn – eruð þið að fjalla um þetta?

N: Um þessar mundir ræðum við hvernig unnt er að laga sig að verkefnum. Það er hvernig getum við séð til þess að NATO verði hæft til að bregðast við áskorunum framtíðarinnar. Eins og þú veist beindist athyglin einungis í austur í kalda stríðinu. Nú tökum við mið af því sem samþykkt var á NATO-leiðtogafundinum í Varsjá og teljum nauðsynlegt að líta til allra átta og það kemur að nokkru inn á málefni tengt höfunum. Í því felst meðal annars hvort nauðsynlegt sé að koma á fót nýrri, þriðju sameiginlegu herstjórninni sem beini einkum athygli að flotamálum.

B: Þú ert hér á landi til þátttöku í Hringborði norðursins og ráðstefnu á vegum MSC sem snýst um norðurskautsmál. Er herstjórn þín að skoða norðurskautið en almennt er litið á norðurskautið utan svæðis NATO og þar ættu ríki ekki að hafa herafla. Er það að breytast?

N: Við erum ekki að ræða um hervæðingu norðurskautsins. Allir eru þeirrar skoðunar að í framtíðinni muni líklegur samdráttur á hafís á þessu svæði skipta miklu efnahagslega. Í því sambandi er það auðvitað skylda okkar að skoða hvaða áhrif þessi breyting kunni að hafa á hernaðarleg málefni.

B: Þegar við lítum á NATO þá breyttist bandalagið eftir að kalda stríðinu lauk og lét að sér kveða í Afganistan og á fjarlægum slóðum. Nú eru sameiginlegar varnir meira áberandi og NATO beinir athyglinni að nýju að eigin svæði ef svo má segja. Þetta er miklar breytingar á NATO eða hvað?

N: Ég mundi ekki kalla þetta meiriháttar breytingu en eftir að Rússar réðust gegn Úkraínu beindum við athyglinni að nýju að sameiginlegum vörnum af því að við töldum eftir kalda stríðið að sameiginlegar varnir kynnu að skipta litlu máli, áreitni Rússa varð til að vekja okkur og við beindum athygli okkar að nýju að sameiginlegum vörnum.

B: Telur þú líklegt að þróunin verði eins og í kalda stríðinu að Bandaríkjamenn haldi úti miklum herafla í Evrópu eða gerið þið núna frekar ráð fyrir að senda hraðlið á vettvang og grípa til slíkra ráðstafana í stað öflugs fastahers?

N: NATO ákvað að koma á fót fjórum herfylkjum eða fjórum orrustusveitum sem eru undir stjórn Kanada, Þýskalands, Bretlands og Bandaríkjanna. Alls eru 4.000 hermenn í Eystrasaltslöndunum og Póllandi og þar eru menn frá 15 ólíkum þjóðum. Þetta er svar NATO við Rússum.

B: En nú er talað um blandað stríð, við verðum að vera meira á verði gegn upplýsingafölsunum, falsfréttum og svo framvegis. Hvernig tekur herstjórn þín á þessum breytingum, nethernaði og öðru slíku?

N: Við verðum að átta okkur á að allt er innbyrðis tengt og við allt. Þegar við tölum um blandað stríð vísum við til áhrifa frá ólíkum þáttum, hernaðarlegum, samfélagsbreytingum, falsfréttum eins og þú nefndir. Til að vera til taks og veita rétta svarið verðum við að geta brugðist við hættum þessa blandaða hernaðar og þess vegna var ákveðið í fyrra að NATO og ESB myndu koma á fót miðstöð vegna blandaðs stríðs í Finnlandi.

B: Svo að Finnar taka þátt í þessu breytingaferli þótt þeir séu ekki aðilar að NATO?

N: Finnar eru ekki aðilar að NATO en eins og ég sagði eru allir tengdir við allt og við vinnum náið með mörgum samstarfsaðilum, ekki aðilum NATO, heldur samstarfsaðilum, ekki aðeins í við Eystrasalt eins og Finnum heldur jafnframt í Afríku, við bjóðum Líbíumönnum til dæmis þjálfun og Túnismönnum, við hugum að því sem gerist í Egyptalandi til að stuðla að stöðugleika á þessum mikilvægu svæðum. Og ég held að með þessi öll svæði undir eða til umræðu tryggi NATO aukið öryggi í heiminum.

B: Við ræðum um austrið, við ræðum um Eystrasalt, við ræðum um aukinn herafla með 4.000 hermönnum, við ræðum um Miðjarðarhaf. Má kalla þetta „heitu staðina“ núna frekar en norðrið, það er okkar heimshluta hér? Hafið þið meiri áhyggjur af því sem gerist í austri og suðri en því sem gerist í norðri?

N: Nei, málum er háttað í hinn veginn. Við fengum skýr boð frá leiðtogafundinum í Varsjá um að horfa til allra átta. „Heitu staðirnir“ kunna að breytast en NATO á að vera til taks hvarvetna og það nær til Norður-Íshafs og svæðisins frá Grænlandi um Ísland til Bretlands (GIUK-hliðsins).

B: GIUK-hliðið er þekkt hugtak frá því í kalda stríðinu vegna þess að þar var framvarnarlínan gagnvart sovéskum kafbátum. Nú öðlast það mikilvægi að nýju sem framvarnarhlið.

N: Ég held að mikilvægi þess hafi aldrei horfið. Athyglin beindist hins vegar annað. Þess vegna finnst mér miklu skipta að við ræðum áhrifin hér á norðurslóðum, þar á meðal frá hernaðarlegum sjónarhóli.

B: Þegar mikilvægi GIUK-hliðsins var svona mikið í kalda stríðinu voru 5.000 bandarískir hermenn á Íslandi. Hér voru að staðaldri kafbátaleitarvélar, orrustuvélar o. s. frv. Hefur tæknin breyst svo mikið á liðnum 25 árum að ekki sé þörf á samskonar tæknibúnaði og mannafla til að...

N: Þú gerir þér ljóst að 29 ríki eru í NATO og hvert ríki er fullvalda og hefur mótað sér eigin skoðun í varnarmálum. Ég átta mig á og kann að meta að til umræðu er hvort við séum vel búnir undir framtíðarverkefna.

B: Telur þú að tæknin nú sé önnur, þú starfar í herstjórn umbreytinga, megum við vænta dróna, í lofti og í hafinu, sem unnt er að stjórna úr fjarlægð, ekki sé þörf á að vera í landi eins og Íslandi?

N: Satt að segja hef ég ekki svar við þessu. Auðvitað eru ný tækifæri, þú nefnir dróna, ég mundi nefna „big data“, ég mundi nefna gervigreind, þarna er um að ræða hluti sem marka þáttaskil og við þurfum að taka með í reikninginn og íhuga hvaða áhrif þetta kann að hafa á varnartilgang NATO.

B: Þú nefndir „big data“ og það skipti miklu máli. Hvað felst í þessum orðum?

N: Frá hernaðarlegum sjónarhóli er það ávallt síðasti kosturinn að grípa til vopna. Við lítum því til alls sviðsins. Það eru mjög margar stofnanir og samtök, Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið, Rauði krossinn sem hver sinnir sínu hlutverki og safnar upplýsingum úr ólíkum áttum safna þarf þessum brotum saman og setja saman púsluspil svo að við gerum okkur betri grein fyrir hvað er að gerast á þessu sviði. Ég tel það mikilvægt því að nú þegar við sitjum hér eykst magn upplýsinga, magn gagna umtalsvert. Einstaklingar hafa ekki aðstöðu til að átta sig á öllu þessu magni upplýsinga, safna þeim og meta og nota þær síðan sem grundvöll ákvarðana.

B: Þú ert með öðrum orðum að tala um net, að NATO eigi að vera hluti af stóru neti til að safna upplýsingum og meta þær síðan til að sjá hvernig mál þróast?

N: Já, ég geri það. NATO getur ekki sjálft leyst vandamál um heim allan en ég held að með hliðsjón af stefnunni um að horfa til allra átta verði NATO að vera tilbúið til að taka þátt í samstarfi á ólíkum sviðum með sérhæfðum aðilum og vinna að sérhæfðum lausnum. Það er til dæmis mjög mikilvægt að við höfum aðstöðu til að vera í samskiptum hver við annan, það er lykilatriði og það lærðum við af aðgerðunum í Afganistan.

B: Samskipti til að safna upplýsingum á einn stað?

N: Ekki á einn stað. Við getum ef til vill velt fyrir okkur hvernig eigi að tengja allt saman. Líttu til dæmis á smáríkið Eistland, þar er allt tengt, svo að þeir eiga sameiginlegan aðgang að upplýsingum, þeir eru með einskonar opinn grunn, ég held að við ættum jafnvel að hugsa um hvernig eigi að tengja saman leynilegar og opnar upplýsingar. Innan NATO höfum við komið á fót samrunasellu sem er aðgengileg fyrir aðra, en ég tel að þetta sé leið til að efla traust. Að ná í upplýsingarnar, að fá aðgang að upplýsingunum er leið til að skilja betur stöðu mála.

B: Við þessar aðstæður, hvert er hlutverk heraflans, hvert er hlutverk stjórnarerindreka, hvert er hlutverk stjórnmálamanna. Þú ert að lýsa nýju kerfi sem einnig hefur áhrif inn á við í stjórnkerfi NATO.

N: Fyrst vil ég leggja áherslu á að NATO er ekki hernaðarlegt samband heldur stjórnmálalegt. Enginn vafi leikur á því að ekki er gripið til neinna aðgerða án pólitískrar ákvörðunar. Til að vita hvað er að gerast er nauðsynlegt að hafa heildarsýn, að deila upplýsingum því að án þess erum við ekki vel undirbúnir.

B: Lítum aðeins á stöðuna í Evrópu. Þið eruð í Bandaríkjunum og hafið beint samband bandaríska herstjórnakerfið. Hvað með Evrópuríkin, þú sem þýskur flotaforingi, rætt er um Evrópuher og samband NATO og ESB. Er það hluti þeirra verkefna sem þið eruð að skoða?

N: Enn nefni ég að í Varsjár-yfirlýsingunni er lýst velþóknun á að ESB leggi enn meiri áherslu á hernaðarleg málefni. Ég tel það mikilvægt og Bandaríkjamenn vænta þess að fyrir hendi sé sterk Evrópa sem styðji NATO og treysti tengslin yfir Atlantshaf til framtíðar. Evrópumenn hafa þegar gert mikið, meðal annars með því að auka útgjöld til varnarmála mjög mikið undanfarin tvö ár. Nú er víða rætt um hvernig á að tengja það sem unnið er að í Evrópu nánar saman til að auka áhrif verkefnanna og skilvirkni.

B: Verður um tvær stoðir að ræða ...

N: Nei, ekki tvær stoðir. Líttu á það sem segir í yfirlýsingu ESB um framtíðarverkefni og hr. Juncker hefur sagt að þegar komi að sameiginlegum vörnum sé það mál NATO og á öðrum sviðum sé forystan meira í höndum ESB  t. d. á Miðjarðarhafi og vegna Unifil-aðgerða. Þetta fer eftir aðstæðum, stundum er nauðsynlegt að NATO hafi forystu, stundum ESB og stundum eiga borgaralegar stofnanir að hafa forystu. Þannig skil ég stefnuna um að horfa til allra átta.

B: Þú minntist á Finna sem vinna með NATO með nýrri miðstöð vegna blandaðs hernaðar. Herstjórn þín ber ábyrgð á öndvegissetrum NATO. Það starfa mörg öndvegissetur á vegum NATO, hvaða hlutverki gegna þau, er þar að finna vinnu við framtíðarverkefni eða úttektir á því sem best sé að gera?

N: Nauðsynlegt er að átta sig á því að öndvegissetrin eru rekin af viðkomandi þjóðum og þau eru ekki hluti af stjórnkerfi NATO. Þú segir réttilega að sumar þjóðir buðust til að koma á fót öndvegissetrum eins og Eistlendingar vegna netvarna, Litháar [innsk. í raun Lettar] vegna strategískrar miðlunar eða Ungverjar vegna lækninga og fleira má nefna. Þessi setur eru áhugaverð vegna þess að einstakar þjóðir bjóða þau fram. Innan NATO veltum við fyrir okkur hvernig við getum betur nýtt okkur sérþekkinguna í þessum öndvegissetrum. Það er ekki markmið okkar að þessi setur verði hluti af herstjórnaskipulagi NATO. Það gerir Finnum kleift að reka ESB-miðstöð vegna blandaðs hernaðar.

B: Má kalla það hluta af „big data“-hugmyndafræðinni að þið hafið setur, sérfræðiþekkingu sem þið getið notað – það er hluti af þessari stóru mynd?

N: Já, til að skerpa stöðumatið og árveknina.

B. Þú nefndir strategíska miðlun og framtak Letta. Strategic communicaton það er ekki auðvelt að átta sig á hvað í því felst. Er þar um að ræða miðlun þar sem aðilar reyna að hafa áhrif á aðrar þjóðir með alls konar áróðri ...

N: Ég tel að í strategískri miðlun felist meira en áróður, hún nær til venjulegra fjölmiðla, aðgerðaáætlana, fjarskipta við aðgerðir. Til að fræða þjóðir, ekki til að flytja falskar fréttir, er mikilvægt að huga að miðlunarleiðum því að þær má nota til að hafa áhrif á afstöðu fólks.

B: Það er hluti af öllu breytingarskeiðinu sem nú er, að þið lítið meira til þessara þátta?

N: Ég er sammála, áður fyrr vorum við meira með hugann við sameiginlegar varnir gagnvart því sem gerðist í austri. Nú verðum við að átta okkur á að hlutirnir hafa breyst. Fjarskipti skipta máli, stjórn og eftirlit skiptir máli,  gervigreindar-upplýsingar og það að deila upplýsingum skiptir máli. Netheimurinn skiptir máli og ef til vill geimurinn þegar fram líða stundir. Þarna skapast margir mikilvægir möguleikar og að huga að hernaðarlegu áhrifunum er verkefni okkar sem vinnum á sviði umbreytinganna.

B: Fyrir þig sem flotaforingja hlýtur að vera sérkennileg reynsla að takast á við allar þessar breytingar. Fyrir almennan borgara er erfitt að skilja þetta en fyrir herinn að laga sig að þessum breytingum hlýtur að mörgu leyti að vera erfitt ferli.

N: Það er ekki erfitt, það er fyrst og fremst áhugavert verkefni. Enginn getur sagt með neinni vissu hvað gerist í framtíðinni. Við höfum því áhuga á að skapa tengsl við mismunandi þjóðfélagshópa, við háskólasamfélagið, vísindamenn, við Rauða krossinn, eins og ég sagði, því að allir þessir aðilar hafa sína sérstöku sýn á framtíðina. Miklu skiptir að greina meginstraumana og það er okkar höfuðhlutverk, við birtum strategíska forspárgreiningu og við bjóðum um 800 aðilum að taka þátt í starfinu með okkur og við gerum úttekt á stöðunni á tveggja til þriggja ára fresti, næsta forspárgreiningin verður birt í þessum eða næsta mánuði. Þannig skoðum við meginstrauma og skilgreinum síðan af varúð hver kunni að verða áhrif þeirra á heraflann. Áður fyrr ræddum við aðeins um hvaða tegund af skriðdrekum eða flugvélum tæki við næst. Ég ætla að nefna dæmi um flutningaþjónustu, er hugsanlegt í framtíðinni að þessi þjónusta verði að mestu á vegum einkafyrirtækja. Já, þau eru dreifð um heim allan og þetta getur verið hugsanlegt, þarna eru sérfræðingar á þessu sviði. Lítum einnig á samstarfsþjóðir, þær verða mun mikilvægari, að þjálfa lið þjóða sem ekki eru í NATO stuðlar að stöðugleika – stöðug ríki stuðla að öryggi allra þjóða.

B: Finnst þér líklegt að það ríki meiri friður á næstunni eða eigum við von á því á þessum breytingartímum að það verði meira uppbrot og meiri árekstrar eða verður samheldni meiri?

N: Þetta er áhugaverð og ögrandi spurning. Meginmarkmið okkar á að vera heimur friðar, ég er ekki viss að allir séu sömu skoðunar, sjáðu hryðjuverkin sem skapa ný viðfangsefni innan NATO. Við verðum að hugsa um hvernig við tökum á þessum málum. Og ég tel að það að skapa frið krefjist sameiginlegs átaks þar sem heraflinn er lítill hluti,

B: Þakka þér fyrir samtalið og fyrir að koma.

N: Gott, mín var ánægjan.