29.7.2023

Veðrabrigði í stjórnmálaumræðum

Morgunblaðið, laugardagur 29. júlí 2023.

Nú eru 15 ár frá því sjá átti fyr­ir og bóka á rík­is­stjórn­ar­fundi að ís­lenska banka­kerfið hryndi sam­hliða fjár­mála­kerf­um víða um heim.

Krafa um bók­un­ina var gerð fimm árum eft­ir hrunið sem varð í októ­ber 2008. Lands­dóm­ur sak­felldi meira að segja Geir H. Haar­de for­sæt­is­ráðherra 23. apríl 2012 fyr­ir að hafa ekki sett vanda bank­anna á dag­skrá ráðherra­fund­ar eins og hon­um hefði verið skylt sam­kvæmt stjórn­ar­skrá. Var hon­um þó ekki gerð refs­ing og kostnaður lagður á rík­is­sjóð.

Við hrun­inu brást rík­is­stjórn Geirs strax með áhrifa­mikl­um neyðarlög­um. Þau björguðu því sem bjargað varð úr rúst­um bank­anna. Slita­stjórn­ir þeirra hreinsuðu rúst­irn­ar og rík­is­sjóður gerði upp við kröfu­hafa og seldi slita­eign­ir á arðbær­an hátt.

Rann­sókn­ar­nefnd alþing­is skoðaði hrunið og einnig sér­stak­ur sak­sókn­ari. Alþingi ákærði fyr­ir lands­dómi í fyrsta sinn í sög­unni. Þar komst naum­ur meiri­hluti að niður­stöðunni sem ofan er lýst. Hún lík­ist sára­bót fyr­ir þing­meiri­hlut­ann sem hratt lands­dóms­ferl­inu af stað.

Um hrunið og aðdrag­anda þess var mikið skrifað og skrafað. Lítið fer fyr­ir út­tekt­um á af­leiðing­um hruns­ins fyr­ir stjórn­mála­lífið í land­inu. Lang­vinnra áhrifa fyrstu „hreinu“ vinstri stjórn­ar­inn­ar gæt­ir þó víða. Þar réðu Jó­hanna Sig­urðardótt­ir, Sam­fylk­ingu, og Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, Vinstri­hreyf­ing­unni –grænu fram­boði (VG), ferðinni frá 2009 til 2013.

Rikisstjorn-Johonnu-SigurdardotturRíkisstjórn Jóhönnu Sigurðaedóttur.

Höfuðmark­mið stjórn­ar­sam­starfs­ins var að kveða Sjálf­stæðis­flokk­inn end­an­lega í kút­inn. Á hann var lögð öll póli­tísk ábyrgð á hrun­inu. Mis­heppnaða lands­dóms­málið var til marks um það. Mála­til­búnaður­inn þar tryggði þó að aldrei verður aft­ur stofnað til ákæru gegn póli­tísk­um and­stæðingi á sama hátt. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn lif­ir. Nú fyrst eft­ir 10 ár í stjórn­ar­and­stöðu og eft­ir að hafa skipt fjór­um sinn­um um formann eft­ir Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur tel­ur Sam­fylk­ing­in sig eiga sókn­ar­færi að nýju.

Strax eft­ir að Jó­hanna varð for­sæt­is­ráðherra (1. fe­brú­ar 2009) í minni­hluta­stjórn með Stein­grími J. og þingstuðningi Fram­sókn­ar­manna und­ir for­ystu Sig­mund­ar Davíðs Gunn­laugs­son­ar krafðist hún breyt­inga á stjórn­ar­skránni. Hún vildi að alþingi yrði svipt stjórn­laga­valdi sínu og það fært í hend­ur stjórn­lagaþings. Naut hún til þessa óskoraðs stuðnings Fram­sókn­ar­manna á þingi. Sjálf­stæðis­menn stöðvuðu fram­gang máls­ins með málþófi. Stjórn­ar­flokk­un­um og Fram­sókn­ar­mönn­um lá svo mikið á að efna til kosn­inga 25. apríl 2009 að þeir féllu á tíma á alþingi.

Strax á þing­inu eft­ir kosn­ing­arn­ar 2009 hófst Jó­hanna að nýju handa við að breyta stjórn­ar­skránni. Sú vinna öll leiddi til óskapnaðar og er deilt um það enn þann dag í dag hvað þar var sett á blöð. Breytt­ist „nýja stjórn­ar­skrá­in“ að lok­um í póli­tísk­an gjörn­ing og deil­ur tóku að snú­ast um hvort slag­orð henni til stuðnings mætti mála á auða hús­veggi.

Stærsta mál Jó­hönnu­stjórn­ar­inn­ar var að leiða Ísland inn í Evr­ópu­sam­bandið (ESB) þvert á það sem Stein­grím­ur J. lofaði í umræðuþætti stjórn­mála­for­ingja í sjón­varpi fyr­ir kosn­ing­arn­ar 25. apríl 2009. Aðild­ar­um­sókn­in var samþykkt á alþingi 16. júlí 2009 og af­hent ESB strax dag­inn eft­ir í von um að inn­an 18 mánaða að há­marki yrði viðræðum lokið og taka mætti af­stöðu til niður­stöðunn­ar í þjóðar­at­kvæðagreiðslu.

Ut­an­rík­is­ráðherra stjórn­ar­inn­ar, Össur Skarp­héðins­son, ákvað hins veg­ar 42 mánuðum síðar, í janú­ar 2013, að setja um­sókn­ina á ís enda hafði hvorki gengið né rekið í viðræðum aðila frá ár­inu 2011. Vildi ráðherr­ann minnka lík­ur á að ESB-málið bæri hátt í kosn­inga­bar­átt­unni vorið 2013.

Stjórn­ar­flokk­arn­ir fengu hroðal­ega út­reið í kosn­ing­un­um 2013. Síðan hef­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn verið þunga­miðjan í stjórn­ar­sam­starfi og all­ir flokk­ar hafa fall­ist á stefnu hans um að ekki verði sótt um aðild að ESB nema fyrst fá­ist umboð til þess í þjóðar­at­kvæðagreiðslu. Þá er viður­kennt af öll­um flokk­um að breyta verður stjórn­ar­skránni til að ís­lensk stjórn­völd geti fram­selt það vald sem aðild að ESB krefst.

Fjórði formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar á eft­ir Jó­hönnu vill minnka áhersl­ur flokks­ins á ESB-aðild­ina og minn­ist ekki á stjórn­ar­skrár­málið.

Lausung jókst í flokka­kerf­inu eft­ir hrun og nú eiga átta flokk­ar full­trúa á alþingi, minnst þrjá flokka þarf til að mynda rík­is­stjórn enda eigi Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn aðild að henni.

Stjórn­má­laum­ræður bera þess merki um þess­ar mund­ir að inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins gæti vax­andi þreytu vegna mála­miðlana sem flokk­ur­inn hef­ur gert við mynd­un rík­is­stjórna. Brynj­ar Ní­els­son, fyrr­ver­andi þingmaður flokks­ins, sagði í vik­unni: „Menn láta ekki sjást hver ágrein­ings­atriðin eru og varla nokk­ur tal­ar um borg­ara­leg­ar áhersl­ur leng­ur.“

Þegar hlustað er á það sem Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði í hlaðvarpi Þjóðmála fyr­ir nokkr­um dög­um er rangt að segja hann þegja um ágrein­ings­atriði í nú­ver­andi stjórn­ar­sam­starfi. Það á ekki held­ur við um Óla Björn Kára­son, þing­flokks­formann Sjálf­stæðismanna, að hann þegi um ágrein­ings­efn­in, til dæm­is í grein­um hér í blaðinu.

Sé litið á stjórn­má­laum­ræður þessa björtu sum­ar­mánuði er aug­ljóst að vax­andi snerpa og krafa um skarp­ari lín­ur ein­kenn­ir mál­flutn­ing for­ystu­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins.

Spenn­an á fjár­mála­mörkuðum var aug­ljós stjórn­mála-, fjöl­miðla- og fjár­mála­mönn­um sum­arið 2008 þótt ekk­ert væri bókað um hana í fund­ar­gerðum rík­is­stjórn­ar Íslands. Á fund­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar nú er ör­ugg­lega ekk­ert bókað um breytt póli­tískt and­rúms­loft. Það blas­ir þó við öll­um.