Veðrabrigði í stjórnmálaumræðum
Morgunblaðið, laugardagur 29. júlí 2023.
Nú eru 15 ár frá því sjá átti fyrir og bóka á ríkisstjórnarfundi að íslenska bankakerfið hryndi samhliða fjármálakerfum víða um heim.
Krafa um bókunina var gerð fimm árum eftir hrunið sem varð í október 2008. Landsdómur sakfelldi meira að segja Geir H. Haarde forsætisráðherra 23. apríl 2012 fyrir að hafa ekki sett vanda bankanna á dagskrá ráðherrafundar eins og honum hefði verið skylt samkvæmt stjórnarskrá. Var honum þó ekki gerð refsing og kostnaður lagður á ríkissjóð.
Við hruninu brást ríkisstjórn Geirs strax með áhrifamiklum neyðarlögum. Þau björguðu því sem bjargað varð úr rústum bankanna. Slitastjórnir þeirra hreinsuðu rústirnar og ríkissjóður gerði upp við kröfuhafa og seldi slitaeignir á arðbæran hátt.
Rannsóknarnefnd alþingis skoðaði hrunið og einnig sérstakur saksóknari. Alþingi ákærði fyrir landsdómi í fyrsta sinn í sögunni. Þar komst naumur meirihluti að niðurstöðunni sem ofan er lýst. Hún líkist sárabót fyrir þingmeirihlutann sem hratt landsdómsferlinu af stað.
Um hrunið og aðdraganda þess var mikið skrifað og skrafað. Lítið fer fyrir úttektum á afleiðingum hrunsins fyrir stjórnmálalífið í landinu. Langvinnra áhrifa fyrstu „hreinu“ vinstri stjórnarinnar gætir þó víða. Þar réðu Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingu, og Steingrímur J. Sigfússon, Vinstrihreyfingunni –grænu framboði (VG), ferðinni frá 2009 til 2013.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðaedóttur.
Höfuðmarkmið stjórnarsamstarfsins var að kveða Sjálfstæðisflokkinn endanlega í kútinn. Á hann var lögð öll pólitísk ábyrgð á hruninu. Misheppnaða landsdómsmálið var til marks um það. Málatilbúnaðurinn þar tryggði þó að aldrei verður aftur stofnað til ákæru gegn pólitískum andstæðingi á sama hátt. Sjálfstæðisflokkurinn lifir. Nú fyrst eftir 10 ár í stjórnarandstöðu og eftir að hafa skipt fjórum sinnum um formann eftir Jóhönnu Sigurðardóttur telur Samfylkingin sig eiga sóknarfæri að nýju.
Strax eftir að Jóhanna varð forsætisráðherra (1. febrúar 2009) í minnihlutastjórn með Steingrími J. og þingstuðningi Framsóknarmanna undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar krafðist hún breytinga á stjórnarskránni. Hún vildi að alþingi yrði svipt stjórnlagavaldi sínu og það fært í hendur stjórnlagaþings. Naut hún til þessa óskoraðs stuðnings Framsóknarmanna á þingi. Sjálfstæðismenn stöðvuðu framgang málsins með málþófi. Stjórnarflokkunum og Framsóknarmönnum lá svo mikið á að efna til kosninga 25. apríl 2009 að þeir féllu á tíma á alþingi.
Strax á þinginu eftir kosningarnar 2009 hófst Jóhanna að nýju handa við að breyta stjórnarskránni. Sú vinna öll leiddi til óskapnaðar og er deilt um það enn þann dag í dag hvað þar var sett á blöð. Breyttist „nýja stjórnarskráin“ að lokum í pólitískan gjörning og deilur tóku að snúast um hvort slagorð henni til stuðnings mætti mála á auða húsveggi.
Stærsta mál Jóhönnustjórnarinnar var að leiða Ísland inn í Evrópusambandið (ESB) þvert á það sem Steingrímur J. lofaði í umræðuþætti stjórnmálaforingja í sjónvarpi fyrir kosningarnar 25. apríl 2009. Aðildarumsóknin var samþykkt á alþingi 16. júlí 2009 og afhent ESB strax daginn eftir í von um að innan 18 mánaða að hámarki yrði viðræðum lokið og taka mætti afstöðu til niðurstöðunnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Utanríkisráðherra stjórnarinnar, Össur Skarphéðinsson, ákvað hins vegar 42 mánuðum síðar, í janúar 2013, að setja umsóknina á ís enda hafði hvorki gengið né rekið í viðræðum aðila frá árinu 2011. Vildi ráðherrann minnka líkur á að ESB-málið bæri hátt í kosningabaráttunni vorið 2013.
Stjórnarflokkarnir fengu hroðalega útreið í kosningunum 2013. Síðan hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið þungamiðjan í stjórnarsamstarfi og allir flokkar hafa fallist á stefnu hans um að ekki verði sótt um aðild að ESB nema fyrst fáist umboð til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá er viðurkennt af öllum flokkum að breyta verður stjórnarskránni til að íslensk stjórnvöld geti framselt það vald sem aðild að ESB krefst.
Fjórði formaður Samfylkingarinnar á eftir Jóhönnu vill minnka áherslur flokksins á ESB-aðildina og minnist ekki á stjórnarskrármálið.
Lausung jókst í flokkakerfinu eftir hrun og nú eiga átta flokkar fulltrúa á alþingi, minnst þrjá flokka þarf til að mynda ríkisstjórn enda eigi Sjálfstæðisflokkurinn aðild að henni.
Stjórnmálaumræður bera þess merki um þessar mundir að innan Sjálfstæðisflokksins gæti vaxandi þreytu vegna málamiðlana sem flokkurinn hefur gert við myndun ríkisstjórna. Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður flokksins, sagði í vikunni: „Menn láta ekki sjást hver ágreiningsatriðin eru og varla nokkur talar um borgaralegar áherslur lengur.“
Þegar hlustað er á það sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í hlaðvarpi Þjóðmála fyrir nokkrum dögum er rangt að segja hann þegja um ágreiningsatriði í núverandi stjórnarsamstarfi. Það á ekki heldur við um Óla Björn Kárason, þingflokksformann Sjálfstæðismanna, að hann þegi um ágreiningsefnin, til dæmis í greinum hér í blaðinu.
Sé litið á stjórnmálaumræður þessa björtu sumarmánuði er augljóst að vaxandi snerpa og krafa um skarpari línur einkennir málflutning forystumanna Sjálfstæðisflokksins.
Spennan á fjármálamörkuðum var augljós stjórnmála-, fjölmiðla- og fjármálamönnum sumarið 2008 þótt ekkert væri bókað um hana í fundargerðum ríkisstjórnar Íslands. Á fundum ríkisstjórnarinnar nú er örugglega ekkert bókað um breytt pólitískt andrúmsloft. Það blasir þó við öllum.