28.12.2024

Varnarstyrkurinn er í vestri

Morgunblaðið, laugardagur, 28. desember 2024

Árs­ins 2024 verður minnst vegna stjórn­má­laum­brota í lýðræðis­ríkj­um aust­an og vest­an Atlants­hafs. Sam­hliða hafa tengsl milli ein­ræðis­ríkja styrkst vegna stríðsrekst­urs í Úkraínu. Þá hafa valda­hlut­föll fyr­ir botni Miðjarðar­hafs gjör­breyst, Ísra­el í hag.

Allt eru þetta stórtíðindi. Alþjóðaat­hygli hef­ur þó lítið beinst að stjórn­ar­skipt­un­um hér fyr­ir réttri viku, 21. des­em­ber. Þau skipta þó mestu fyr­ir okk­ur á heima­velli og fylgja góðar ósk­ir nýrri stjórn.

Sam­fylk­ing­in eign­ast for­sæt­is­ráðherra, Kristrúnu Frosta­dótt­ur, í annað skipti í 25 ára sögu sinni. Þrána eft­ir að flokk­ur­inn næði embætt­inu mátti merkja af stappi, blístri og hróp­um sem bár­ust úr saln­um í Tjarn­ar­bíói þegar flokks­stjórn­in kom sam­an til að samþykkja rík­is­stjórn­ina. Mynd­ir úr and­dyri bíós­ins sýndu að fund­ar­menn komust við vegna upp­hefðar flokks­ins.

Eng­ar sam­bæri­leg­ar mynd­ir birt­ust vegna fund­ar­halda á veg­um Flokks fólks­ins enda eru þar eng­in ráð eða nefnd­ir. Inga Sæ­land flokks­formaður ræður því sem hún vill og tók lagið hvað eft­ir annað af gleði, meira að segja á fyrsta fundi rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir formaður Viðreisn­ar er sú eina í hópn­um sem hef­ur setið áður við rík­is­stjórn­ar­borðið. Hin 10 eru þar nýliðar, ein hef­ur aldrei áður setið á þingi, Alma Möller heil­brigðisráðherra, ann­ar sit­ur ekki á alþingi, Daði Már Kristó­fers­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra.

GIUK_gapÍ GIUK-hliðinu er dregin varnarlína fyrir Norður-Atlantsaf og Norður-Ameríku (kort: Wikipedia).

Ut­an­rík­is­ráðherra Þor­gerður Katrín sat fjög­urra tíma fund með sam­starfs­fólki sínu í ráðuneyt­inu á Þor­láks­messu og ræddi stöðu Íslands í heim­in­um. Þar hef­ur hún vænt­an­lega verið upp­lýst um þá skoðun ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins að ESB-aðild­ar­viðræðum Íslands var slitið árið 2015 eins og seg­ir í op­in­ber­um gögn­um frá ráðuneyt­inu, nú síðast 8. nóv­em­ber 2024.

All­ar hár­tog­an­ir hér á heima­velli um stöðuna gagn­vart ESB að þessu leyti hljóma for­kostu­lega í Brus­sel. Fram­kvæmda­stjórn ESB hef­ur rétti­lega tekið Ísland af lista ESB-um­sókn­ar­ríkja. Heimti Þor­gerður Katrín að þess­um ákvörðunum eig­in ráðuneyt­is og stjórn­valda ESB verði breytt í sam­ræmi við rangt orðalag í sátt­mála nýju rík­is­stjórn­ar­inn­ar er það vís­bend­ing um að einskis verði svif­ist til blekk­inga vegna þjóðar­at­kvæðagreiðslunn­ar um ESB-aðild­ar­um­sókn sem boðuð er árið 2027.

Um stjórn­arsátt­mál­ann í heild má segja að til hans hafi verið kastað hönd­um. Ráðherr­ar eru ekki á einu máli um hvað í orðalagi hans felst. Mátti ráða af um­mæl­um for­sæt­is­ráðherra eft­ir fyrsta rík­is­stjórn­ar­fund­inn að þar hefðu ráðherr­ar leit­ast við að kom­ast að sam­eig­in­legri niður­stöðu um hvað í sátt­mál­an­um fæl­ist. Við sátt­mála­smíðina var leitað aðstoðar starfs­manna Alþýðusam­bands Íslands enda lýsti for­seti ASÍ sér­stakri ánægju yfir efni hans.

Allt skýrist þetta og von­andi skilja ráðherr­arn­ir til dæm­is fljótt að þeir þurfa ekki að taka af­stöðu til bók­un­ar 35 við EES-samn­ing­inn held­ur ein­ung­is að breyta orðalagi á EES-lög­un­um frá 1993 til að tryggja betri rétt­ar­stöðu Íslend­inga á innri markaði Evr­ópu.

Í stjórn­arsátt­mál­an­um er ekki minnst á varn­ar­samn­ing­inn við Banda­rík­in. Það er ein­kenni­leg gleymska á tím­um þegar meira kann að reyna á samn­ing­inn en jafn­vel nokkru sinni frá því að hann var gerður árið 1951. Í sátt­mál­un­um seg­ir: „Mótuð verður ör­ygg­is- og varn­ar­mála­stefna.“ Hvað felst í þess­um orðum? Hverj­ir verða kallaðir til þess­ar­ar stefnu­mót­un­ar?

Ólík­legt er að minna þurfi Banda­ríkja­stjórn und­ir for­sæti Don­alds Trumps á varn­ar­samn­ing­inn eða gildi Norður-Atlants­hafs og norður­slóða fyr­ir heima­varn­ir Banda­ríkj­anna.

Trump dró sjálf­ur at­hygli að því hve mik­illa ör­ygg­is­hags­muna Banda­ríkja­menn hefðu að gæta á okk­ar slóðum þegar hann bar að nýju ví­urn­ar í Græn­land á dög­un­um. Græn­lend­ing­ar líta æ oft­ar til vest­urs þegar þeir huga að ör­yggi sínu þótt þeir vilji ekki verða 51. ríki Banda­ríkj­anna. Dan­ir kynntu á aðfanga­dag áætl­un um millj­arða út­gjöld í þágu varna Græn­lands og norður­slóða.

Hér hef­ur áður verið vak­in at­hygli á að Kan­ada­stjórn birti 6. des­em­ber 2024 sögu­legt stefnu­skjal um ut­an­rík­is­stefnu sína á norður­slóðum, Arctic For­eign Policy. Kan­ada­stjórn hef­ur skil­greint Norðvest­ur-Atlants­haf sem ábyrgðarsvæði sitt inn­an NATO. Óljóst er hvað í þeim orðum felst en með ís­lensku frum­kvæði mætti ef til vill hafa áhrif á það.

Mik­il­vægi ör­ygg­is- og varn­artengsl­anna milli Íslands og NATO-ríkj­anna í Norður-Am­er­íku er gagn­kvæmt og inn­tak tengsl­anna mun skýr­ara en milli Íslands og ESB-ríkj­anna. Því má velta fyr­ir sér hvort tengsl­in við Norður-Am­er­íku­rík­in hættu að verða tví­hliða gengi Ísland í ESB. Tæki ut­an­rík­is- og varn­ar­málaþjón­usta Evr­ópu­sam­bands­ins mál­in í sín­ar hend­ur? Það yrði sögu­leg aft­ur­för, and­stæð þjóðar­hags­mun­um.

Óljós afstaða Trumps til þátt­töku í vörn­um meg­in­lands Evr­ópu hef­ur knúið for­ystu­menn ESB-land­anna til að huga að auknu varn­ar­sam­starfi og meiri evr­ópsk­um stuðningi við Úkraínu.

Óvissa í Evr­ópu minnk­ar ekki við stjórn­ar­kreppu í Þýskalandi og þing­kosn­ing­ar þar 23. fe­brú­ar 2025 og vand­ræði Emm­anu­els Macrons Frakk­lands­for­seta eft­ir að hann missti meiri­hluta á franska þing­inu.

Það er póli­tískt tóma­rúm á toppn­um í Evr­ópu þegar stríð er háð í aust­ur­hluta henn­ar við ein­ræðis­herra sem hef­ur full­veldi ríkja og landa­mæri að engu vegna eig­in stór­veld­is­drauma.

Við stjórn­ar­skipt­in blasa við stór­verk­efni til varn­ar landi og þjóð. Þau verða ekki leyst með ESB-aðild. Þvert á móti sýna skref í þá átt rangt mat á hvernig ör­yggi þjóðar­inn­ar verður best tryggt í bráð og lengd.