6.9.2019

Varaforseti ræðir varnir og viðskipti

Morgunblaðið, föstudagur, 6. september 2019


Richard Nixon, varaforseti Dwights D. Eisenhowers, hafði hér stutta viðdvöl í snjókomu á Þorláksmessu, 23. desember 1956. Hann hitti Ásgeir Ásgeirsson, forseta Íslands, á Bessastöðum. Vinstristjórn var við völd á þessum tíma. Hún var mynduð um sumarið 1956 um þá stefnu að loka Keflavíkurstöðinni og útiloka Sjálfstæðisflokkinn varanlega frá landstjórninni. Áformin um varnarliðið breyttust fljótt, meðal annars vegna uppreisnarinnar í Ungverjalandi haustið 1956.

Nixon var á leið frá Vínarborg, þar sem hann kynnti sér viðhorf og aðbúnað flóttamanna frá Ungverjalandi. Er ekki að efa að Nixon og Guðmundur Í. Guðmundsson, þáv. utanríkisráðherra, sem tók á móti varaforsetanum, hafi í samtölum sínum innsiglað að ekkert yrði af brottför varnarliðsins. Bandaríkjastjórn létti síðar undir með vinstristjórninni með hagstæðum lánum.

Richard Nixon var hér aftur árið 1973 sem forseti og hitti Georges Pompidou Frakklandsforseta á Kjarvalsstöðum.

Lyndon B. Johnson, varaforseti Johns F. Kennedys, var í eins dags heimsókn mánudaginn 16. september 1963. Var það lokaáfanginn í ferð varaforsetahjónanna til Norðurlandanna. Ólafur Thors forsætisráðherra ráðlagði Johnson að hætta við Þingvallaferð vegna rigningar.

George H. W. Bush, varaforseti Ronalds Reagans, dvaldist hér í tvo daga 6. og 7. júlí 1983. Hann lauk hér ferð varaforsetahjónanna til átta Vestur-Evrópulanda. Tilgangur hennar var að kynna stefnu Reagan-stjórnarinnar í utanríkis- og öryggismálum.

Á þessum árum var flotastefnu Bandaríkjanna á Norður-Atlantshafi gjörbreytt, sem birtist meðal annars í endurnýjun á tækjum og mannvirkjum í Keflavíkurstöðinni. Daginn fyrir komu Bush ritaði Geir Hallgrímsson, þáv. utanríkisráðherra, undir samning um smíði flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, sem var að hluta kostuð af Bandaríkjamönnum og opnuð árið 1987.

Mike Pence var því fjórði varaforseti Bandaríkjanna sem sækir Ísland heim og sá fyrsti eftir að Keflavíkurstöðinni var lokað árið 2006. Varaforsetahjónin hafa verið á Póllandi og Írlandi en héldu héðan til Bretlands. Pence er af írskum ættum og fór á slóðir forfeðra sinna auk þess að ræða afleiðingar brexit við írska ráðamenn.

1C0A3650Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, ræða viðskiptamál í Höfða. Mynd: Utanríkisráðuneytið.

Áhugi á viðskiptum

Af frásögnum írskra blaða má ráða að þar hafi stjórnmálamönnum brugðið í brún vegna tvennra ummæla Pence. (1) Hann hvatti til þess að Bretum yrði sýndur skilningur í brexit-viðræðum. (2) Hann þakkaði hlutlausum Írum fyrir samstarf að hernaðar- og öryggismálum við Bandaríkjastjórn og fyrir að Bandaríkjaher fengi afnot af Shannon-flugvelli.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði höfuðáherslu á að fá tækifæri til að ræða viðskiptamál við Pence. Var forráðamönnum úr íslensku viðskiptalífi boðið til fundar við varaforsetann í Höfða til að árétta þessa áherslu.

Allt frá því að Guðlaugur Þór hitti Jim Mattis, þáv. varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, um miðjan maí 2108 hefur hann lagt áherslu á fríverslun og samning um hana í samtölum við bandaríska ráðamenn. Þegar Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom hingað um miðjan febrúar 2019 sagði í tilkynningu utanríkisráðuneytisins eftir fundinn: „Á fundi utanríkisráðherranna var ákveðið að setja á fót árlegt viðskiptasamráð á milli Íslands og Bandaríkjanna, með þátttöku opinberra aðila og einkageirans, í því augnamiði að auka frekar tvíhliða viðskipti og fjárfestingar á milli landanna.“

Þetta samstarf hefur þróast síðan og fær nú nýja pólitíska vídd þegar Pence varaforseti tekur þátt í viðræðum undir merkjum þess. Er ekki að efa að það nýtist, í ljósi þess hve bandarískar fjárfestingar eru mikilvægar hér og við eigum mikið undir gagnvart bandarískum fyrirtækjum, eins og til dæmis Icelandair um þessar mundir vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX-flugvélanna.

Mike Pence var mikið í mun að vara Íslendinga við viðskiptum við Kínverja og nefndi sérstaklega Huawei-fyrirtækið. Hann fagnaði að íslensk stjórnvöld hefðu hafnað kínversku fjárfestingaráætluninni belti og braut en tók þar of djúpt í árinni. Málið er í biðstöðu.

Varnarmálin – ný staða

Í nýrri bók – The New Battle for the Atlantic – Emerging Naval Competition with Russia in the Far North – Nýja orrustan um Atlantshaf – vaxandi flotakeppni við Rússa á norðurslóðum – segir bandaríski her- og flotafræðingurinn Magnus Nordenman, sérfræðingur við hugveitur í Washington, að Bandaríkjaher ráði yfir svo fáum P-8 kafbátaleitarvélum að engin þeirra verði að staðaldri á Íslandi þótt ferðum þeirra í nágrenni landsins fjölgi vegna breyttra aðstæðna á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum.

Í greiningu Nordenmans segir að vegna tiltölulega fárra rússneskra kafbáta og áherslunnar sem lögð er á langdrægar stýriflaugar megi draga þá ályktun að flotanum sé ekki ætlað að sækja gegn skipum á úthafinu heldur að eyðileggja mikilvægar hafnir og flugvelli í Bandaríkjunum og NATO-ríkjum. Þetta leiði til þess að samhliða því sem Bandaríkjaher og NATO leggi áherslu á að finna og fylgjast með ferðum kafbátanna verði að efla stýriflaugavarnir á sjó og landi og gera ráðstafanir í höfnum, á flugvöllum og í stjórnstöðvum til að mannvirkin nýtist sem best og lengst auk þess að dreifa liðsafla og herstöðvum um Norður-Evrópu.

Nýjar rússneskar áherslur á langdræg sóknarvopn kafbáta leiða að mati Nordenmans til þess að líklega þurfa rússneskir kafbátar ekki að vera á sveimi sunnan GIUK-hliðsins. Þvert á móti eru margir lykilflugvellir og margar lykilhafnir NATO og Bandaríkjanna í skotfæri frá stöðum fyrir norðan GIUK-hliðið. Í þessu felst að kæmi til átaka yrði NATO að leita að og eyða rússneskum kafbátum á norðlægum slóðum í stað þess að bíða eftir þeim þar sem siglingaleiðir þrengjast í GIUK-hliðinu. NATO og Bandaríkjaher verði þess vegna í mun ríkari mæli en áður að stunda æfingar og standa að aðgerðum fyrir norðan GIUK-hliðið og nær Barentshafi. Að athafna sig á svæðinu fyrir norðan GIUK-hliðið feli í sér mjög erfiða glímu við náttúruöflin og veðurguðina. Herlið Bandaríkjanna og NATO verði þess vegna að vera þar oft á ferð og við æfingar til öðlast hæfni og þekkingu sem nýtist við þessar aðstæður.

Í því fólust söguleg þáttaskil að forsætisráðherra Íslands ræddi við varaforseta Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli eftir að yfirmenn landhelgisgæslunnar lýstu aðstæðum á Norður-Atlantshafi. Ábyrgð íslenskra stjórnvalda á öryggismálum þjóðarinnar skýrist stig af stigi inn á við og út á við.

Þótt landafræðin og kennileitin séu þau sömu eru herfræðigreiningarnar aðrar nú en fyrir hrun Sovétríkjanna. Þá vöruðu kínverskir sendimenn við sovéskri útþenslu en nú nýta Kínverjar sér Rússa og takmarkalaust fjármagn til að koma ár sinni fyrir borð á norðurslóðum. Í þessu tilliti eru viðskipti og varnarmál tvær hliðar á sama pening.