20.3.2020

Valdafíkn Pútíns kallar á varúð

Morgunblaðið, föstudag 20. mars 2020.

Þegar árás­in var gerð á tví­bura­t­urn­ana í New York og varn­ar­málaráðuneytið í Washingt­on 9. sept­em­ber 2001 bár­ust frétt­ir úr breska stjórn­ar­ráðinu um að emb­ætt­ismaður þar vildi að til­kynnt yrði um óvin­sæla stjórn­valdsákvörðun á meðan at­hygli allra beind­ist að hryðju­verk­inu í Banda­ríkj­un­um.

Nú eru all­ir fjöl­miðlar eðli­lega und­ir­lagðir af frétt­um um kór­óna­veiruna og lítið annað telst til tíðinda. Ákvarðanir eru þó áfram tekn­ar sem hafa áhrif á framtíðargang annarra mála.

Þar má til dæm­is nefna breyt­ingu á rúss­nesku stjórn­ar­skránni sem ger­ir Vla­dimír Pútín fært að sitja sem for­seti til árs­ins 2036, vilji hann það.

OutValdimir Pútín og Valentina Teresjkova

Um nokk­urt skeið hef­ur verið á döf­inni að breyta rúss­nesku stjórn­ar­skránni frá 1993, þá var Bor­is Jelt­sín við völd. Það kom hins veg­ar á óvart þriðju­dag­inn 10. mars að Valent­ina Teresj­kova (83 ára), hetja Sov­ét­ríkj­anna, fyrsta kon­an til að fara út í geim­inn árið 1963, flytti eins og fyr­ir til­vilj­un til­lögu í Dúmunni, neðri deild þings­ins, um að Pútín mætti bjóða sig fram til for­seta að nýju árið 2024. Til­lag­an var samþykkt sam­dæg­urs af þorra þing­heims.

Látið var í það skína að þetta væri ekki endi­lega Pútín (67 ára) að skapi. Hann væri orðinn þreytt­ur á ýms­um form­leg­um embættis­verk­um, viðtöku trúnaðarbréfa sendi­herra og orðuveit­ing­um. Hann þakkaði þó Dúmunni samþykkt til­lög­unn­ar en setti sem skil­yrði að stjórn­laga­dóm­stóll­inn teldi rétt að mál­um staðið.

Áður en Pútín staðfesti stjórn­lög­in með und­ir­skrift sinni 14. mars höfðu 85 héraðsþing Rúss­lands samþykkt þau á ein­um sól­ar­hring. Stjórn­laga­dóm­stóll­inn kom sam­an í skyndi 14. mars. Niðurstaða dóm­ar­anna, Pútín í vil, lá fyr­ir 16. mars. Ætl­un­in er að efna til þjóðar­at­kvæðagreiðslu um nýju stjórn­lög­in 22. apríl.

Meðal nýrra ákvæða er grein um að rúss­nesk lög hafi for­gang gagn­vart alþjóðaregl­um. Þar birt­ist andstaða for­set­ans og manna hans við niður­stöður Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu í Strass­borg og annarra alþjóðastofn­ana sem úr­sk­urða oft rúss­nesk­um yf­ir­völd­um í óhag. Þá verða hjóna­bönd sam­kyn­hneigðra bönnuð og áréttað að Rúss­ar hafi hefðbundið „trúna á Guð“ í há­veg­um (í Sov­ét­ríkj­un­um voru kirkj­ur rifn­ar eða breytt í pakk­hús). Bannað er að draga í efa „sögu­leg­an sann­leika“ um mik­il­væg­an ár­ang­ur þjóðar­inn­ar til varn­ar föður­land­inu. Með þessu seg­ist Pútín snú­ast gegn viðleitni út­lend­inga til að tala niður hlut Sov­ét­ríkj­anna í síðari heims­styrj­öld­inni. Sjálf­ur hef­ur hann út­málað Pól­verja sem upp­hafs­menn stríðsins!

Ólög­mæt inn­limun Pútíns á Krímskaga í Rúss­land er nú stjórn­ar­skrár­var­in. Vegna henn­ar var rúss­nesk­um þing­mönn­um árum sam­an bannað að greiða at­kvæði á þingi Evr­ópuráðsins í Strass­borg. Rúss­ar sóttu ekki þing­fundi og neituðu að greiða ár­gjald til ráðsins. Evr­ópuráðsþingið samþykkti í júní 2019 að verða við skil­yrðum Rússa. Þeir hófu að greiða aðild­ar­gjöld­in gegn at­kvæðis­rétti á Evr­ópuráðsþing­inu.

Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir, þingmaður Pírata í Strass­borg, taldi „mik­il­vægt fyr­ir framtíð Evr­ópuráðsins að samþykkja“ skil­yrði Rússa. Hún hvatti til þess að „þing­menn virtu lýðræðis­lega umræðu og forðuðust að saka hver ann­an um svik við gildi ráðsins“. Rósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir, þingmaður VG, sagði „mark­miðið að standa vörð um mann­rétt­indi millj­óna Rússa, sem væru áfram und­ir vernd Evr­ópuráðsins. Inn­limun Krímskaga hafi verið gegn alþjóðalög­um og ætti að draga til baka. Hins veg­ar ættu þving­un­araðgerðir að vera á hönd­um rík­is­stjórna en ekki þinga“.

Evr­ópuráðið stend­ur nú frammi fyr­ir því að rúss­neska stjórn­ar­skrá­in bann­ar að tekið sé mark á því.

 

Leng­ur en Stalín

Jós­ef Stalín stjórnaði Sov­ét­ríkj­un­um með harðri hendi frá 1922 til 1953 eða í 31 ár. Sitji Valdimír Pútín sem for­seti Rúss­lands til 2036 yrði hann við stjórn­völ Rúss­lands í 36 ár. Pútín yrði 83 ára 2036 eða á svipuðum aldri og Joe Biden yrði í lok næsta kjör­tíma­bils næði hann kjöri sem Banda­ríkja­for­seti.

Eng­inn legg­ur að jöfnu stjórn­ar­hætti Stalíns og Pútíns þrátt fyr­ir þaul­set­una í Kreml­ar­k­astala. Þó er minnt á að báðir láti þeir drepa and­stæðinga sína er­lend­is. Pútín óvin sinn Al­ex­and­er Lit­vin­en­ko með eitri í te­bolla í London árið 2006. Útsend­ari Stalíns beitti ís­st­ing gegn Lev Trot­skíj í Mexí­kó­borg árið 1940.

Pútín er ekki vand­ur að alþjóðleg­um vin­um eins og stuðning­ur hans við sýr­lenska ein­ræðis­herr­ann Bash­ar al-Assad sýn­ir. Rúss­nesk­um herafla er beitt af mis­kunn­ar­leysi í Sýr­landi. Hörku­leg­ur stuðning­ur Pútíns við ein­ræðis­herra víða um heim er skýrður sem ábend­ing til þeirra á heima­velli sem ala með sér hug­mynd­ir um að hrófla við for­set­an­um og veldi hans. Pútín og menn hans hafa skotið mikl­um eign­um til annarra landa. Nú vakn­ar spurn­ing um hvað þeir gera á tím­um kaup­hall­ar- og eigna­hruns vegna kór­óna­veirunn­ar.

Veir­an, lækk­un olíu­verðs og önn­ur óár­an auk upp­log­inna full­yrðinga um að stjórn­ir Vest­ur­landa sitji um Rúss­land eru heimarök­in fyr­ir að tryggja þurfi Pútín setu í Kreml til 2036. Hröð hand­tök við að hrinda þessu öllu í fram­kvæmd magna grun­semd­ir um að ekki sé allt sem sýn­ist.

 

Reiði í Rússlandi

Hraðinn við stjórn­laga­breyt­ing­una ræðst meðal ann­ars af ótta Pútíns og fé­laga við and­mæli rúss­neskra stjórn­ar­and­stæðinga. Þeir eru hug­mynda­rík­ir við að láta í ljós vanþókn­un sína á þessu valda­brölti.

Spjót­un­um er meðal ann­ars beint að hetj­unni Teresj­kovu. Hún er sögð „tæki“ í hönd­um Kreml­verja. Íbúar í nokkr­um borg­um og bæj­um hafa tekið hönd­um sam­an um kröfu um nafn­breyt­ingu á göt­um eða torg­um sem kennd eru við Teresj­kovu. „Forn hetju­dáð“ henn­ar hafi orðið að engu vegna þjónk­un­ar við Pútín.

Í Sar­ansk, höfuðborg rúss­neska héraðsins Mor­doviu, hvetja ýms­ir borg­ar­bú­ar til dæm­is til þess að fram­veg­is verði Teresj­kovu-gata nefnd eft­ir Laika – sov­ésk­um geim­hundi sem var meðal fyrstu geim­ferðardýr­anna og fyrst þeirra til að fara í kring­um jörðina árið 1957.

 

Hættu­merki

Þessi skref sem nú eru tek­in í Rússlandi eru al­mennt til marks um hættu sem steðjar að lýðræðis­leg­um stjórn­ar­hátt­um, rétt­ar­rík­inu og alþjóðlegri sam­vinnu sem reist er á viður­kennd­um regl­um.

Regl­una um að eng­inn gæti setið leng­ur en tvö kjör­tíma­bil sam­fellt sem for­seti hafði Pútín að engu með því að sitja eitt kjör­tíma­bil sem for­sæt­is­ráðherra og síðan að nýju tvö kjör­tíma­bil sem for­seti. Ekki er leng­ur tal­in þörf á slík­um leik­ara­skap og Pútín fær­ir sig víðar til auk­inna valda.

Standa verður vörð um grunn­gildi lýðræðis og rétt­ar­rík­is­ins í alþjóðlegu sam­starfi. Ein­mitt þess vegna er nauðsyn­legt að átta sig á hvert stefn­ir í Rússlandi Pútíns. Því miður eiga stjórn­ar­hætt­ir hans hljóm­grunn meðal áhrifa­manna sem sækj­ast eft­ir völd­um í lýðræðis­ríkj­un­um. Pútín höfðar ekki til þeirra vegna hug­sjóna held­ur vegna valdafíkn­ar. Lýðræðis­leg­ar stjórn­ar­skrár og alþjóðasamn­ing­ar eiga að setja henni skorður.