22.9.2017

Útlendingamálin verður að ræða fyrir kosningar

Morginblaðið föstudag 22. september 2017

Danski þjóðarflokkurinn (Dansk Folkeparti, DF) varð fyrstur stjórnmálaflokka í Evrópu til að afla sér mikils fylgis með stefnu í útlendingamálum. Í upphafi aldarinnar tók flokkurinn höndum saman með forystumönnum Venstre (mið-hægri) og Íhaldsflokksins og mótaði stranga útlendingastefnu Dana. Þegar litið var til annarra þjóða þótti þetta óvenjulegt.

DF er varð annar stærsti flokkur Danmerkur árið 2015 með 21% atkvæða. Flokkurinn stendur nú að baki ríkisstjórninni undir forystu Venstre en hann hefur aldrei átt ráðherra í ríkisstjórn.  Enn á ný hefur Danski þjóðarflokkurinn gert „byltingu“ í dönskum stjórnmálum. Hann hefur tekið upp samstarf við danska Jafnaðarmannaflokkinn. Slíkt samstarf er án fordæma í Vestur-Evrópu.

Kristian Thulesen Dahl, formaður DF, hefur styrkt eigin stöðu með þessu. Ný könnun sýnir að 48% aðspurðra telja að hann sé mesti áhrifamaðurinn í dönskum stjórnmálum. Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra og formaður Venstre, er í öðru sæti með stuðning 26% aðspurðra.

Samstarf DF við Jafnaðarmenn má rekja til þess að Jafnaðarmenn hafa breytt um stefnu í útlendingamálum og taka nú undir svipuð sjónarmið og DF boðar. Þetta þótti óhugsandi fyrir nokkrum árum og er einsdæmi meðal Jafnaðarmannaflokka í Vestur-Evrópu.

DF og Jafnaðarmannaflokkurinn hafa nálgast svo greinilega að kjósendur telja að minnst bil sé á milli þessara flokka – 48% segja að DF standi Jafnaðarmannaflokknum næst, 30% segja að DF standi Venstre næst.

Fjárlagafrumvarpið og hælisleitendur


Í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018 sem lagt var fram á alþingi 12. september segir að kostnaður vegna þjónustu við hælisleitendur hafi farið fram úr fjárheimildum ársins 2017 vegna áframhaldandi fjölgunar hælisumsókna frá fordæmalausri fjölgun á síðari hluta ársins 2016. Mikil óvissa sé um fjölda hælisleitenda en gera megi ráð fyrir fjölgun bæði tilhæfulausra hælisumsókna og einnig umsókna þar sem tilvik séu flóknari. Sveiflum í málaflokknum fylgi tilheyrandi ófyrirsjáanleiki varðandi kostnað. Stefnt sé að lækkun kostnaðar við þjónustu með hraðari málsmeðferð. Hins vegar geti hraðari málsmeðferð haft í för með sér meiri kostnaði í byrjun sem lækki til lengri tíma litið.

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2018 er áætluð 3.673 m.kr. og hækkar um 1.600,9 m.kr. frá gildandi fjárlögum það er um 109%. Framlag til hælismála eru aukið um 1.573,9 m.kr. til að mæta viðvarandi fjölgun hælisumsókna. Með viðbótarframlaginu verða heildarframlög til fjárlagaliðarins 2.688,3 m.kr.

Þetta eru miklar fjárhæðir. Þær eru eitt en það sem kallað er „ófyrirsjáanleiki“ í greinargerðinni annað. Í orðinu felst að hér er í raun um stjórnlausan fjárlagalið að ræða. Fyrr á árinu kallaði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra þetta „áhlaup“. 

Stjórnmálaþögn rofin


Með hliðsjón af því hve miklu af skattfé almennings er varið til hælismála er stórundarlegt að umræðan sé ekki meiri um útlendingamálin á stjórnmálavettvangi. Það er engu líkara en íslenskir stjórnmálamenn forðist málaflokkinn og vilji helst að um hann ríki pólitísk þögn.

Stjórnmálaþögnin hér var þó rofin á áhrifamikinn hátt miðvikudaginn 13. september þegar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flutti ræðu og svaraði fyrirspurnum á fundi Samtaka eldri Sjálfstæðismanna. Ítarleg frásögn af þessum þætti fundarins birtist á mbl.is sama dag og fundurinn var haldinn.

Bjarni ræddi um „ófyrirsjáanleikann“ í útlendingamálunum. Hann sagði: „Það sem við höfum lært er að það borgar sig að stórefla stjórnsýsluna, þannig að niðurstaða fáist í þau mál sem allra fyrst. Það er mannréttindamál að fá svar strax. [...] Mér finnst erfitt að horfa á [eftir] þessum miklu fjármunum sem fara í þetta mál."

Hitt er einnig mikilvægt að efla landamæravörsluna. Með því ætti að stíga markviss skref til að stemma stigu við komu þeirra sem leggja fram „tilhæfulausar“ hælisumsóknir. Þeir eiga ekkert erindi hingað og ætti að gera skipulegt átak í samvinnu við flugfélög til að spara þeim tilgangslausa ferð til Íslands í von um hæli. Þetta fólk mætti kalla félagslegt farandfólk því að tilgangur þess er oft einkum sá að nýta sér félagslegt kerfi á meðan hælisumsókn er til meðferðar.

Á fundinum sagði forsætisráðherra að lögregla hefði ekki farið óvopnuð í Víðines þegar hælisleitendur dvöldust þar. Að þessi ummæli vektu ekki umræður stangast á við uppnámið sem varð snemma í júní þegar vopnaðir sérsveitarmenn sáust við vörslu á fjölmennri samkomu í Reykjavík. Ef til vill fellur það ekki að staðalímynd frétta af hælisleitendum  lögreglumenn vopnist séu þeir sendir til eftirlits meðal þeirra í Víðinesi.

Slæm ráðstöfun


Fyrir fáeinum árum veikti alþingi tiltrú til útlendingastofnunar þegar þingmenn samþykktu að albanskar fjölskyldur fengju hér ríkisborgararétt þótt stofnunin teldi útlendingalög ekki standa til þess. Forsætisráðherra sagði á fundinum í Valhöll að það hefði verið „slæm ráðstöfun að fara ríkisborgaraleiðina í Albaníumálinu. Það má kannski segja að við höfum með einhverjum hætti misst stjórn á því máli sem endaði svona“. 

Bjarni sagði: „Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að vera með mjög strangar reglur og skýr svör, ella munum við kalla yfir okkur bylgjur af nýjum flóttamönnum.“ 

Um þá ákvörðun stjórnvalda að taka við 100 flóttamönnum á ári fyrir utan hælisleitendur næstu fimm árin sagði Bjarni Benediktsson: „Þetta er tímabundin ákvörðun.“ Í þessu tilviki hefðu stjórnvöld stjórn á hverju einasta tilfelli. Fólk sem færi eftir þessari leið ætti möguleika á að skjóta rótum á Íslandi.

Söguleg umræða


Það er í raun sögulegt að umræða af þessu tagi fari fram á stjórnmálavettvangi og líklega er Sjálfstæðisflokkurinn eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem hefur þrek til að taka þessi mál til umræðu á málefnalegan hátt og á svipuðum grunni og gert er í forystuflokkum í öðrum löndum.

Þegar rætt er um útlendingamál verður að gæta þess, eins og Bjarni Benediktsson gerði, að setja ekki alla undir sama hatt. Innflytjendur sem koma hingað eftir lögmætum leiðum er ekki unnt að skipa með og farand- og flóttafólki. 

Hér að ofan var Danmörk nefnd til sögunnar. Þar hafa stjórnvöld ákveðið að rjúfa þá hefð að taka á móti 500 kvótaflóttamönnum á ári af því að danskt samfélag anni því ekki að laga þá sem áður hafa komið að dönskum háttum. Það verði að gera hlé til að vinna heimavinnuna betur ef svo má að orði komast.

Stutt en væntanlega snörp kosningabarátta er hafin vegna þingkosninganna 28. október. Óhjákvæmilegt er að frambjóðendur og flokkar geri kjósendum grein fyrir stefnu sinni þessum mikilvægu málum.