Úr sveitamenningu í fúnkis
Morgunblaðið, laugardag 18. júní 2022,
Þórir Baldvinsson arkitekt ****½
Ritstjórn: Ólafur J. Engilbertsson. Innb. 163 bls., myndir, teikningar, skrár. Útg. Sögumiðlun og Vesturbær, Rvk. 2021.
Forsíðumynd bókarinnar Þórir Baldvinsson arkitekt er snilldarvel valin. Pétur A. Ólafsson tók hana árið 1938 af röð funkishúsa eftir Þóri (1901-1986) við Helgamagrastræti á Akureyri, fremst á henni stendur hestur spenntur fyrir kerru.
Þarna er hugsjón Þóris lýst á einfaldan hátt. Þórir var framtíðarmaður sem átti djúpar rætur í íslenskri sveitamenningu. Að loknu námi í San Francisco flutti hann nýja strauma í byggingarlist til landsins í byrjun fjórða áratugarins og tók að stuðla að byltingu í íslenskum landbúnaði.
Myndin er einnig táknræn fyrir hve hönnun og skipulag bókarinnar er þaulhugsað. Þar er sagan ekki aðeins sögð í fróðlegum textum heldur einnig með 162 ljósmyndum, í lit og svart/hvítum, og teikningum.
Ólafur J. Engilbertsson, menningarmiðlari, sagnfræðingur, leikmyndahöfundur og grafískur hönnuður, ritstýrir bókinni og skrifar æviþátt um Þóri (7-43). Arkitektarnir Jóhannes Þórðarson og Ólafur Mathiesen skrifa bókarkaflann: Úr Kinninni í Ingólfsstræti – með viðkomu í San Francisco (45-71). Pétur H. Ármannsson arkitekt á bókarkaflann: Nýir straumar úr óvæntri átt – um byggingarlist Þóris (71-101) og Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur skrifar kaflann: Þórir og landbúnaðurinn. (101-119)
Kaflarnir eru mismikið myndskreyttir en aftan við meginmálið eru: Tilvísanir, heimildir, myndaskrá, verkaskrá, æviágrip höfunda og sagt frá tilurð bókarinnar. Pétur H. Ármannsson gerði texta um byggingar og verkaskrá (149-155). Að skaðlausu hefði einnig mátt hafa mannanafnaskrá.
Ljósmyndirnar eru gamlar og nýjar, bregða ljósi á fjölskyldu Þóris, þróun atvinnuhátta auk fjölmargra mynda af byggingum sem hann teiknaði.
Langafabarn Þóris, Úlfur Kolka, gerði lokaverkefni sitt við Listaháskóla Íslands árið 2008 um hús Þóris á höfuðborgarsvæðinu. Um var að ræða ljósmyndabók með formála eftir Beru, dóttur Þóris, og Pétur H. Ármannsson. Varð það kveikjan að þessari bók og sá Úlfur um útlit hennar en Arkitektafélag Íslands veitti styrk til útgáfunnar árið 2011 og birtist hún áratug síðar, í nóvember 2021.
Þórir var hógvær maður og yfirlætislaus, áhugamaður um strauma og stefnur samtímans heima og erlendis. Í samtölum við hann var hvergi komið að tómum kofunum og hann spurði margs. Bókin opnar nýja sýn á stöðu hans meðal íslenskra arkitekta og hve mikið hann lagði af mörkum við að nútímavæða íslenskan landbúnað. Ævistarfið var mikið og árangursríkt.
Þegar Þórir var í San Francisco veiktist hann árið 1926 alvarlega af lömunarveiki og var frá störfum til 1928. Til Íslands kom hann aftur í mars 1930 og tengdist heimkoman m.a. því að þetta ár fékk hann bréf frá sveitunga sínum úr Bárðardalnum í Þingeyjarsýslu og ráðherra, Jónasi Jónssyni frá Hriflu, sem bauð honum starf við Teiknistofu Byggingar- og landnámssjóðs, sem frá 1938 hét Teiknistofa landbúnaðarins. Taldi Þórir ekki „hægt að hugsa sér“ betra starf (54). Hann var forstöðumaður teiknistofunnar frá 1938 til 1969.
Myndin á bókarkápunni frá Helgamagrastræti á Akureyri er af svokölluðum samvinnuhúsum og sambærileg fúnkishús teiknaði Þórir við Ásvallagötu í Reykjavík. Við gerð húsanna kynnti Þórir fyrstur manna til sögunnar forskölun í húsbyggingum hér á landi. Við Lönguhlíð fyrir austan Klambratún, milli Skaftahlíðar og Úthlíðar, má sjá tvö fjölbýlishús sem Þórir teiknaði. Einnig eru myndir af húsum á Melunum, Högunum og í Eskihlíð. Þá teiknaði hann fjölmargar opinberar byggingar; héraðsskóla, kaupfélagshús, samkomuhús og verksmiðjuhús vítt og breitt um landið og þekktar byggingar í Reykjavík eins og Alþýðuhúsið við Hverfisgötu og Mjólkurstöðina við Laugaveg sem nú hýsir Þjóðskjalasafnið.
Öllu er þessu til skila haldið í bókinni í máli og myndum og tengt inn í strauma og stefnur byggingarlistarinnar.
Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur er manna fróðastur um sögu íslensks landbúnaðar. Hann áréttar það sem víðar kemur fram í bókinni að með grein í Andvara árið 1931 boðaði Þórir lausnir í húsagerð til sveita sem á kreppuárum áttu að auðvelda efnalitlum bónda „að hýsa jörð sína án þess að það verði honum ofviða fjárhagslega“. Í stað torfbæja rísi mikil og sterkleg steinhús. Rafljós komi í stað grútarlampa. (101)
Í sögulegu tilliti má líta á þetta skref frá miðöldum inn í nútímann og átti Þórir ríkan þátt í byltingunni sem varð til sveita með umskiptum í húsakosti. Segir Árni Daníel að „flutningurinn úr torfhúsunum og yfir í steinsteyptu húsin hafi að mestu verið um garð genginn þegar um 1950“. (105)
Það voru ekki aðeins íbúðarhús sem Þórir þróaði og teiknaði heldur einnig gripahús og hlöður. Þórir boðaði árið 1948 súgþurrkun í hlöðugólfi. „Súgþurrkun sé góð, en mjög dýr.“ (109) Þórir hafði mikil áhrif á þróun íslensks landbúnaðar fram yfir miðja 20. öldina.
Í lok greinar sinnar segir Árni Daníel að olíukreppan í upphafi áttunda áratugarins hafi haft mikil verðbólguáhrif og að samfélagssáttin frá fjórða áratug 20. aldar með bandalagi bændahreyfingar og verkalýðshreyfingar hafi molnað. Landbúnaðurinn hafi lent í kreppu upp úr 1980, sauðfé fækkað um helming en mjólkurframleiðsla haldist áfram svipuð. „Samvinnuhreyfingin lenti síðan í mjög alvarlegri kreppu upp úr 1990 og hrundi raunar, en þrátt fyrir það hefur grundvöllur landbúnaðarstefnunnar sem lagður var um 1934 haldist lítið breyttur fram undir þetta.“ (115)
Árni Daníel talar þarna um „landbúnaðarstefnu“. Var hún formlega mótuð eða fólst hún í lausnum hugsjónamanna eins og Þóris Baldvinssonar til að gera bændum kleift að reka bú sín við nútímalegar aðstæður?
Hvað sem því líður eru nú tímamót vegna olíukreppu, orkuverðs í hæstu hæðum, skorts á áburði og ógnar við fæðuöryggi. Nú liggja fyrir tillögur um landbúnaðarstefnu til framtíðar sem mótaðar voru í fyrra eftir samráð við hundruð kvenna og karla. Hvar eru hugsjónamennirnir til að skapa bændum nýja starfsumgjörð í krafti bestu landnýtingar á grænum tímum? Þekking, framsýni og nýsköpun eru lykilorðin núna eins og áður.
Bókin Þórir Baldvinsson arkitekt er saga um árangur sem má ná með hugsjónir, fræðslu og raunhæfar lausnir að leiðarljósi.