15.3.2025

Uppvakningur í boði 2027

Morgunblaðið, 15. mars 2025.

Miðað við allt sem gerst hef­ur á alþjóðavett­vangi und­an­far­in 16 ár og mikla um­rótið sem rík­ir þar um þess­ar mund­ir er ótrú­legt ef rík­is­stjórn Íslands tel­ur það sér til trausts inn­an lands eða utan að ætla að spyrja þjóðina hvort hún samþykki árið 2027 að haldið verði áfram aðild­ar­viðræðum við Evr­ópu­sam­bandið á grunni um­sókn­ar Íslands frá 2009.

Með óljósri yf­ir­lýs­ingu blekk­ir stjórn­in fólk bæði hér og er­lend­is. Danski stjórn­mála­maður­inn Bertel Haar­der, fyrrv. ráðherra og for­seti Norður­landaráðs, fagnaði til dæm­is í grein í vik­unni að fyr­ir jól hefði ný rík­is­stjórn Íslands sagt að aðild­ar­viðræður hæf­ust að nýju við ESB. Pút­in væri að koma okk­ur inn í ESB eins og Finn­um og Sví­um í NATO.

Í stjórn­arsátt­mál­an­um má sjá mörg dæmi um að flokk­arn­ir þrír hafi stungið þangað inn gælu­verk­efn­um án þess að hugsað hafi verið til enda hvernig eigi að standa að fram­kvæmd þeirra. Þar má til dæm­is nefna strand­veiðar í 48 daga, óska­verk­efni Flokks fólks­ins og for­manns at­vinnu­vega­nefnd­ar alþing­is, Sig­ur­jóns Þórðar­son­ar, strand­veiðimanns.

„Rík­is­stjórn­in mun tryggja 48 daga til strand­veiða,“ seg­ir í sátt­mál­an­um. Þetta verður ekki gert nema með laga­breyt­ingu. Nú seg­ir at­vinnu­vegaráðherra Viðreisn­ar, Hanna Katrín Friðriks­son, að ekki sé tími til að breyta lög­um um þetta efni fyr­ir vertíðina sum­arið 2025 en hún ætli að bjarga mál­inu með reglu­gerð.

Frægt var að endem­um þegar for­veri Hönnu Katrín­ar í ráðuneyt­inu, Svandís Svavars­dótt­ir (VG), gaf út reglu­gerð til að fresta veiðum á langreyði sum­arið 2023 án þess að hafa heim­ild til þess í lög­um. Svandís braut grunn­regl­ur stjórn­sýsl­unn­ar, ekki af gá­leysi held­ur af skýr­um póli­tísk­um ásetn­ingi. Vak­ir þetta sama fyr­ir Hönnu Katrínu? Hvernig get­ur hún gefið út reglu­gerð um 48 daga veiði ef lög­in vant­ar?

IMG_1889

Inga Sæ­land, formaður Flokks fólks­ins, tók vís­vit­andi við fé úr rík­is­sjóði án þess að hafa heim­ild til þess. Hún nýt­ur vernd­ar fjár­málaráðherra Viðreisn­ar, Daða Más Kristó­fers­son­ar.

Gælu­mál Viðreisn­ar við mynd­un rík­is­stjórn­ar Kristrún­ar Frosta­dótt­ur var að koma inn í sátt­mála henn­ar óljósa orðalag­inu um „fram­hald viðræðna“ og þjóðar­at­kvæðagreiðsluna 2027. Þetta féll að ESB-aðild­ar­draum­um Sam­fylk­ing­ar­inn­ar sem fóru leynt í kosn­inga­bar­átt­unni. Þótti óskil­greint orðalagið um fram­hald viðræðna falla vel að felu­leikn­um fyr­ir kosn­ing­ar.

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, formaður Viðreisn­ar, varð hins veg­ar að dekstra Ingu Sæ­land. Hún hafði á sex þing­um áréttað ESB-and­stöðu sína með álykt­un­ar­til­lögu um að rík­is­stjórn­in drægi til baka um­sókn Íslands um aðild að ESB.

Það sýn­ir færni í póli­tísk­um um­snún­ingi að ganga inn í rík­is­stjórn til að halda áfram viðræðum við ESB á grund­velli úr­eltr­ar um­sókn­ar eft­ir að hafa sex sinn­um for­dæmt til­vist henn­ar. Þetta ger­ir Inga Sæ­land með flokk­inn sinn gegn end­ur­gjaldi frá Viðreisn. Ráðherr­ar Viðreisn­ar leggja sig svo í líma við að gera henni til geðs.

Um þess­ar mund­ir eru rétt 10 ár frá því að fram­sókn­ar­maður­inn Gunn­ar Bragi Sveins­son, ut­an­rík­is­ráðherra í rík­is­stjórn Sig­mund­ar Davíðs Gunn­laugs­son­ar, sendi (12. mars 2015) bréf til for­manns ráðherr­aráðs ESB og stækk­un­ar­stjóra sam­bands­ins og skýrði af­stöðu rík­is­stjórn­ar Íslands til aðild­ar­viðræðna við ESB.

Frá því að rík­is­stjórn­in tók við völd­um vorið 2013 hefði hún fylgt nýrri og skýrri stefnu varðandi aðild­ar­viðræðurn­ar við Evr­ópu­sam­bandið. Þessi stefna hefði verið ít­rekuð á fundi rík­is­stjórn­ar­inn­ar 10. mars 2015 með samþykkt þessa bréfs sem nú var sent.

Meg­inþætt­ir stefn­unn­ar hefðu í fyrsta áfanga verið að stöðva aðild­ar­viðræðurn­ar að fullu, leysa upp það skipu­lag sem sett hefði verið um viðræðurn­ar og hefja mat á aðild­ar­ferl­inu, sem og þróun mála inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins. Enn frem­ur hefði rík­is­stjórn­in ákveðið að víkja frá allri þátt­töku í starfi sem rekja mætti til stöðu lands­ins sem um­sókn­ar­rík­is enda væri það í sam­ræmi við þá ákvörðun að stöðva aðild­ar­ferlið að fullu.

Á fund­um for­sæt­is­ráðherra Íslands með for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins og for­seta leiðtogaráðsins í júlí 2013 hefði þessi nýja stefna verið út­skýrð. Þar hefði komið skýrt fram að þess­ir tveir leiðtog­ar stofn­ana ESB myndu fagna skýrri stefnu varðandi aðild­ar­ferlið.

Þá var í bréf­inu minnt á ný­legt sam­ráð full­trúa Íslands og ESB um stöðu mála í aðild­ar­ferl­inu.

Með vís­an til þessa skýrði rík­is­stjórn­in fyr­ir­ætlan­ir sín­ar nán­ar. Hún hefði eng­in áform um að hefja aðild­ar­viðræður að nýju. Þessi nýja stefna kæmi í stað hvers kyns skuld­bind­inga af hálfu fyrri rík­is­stjórn­ar í tengsl­um við aðild­ar­viðræður. Það væri því bjarg­föst afstaða rík­is­stjórn­ar­inn­ar að ekki skyldi líta á Ísland sem um­sókn­ar­ríki ESB og rétt væri að ESB lagaði verklag sitt að þessu. Ítrekað var mik­il­vægi áfram­hald­andi ná­inna tengsla og sam­starfs milli ESB og Íslands, einkum með hliðsjón af EES-samn­ingn­um.

Gunn­ar Bragi sagði á alþingi 17. mars 2015 að til að end­ur­vekja aðild­ar­ferlið gagn­vart ESB þyrfti að end­ur­nýja um­sókn­ina og það færi best á því að það yrði þjóðin sem það gerði í þjóðar­at­kvæðagreiðslu. Nú kæmu til þrjú fram­kvæmd­ar­atriði: (1) Ísland yrði tekið af list­um sem um­sókn­ar­ríki. (2) Hætt yrði að bjóða Íslandi til funda Evr­ópu­sam­bands­ins sem um­sókn­ar­ríki. (3) ESB byði Íslandi áfram að taka þátt í sam­eig­in­leg­um yf­ir­lýs­ing­um um ut­an­rík­is­mál.

Allt hef­ur þetta gengið eft­ir. Nú geng­ur gamla um­sókn­in frá 2009 þó aft­ur. Ætlar rík­is­stjórn­in að bera þann upp­vakn­ing und­ir þjóðina 2027?