Uppvakningur í boði 2027
Morgunblaðið, 15. mars 2025.
Miðað við allt sem gerst hefur á alþjóðavettvangi undanfarin 16 ár og mikla umrótið sem ríkir þar um þessar mundir er ótrúlegt ef ríkisstjórn Íslands telur það sér til trausts innan lands eða utan að ætla að spyrja þjóðina hvort hún samþykki árið 2027 að haldið verði áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið á grunni umsóknar Íslands frá 2009.
Með óljósri yfirlýsingu blekkir stjórnin fólk bæði hér og erlendis. Danski stjórnmálamaðurinn Bertel Haarder, fyrrv. ráðherra og forseti Norðurlandaráðs, fagnaði til dæmis í grein í vikunni að fyrir jól hefði ný ríkisstjórn Íslands sagt að aðildarviðræður hæfust að nýju við ESB. Pútin væri að koma okkur inn í ESB eins og Finnum og Svíum í NATO.
Í stjórnarsáttmálanum má sjá mörg dæmi um að flokkarnir þrír hafi stungið þangað inn gæluverkefnum án þess að hugsað hafi verið til enda hvernig eigi að standa að framkvæmd þeirra. Þar má til dæmis nefna strandveiðar í 48 daga, óskaverkefni Flokks fólksins og formanns atvinnuveganefndar alþingis, Sigurjóns Þórðarsonar, strandveiðimanns.
„Ríkisstjórnin mun tryggja 48 daga til strandveiða,“ segir í sáttmálanum. Þetta verður ekki gert nema með lagabreytingu. Nú segir atvinnuvegaráðherra Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson, að ekki sé tími til að breyta lögum um þetta efni fyrir vertíðina sumarið 2025 en hún ætli að bjarga málinu með reglugerð.
Frægt var að endemum þegar forveri Hönnu Katrínar í ráðuneytinu, Svandís Svavarsdóttir (VG), gaf út reglugerð til að fresta veiðum á langreyði sumarið 2023 án þess að hafa heimild til þess í lögum. Svandís braut grunnreglur stjórnsýslunnar, ekki af gáleysi heldur af skýrum pólitískum ásetningi. Vakir þetta sama fyrir Hönnu Katrínu? Hvernig getur hún gefið út reglugerð um 48 daga veiði ef lögin vantar?
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, tók vísvitandi við fé úr ríkissjóði án þess að hafa heimild til þess. Hún nýtur verndar fjármálaráðherra Viðreisnar, Daða Más Kristóferssonar.
Gælumál Viðreisnar við myndun ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur var að koma inn í sáttmála hennar óljósa orðalaginu um „framhald viðræðna“ og þjóðaratkvæðagreiðsluna 2027. Þetta féll að ESB-aðildardraumum Samfylkingarinnar sem fóru leynt í kosningabaráttunni. Þótti óskilgreint orðalagið um framhald viðræðna falla vel að feluleiknum fyrir kosningar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, varð hins vegar að dekstra Ingu Sæland. Hún hafði á sex þingum áréttað ESB-andstöðu sína með ályktunartillögu um að ríkisstjórnin drægi til baka umsókn Íslands um aðild að ESB.
Það sýnir færni í pólitískum umsnúningi að ganga inn í ríkisstjórn til að halda áfram viðræðum við ESB á grundvelli úreltrar umsóknar eftir að hafa sex sinnum fordæmt tilvist hennar. Þetta gerir Inga Sæland með flokkinn sinn gegn endurgjaldi frá Viðreisn. Ráðherrar Viðreisnar leggja sig svo í líma við að gera henni til geðs.
Um þessar mundir eru rétt 10 ár frá því að framsóknarmaðurinn Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sendi (12. mars 2015) bréf til formanns ráðherraráðs ESB og stækkunarstjóra sambandsins og skýrði afstöðu ríkisstjórnar Íslands til aðildarviðræðna við ESB.
Frá því að ríkisstjórnin tók við völdum vorið 2013 hefði hún fylgt nýrri og skýrri stefnu varðandi aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Þessi stefna hefði verið ítrekuð á fundi ríkisstjórnarinnar 10. mars 2015 með samþykkt þessa bréfs sem nú var sent.
Meginþættir stefnunnar hefðu í fyrsta áfanga verið að stöðva aðildarviðræðurnar að fullu, leysa upp það skipulag sem sett hefði verið um viðræðurnar og hefja mat á aðildarferlinu, sem og þróun mála innan Evrópusambandsins. Enn fremur hefði ríkisstjórnin ákveðið að víkja frá allri þátttöku í starfi sem rekja mætti til stöðu landsins sem umsóknarríkis enda væri það í samræmi við þá ákvörðun að stöðva aðildarferlið að fullu.
Á fundum forsætisráðherra Íslands með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og forseta leiðtogaráðsins í júlí 2013 hefði þessi nýja stefna verið útskýrð. Þar hefði komið skýrt fram að þessir tveir leiðtogar stofnana ESB myndu fagna skýrri stefnu varðandi aðildarferlið.
Þá var í bréfinu minnt á nýlegt samráð fulltrúa Íslands og ESB um stöðu mála í aðildarferlinu.
Með vísan til þessa skýrði ríkisstjórnin fyrirætlanir sínar nánar. Hún hefði engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju. Þessi nýja stefna kæmi í stað hvers kyns skuldbindinga af hálfu fyrri ríkisstjórnar í tengslum við aðildarviðræður. Það væri því bjargföst afstaða ríkisstjórnarinnar að ekki skyldi líta á Ísland sem umsóknarríki ESB og rétt væri að ESB lagaði verklag sitt að þessu. Ítrekað var mikilvægi áframhaldandi náinna tengsla og samstarfs milli ESB og Íslands, einkum með hliðsjón af EES-samningnum.
Gunnar Bragi sagði á alþingi 17. mars 2015 að til að endurvekja aðildarferlið gagnvart ESB þyrfti að endurnýja umsóknina og það færi best á því að það yrði þjóðin sem það gerði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú kæmu til þrjú framkvæmdaratriði: (1) Ísland yrði tekið af listum sem umsóknarríki. (2) Hætt yrði að bjóða Íslandi til funda Evrópusambandsins sem umsóknarríki. (3) ESB byði Íslandi áfram að taka þátt í sameiginlegum yfirlýsingum um utanríkismál.
Allt hefur þetta gengið eftir. Nú gengur gamla umsóknin frá 2009 þó aftur. Ætlar ríkisstjórnin að bera þann uppvakning undir þjóðina 2027?