Upplýsingaóreiða vopn popúlista
Morgunblaðið, laugardagur 7. maí 2022.
Nú eru 28 ár frá því að R-listinn náði kjöri í borginni. Markmið samstarfsins var að bola Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Í 25 ár af þessum 28 hefur það tekist með mismunandi pólitísku blúnduverki.
Samfylkingin var stofnuð við upphaf aldarinnar í sama anda og R-listinn, að sameina flokka gegn Sjálfstæðisflokknum og ýta honum til hliðar. Í þingkosningunum 2021 hlaut Samfylkingin 9,9% atkvæða en Sjálfstæðisflokkurinn 24,4%.
Tilraunin um sameiningu vinstri flokkanna undir merkjum Samfylkingarinnar rann gjörsamlega út í sandinn.
Sjálfstæðisflokkurinn er stóri mið-hægri flokkurinn; stóri flokkurinn á vinstri kantinum er Vinstrihreyfingin – grænt framboð, VG, og stóri flokkurinn á miðjunni er Framsóknarflokkurinn.
Flokksbrotum í borgarstjórn og á alþingi hefur fjölgað á öldinni en ekki fækkað.
Samfylkingin er smáflokkur með Flokki fólksins, Viðreisn og Pírötum. Miðflokkurinn er síðan töluvert minni en smáflokkarnir fjórir.
Allir þingflokkar bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum, ekki þó allir alls staðar. Þá eru einnig mörg framboð enn minni flokka, staðbundinna og jafnvel vegna einstakra mála.
Í Reykjavík eru þrír listar auk þingflokkanna átta í framboði: Reykjavík besta borgin, þar er Birgitta Jónsdóttir, fyrrv. leiðtogi Pírata, í heiðurssæti, flokkurinn berst fyrir brotthvarfi flugvallarins úr Vatnsmýrinni; Sósíalistaflokkur Íslands og Ábyrg framtíð sem vill Viðeyjarleið og áfram Reykjavíkurflugvöll.
Framboðin eru 11 í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí en þau voru 16 árið 2018 og þá fengu sjö framboð færri en 500 atkvæði þegar talið var. Á Akureyri eru níu listar í framboði í kosningunum núna, þar á meðal Kattarframboðið. Annars staðar eru framboðslistarnir færri, til dæmis aðeins tveir í Stykkishólmsbæ.
Maímorgunn við Tjörnina í Reykjavík.
Málin sem ber hæst á hverjum stað eru almennt staðbundin. Það er einkum í Reykjavík þar sem landspólitískar línur eru dregnar og leikið eftir þeim. Samfylkingin vonar að hún haldi Degi B. Eggertssyni í embætti borgarstjóra eins og undanfarin átta ár. Hann er nú í svipuðum sporum og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrir réttum 20 árum. Þá náði hún í þriðja sinn að leiða R-listann (lista Framsóknarflokks, Samfylkingar og VG) til sigurs en skömmu síðar riðlaðist R-lista-samstarfið þegar Ingibjörg Sólrún tók að gæla við landsmálin fyrir þingkosningarnar 2003.
Framsóknarflokkurinn fékk engan kjörinn í borgarstjórn í kosningunum 2018 og þurfti Einar Þorsteinsson sjónvarpsmaður því ekki að stíga yfir neinn þröskuld þegar honum bauðst nú fyrsta sætið á listanum í Reykjavík. Einar er óþekkt stærð í stjórnmálum og fellur því að kjörorðinu, að kannski sé bara best að kjósa framsókn. Liggur í loftinu að hann verði hjól undir vagni Dags B. Eggertssonar að kosningum loknum og taki þátt í myndun nýs meirihluta – gegni sama hlutverki og borgarfulltrúar Viðreisnar eftir kosningarnar 2018.
Strengurinn sem heldur vinstri meirihluta í Reykjavík enn saman er óvild í garð sjálfstæðismanna.
Þingumræðurnar um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka í fyrri viku voru liður í kosningabaráttunni, að setja Sjálfstæðisflokkinn og formann hans í sem verst ljós. Mun svartara og verra en tilefnið er þótt auðvelt sé að ýta undir reiði með ásökunum um mismunun. Má líkja gjörningaveðrinu við dæmigerða upplýsingaóreiðu í anda þess sem fræðimenn kalla „stjórnmál eftirsannleikans“ (e. post-truth politics). Starfsaðferðirnar eru vopn popúlista sem vega að ýmsum grunnstoðum stjórnmálalífs í frjálslyndum lýðræðisríkjum.
Almennt er líklega litið á slíka pólitíska starfshætti sem fyrirbrigði fjarri Íslandi, eitthvað sem skoða má kaldhæðnislega héðan. Hvort svo sé skýrist ef til vill í fjölþjóðlegri rannsókn sem Maximilian Conrad, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, leiðir fyrir hönd alþjóðamálastofnunar háskólans.
Í byrjun vikunnar var skýrt frá því að innan ramma rannsóknaráætlunarinnar Horizon Europe, sem Ísland tengist vegna EES-aðildarinnar, hefði alþjóðamálastofnun verið valin til að leiða verkefni sem fékk þriggja milljóna evra styrk, jafnvirði nærri 420 milljóna króna, til að rannsaka áhrif upplýsingaóreiðu á lýðræði í Evrópu.
Þetta er mikil viðurkenning fyrir alþjóðamálastofnunina og háskólann. Aukin þekking á þessu sviði styrkir grunnþætti lýðræðislegra samfélaga. Að þeim er sótt af síauknum þunga um þessar mundir í krafti „stjórnmála eftirsannleikans“. Þar eru vísvitandi dregnar rangar niðurstöður meðal annars til að blekkja kjósendur. Maximilian Conrad varar við uppgangi popúlisma þar sem sannleikurinn víkur í allri miðlun auk þess sem hætta stafi af hnignun blaðamennsku.
Þrjú dæmi um upplýsingaóreiðu í Reykjavík má nefna: (1) Borgarstjóri segir Miklubraut verða í stokk árið 2026. Athuganir eru hins vegar að hefjast á hagkvæmni þess að setja hana í göng. (2) Tapið á rekstri borgarsjóðs nam 3,8 milljörðum kr. í fyrra. Með virðisbreytingu hjá félagsbústöðum, eign borgarinnar, var fjárhagsstaðan fegruð um 19 milljarða króna. Reykjavíkurborg styrkist bókhaldslega á lóðaskortinum undir stjórn borgaryfirvalda. (3) Síendurtekin borgarstjóraloforð um lausnir í leikskólamálum standast ekki. Að meðaltali eru börn 20 mánaða þegar þau fá pláss en ekki 12 til 18 mánaða eins og lofað var.
Upplýsingaóreiðan tekur á sig ýmsar myndir. Hún er alþekkt haldreipi popúlista í kosningabaráttu.