30.11.2023

Uppgjör Þrastar

Morgunblaðið, 30. desember 2023.

Horf­inn heim­ur: Minn­ingaglefs­ur ★★★★· Eft­ir Þröst Ólafs­son. Mál og menn­ing, 2023. Innb. 400 bls., mynd­ir, nafna- og atriðisorðaskrá.

Minn­ingaglefs­ur er und­ir­t­it­ill bók­ar Þrast­ar Ólafs­son­ar sem ber heitið Horf­inn heim­ur. Höf­und­ur­inn lít­ur ekki á verkið sem hefðbundn­ar ævim­inn­ing­ar held­ur svip­mynd­ir af mál­efn­um og mönn­um. Upp­gjör við liðinn tíma og sjálf­an sig – reikn­ings­skil.

Vegna bók­ar­heit­is­ins hvarfl­ar hug­ur les­and­ans óhjá­kvæmi­lega til meist­ara­verks Stef­ans Zweigs, Ver­ald­ar sem var. Þar er lýst horfn­um heimi með Vín­ar­borg sem þunga­miðju. Á mót­un­ar­ár­um Þrast­ar eru Húsa­vík og Berlín staðirn­ir sem skipta hann mestu.

Þröst­ur er í senn maður breyt­inga og vernd­un­ar, íhalds­sam­ur um­bótamaður á vinstri kant­in­um. Hann seg­ir: „Við vernd­um til að varðveita eig­in­leika sem við vilj­um ekki vera án og telj­um að framtíðin eigi að fá að kynn­ast. Stund­um vilj­um við kalla fram and­blæ liðins tíma. Geyma brot af ver­öld sem var, horfn­um heimi sem býr í vit­und okk­ar; varðveita hluta þeirr­ar menn­ing­ar sem um­lyk­ur okk­ur“ (205).

Þess­ar setn­ing­ar í undirkafla sem heit­ir „Minja­vernd“ lýsa efni bók­ar Þrast­ar vel. Hon­um er ekki aðeins kært að vernda göm­ul hús eða vot­lendi, hann vill vernda minn­ingu um upp­runa sinn og for­eldra, jarðveg­inn í orðsins fyllstu merk­ingu og and­legu hliðina, horfnu bylt­ing­ar­kenndu hug­mynda­fræðina sem hann kynnt­ist og aðhyllt­ist í Berlín, póli­tísk viðhorf og bar­áttu. Þá tek­ur Þröst­ur af­stöðu til sam­ferðamanna án þess að liggja á skoðun sinni.

3cf74cd0-8226-48ad-9b1e-7307f683ad16

Bók­in skipt­ist í fimm mis­langa tölu­setta meg­in­kafla sem myndaðir eru af fjöl­mörg­um undir­köfl­um. Inn­an meg­in­kafl­anna er farið úr einu í annað en þó í grófri tímaröð. Hver undirkafli stend­ur þar fyr­ir sínu.

Í gróf­um drátt­um má lýsa efn­inu á þenn­an veg: Fyrsti og lengsti kafl­inn er um árin á Húsa­vík og náms- og mót­un­ar­ár í Berlín. Ann­ar kafl­inn er um upp­haf póli­tískra starfa, bóka­út­gáfu, minja­vernd og störf fyr­ir Dags­brún. Þriðji kafl­inn er um EES-samn­ings­gerð og störf fyr­ir Sin­fón­íu­hljóm­sveit­ina. Fjórði kafl­inn er um land auðlinda, póli­tískr­ar spill­ing­ar og Ísland í Evr­ópu. Fimmti kafl­inn er um vernd­un lífs og nátt­úru.

Þröst­ur er rit­fær, stíll hans er skýr, stutt­ar setn­ing­ar og allt án óþarfa mála­leng­inga. Farið er úr einu í annað eft­ir röðun undirkafl­anna en vafa­laust hefði mátt raða efni á ann­an veg til að skapa meiri heild­ar­svip. Palla­dóm­ar um ein­stak­linga eru dreifðir um bók­ina. Ein mynda­örk er í bók­inni auk nafna- og atriðaorðaskrár. And­lits­mynd Þrast­ar er skemmti­lega hönnuð á bók­ar­kápu en heiti verks­ins hefði mátt draga að sér meiri at­hygli.

Vegna þess hve Þröst­ur hef­ur lagt hönd á margt á ferli sín­um spanna minn­ingaglefs­ur hans ótrú­lega vítt svið og hann minn­ist sam­skipta við fjöl­breytt­an hóp manna á vett­vangi stjórn­mála, í at­vinnu­rekstri og inn­an verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar. Þá átti hann náin sam­skipti við rit­höf­unda sem for­stjóri Máls og menn­ing­ar og tón­list­ar­menn sem fram­kvæmda­stjóri Sin­fón­íu­hljóm­sveit­ar Íslands.

Það varð dá­lítið upp­nám meðal menn­ing­ar­manna þegar Þröst­ur tók við dag­legri stjórn Máls og menn­ing­ar af Sig­fúsi Daðasyni, ann­ars veg­ar var hríf­andi skáldið og hins veg­ar jarðbundni rekstr­armaður­inn.

Grím­ur Helga­son ís­lensku­fræðing­ur las meðal ann­ars próf­ark­ir hjá Máli og menn­ingu. Maður nokk­ur hitti Grím á leið í for­lagið með yf­ir­lesn­ar próf­ark­ir og spurði: „Jæja, Grím­ur, hvernig líst þér á þenn­an nýja djöf­ul á for­laginu?“ Grím­ur hægði för, leit niður fyr­ir sig og svaraði með nokkr­um sem­ingi: „Þegar ég fór með vinnu­reikn­inga mína til Sig­fús­ar tók hann mér ætíð vin­gjarn­lega, gerði eng­ar at­huga­semd­ir, en borgaði ekki. Þessi nýi nöldr­ar og fær mig jafn­vel til að lækka reikn­ing­inn, en borg­ar“ (212).

Á svipaðan hátt minn­ast fyrr­ver­andi starfs­menn Sin­fón­íu­hljóm­sveit­ar Íslands Þrast­ar. Hann bar hag þeirra jafn­an fyr­ir brjósti og orð hans stóðust. Lýs­ing Þrast­ar á leiðinni sem hann fór til að tryggja aðild Reykja­vík­ur­borg­ar und­ir stjórn Ingi­bjarg­ar Sól­rún­ar Gisla­dótt­ur borg­ar­stjóra að Hörpu sýn­ir mikla þraut­seigju og út­sjón­ar­semi Þrast­ar (305-308).

Hörpu­sag­an er ein af mörg­um sem lýsa sund­ur­lyndi á vinstri vængn­um sem þeir ein­ir þekkja sem hafa verið þar í innsta kjarna eins og Þröst­ur. Hann var á vinstri kanti sam­vinnu­hreyf­ing­ar­inn­ar þegar hún hrundi vegna tengsl­anna við Fram­sókn­ar­flokk­inn og stefnu hans í land­búnaðar­mál­um: „Boðskap­ur­inn sem í upp­hafi [20.] ald­ar­inn­ar hafði laðað að rjómann af æsku lands­ins var orðinn hol­ur og mark­laus sem fram­lag til mót­un­ar sam­fé­lags­ins. Sýn [Fram­sókn­ar]flokks­ins til framtíðar var orðin að mjólk­urmuldri“ (110).

Orðið „mjólk­urmuld­ur“ finnst ekki í orðabók­um en les­and­inn skil­ur að Þresti finnst ekki mikið til þess­ar­ar sýn­ar koma. Raun­ar skort­ir meiri sann­girni í nei­kvæðni hans í garð ís­lensks land­búnaðar. Mynd­in sem hann dreg­ur af and­stöðu bænda við EES-samn­ing­inn er of svört.

Þekk­ing Þrast­ar á sjáv­ar­út­vegi og kvóta­kerf­inu er mik­il. Einn undirkafli bók­ar hans heit­ir: „Vinna við nýtt stjórn­kerfi fisk­veiða (1984-1993)“. Hann vann sem sagt að því að út­færa kvóta­kerfið á ár­un­um sem það varð full­mótað. Hall­dór Ásgríms­son, þáver­andi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra, fékk hann til verks­ins „sem einskon­ar full­trúa fisk­verka­fólks“ (272). Þröst­ur starfaði þá fyr­ir Dags­brún und­ir for­ystu Guðmund­ar J. Guðmunds­son­ar. Þröst­ur harm­ar að auðlinda­gjald hafi ekki verið út­fært á þann hátt sem hann kaus. Með Guðmundi J. bjó hann í hag­inn fyr­ir þjóðarsátt­ina fyr­ir rúm­um 30 árum.

Þröst­ur nefn­ir sam­tal við Jón­as Haralz lands­banka­stjóra og hugs­an­lega brott­för varn­ar­liðsins (240). Und­ir lok átt­unda ára­tug­ar­ins hefðu sjálf­stæðis­menn aldrei samþykkt brott­för varn­ar­liðsins eins og þar er gefið til kynna.

Þröst­ur seg­ir frá kvöld­verðarsam­tali sínu og Jóns Bald­vins Hanni­bals­son­ar við Styrmi Gunn­ars­son, rit­stjóra Morg­un­blaðsins, skömmu eft­ir alda­mót­in og tel­ur að um­mæli Styrmis um Jón Ásgeir Jó­hann­es­son sýni að „innsti hring­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins“ hafi þá verið „bú­inn að ákveða að koma slíku rot­höggi á Jón Ásgeir að hann myndi ekki eiga sér viðreisn­ar von“ (278-279).

Án þess að vita dag­setn­ingu kvöld­verðar­ins eða hvað Styrm­ir sagði þar veit ég að álykt­un Þrast­ar er röng. Baugs­málið hófst með kæru Jóns Ger­alds Sul­len­ber­gers til lög­reglu sum­arið 2002 og síðan hús­leit í höfuðstöðvum Baugs 28. ág­úst 2002. Við varn­ir í mál­inu var gripið til aðferða sem eru ein­stæðar í ís­lenskri stjórn­mála- og fjöl­miðlasögu. Þröst­ur dett­ur því miður í þann pytt.

Þröst­ur var aðstoðarmaður þriggja ráðherra, Magnús­ar Kjart­ans­son­ar og Ragn­ars Arn­alds úr Alþýðubanda­lagi og Jóns Bald­vins Hanni­bals­son­ar úr Alþýðuflokki. Hann naut trausts þeirra og end­ur­galt það með hæfni sinni.

Einn undirkafli bók­ar­inn­ar ber heitið: „Ófræg­ing og bak­mæli“ og lýs­ir dap­ur­legri reynslu Þrast­ar af veru hans í Alþýðubanda­lag­inu á átt­unda og ní­unda ára­tugn­um. Hví­lík ljóna­gryfja! Í lok kafl­ans seg­ir Þröst­ur: „Þó verð ég að segja í lok­in að það voru ekki endi­lega óheil­ind­in sem ýttu mér út úr flokkn­um, held­ur sú út­vatnaða aft­ur­halds­stefna í lands­mál­um sem Ólaf­ur Ragn­ar, nýr spá­maður, fylgdi úr hlaði“ (238).

Þröst­ur sætti sig ekki við and­stöðu Alþýðubanda­lags­ins við EFTA, EES, ESB og NATO. Hann gerðist aðstoðarmaður Jóns Bald­vins við að gera EES-samn­ing­inn og tryggja hon­um samþykki á alþingi þar sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn í stjórn und­ir for­sæti Davíðs Odds­son­ar réð ferðinni.

Þröst­ur seg­ist tala í þágu heild­ar­hags­muna en sjálf­stæðis­menn verji sér­hags­muni. Þetta er ein­fald­ur áróður. Við fall sósí­al­ism­ans tóku vinst­ris­inn­ar að tala um ný-frjáls­hyggju þegar þeir gripu sjálf­ir til tækja frjáls­hyggj­unn­ar. „Þriðju leiðina“ kallaði Tony Bla­ir stefnu sína til kosn­inga­sigra Verka­manna­flokks­ins í Bretlandi.

Upp­gjör Þrast­ar Ólafs­son­ar á er­indi við sam­tím­ann þegar ís­lensk­ir vinst­ris­inn­ar eiga enn einu sinni erfitt með að fóta sig hug­mynda­fræðilega. Hann seg­ir að með skrif­um sín­um vilji hann meðal ann­ars „bregða ljósi á þá aðferð sög­unn­ar að búa sér til nýja and­stæðu við hverja þá nýju lausn sem verður til“ (379). Hann veit að enda­lok sög­unn­ar urðu ekki með hruni komm­ún­ism­ans. All­ir rétt­sýn­ir og frjáls­huga menn verða að standa vörð um frjáls­lynda, lýðræðis­lega rétt­ar­ríkið.