30.6.2017

Umskipti í öryggismálum á Norður-Atlantshafi

Morgunblaðið, föstudagur 30. júní 2017.


Conference-pict-Ol-Egilsson-23.-06.-17

Frá ráðstefnu Varðbergs 23. júní 2017. Frá vinstri: Björn Bjarnason, Sóley Kaldal, Clive Johnstone, Jónína Sólveig Elínardóttir, Jacob Børresen, Jim Townsend, Arnór Sigurjónsson og John Newton (ljósm. Ól. Egilsson).


Frá því í október 2016 til 23. júní 2017 hafa Varðberg og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands staðið að fjórum ráðstefnum um öryggismál á Norður-Atlantshafi. Tæplega 20 fyrirlestrar hafa verið fluttir á þessum ráðstefnum auk þess sem efnt hefur verið til pallborðsumræðna.

Áhugi erlendra fyrirlesara á að koma hingað til lands og ræða þessi mál er mikill og endurspeglar hann breytinguna sem orðið hefur á viðhorfi til þróunar öryggismála í okkar heimshluta. Norður-Atlantshafið er að nýju komið á dagskrá hjá fræðimönnum. Á vettvangi NATO er fjallað um hafið sem tengir Norður-Ameríku og Evrópu á allt annan hátt en undanfarin aldarfjórðung.


Tilgangur Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, með frumkvæði að ráðstefnunum haustið 2016 var að minna á breytingarnar sem hafa orðið frá því að bandaríska varnarliðið hvarf héðan í september 2006. Að breytingar séu eins miklar og birtist á ráðstefnunum kemur á óvart.

Niðurstaða umræðna á ráðstefnunum er að NATO hafi skapað tómarúm á hafinu sem er þungamiðjan í samstarfi ríkjanna beggja vegna Atlantshafs. Nú skuli snúið af þeirri braut eins og meðal annars má sjá af kafbátaleitaræfingunni sem hófst í Reykjavík mánudaginn 26. júní. Hún er að hluta reist á aðstöðu sem er í boði hér, flugvöllum og höfnum. Landhelgisgæsla Íslands gegnir lykilhlutverki sem tengiliður af hálfu íslenskra stjórnvalda við herstjórn NATO og herstjórnir einstakra landa.

Keflavíkurstöðin

Tveir Bandaríkjamenn sem komu við sögu þegar Keflavíkurstöðinni var lokað fluttu fyrirlestra á ráðstefnunum. Robert Loftis, núv. prófessor í Boston, en áður aðalsamningamaður Bandaríkjastjórnar við Íslendinga, og Jim Townsend, fyrrv. aðstoðarvarnarmála Bandaríkjanna fyrir málefni Evrópu og NATO. 

Loftis var hér 6. október 2016 en Townsend talaði á ráðstefnunni 23. júní. Hann hóf störf í varnarmálaráðuneytinu sem „desk officer“ fyrir Ísland árið 1990 og hafði auga á íslenskum málum allt þar til hann lét af störfum í ráðuneytinu. Nú er Townsend tengdur hugveitunni Center for New American Security (CNAS) í Washington og fjallar þar um samskipti Norður-Ameríku og Evrópu.

Báðum kom þeim í opna skjöldu árið 2006 þegar fyrirmæli bárust að ofan innan varnarmálaráðuneytisins um að loka ætti Keflavíkurstöðinni á þann hátt sem gert var. Sagan sýnir að annað en tillit til gæslu varanlegra öryggishagsmuna réð ákvörðuninni. Hún var til marks um skammsýni sem mótaði andvaraleysið innan NATO á Norður-Atlantshafi.

Í erindi sínu lagði Townsend áherslu á varanlegt gildi varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951. Leggja yrði rækt við hann og nýta til að tryggja öryggi og stöðugleika á Norður-Atlantshafi. Hvað sem liði fréttum frá Washington væri víst að engum þar dytti í hug að hlaupa frá skuldbindingunum í 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt NATO-ríki væri á árás á þau öll eða frá skuldbindingunum í tvíhliða varnarsamningnum við Íslendinga.

Ráðstafanir Norðmanna


Fyrir rúmri viku ákvað norska ríkisstjórnin að framlengja um eitt ár samning við Bandaríkjastjórn um komu bandarískra landgönguliða til Noregs, samningurinn gildir út árið 2018. Frá ársbyrjun 2017 hafa 330 bandarískir landgönguliðar verið tímabundið en til skiptis við æfingar og þjálfun í Noregi í um 1.500 km fjarlægð frá rússnesku landamærunum.

Þegar tilkynnt var um framlengingu þessa fyrirkomulags (24. júní) birti rússneska sendiráðið í Osló yfirlýsingu þar sem sagt var ákvörðun Norðmanna væri „ekki í samræmi við hefðir og góða sambúð nágranna“, hún skapaði „óvissu í samstarfi við Norðmenn“ og kynni „einnig að auka spennu og draga úr stöðugleika á norðurslóðum“. Sendiráðið sagði einnig: „Við lítum á þetta sem lið í hernaðarundirbúningi undir forystu Bandaríkjamanna sem hefur aukist ásamt and-rússneskri áróðurs-móðursýki.“

Varanleg viðvera nauðsynleg

Jacob Børresen, fyrrv. yfirskipherra í norska flotanum, flutti erindi á ráðstefnunni 23. júní þar sem hann lýsti meðal annars skoðun sinni á hvernig haga bæri samskiptum við Rússa. Hún mótast ekki af neinni „áróðurs-móðursýki“ í garð Rússa.

Børresen vill að af hálfu NATO sé ekki að gert neitt sem ýti undir þá gamalgrónu tilfinningu Rússa að sótt sé að þeim af óvinveittum nágrönnum. Hann telur NATO hafa teygt sig, jafnvel um of, inn á svæði sem veki þessar tilfinningar Rússa um öryggisleysi. Þeim sé sárt að viðurkenna að þeir hafi ekki roð við NATO á sviði venjulegra vopna eða tæknilega og efnahagslega. „Nákvæmlega eins og við í NATO gerðum í kalda stríðinu þegar við stóðum höllum fæti í venjulegum vopnabúnaði, hóta þeir nú að verða fyrri til við beitingu kjarnorkuvopna.“ 

Børresen hvetur til þess að NATO sýni hvorki sóknartilburði né sendi herafla ónauðsynlega nærri Rússum auk þess að halda að sér höndum telji bandalagið Rússa ögrandi. Í stað þess að ganga að því sem vísu að í Moskvu átti menn sig á að NATO hafi alls ekki uppi nein árásaráform gegn Rússum skuli NATO-þjóðirnar leggja sig fram um að sannfæra Rússa um að þetta sé raunin bæði með málflutningi sínum og með æfingum og beitingu herafla síns.

Hvað sem þessari skoðun sinni líður segir Børresen að í ljósi þess að landafræðin breytist ekki þótt pólitísk spenna aukist eða minnki eigi NATO að líta til langs tíma og halda úti reglulega flota til dæmis í GIUK-hliðinu í stað þess að hverfa af svæðinu í hvert sinn sem spenna minnki milli Rússa og vestrænna þjóða og koma síðan aftur á vettvang þegar spenna vex.

Lauk norski yfirskipherrann máli sínu með því að fagna endurkomu NATO í GIUK-hliðið. Í því felist réttmæt og hæfileg skilaboð til Rússa um að okkur standi ekki á sama án þess að Rússum sé á nokkurn hátt ógnað. Vonandi verði eftirlit og kafbátavarnir á vegum NATO fastur liður á þessum slóðum.