Umræður um varnir taka flugið
Morgunblaðið, laugardagur 5. apríl 2025
Mikill vöxtur einkennir innlendar umræður um öryggis- og varnarmál. Í fyrri viku efndi ríkislögreglustjóri til fjölmennrar ráðstefnu um málaflokkinn. Á miðvikudaginn stóð þjóðaröryggisráð fyrir ráðstefnu um Íslendinga og hafið. Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi og pólska sendiráðið í Reykjavík efndu á fimmtudaginn til málstofu um evrópsk öryggis- og varnarmál í breytilegum heimi.
Fyrir utan þessa viðburði eru stjórnmálamenn, starfsmenn stofnana og sérfræðingar að flytja ræður og fyrirlestra um utanríkis- og öryggismál hjá samtökum og félögum.
Í vikunni var einnig sagt frá því í sjónvarpsþættinum Kveik hvernig samstarf Íslendinga og Bandaríkjamanna í varnarmálum hefur verið lagað að breyttum aðstæðum.
Frásögn ríkissjónvarpsins var á gamalkunnum nótum. Gert var tortryggilegt hvernig utanríkisráðuneytið stóð í október 2017 að uppfærslu gamalla ákvæða í fylgiskjali með tvíhliða varnarsamningnum frá 1951 og var ráðuneytið sakað um að hafa stundað feluleik. Hafi utanríkismálanefnd alþingis ekki verið upplýst um málið er ekki of seint að gera það núna.
Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra ritaði í júní 2016 undir yfirlýsingu með bandaríska varnarmálaráðuneytinu til „að styrkja grundvöll samstarfs um ókomin ár“ með vísan til varnarsamningsins frá 1951. Í skjalinu frá 2017 er réttarstaða tímabundins bandarísks herafla hér skilgreind í samræmi við breyttar forsendur eftir brottför varnarliðsins 2006.
Fyrir áhugamann um þessi efni er athyglisvert að þessar umræður fara á svo mikið flug einmitt núna. Hugsanlega réð tillit til VG og varnarleysistefnu flokksins miklu um þögn stjórnvalda um málið frá 2017. Hún auðveldaði flokknum forystu í ríkisstjórn þegar miklar breytingar urðu á hernaðarumsvifum á N-Atlantshafi.
Í bæklingi þjóðaröryggisráðs vegna ráðstefnu þess segir að vegna stríðsins í Úkraínu hafi eftirlit og varnir á Norður-Atlantshafi fengið aukið vægi fyrir öryggi NATO enda sé brýnt að tryggja svigrúm til aðgerða og öryggi siglingaleiða milli Norður-Ameríku og Evrópu á spennutímum. Í því efni skipti aðstaða á Íslandi miklu vegna hnattstöðunnar.
Til viðbótar við hefðbundna hernaðarógn vaxi áhyggjur vegna fjölþátta ógna óvinveittra ríkja. Bendir þjóðaröryggisráð þar á skemmdarverk á neðansjávarinnviðum í skjóli leyndar. Öryggi þeirra skipti Íslendinga miklu vegna tengsla þeirra við umheiminn.
Þá er vakin athygli á nauðsyn þess að halda úti eftirliti með öllu yfirráðasvæði Íslands á hafinu. Það sé lykilatriði til að tryggja öryggi, gæta fullveldisréttar Íslands, framfylgja íslenskum lögum og standa við alþjóðlegar skuldbindingar á sviði öryggis- og varnarmála. Bent er á að „langmikilvægasta“ tæki Íslands til slíks eftirlits á hafinu sé eftirlits- og löggæsluflugvélin TF-SIF sem geti „vaktað íslensk hafsvæði og alla skipaumferð árið um kring ef hún er til taks á Íslandi“, segir þar.
Fyrir liggja upplýsingar um að skip úr svonefndum „skuggaflota“ hafi verið á siglingaleiðum undan Íslandsströndum. Þau eru í olíuflutningum víða um heim og þykja ekki fullnægja öryggiskröfum. Þá hefur einnig sést til skipa sem talin eru rannsaka jarðefni á hafsbotni með hugsanlega vinnslu þeirra í huga.
Búnaður til námuvinnslu á hafsbotni.
„Djúpsjávarnámuvinnsla snýst ekki aðeins um jarðefni; hún snýr að framtíðarskipan á heimshöfunum,“ segja þrír sérfróðir menn í grein sem birtist í bandaríska vefritinu National Interest mánudaginn 17. mars.
Einmitt þennan sama mánudag birti íslenska utanríkisráðuneytið tilkynningu um að landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna hefði samþykkt stækkun á landgrunnslögsögu Íslands um 570 mílur til suðurs frá 200 mílunum. Kann þetta að stækka íslenska landgrunnslögsögu úr 758 þúsund ferkílómetrum í allt að 1,2 milljónir ferkílómetra.
Í fyrrnefndri grein er að finna varnaraðorð til Bandaríkjastjórnar um að huga að hagsmunum sínum við rannsóknir og vinnslu jarðefna á hafsbotni. Greinin er skrifuð vegna þess að í febrúar 2025 kynntu yfirvöld á Cook-eyjum í Suður-Kyrrahafi fimm ára samning sinn við Kínverja um að þeir rannsökuðu hvort finna mætti nýtanleg jarðefni á hafsbotni við og í eyjaklasanum. Samningurinn er talinn til marks um að í strategísku tilliti séu jarðefni á hafsbotni að verða nýr öxull í geópólitískri keppni. Kínverjar vilji ná undirtökunum á Kyrrahafi og nota jarðefni á hafsbotni til þess.
Ekki er ólíklegt að Kínverjar hafi áhuga á að rannsaka nýja íslenska landgrunnssvæðið. Kínverska ríkisfréttastofan Xhinua birti að minnsta kosti frétt um stækkunina um leið og frá henni var sagt.
Kínverjar hafa óskiptan áhuga á Íslandi. Þeir hafa þegar fengið aðstöðu hér til geimrannsókna á Kárhóli í Reykjadal í Þingeyjarsýslu. Á fyrrnefndri ráðstefnu lögreglunnar sagði Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn, yfirmaður öryggis- og greiningarsviðs ríkislögreglustjóra, Kínverja stunda hér njósnir.
Utanríkisráðherra leggur ríka áherslu á greiningu og aðgát í öryggis- og varnarmálum. Hvaða öryggismat er að baki orðum embættismanns utanríkisráðuneytisins á fundi í kínverska sendiráðinu 1. apríl að mikil eftirvænting sé vegna beins flugs milli Íslands og Kína? Hefur það verið kynnt utanríkismálanefnd?
Í lofti, á láði og legi höfum við hagsmuna að gæta sem skarast við geópólitíska hagsmuni stórveldanna. Til allrar öryggisgæslu verður að líta með það í huga og móta skýra stefnu gegn öllum þrýstingi.