5.4.2025

Umræður um varnir taka flugið

Morgunblaðið, laugardagur 5. apríl 2025

Mik­ill vöxt­ur ein­kenn­ir inn­lend­ar umræður um ör­ygg­is- og varn­ar­mál. Í fyrri viku efndi rík­is­lög­reglu­stjóri til fjöl­mennr­ar ráðstefnu um mála­flokk­inn. Á miðviku­dag­inn stóð þjóðarör­ygg­is­ráð fyr­ir ráðstefnu um Íslend­inga og hafið. Varðberg, sam­tök um vest­ræna sam­vinnu og alþjóðamál, sendi­nefnd Evr­ópu­sam­bands­ins á Íslandi og pólska sendi­ráðið í Reykja­vík efndu á fimmtu­dag­inn til mál­stofu um evr­ópsk ör­ygg­is- og varn­ar­mál í breyti­leg­um heimi.

Fyr­ir utan þessa viðburði eru stjórn­mála­menn, starfs­menn stofn­ana og sér­fræðing­ar að flytja ræður og fyr­ir­lestra um ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mál hjá sam­tök­um og fé­lög­um.

Í vik­unni var einnig sagt frá því í sjón­varpsþætt­in­um Kveik hvernig sam­starf Íslend­inga og Banda­ríkja­manna í varn­ar­mál­um hef­ur verið lagað að breytt­um aðstæðum.

Frá­sögn rík­is­sjón­varps­ins var á gam­al­kunn­um nót­um. Gert var tor­tryggi­legt hvernig ut­an­rík­is­ráðuneytið stóð í októ­ber 2017 að upp­færslu gam­alla ákvæða í fylgiskjali með tví­hliða varn­ar­samn­ingn­um frá 1951 og var ráðuneytið sakað um að hafa stundað felu­leik. Hafi ut­an­rík­is­mála­nefnd alþing­is ekki verið upp­lýst um málið er ekki of seint að gera það núna.

Lilja D. Al­freðsdótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra ritaði í júní 2016 und­ir yf­ir­lýs­ingu með banda­ríska varn­ar­málaráðuneyt­inu til „að styrkja grund­völl sam­starfs um ókom­in ár“ með vís­an til varn­ar­samn­ings­ins frá 1951. Í skjal­inu frá 2017 er rétt­arstaða tíma­bund­ins banda­rísks herafla hér skil­greind í sam­ræmi við breytt­ar for­send­ur eft­ir brott­för varn­ar­liðsins 2006.

Fyr­ir áhuga­mann um þessi efni er at­hygl­is­vert að þess­ar umræður fara á svo mikið flug ein­mitt núna. Hugs­an­lega réð til­lit til VG og varn­ar­leys­i­stefnu flokks­ins miklu um þögn stjórn­valda um málið frá 2017. Hún auðveldaði flokkn­um for­ystu í rík­is­stjórn þegar mikl­ar breyt­ing­ar urðu á hernaðar­um­svif­um á N-Atlants­hafi.

Í bæk­lingi þjóðarör­ygg­is­ráðs vegna ráðstefnu þess seg­ir að vegna stríðsins í Úkraínu hafi eft­ir­lit og varn­ir á Norður-Atlants­hafi fengið aukið vægi fyr­ir ör­yggi NATO enda sé brýnt að tryggja svig­rúm til aðgerða og ör­yggi sigl­inga­leiða milli Norður-Am­er­íku og Evr­ópu á spennu­tím­um. Í því efni skipti aðstaða á Íslandi miklu vegna hnatt­stöðunn­ar.

Til viðbót­ar við hefðbundna hernaðarógn vaxi áhyggj­ur vegna fjölþátta ógna óvin­veittra ríkja. Bend­ir þjóðarör­ygg­is­ráð þar á skemmd­ar­verk á neðan­sjáv­ar­innviðum í skjóli leynd­ar. Öryggi þeirra skipti Íslend­inga miklu vegna tengsla þeirra við um­heim­inn.

Þá er vak­in at­hygli á nauðsyn þess að halda úti eft­ir­liti með öllu yf­ir­ráðasvæði Íslands á haf­inu. Það sé lyk­il­atriði til að tryggja ör­yggi, gæta full­veld­is­rétt­ar Íslands, fram­fylgja ís­lensk­um lög­um og standa við alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar á sviði ör­ygg­is- og varn­ar­mála. Bent er á að „lang­mik­il­væg­asta“ tæki Íslands til slíks eft­ir­lits á haf­inu sé eft­ir­lits- og lög­gæsluflug­vél­in TF-SIF sem geti „vaktað ís­lensk hafsvæði og alla skipaum­ferð árið um kring ef hún er til taks á Íslandi“, seg­ir þar.

Fyr­ir liggja upp­lýs­ing­ar um að skip úr svo­nefnd­um „skugga­flota“ hafi verið á sigl­inga­leiðum und­an Íslands­strönd­um. Þau eru í olíu­flutn­ing­um víða um heim og þykja ekki full­nægja ör­yggis­kröf­um. Þá hef­ur einnig sést til skipa sem tal­in eru rann­saka jarðefni á hafs­botni með hugs­an­lega vinnslu þeirra í huga.

10133-cover-miningBúnaður til námuvinnslu á hafsbotni.

„Djúp­sjáv­ar­námu­vinnsla snýst ekki aðeins um jarðefni; hún snýr að framtíðar­skip­an á heims­höf­un­um,“ segja þrír sér­fróðir menn í grein sem birt­ist í banda­ríska vef­rit­inu Nati­onal In­t­erest mánu­dag­inn 17. mars.

Ein­mitt þenn­an sama mánu­dag birti ís­lenska ut­an­rík­is­ráðuneytið til­kynn­ingu um að land­grunns­nefnd Sam­einuðu þjóðanna hefði samþykkt stækk­un á land­grunns­lög­sögu Íslands um 570 míl­ur til suðurs frá 200 míl­un­um. Kann þetta að stækka ís­lenska land­grunns­lög­sögu úr 758 þúsund fer­kíló­metr­um í allt að 1,2 millj­ón­ir fer­kíló­metra.

Í fyrr­nefndri grein er að finna varn­araðorð til Banda­ríkja­stjórn­ar um að huga að hags­mun­um sín­um við rann­sókn­ir og vinnslu jarðefna á hafs­botni. Grein­in er skrifuð vegna þess að í fe­brú­ar 2025 kynntu yf­ir­völd á Cook-eyj­um í Suður-Kyrra­hafi fimm ára samn­ing sinn við Kín­verja um að þeir rann­sökuðu hvort finna mætti nýt­an­leg jarðefni á hafs­botni við og í eyja­klas­an­um. Samn­ing­ur­inn er tal­inn til marks um að í strategísku til­liti séu jarðefni á hafs­botni að verða nýr öxull í geópóli­tískri keppni. Kín­verj­ar vilji ná und­ir­tök­un­um á Kyrra­hafi og nota jarðefni á hafs­botni til þess.

Ekki er ólík­legt að Kín­verj­ar hafi áhuga á að rann­saka nýja ís­lenska land­grunns­svæðið. Kín­verska rík­is­frétta­stof­an Xhinua birti að minnsta kosti frétt um stækk­un­ina um leið og frá henni var sagt.

Kín­verj­ar hafa óskipt­an áhuga á Íslandi. Þeir hafa þegar fengið aðstöðu hér til geim­rann­sókna á Kár­hóli í Reykja­dal í Þing­eyj­ar­sýslu. Á fyrr­nefndri ráðstefnu lög­regl­unn­ar sagði Karl Stein­ar Vals­son yf­ir­lög­regluþjónn, yf­ir­maður ör­ygg­is- og grein­ing­ar­sviðs rík­is­lög­reglu­stjóra, Kín­verja stunda hér njósn­ir.

Ut­an­rík­is­ráðherra legg­ur ríka áherslu á grein­ingu og aðgát í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Hvaða ör­ygg­is­mat er að baki orðum emb­ætt­is­manns ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins á fundi í kín­verska sendi­ráðinu 1. apríl að mik­il eft­ir­vænt­ing sé vegna beins flugs milli Íslands og Kína? Hef­ur það verið kynnt ut­an­rík­is­mála­nefnd?

Í lofti, á láði og legi höf­um við hags­muna að gæta sem skar­ast við geópóli­tíska hags­muni stór­veld­anna. Til allr­ar ör­ygg­is­gæslu verður að líta með það í huga og móta skýra stefnu gegn öll­um þrýst­ingi.