Umboðsmaður og þingræðið
Morgunblaðið, 14. október 2023.
Fram til 10. október 2023 hölluðust margir að því að þriggja flokka stjórn Katrínar Jakobsdóttur sýndi lítil tilþrif. Ágreiningur milli stjórnarflokkanna yrði sífellt augljósari. Drungi væri yfir alþingi bæði hjá stjórn og stjórnarandstöðu.
Það ríkti með öðrum orðum pólitísk deyfð.
Ástandið snarbreyttist hins vegar að morgni þriðjudagsins 10. október þegar Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra boðaði til blaðamannafundar og tilkynnti að hann léti af embætti fjármála- og efnahagsráðherra. Að mati umboðsmanns alþingis hefði hann „brostið hæfi“ til að bera ábyrgð á sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022.
Bjarni sagði að í ljósi niðurstöðu umboðsmanns væri sér gert ókleift að starfa áfram sem fjármála- og efnahagsráðherra að frekari sölu á eignarhlutum ríkisins. Þá væri afar mikilvægt að skapa frið um fjármála- og efnahagsráðuneytið og mikilvæg verkefni sem þar væru unnin. Sér bæri auk þess að virða álit umboðsmanns, sérstaks trúnaðarmanns alþingis, þótt hann væri ósammála honum.
Pólitíkin leystist úr dróma. Í stað drunga vaknaði ákafi eftir stjórnmálafréttum. Forystumenn stjórnarflokkanna boðuðu strax að framhald yrði á samstarfi þeirra. Bjarni myndi sitja áfram í ríkisstjórninni.
Þegar litið er til baka til þess sem málsvarar stjórnarandstöðu og stjórnmálafræðingar sögðu þennan þriðjudag og þess sem sumir þeirra segja nú mætti ætla að fyrstu yfirlýsingarnar hefðu verið gefnar að óathuguðu máli. Nú láta andstæðingarnir eins og Bjarni hafi boðað afsögn úr ríkisstjórn þegar hann sagðist ætla að láta af embætti fjármála- og efnahagsráðherra.
Afsögn er orð sem varð til um þennan atburð annars staðar en hjá Bjarna. Þeir sem tóku að nota það og reiðast nú yfir að eitthvað gerist ekki sem þeir væntu eiga það við sig sjálfa. Öðrum kemur ekki á óvart að stjórnarandstæðingar fari fram úr sjálfum sér og kenni síðan öðrum um skellinn.
Í ávarpinu sem Bjarni flutti 10. október kom skýrt fram hve annt honum er um að virða ákvarðanir þeirra stofnana sem fara með lögbundið vald í stjórnkerfinu. Öll framganga hans vegna sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka hefur einkennst af þessu. Hann treysti á þessar stofnanir við sölu á fyrsta hluta eignarinnar í júní 2021. Sætti salan ekki gagnrýni. Hann treysti einnig á þessar stofnanir við söluna á öðrum hlutanum 22. mars 2022.
Oddvitar stjórnarflokkanna á leið til blaðamannafundar í Eddu, húsi íslenskunnar, að morgni laugardags 14. október 2023 þar sem tilkynnt var að Bjarni Benediktsson yrði utanríkisráðherra en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra (mynd: mbls.is/Eggert Jóhannesson).
Ábyrgð ráðherrans var í mars 2022 sambærileg við ábyrgðina á söluferlinu í júní 2021. Þetta átti meðal annars við um ákvæði stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi. Umboðsmaður hefur yfirlýsingu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um það efni þó að engu.
Þegar gagnrýni heyrðist á söluna í mars 2022 óskaði ráðuneyti Bjarna eftir því með bréfi dagsettu 7. apríl 2022 að ríkisendurskoðun gerði stjórnsýsluúttekt á því hvort sala ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka 22. mars 2022 hefði samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Skilaði stofnunin skýrslu sinni 13. nóvember 2022. Þegar hún lá fyrir boðaði ríkisstjórnin gjörbreytingu á fyrirkomulagi við sölu á eignarhlut ríkisins í bönkum.
Bjarni krafðist þess af bankasýslunni að hún legði fram til birtingar lista yfir þá sem keyptu bréf í Íslandsbanka 22. mars 2022. Leiddi birting listans til mikilla umræðna og gagnrýni á Bjarna vegna þess að félag, Hafsilfur, í eigu föður hans var meðal kaupenda.
Fjármálaeftirlit seðlabankans hóf í apríl 2022 athugun á framkvæmd Íslandsbanka á útboði bankasýslunnar og lauk henni með sátt 7. júní 2023 þegar bankinn samþykkti að greiða tæplega 1,2 milljarða kr. sekt. Bankastjórinn sagði síðan af sér.
Umboðsmaður alþingis hóf að eigin frumkvæði rannsókn sína snemma árs 2023. Sagði umboðsmaður það gert vegna þrýstings frá almenningi. Í áliti hans frá 5. október 2023 segir að ekkert hafi komið fram sem gefi honum tilefni til að draga í efa staðhæfingu ráðherra um að hann hafi ekki vitað um tilboð frá Hafsilfri þegar hann samþykkti niðurstöðu sem bankasýslan lagði fyrir hann. Ekkert í þeim gögnum sem ráðherra bárust frá bankasýslunni, áður en hann tók ákvörðun sína, hafi gefið honum eða starfsmönnum ráðuneytis hans sérstakt tilefni til að ætla að fyrirtæki í eigu föður ráðherrans væri meðal bjóðenda. Þá segir umboðsmaður:
„Þetta getur þó ekki haggað því að hvorki ég, né almenningur ef því er að skipta, hefur forsendur til að staðreyna fullyrðingu ráðherra um þetta atriði. Tekur úrlausn málsins mið af því.“
Eftir markvissa viðleitni Bjarna Benediktssonar frá því í apríl 2022 til að upplýsa alla þætti Íslandsbankasölunnar er það niðurstaða umboðsmanns að vegna skorts á gögnum sé sér ógjörningur að trúa ráðherranum og embættismönnum hans. Ekki hafi tekist að sanna sakleysi ráðherrans, þess vegna bresti hann hæfi. Sekt hans er hins vegar ekki heldur sönnuð.
Umboðsmaður ber fyrir sig að ekkert komi „fram í samtímagögnum málsins um að ráðuneytið hafi veitt álitamálum um sérstakt hæfi eftirtekt“. Þar vísar hann til fundargerða eða minnisblaða. Minnir þetta á niðurstöðu meirihluta landsdóms gegn Geir H. Haarde sem var sakfelldur án refsingar af því að hvergi fannst skráð í fundargerð ríkisstjórnar að hrun bankanna væri á næsta leiti.
Lögspeki af þessu tagi leiðir til þess að ríkisráðið hefur verið kallað saman í dag. Líf ríkisstjórnar er í húfi. Þegar umboðsmaður alþingis ákveður að vega að þingræðinu þurfa rök hans að vera burðugri en í þessu máli.