8.2.2025

Um „yfirsjónir“ vegna Ingu Sæland

Morgunblaðið, laugardagur 8. febrúar 2025

Í byrj­un vik­unn­ar, mánu­dag­inn 3. fe­brú­ar, efndu odd­vit­ar stjórn­ar­flokk­anna, ráðherr­arn­ir Kristrún Frosta­dótt­ir, Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir og Inga Sæ­land, til blaðamanna­fund­ar um þing­mála­skrá rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Fund­ur­inn var ein­stak­ur fyr­ir þá sök að í um það bil hálfa öld sem þing­mála­skrá, það er listi yfir frum­vörp ein­stakra ráðherra á kom­andi þingi, hef­ur fylgt stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra hef­ur aldrei fyrr en nú verið efnt til blaðamanna­fund­ar um list­ann. Hann er birt­ur með vís­an til ákvæðis í þingsköp­um alþing­is en hef­ur ekk­ert bind­andi gildi. Þar er aðeins að finna vís­bend­ingu um frum­vörp sem rík­is­stjórn­in hyggst leggja fram á kom­andi þingi.

Miðað við hve lítið frétt­næmt er á list­an­um kom blaðamanna­fund­ur um hann enn meira á óvart en ella hefði verið.

Screenshot-2025-02-08-at-18.26.01Það eru fjármálaráðherrann og forsætisráðherrann í stjórninni með Ingu Sæland sem ákveða að ekki skuli látið á endurgreiðslumálið reyna fyrir dómstólum heldur styðjast við lögfræðiálit. Þar koma fram efasemdir um að það hafi verið á valdsviði fjármálaráðuneytisins að ákvarða í málinu vegna óljósra atriða í forsetaúrskurðum um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta,

Dag­inn eft­ir, þriðju­dag­inn 4. fe­brú­ar, var síðan drottn­ing­ar­viðtal við for­sæt­is­ráðherra í Kast­ljósi rík­is­sjón­varps­ins um list­ann. Hafi menn vonað að for­sæt­is­ráðherra fyllti út í efni list­ans og blési í það lífi olli sam­talið von­brigðum. Vissu­lega talaði ráðherr­ann skipu­lega en Kristrún sagði lítið sem ekk­ert nýtt efn­is­lega. Spjallið sner­ist að mestu um hvernig tækni­lega yrði staðið að úr­vinnslu mála á list­an­um, en mörg þeirra eru end­ur­flutt eða eru EES-mál.

Und­ir lok­in sagði spyrj­and­inn að styrkja­málið svo­nefnda hvíldi á rík­is­stjórn­inni og spurði hvenær skýrðist hvort flokk­ar sem hefðu fengið styrki úr rík­is­sjóði án þess að upp­fylla til þess skil­yrði þyrftu að end­ur­greiða of­tekið fé. Kristrún sagði málið í „svona um­sagn­ar- og ráðgjaf­ar­ferli“. Sér skild­ist að fyr­ir viku­lok fengi hún þessa „um­sögn“ frá fjár­málaráðuneyt­inu. Hún sagðist vilja ít­reka að þetta væri „auðvitað“ mál sem komið hefði upp hjá síðustu rík­is­stjórn, út­greiðslan hefði átt sér stað hjá síðustu rík­is­stjórn. Það virt­ist líka hafa verið „yf­ir­sjón“ hjá fjár­málaráðuneyt­inu. Þetta væri „óheppi­legt“ og „ekki góð staða“. Þau hefðu bætt „verk­ferla“ til að tryggja að þetta gerðist ekki aft­ur og þau myndu „taka á þessu máli“.

Inga Sæ­land, formaður Flokks fólks­ins og nú­ver­andi fé­lags- og hús­næðismálaráðherra, vissi að flokk­ur sinn væri skráður sem fé­laga­sam­tök á fyr­ir­tækja­skrá Skatts­ins en lét eins og um styrk­hæf­an stjórn­mála­flokk væri að ræða. Fékk flokk­ur­inn því 240 millj­ón­ir króna greidd­ar úr rík­is­sjóði.

Þegar alþingi breytti lög­um um þetta efni á ár­inu 2021 lagði stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd til breyt­ingu að til­lögu Skatts­ins um að stjórn­mála­sam­tök­um sem þá voru skráð í fyr­ir­tækja­skrá en upp­fylltu þá þegar skil­yrði til skrán­ing­ar í stjórn­mála­sam­taka­skrá yrði gert kleift að breyta skrán­ingu sinni á þann veg að þau færðust af fyr­ir­tækja­skrá og yfir á stjórn­mála­sam­taka­skrá. Skatt­ur­inn taldi einnig nauðsyn­legt að skil­greina nán­ar inn­tak upp­lýs­inga um skipu­lag stjórn­mála­sam­taka. Að mati þing­nefnd­ar­inn­ar var þar fyrst og fremst um að ræða kröfu til skrif­legra lág­marks­upp­lýs­inga um starf­semi stjórn­mála­sam­taka, svo sem um þá sem stæðu að sam­tök­un­um og um innra skipu­lag þeirra, þar á meðal hvaða flokksein­ing­ar störfuðu inn­an þeirra og hlut­verk þeirra.

Fimm­tíu og tveir þing­menn samþykktu þetta 13. júní 2021 og í þeirra hópi voru for­ystu­menn Flokks fólks­ins, Inga Sæ­land og Guðmund­ur Ingi Krist­ins­son. Þau gerðu hins veg­ar ekk­ert þá eða síðar til að breyta skrán­ingu Flokks fólks­ins. Hann er enn á fyr­ir­tækja­skránni og fær því ekki 70 m. kr. í ár eft­ir að upp­lýst var um röngu skrán­ing­una. Viðbrögð Ingu Sæ­land nú sýna að sam­tök henn­ar upp­fylla ekki að óbreyttu sett skil­yrði. Þau kom­ast ekki á stjórn­mála­sam­taka­skrána fyrr en að lokn­um lands­fundi í skrif­stofu flokks­ins 22. fe­brú­ar 2025.

Eins og að ofan grein­ir tók for­sæt­is­ráðherra sér­stak­lega fram í Kast­ljósi að vegna „yf­ir­sjón­ar“ fjár­málaráðuneyt­is­ins í tíð síðustu rík­is­stjórn­ar hefði Flokk­ur fólks­ins fengið fé úr rík­is­sjóði. Taldi Kristrún þetta ámæl­is­vert og rétti eig­in hlut með nýj­um verklags­regl­um án þess að lýsa efni þeirra.

Átti Kristrún að gera áreiðan­leika­könn­un á Flokki fólks­ins við stjórn­ar­mynd­un­ina? Fé­laga­sam­tök­um sem að eig­in sögn voru á barmi gjaldþrots hefði verið gengið að þeim vegna of­tek­inna rík­is­styrkja? Var það mein­laus „yf­ir­sjón“ að gera það ekki?

Ingu Sæ­land tókst af sann­fær­ing­ar­krafti að tala sig inn á Kristrúnu og Þor­gerði Katrínu Gunn­ars­dótt­ur, formann Viðreisn­ar. Nú vita þær hvernig í pott­inn er búið en bera sig vel af því að Daði Már Kristó­fers­son fjár­málaráðherra hef­ur losað Ingu und­an flokks­gjaldþroti með vís­an til anda lag­anna eins og Þor­gerður Katrín hafði raun­ar áður boðað.

Kristrún Frosta­dótt­ir tel­ur sig „stikk­frí“ vegna þess að styrk­ir voru greidd­ir á vakt annarra. Hún nýt­ur þess sem einnig gerðist á vakt annarra þegar lagður var grunn­ur að efna­hags- og fjár­mála­stefn­unni sem leiddi í vik­unni til vaxta­lækk­un­ar vegna sím­innk­andi verðbólgu.

For­sæt­is­ráðherra minn­ir oft á að ekki standi til að hrófla við fjár­lög­un­um sem samþykkt voru und­ir hand­leiðslu starfs­stjórn­ar­inn­ar fyr­ir kosn­ing­ar. Þá seg­ir ráðherr­ann að í ár verði aðeins samþykkt fjár­auka­lög vegna nokk­urra millj­arða út­gjalda og sparnaður í rík­is­út­gjöld­um eða nýj­ar tekj­ur komi á móti.

Rík­is­stjórn­in tók við góðu búi 21. des­em­ber 2024. Síðan hef­ur svo lítið gerst að boðað var til blaðamanna­fund­ar um lista yfir hugs­an­leg þing­mál. Stóru tíðind­in hafa snúið að ör­lög­um Flokks fólks­ins og Ingu Sæ­land.