Um „yfirsjónir“ vegna Ingu Sæland
Morgunblaðið, laugardagur 8. febrúar 2025
Í byrjun vikunnar, mánudaginn 3. febrúar, efndu oddvitar stjórnarflokkanna, ráðherrarnir Kristrún Frostadóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Inga Sæland, til blaðamannafundar um þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.
Fundurinn var einstakur fyrir þá sök að í um það bil hálfa öld sem þingmálaskrá, það er listi yfir frumvörp einstakra ráðherra á komandi þingi, hefur fylgt stefnuræðu forsætisráðherra hefur aldrei fyrr en nú verið efnt til blaðamannafundar um listann. Hann er birtur með vísan til ákvæðis í þingsköpum alþingis en hefur ekkert bindandi gildi. Þar er aðeins að finna vísbendingu um frumvörp sem ríkisstjórnin hyggst leggja fram á komandi þingi.
Miðað við hve lítið fréttnæmt er á listanum kom blaðamannafundur um hann enn meira á óvart en ella hefði verið.
Það eru fjármálaráðherrann og forsætisráðherrann í stjórninni með Ingu Sæland sem ákveða að ekki skuli látið á endurgreiðslumálið reyna fyrir dómstólum heldur styðjast við lögfræðiálit. Þar koma fram efasemdir um að það hafi verið á valdsviði fjármálaráðuneytisins að ákvarða í málinu vegna óljósra atriða í forsetaúrskurðum um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta,
Daginn eftir, þriðjudaginn 4. febrúar, var síðan drottningarviðtal við forsætisráðherra í Kastljósi ríkissjónvarpsins um listann. Hafi menn vonað að forsætisráðherra fyllti út í efni listans og blési í það lífi olli samtalið vonbrigðum. Vissulega talaði ráðherrann skipulega en Kristrún sagði lítið sem ekkert nýtt efnislega. Spjallið snerist að mestu um hvernig tæknilega yrði staðið að úrvinnslu mála á listanum, en mörg þeirra eru endurflutt eða eru EES-mál.
Undir lokin sagði spyrjandinn að styrkjamálið svonefnda hvíldi á ríkisstjórninni og spurði hvenær skýrðist hvort flokkar sem hefðu fengið styrki úr ríkissjóði án þess að uppfylla til þess skilyrði þyrftu að endurgreiða oftekið fé. Kristrún sagði málið í „svona umsagnar- og ráðgjafarferli“. Sér skildist að fyrir vikulok fengi hún þessa „umsögn“ frá fjármálaráðuneytinu. Hún sagðist vilja ítreka að þetta væri „auðvitað“ mál sem komið hefði upp hjá síðustu ríkisstjórn, útgreiðslan hefði átt sér stað hjá síðustu ríkisstjórn. Það virtist líka hafa verið „yfirsjón“ hjá fjármálaráðuneytinu. Þetta væri „óheppilegt“ og „ekki góð staða“. Þau hefðu bætt „verkferla“ til að tryggja að þetta gerðist ekki aftur og þau myndu „taka á þessu máli“.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og núverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, vissi að flokkur sinn væri skráður sem félagasamtök á fyrirtækjaskrá Skattsins en lét eins og um styrkhæfan stjórnmálaflokk væri að ræða. Fékk flokkurinn því 240 milljónir króna greiddar úr ríkissjóði.
Þegar alþingi breytti lögum um þetta efni á árinu 2021 lagði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til breytingu að tillögu Skattsins um að stjórnmálasamtökum sem þá voru skráð í fyrirtækjaskrá en uppfylltu þá þegar skilyrði til skráningar í stjórnmálasamtakaskrá yrði gert kleift að breyta skráningu sinni á þann veg að þau færðust af fyrirtækjaskrá og yfir á stjórnmálasamtakaskrá. Skatturinn taldi einnig nauðsynlegt að skilgreina nánar inntak upplýsinga um skipulag stjórnmálasamtaka. Að mati þingnefndarinnar var þar fyrst og fremst um að ræða kröfu til skriflegra lágmarksupplýsinga um starfsemi stjórnmálasamtaka, svo sem um þá sem stæðu að samtökunum og um innra skipulag þeirra, þar á meðal hvaða flokkseiningar störfuðu innan þeirra og hlutverk þeirra.
Fimmtíu og tveir þingmenn samþykktu þetta 13. júní 2021 og í þeirra hópi voru forystumenn Flokks fólksins, Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson. Þau gerðu hins vegar ekkert þá eða síðar til að breyta skráningu Flokks fólksins. Hann er enn á fyrirtækjaskránni og fær því ekki 70 m. kr. í ár eftir að upplýst var um röngu skráninguna. Viðbrögð Ingu Sæland nú sýna að samtök hennar uppfylla ekki að óbreyttu sett skilyrði. Þau komast ekki á stjórnmálasamtakaskrána fyrr en að loknum landsfundi í skrifstofu flokksins 22. febrúar 2025.
Eins og að ofan greinir tók forsætisráðherra sérstaklega fram í Kastljósi að vegna „yfirsjónar“ fjármálaráðuneytisins í tíð síðustu ríkisstjórnar hefði Flokkur fólksins fengið fé úr ríkissjóði. Taldi Kristrún þetta ámælisvert og rétti eigin hlut með nýjum verklagsreglum án þess að lýsa efni þeirra.
Átti Kristrún að gera áreiðanleikakönnun á Flokki fólksins við stjórnarmyndunina? Félagasamtökum sem að eigin sögn voru á barmi gjaldþrots hefði verið gengið að þeim vegna oftekinna ríkisstyrkja? Var það meinlaus „yfirsjón“ að gera það ekki?
Ingu Sæland tókst af sannfæringarkrafti að tala sig inn á Kristrúnu og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar. Nú vita þær hvernig í pottinn er búið en bera sig vel af því að Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hefur losað Ingu undan flokksgjaldþroti með vísan til anda laganna eins og Þorgerður Katrín hafði raunar áður boðað.
Kristrún Frostadóttir telur sig „stikkfrí“ vegna þess að styrkir voru greiddir á vakt annarra. Hún nýtur þess sem einnig gerðist á vakt annarra þegar lagður var grunnur að efnahags- og fjármálastefnunni sem leiddi í vikunni til vaxtalækkunar vegna síminnkandi verðbólgu.
Forsætisráðherra minnir oft á að ekki standi til að hrófla við fjárlögunum sem samþykkt voru undir handleiðslu starfsstjórnarinnar fyrir kosningar. Þá segir ráðherrann að í ár verði aðeins samþykkt fjáraukalög vegna nokkurra milljarða útgjalda og sparnaður í ríkisútgjöldum eða nýjar tekjur komi á móti.
Ríkisstjórnin tók við góðu búi 21. desember 2024. Síðan hefur svo lítið gerst að boðað var til blaðamannafundar um lista yfir hugsanleg þingmál. Stóru tíðindin hafa snúið að örlögum Flokks fólksins og Ingu Sæland.