19.4.2025

Um páska

Morgunblaðið, laugardagur 19. apríl 2025.

Kross­fest­ing Jesú Krists og för Móse í gegn­um Rauðahafið eru tvær lyk­ilfrá­sagn­ir í krist­inni trú; sam­an tengj­ast þær boðskap pásk­anna um frelsi, fórn og von.

Jesús frá Nasa­ret var dæmd­ur til dauða af róm­versk­um yf­ir­völd­um, að beiðni æðstu presta og leiðtoga sam­fé­lags­ins. Kross­fest­ing hans var ekki aðeins dauðarefs­ing held­ur einnig niður­læg­ing og tákn um al­gjöra út­skúf­un. Á kross­in­um þoldi Krist­ur djúp­stæðustu þján­ingu og ein­semd. Kross­inn sýndi þó einnig raun­veru­leg­an kær­leika Guðs til mann­anna. Jesús tók á sig synd­ir heims­ins og með dauða sín­um opnaði hann leiðina til end­ur­lausn­ar.

Á þriðja degi, páska­degi, reis Jesús upp frá dauðum. Uppris­an er horn­steinn krist­inn­ar trú­ar, hún tákn­ar sig­ur lífs­ins yfir dauðanum, ljóss­ins yfir myrkr­inu og von­ar­inn­ar yfir ör­vænt­ing­unni. Með upprisunni staðfesti Krist­ur að þján­ing og dauði eiga ekki loka­orðið held­ur lífið sjálft. Pásk­arn­ir kenna okk­ur að Guð hef­ur sigr­ast á dauðanum, all­ir menn geta eign­ast hlut­deild í þessu nýja lífi og von­inni sem af því leiðir.

IMG_2004

Sam­hliða frá­sögn­inni um kross­fest­ingu og upprisu Krists er saga Móse og Ísra­elsþjóðar­inn­ar sem gekk í gegn­um Rauðahafið þegar hún flúði und­an ánauð Egypta.

Í ann­arri Móse­bók seg­ir frá því hvernig Guð leiddi lýð sinn í frelsi úr þræl­dómi og kúg­un. Ísra­el­ar stóðu frammi fyr­ir Rauðahaf­inu, her Egypta var þeim að baki og öll von virt­ist úti. Þá tók Guð til sinna ráða, vatnið klofnaði og þjóðin komst þurr­um fót­um og óhult í gegn. Þegar Egypt­ar eltu Ísra­ela féllu öld­urn­ar aft­ur sam­an og gleyptu her­inn. Þannig frelsaði hafið Ísra­elsþjóðina og gerði út af við kúg­ar­ana sem höfðu haldið henni í ánauð.

Sag­an um för Móse gegn­um Rauðahafið er að krist­inni hefð túlkuð sem tákn fyr­ir frels­un manns­ins frá synd og dauða. Rétt eins og Ísra­elsþjóðin var leidd úr þræl­dómi í frelsi leiðir dauði og upprisa Krists mann­kynið úr fjötr­um synd­ar­inn­ar inn í frelsi náðar­inn­ar. Rauðahafið er þannig tákn­mynd skírn­ar­inn­ar, þar sem gam­alt líf deyr og nýtt líf með Kristi vakn­ar.

Sam­an standa þess­ar tvær frá­sagn­ir fyr­ir þann kjarna pásk­anna að Guð veit­ir mann­in­um frelsi og nýtt líf með dauða og upprisu Krists. Pásk­arn­ir minna okk­ur á að jafn­vel á dimm­ustu augna­blik­um er von. Guð stend­ur með mann­in­um gegn öll­um ógn­um og þján­ing­um heims­ins. Ekk­ert afl get­ur skilið okk­ur frá kær­leika Guðs sem birt­ist í Jesú Kristi.

Eins og Ísra­el­ar þurftu að taka fyrsta skrefið út í Rauðahafið í trú á að Guð myndi leiða þá í gegn hvet­ur upprisa Krists okk­ur til að lifa í trúnni á að lífið sé sterk­ara en dauðinn, kær­leik­ur­inn mátt­ugri en hatrið, og von­in öfl­ugri en ótt­inn.

Þannig verða pásk­arn­ir ekki aðeins hátíð um það sem eitt sinn gerðist, held­ur lif­andi veru­leiki sem gef­ur okk­ur styrk og kjark til að mæta hvers kyns aðstæðum í trausti til Guðs sem aldrei yf­ir­gef­ur mann­inn held­ur leiðir hann stöðugt í átt til lífs, frels­is og nýrr­ar byrj­un­ar.

Text­arn­ir segja okk­ur einnig að fyr­ir hendi séu tvær leiðir, ann­ars veg­ar vald manns­ins sem dæmdi Krist til dauða og hneppti Egypta í ánauð og hins veg­ar for­sjá Guðs sem breyt­ir dauðanum í líf og brýt­ur fjötra ánauðar­inn­ar.

Fræg­ur kvik­mynda­leik­stjóri í Hollywood, Cecile B. DeM­ille, gerði 1956 kvik­mynd­ina Boðorðin tíu og lék Charlt­on Hest­on Móse. Var mynd­in sýnd hér í Laug­ar­ás­bíói við mikla aðsókn und­ir árs­lok 1960. Upp­haf mynd­ar­inn­ar var óvenju­legt, þar flutti DeM­ille ávarp. Hann sagði:

„Boðskap­ur þess­ar­ar mynd­ar er hvort menn eigi að lúta guðslög­um eða hvort þeir eigi að búa við geðþótta­vald ein­ræðis­herra eins og Ramses [Faraó Egypta]. Eru menn­irn­ir eign rík­is­ins eða eru þeir frjáls­ar sál­ir und­ir Guði? Þessi sama bar­átta er enn háð um heim all­an nú á tím­um.“

Þessi orð eiga við enn þann dag í dag þegar frjáls­lynd­ar lýðræðisþjóðir eiga und­ir högg að sækja vegna ásókn­ar ein­ræðis- og harðstjórna og vax­andi öfga­hyggju á heima­velli. Hér er um sí­gilt álita­efni að ræða.

Móse leiðir þjóð sína burt frá kúg­un og fer síðan upp á Sín­aífjall og fær boðorðin tíu beint frá Guði eft­ir langa dvöl í kyrrð og ein­veru.

Túlk­un gyðinga á leiðsögn Guðs til Móse er ekki aðeins trú­ar­leg held­ur hef­ur hún einnig á sér póli­tíska og siðferðilega hlið. Bent er á að nú­tím­inn hafi mót­ast af fjór­um bylt­ing­um: í Bretlandi (1688) og Banda­ríkj­un­um ann­ars veg­ar og Frakklandi og Rússlandi hins veg­ar. Í Bretlandi og Banda­ríkj­un­um hafi menn hlotið inn­blást­ur frá Guði. Í Frakklandi og Rússlandi hafi ver­ald­leg heim­speki ráðið. Í fyrri lönd­un­um tveim­ur hafi frjáls þjóðfé­lags­gerð fæðst en í hinum tveim­ur hafi bylt­ing­arn­ar getið af sér harðstjórn­ir.

Í ljósi þess­ara frá­sagna má líta til heiðingj­ans Þor­geirs Ljósvetn­ingagoða á ög­ur­stundu í sögu Íslands. Þegar trú­ar­deil­ur ógnuðu sjálfu þjóðveld­inu og klofn­ing­ur virt­ist óumflýj­an­leg­ur lagðist Þor­geir und­ir feld á Þing­völl­um og hug­leiddi málið í ein­veru.

Eft­ir sól­ar­hring kynnti hann þá niður­stöðu að landið skyldi sam­ein­ast und­ir krist­inni trú en með nokkr­um sátta­til­lög­um til að viðhalda friði.

Þó að eng­in krafta­verk fylgi frá­sögn­inni er feld­ur­inn, kyrrðin og hug­leiðslan tákn­ræn – og minn­ir um margt á bæði ein­veru Móse á fjall­inu og kross­göngu Krists.

Þor­geir fórnaði ekki lífi sínu, hann lagði sjálf­an sig að veði sem siðferðis­leg­an dóm­ara, og með visku sinni kom hann á sátt og umbreyt­ingu. Hann stend­ur þar með eins og brú milli Móse og Krists – ver­ald­leg­ur sátta­semj­ari sem leiðir þjóð í trú, með orðlausri dýpt og ábyrgri fórn.