24.7.2020

Um mörk alþjóðlegs vísindasamstarfs

Morgunblaðið, föstudagur 24. júlí 2020.

Í danska blaðinu Jyl­l­ands-Posten birt­ist sunnu­dag­inn 5. júlí leiðari und­ir fyr­ir­sögn um að viðvör­un­ar­bjöll­ur hefðu átt að hringja í Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla en þar hefði hið gagn­stæða gerst. Tel­ur blaðið að stjórn­end­ur há­skól­ans hefðu átt að gæta sín vegna sam­starfs danskra vís­inda­manna við „kúg­un­ar­vél“ Kína­stjórn­ar.

Í stuttu máli er sag­an þessi: Sér­fræðing­ar við Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla hafa rann­sakað líf­sýni (dna) úr Uig­hur­um og Kasak­her­um í Xinjiang-héraði í Kína. Uig­hur­ar eru minni­hluta­hóp­ur múslima sem komm­ún­ista­stjórn­in kúg­ar með öll­um ráðum. Talið er að um ein og hálf millj­ón Uig­hura hafi verið neydd til að fara í end­ur­hæf­ing­ar­búðir, það er rík­is­rek­in heilaþvotta­hús. Fyrst sögðu kín­versk yf­ir­völd að eng­ar slík­ar búðir væru starf­rækt­ar en lýstu þeim síðar sem eins kon­ar end­ur­mennt­un­ar­stöðvum. Am­nesty In­ternati­onal birt­ir upp­lýs­ing­ar um Uig­hura sem kín­versk stjórn­völd láta elta uppi í út­lönd­um; sum­um þeirra eru send­ar morðhót­an­ir, aðrir eru send­ir til Kína til dæm­is af Egypt­um.

Blaðið seg­ir að Niels Morling pró­fess­or fari fyr­ir rann­sókn­ar­hópi í Kaup­manna­höfn. Hann hafi frá 2012 verið ráðgjafi erfðavísa­stofn­un­ar á veg­um kín­verska ör­ygg­is­málaráðuneyt­is­ins. Morling segi allt í himna­lagi. Uig­hur­arn­ir hafi samþykkt að taka þátt í rann­sókn­inni.

Jyl­l­ands-Posten er ósam­mála pró­fess­orn­um og seg­ir dansk­ar mennta­stofn­an­ir alltof opn­ar gagn­vart kín­versk­um stjórn­völd­um og Kon­fúsíus­ar-stofn­un þeirra.

 

Svar rektors

Henrik C. We­gener, rektor Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla, skrif­ar langa grein í blaðið miðviku­dag­inn 15. júlí um alþjóðlega sam­vinnu vís­inda­manna og seg­ir að ekki sé unnt að krefjast þess að ein­stak­ir vís­inda­menn starfi auk þess eins og grein­end­ur við ut­an­rík­is­mála­stofn­an­ir. Til að auðvelda þeim þátt­töku í alþjóðasam­starfi hafi mennta- og vís­inda­málaráðherra Dana ákveðið að skipa með hraði nefnd til að at­huga mörk­in fyr­ir danskt vís­inda­sam­starf við út­lend­inga með hliðsjón af siðfræði og ör­ygg­is­mál­um. Það virðist skyn­sam­leg ákvörðun. Mestu skipti þó að vís­inda­stefna Dana sé í sam­ræmi við kröf­ur líðandi stund­ar og falli að skip­an heims­mála eins og þau séu á hverj­um tíma.

Í grein­inni fjall­ar rektor­inn um nauðsyn þess að vís­inda­menn hafi svig­rúm og frelsi til að stunda rann­sókn­ir sín­ar þótt vissu­lega beri að virða ýms­ar siðaregl­ur bæði alþjóðleg­ar og inn­lend­ar. Þær eigi ekki síst við um heil­brigðis­vís­indi þar sem vís­indasiðanefnd­ir eigi að tryggja að rann­sókn­ar­verk­efni séu unn­in inn­an siðferðilegra marka.

We­gener seg­ir að rann­sókna- og mennta­sam­starf Dana við Kín­verja hafi þró­ast á mörg­um ára­tug­um. Í fyrstu hafi það borið svip þró­un­araðstoðar en síðan mót­ast af auknu ríki­dæmi Kín­verja. Nú hafi Kaup­manna­hafn­ar­há­skóli myndað sam­starfs­vett­vang með 11 bestu há­skól­um heims, þar á meðal há­skól­an­um í Pek­ing. Kín­verj­ar verji nú á tím­um hærri fjár­hæð til rann­sókna en ESB-rík­in sam­tals og aðeins í Banda­ríkj­un­um birt­ist fleiri vís­inda­rit­gerðir en í Kína.

Rann­sókna­stefna Dana og starf­semi danskra há­skóla taki mið af þessu. Dan­ir hafi til dæm­is unnið að því að koma á fót dansk-kín­versku mennta- og rann­sókna­setri í Kína. Þá hafi danska ut­an­rík­is­ráðuneytið stofnað ný­sköp­un­ar­set­ur í Shang­hai til að aðstoða dönsk fyr­ir­tæki og vís­inda­menn við að sigr­ast á ýms­um hindr­un­um í Kína.

Henrik C. We­gener lýs­ir eft­ir því að nefnd­in sem danski ráðherr­ann skipaði fari ekki aðeins í saum­ana á boðum og bönn­um vegna Kína held­ur fjalli einnig um heild­ar­stefnu og mark­mið alþjóðlegs vís­inda­sam­starfs. Rann­sókn­um og vís­ind­um hafi um langt ára­bil verið beitt sem diplóma­tísk­um verk­fær­um. Rætt sé um Science Diplomacy en í hug­tak­inu fel­ist að rann­sókna­sam­starf milli þjóða sé nýtt til að tak­ast á við sam­eig­in­leg verk­efni og stofna til alþjóðlegra banda­laga og vináttu. Nauðsyn­legt sé að átta sig á stöðu þess­ara mála við nú­ver­andi aðstæður.

Und­ir lok grein­ar sinn­ar bend­ir rektor Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla á að í umræðum um þessi mál verði menn að huga að upp­lýs­inga­ör­yggi sam­starfs­ins. Í því fel­ist að nauðsyn­legt sé að beina enn meiri at­hygli en áður að net- og upp­lýs­inga­tækni­kerf­um, hvaða far- og tölvu­búnað menn hafi með sér í ferðum til út­landa og á alþjóðleg­ar ráðstefn­ur. Það verði al­mennt að sýna mikla aðgæslu við meðferð gagna hvort sem menn eigi þau sjálf­ir eða há­skóla­stofn­an­ir.

Istock_000032631712_mediumFrá Kaupmannahafnarháskóla,

 

Kon­fúsíus­ar-setr­in

Sunnu­dag­inn 19. júlí birti Jyl­l­ands-Posten forsíðufrétt um að nú séu að minnsta kosti 10 dansk­ir skól­ar, mennta­skól­ar og há­skól­ar, aðilar að svo­nefndu Kon­fúsíus­ar-sam­starfi og fái þannig fjár­stuðning frá Kína. Sé komið á fót Kon­fúsíus­ar-stofn­un við skóla sé einnig unnt að fá skól­an­um að kostnaðarlausu kenn­ara frá Kína.

Vitnað er í Luke Pat­ey, Kína­sér­fræðing við Dönsku ut­an­rík­is­mála­stofn­un­ina (DIIS), sem seg­ir að hlut­verk sendi­kenn­ar­anna sé að draga upp já­kvæða mynd af Kína og láta hjá líða að ræða um­deild viðfangs­efni eins og fjölda­morðin á Torgi hins him­neska friðar í Pek­ing fyr­ir rúm­um 30 árum. Pat­ey gagn­rýn­ir Kon­fúsíus­ar-sam­starfið og seg­ir:

„Að sjálf­sögðu er mál­frelsi í Dan­mörku – einnig þegar kín­versk­ar rík­is­stofn­an­ir eiga hlut að máli. Þær eiga að hafa heim­ild til að reka sjálf­stæðar stofn­an­ir í Dan­mörku en ekki inni í mennta­skól­um og há­skól­um, þar sem virða ber rétt­inn til op­inn­ar og frjálsr­ar hugs­un­ar.“

Í svari kín­verska sendi­ráðsins til blaðsins seg­ir að „ásak­an­irn­ar“ gegn Kon­fúsíus­ar-stofn­un­un­um séu „til­hæfu­laus­ar“, sam­starfið auðveldi tungu­mála­kennslu og stuðli að vináttu og sam­kennd.

Und­an­far­in ár hafa stjórn­end­ur há­skóla víða um heim viljað draga úr sam­starfi við kín­versku Kon­fúsíus­ar-stofn­un­ina. Banda­rísk­ir pró­fess­or­ar hvöttu þegar árið 2014 til þess að binda enda á eða breyta Kon­fúsíus­ar-sam­starf­inu. Í fyrra var mörg­um stofn­un­um lokað við banda­ríska há­skóla. Kanadíski McMa­ster-há­skól­inn lokaði stofn­un­inni hjá sér í fyrra eft­ir að Kon­fúsíus­ar-starfsmaður var rek­inn fyr­ir að iðka falun-gong. Ný­lega var skýrt frá því að fyrr­ver­andi for­stöðumaður Kon­fúsíus­ar-stofn­un­ar­inn­ar við Frjálsa há­skól­ann í Brus­sel fengi ekki Schengen-árit­un vegna ásak­ana um að hann hefði reynt að ráða fólk til starfa fyr­ir kín­versku leyniþjón­ust­unn­ar. Sví­ar hafa bannað all­ar Kon­fúsíus­ar-stofn­an­ir í landi sínu.

 

Norður­ljós­in heilla

Eins og oft áður er gagn­legt að líta til reynslu Dana þegar met­in er staða hér á landi.

Við Há­skóla Íslands er Kon­fúsíus­ar-stofn­un­in Norður­ljós. Starf­semi henn­ar verður stund­um að op­in­beru umræðuefni. Má þar til dæm­is nefna sýn­ingu á kín­versk­um pla­köt­um und­ir lok árs 2019. Þau voru fjar­lægð að kröfu náms­manna við HÍ sem vildu ekki kín­versk­an áróður á veggj­um skól­ans.

Rann­sókna­stöðin, China-Ice­land Arctic Observatory (CIAO), á Kár­hóli í Reykja­dal, er miðstöð fyr­ir vís­inda­menn sem rann­saka norður­slóðir í alþjóðlegu sam­starfi, s.s. í háloft­a­rann­sókn­um, rann­sókn­um á gufu­hvolfi og veður­fræði, líf- og vist­fræði, haffræði, jökla­fræði, jarðfræði, rann­sókn­um á lofts­lags­breyt­ing­um og um­hverf­is­rann­sókn­um, fjar­könn­un og sjáv­ar­út­vegs­fræði.

Upp­haf­lega átti að rann­saka norður­ljós frá Kár­hóli en síðar varð mark­miðið víðtæk­ara.

Hafi menn ekki veru­leika alþjóðastjórn­mála í huga þegar tekn­ar eru ákv­arðanir um vís­inda­legt sam­starf lenda þeir auðveld­lega í ógöng­um.