Um harmleik samtímans
Morgunblaðið, fimmtudagur 10. apríl 2025.
Í sama strauminn – Stríð Pútíns gegn konum ★★★★★ Eftir Sofi Oksanen. Erla Elíasdóttir Völudóttir þýddi. Mál og menning, 2025. Kilja, 280 bls.
Við lestur bókarinnar Í sama strauminn eftir Sofi Oksanen reikaði hugurinn til bókarinnar Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko, verkfræðing frá Úkraínu. Lárus Jóhannesson, alþingismaður og lögmaður, þýddi bókina og gaf hana út undir árslok 1951. Kravtsjenko leitaði hælis í Bandaríkjunum árið 1944. Í bókinni sagði hann meðal annars frá hungursneyðinni í Úkraínu á öndverðum fjórða áratug síðustu aldar, hreinsunum Stalíns og þrælkunarbúðum sovétstjórnarinnar. Vakti bókin mikla reiði í Moskvu og þaðan var skipulögð ófrægingarherferð gegn Kravtsjenko. Almenna bókafélagið gaf bók hans út aftur á netinu 7. nóvember 2017 í tilefni hundrað ára afmælis bolsévíkabyltingarinnar í Rússlandi. Hannes Hólmsteinn Gissurarson ritaði inngang og skýringar. Er bókin þar aðgengileg öllum endurgjaldslaust.Bók Kravtsjenkos hafði mikil áhrif og opnaði augu milljóna manna fyrir stjórnarháttum kommúnista í Sovétríkjunum. Sá sem þetta ritar var í hópi þeirra sem lásu bókina ungur að árum og trúði ekki eigin augum þegar hann kynntist grimmd samtímans í ríki sem tengdist Íslandi viðskiptaböndum og laut forystu harðstjóra sem stjórnuðu í anda stjórnmálastefnu sem naut stuðnings hér á landi og var lifandi veruleiki í daglegum fréttum og umræðum.
Undirtitill bókar Sofi Oksanen er Stríð Pútíns gegn konum. Í bókinni er lýst stríði Vladimírs Pútín Rússlandsforseta gegn konum, Úkraínu og raunar öllu sem hann telur að ógni valdi sínu og veldi. Vekur óhug að þessir atburðir gerist nú á þessari stundu í okkar heimsálfu og að dregið sé í efa réttmæti þess og gagnrýnt að íslensk stjórnvöld leggi lóð þjóðarinnar á vogarskál gegn þessum ósköpum.
Sofi Oksanen er fædd 1977 í Jyväskylä í Finnlandi. Faðir hennar er finnskur rafvirki en móðir verkfræðingur frá Eistlandi þar sem hún ólst upp undir sovésku hernámi. Móðirin komst þaðan á áttunda áratugnum vegna hjúskapar síns. Sagnaheimur Oksanen mótast mjög af örlögum ættingja hennar í Sovét-Eistlandi og nábýlinu við Rússa.
Í æsku var henni sögð saga ömmusystur sinnar sem sovéskir hernámsliðar numu á brott af heimili hennar til næturlangrar yfirheyrslu í annarri heimsstyrjöldinni. Frænkan hætti að tala eftir það. Hún giftist aldrei, eignaðist engin börn, fór ekki á stefnumót og bjó með móður sinni það sem hún átti eftir ólifað. Oft er minnt á örlög þessarar konu í bókinni. Hún er öðrum þræði rituð í minningu hennar auk allra annarra fórnarlamba ofbeldis og nauðgana í Rússlandi.
Í formála minnir Oksanen á að Rússland búi ekki lengur yfir neinni hugmyndafræði til útflutnings eins og Sovétríkin nýttu kommúnismann áður. Rússneska ríkisvaldið beiti á hinn bóginn kvenhatri undir yfirskini hefðbundinna gilda til að laða til sín æskileg samstarfsríki. Þetta hafi stuðlað að því að efla kvenfyrirlitningu innan vestrænna ríkja og ógni réttindum kvenna og minnihlutahópa um allan heim.
Sofi Oksanen varð heimsþekkt fyrir margverðlaunaða skáldsögu sína, Hreinsun, sem kom út hér á landi 2010. Sagan var upphaflega leikrit sem Oksanen samdi eftir að hafa fylgst með gangi réttarhalda yfir þeim sem frömdu stríðsglæpi í Eistlandi í annarri heimsstyrjöldinni.
Hún segir að frá eistneskum sjónarhóli sé stríðið í Úkraínu líkt og endurupplifun atburða á fimmta áratug síðustu aldar. Rússar fari enn eftir sömu handbók og notuð hafi verið í fyrri landvinningastríðum þeirra: hryðjuverk sem bitna á almennum borgurum, morð og limlestingar, pyntingar, viðleitni til að þröngva tungumáli og siðum hernámsríkisins upp á hina hernumdu þjóð, áróður, sýndarréttarhöld, sýndarkosningar, að þolendum sé kennt um þjáningar sínar, stríður straumur flóttafólks, eyðilegging menningarverðmæta (15).
Bókarheitið Í sama strauminn vísar til þessarar endurtekningar. Viðfangsefnið er ekki blóðbað á vígvellinum heldur raunsæ og nöturleg lýsing á því hvernig hernaður bitnar á almennum borgurum, einkum konum. Hér er ekki um skáldverk að ræða heldur lýsingu snilldarhöfundar á því sem gerist núna í Rússlandi og hefur getið af sér stríðshörmungarnar í Úkraínu.
Bókin skiptist í fimm höfuðkafla: (1) Kynferðisofbeldi sem vopn; (2) Þegar hermenn verða að stríðsglæpamönnum; (3) Hómó Pútínikus; (4) Hraðnámskeið í rússneskri heimsvaldastefnu og (5) Útflutningsvaran. Þá ritar höfundur eftirmála og loks er birt heimildaskrá en tilvísanir eru í heimildir neðanmáls. Hver höfuðkafli skiptist í undirkafla.
Textinn er skýr og upplýsandi með ýmsum sláandi dæmum sem vekja undrun og sársauka vegna grimmdarinnar sem er lýst. Talið er að Rússar hafi að minnsta kosti numið 20.000 börn með nauðung á brott frá Úkraínu, þeim hafi verið dreift um Rússland og sitji þar skör lægra en rússnesk börn:
„Drengir sem fluttir hafa verið brott frá heimkynnum sínum hljóta herþjálfun sem miðar að því að nota þá sem vélbyssufóður; börnum sem brottnumdar stúlkur eignast eru ætluð sömu örlög. Síðan hernám Rússa hófst hafa þetta verið örlög stálpaðra barna í Austur-Úkraínu. Vitneskjunni um að innrásarherinn noti samlanda þeirra sem mannlega skildi er án efa ætlað að hafa áhrif á baráttuvilja úkraínskra hermanna“ (212).
Erla Elíasdóttir Völudóttir þýddi bókina úr finnsku. Þýðingin er góð en stíll bókarinnar tekur mið af því að um heimildar- en ekki skáldverk er að ræða. Þunginn í frásögninni er oft mikill og höfðar til tilfinninga lesandans.
Á einum stað er enska notuð til að skýra það sem sagt er. Hér er um að ræða orðin hybrid operation sem íslenskuð eru „blönduð aðgerð“ (245). Í nokkur misseri hefur verið leitast við að nota orðið „fjölþátta“ yfir hybrid að fyrirmynd frá þjóðaröryggisráði og íðorðabankanum um skaðvænlegar aðgerðir sem fara fram bæði leynt og ljóst.
Bókin Í sama strauminn kom út í Finnlandi árið 2023. Hún hefur síðan verið þýdd og útgefin víða um heim. Er fagnaðarefni að Mál og menning gefi bókina út á líðandi örlagatímum þegar enginn veit hvert stefnir vegna yfirgangs Rússa. Þetta er bók sem gefur skýra sýn á harmleik samtímans í Evrópu. Hún mótar viðhorf ekki síður en Ég kaus frelsið á sínum tíma – bók sem ungt fólk á að lesa.