1.6.2024

Um eðli forsetaembættisins

Morgunblaðið, laugardagur, 1. júní 2024

Í ár eru 120 ár frá því að þing­ræði kom til sög­unn­ar hér á landi. Í til­efni af 100 ára af­mæl­inu árið 2004 ákvað for­sæt­is­nefnd alþing­is að standa að rit­un bók­ar um sögu þing­ræðis hér og kom hún út hjá For­laginu árið 2011.

Í inn­gangs­orðum bók­ar­inn­ar, sem geym­ir rit­smíðar eft­ir ýmsa fræðimenn, seg­ir að um þetta „grund­vall­ar­ein­kenni stjórn­skip­un­ar­inn­ar“ hafi „ótrú­lega lítið verið fjallað í ís­lensk­um fræðaskrif­um“. Bent er á að umræður um stöðu alþing­is í stjórn­skip­un­inni m.a. eft­ir hrunið 2008 hafi „sýnt að þing­ræðið er spenn­andi og oft á tím­um um­deilt í sam­tím­an­um“. Það hafi „mik­il áhrif á aðra þætti stjórn­skip­un­ar rík­is­ins“.

Þetta er rifjað upp hér þegar gengið er til al­mennra kosn­inga um for­seta lýðveld­is­ins á 80. af­mælis­ári þess og frá því að fyrsti for­set­inn, Sveinn Björns­son, var val­inn. Hann var ekki kjör­inn í al­mennri kosn­ingu held­ur á hátíðar­fundi sam­einaðs alþing­is á Lög­bergi við Al­manna­gjá á Þing­völl­um 17. júní 1944.

Þá var rætt hvaða skip­an ætti að hafa við kjör for­seta fram­veg­is og varð niðurstaðan að hann skyldi val­inn á þann hátt sem við síðan þekkj­um, það er í einni um­ferð í al­mennri kosn­ingu.

Að for­seti sé þjóðkjör­inn hrófl­ar ekki við þing­ræðis­regl­unni um að við stjórn­ar­mynd­an­ir bindi meiri­hluti alþing­is hend­ur for­seta við val á for­sæt­is­ráðherra og þeim sem skipa ráðherra­embætti. Þá get­ur for­seti ekki einn og óstudd­ur rofið þing og boðað til kosn­inga. Til þess þarf at­beina for­sæt­is­ráðherra.

Screenshot-2024-06-01-at-18.30.33Und­ir lok bók­ar­inn­ar Þing­ræði á Íslandi – samtíð og saga seg­ir Þor­steinn Magnús­son, stjórn­mála­fræðing­ur og aðstoðarskrif­stofu­stjóri alþing­is, að miðað við hlut­verk þings­ins sé eðli­legra að tala um „hlut­verk þing­valds­ins“ en um hand­hafa lög­gjaf­ar­valds­ins þar eð lög­gjaf­ar­valdið sé aðeins einn þátt­ur þess valds sem alþingi hafi sam­kvæmt stjórn­ar­skránni. Aðrir þætt­ir þing­valds­ins séu ekki síður mik­il­væg­ir, þ.e. fjár­stjórn­ar­valdið, eft­ir­litsvaldið og lands­stjórn­ar­valdið.

Í lög­gjaf­ar­vald­inu felst stjórn­ar­skrár­valdið. Vorið 2009 var gerð al­var­leg til­raun til að svipta alþingi stjórn­ar­skrár­vald­inu og fela það sér­stöku stjórn­lagaþingi. Þing­menn stóðu gegn því en af til­raun­inni spratt nokkr­um miss­er­um síðar skjal sem varð þekkt und­ir heit­inu „nýja stjórn­ar­skrá­in“ og breytt­ist í lok­in í ein­hvers kon­ar gjörn­ing og kröf­ur á göt­um úti án þess að nokkr­um væri að fullu ljóst hvað í plagg­inu stóð. Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son, þáv. for­seti, beitti sér af hörku gegn því.

Það er á valdi alþing­is­manna að gera breyt­ing­ar á stjórn­ar­skránni, meðal ann­ars í þá veru að af­nema al­mennt kjör for­seta Íslands og færa kosn­ing­una að nýju inn í þingsal­inn. Eng­ar hug­mynd­ir eru uppi um slíka breyt­ingu. Ekki kæmi þó á óvart að kosn­inga­bar­átt­an sem lýk­ur í dag hafi vakið marga til um­hugs­un­ar um framtíð for­seta­embætt­is­ins. Því hef­ur oft­ar en einu sinni verið hreyft í op­in­ber­um umræðum að það sé í raun óþarft til­durembætti. Hér er ekki tekið und­ir það.

Nú þegar rétt 20 ár eru frá því að Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son beitti í fyrsta sinn synj­un­ar­valdi gegn lög­um tala ýms­ir for­setafram­bjóðend­ur eins og þeir séu í fram­boði gegn alþing­is­mönn­um eða jafn­vel sjálfu alþingi. Það sé hlut­verk for­seta að tala um fyr­ir þing­mönn­um og tak­ist hon­um ekki að fá þá á sitt band með um­vönd­un­um geti hann hótað að beita valdi sínu til að leggja ágrein­ing sinn við þing­heim und­ir dóm kjós­enda.

For­seta Íslands er hvergi falið slíkt vald. Það er fyrst og síðast hlut­verk stjórn­ar­and­stöðu á alþingi að veita meiri­hluta þar og þar með rík­is­stjórn­inni aðhald. For­seti hef­ur hvorki umboð né heim­ild til að verða eins kon­ar staðgeng­ill stjórn­ar­and­stöðu.

Í fyrr­nefndri bók um þing­ræðið bend­ir Þor­steinn Magnús­son rétti­lega á að eft­ir­litið með meiri­hluta á þingi og þar með fram­kvæmda­vald­inu sé og hafi fyrst og fremst verið á hendi stjórn­ar­and­stöðunn­ar. Hann seg­ir:

„Þau skörpu skil sem skap­ast milli stjórn­ar­liða og stjórn­ar­and­stöðu í meiri­hlutaþing­ræði þýða því að það kem­ur fyrst og fremst í hlut þing­manna stjórn­ar­and­stöðu að hafa eft­ir­lit með hand­höf­um fram­kvæmda­valds­ins og veita rík­is­stjórn póli­tískt aðhald.“

Í vik­unni sagði lög­lærður höf­und­ur í stuðnings­grein hér í blaðinu að rík­is­stjórn­ir hefðu kom­ist upp með alls kyns laga­frum­vörp í skjóli þess trausts að for­set­inn sem héldi á neit­un­ar­valdi laga­setn­inga mundi ekki beita þessu valdi sínu.

For­seta Íslands er hvergi ætlað slíkt póli­tískt aðhald. Þor­steinn Páls­son, fyrrv. for­sæt­is­ráðherra, seg­ir á dv.is í vik­unni að til­hneig­ing virðist vera til að „nota úr­elt og óskýr ákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar til þess að breyta for­seta­embætt­inu smám sam­an á þann veg að á Bessa­stöðum sitji ein­stak­ling­ur sem leiði rík­is­stjórn­ina eins og for­eldri barn“. Í stjórn­ar­skránni sé hins veg­ar hvergi að finna fót fyr­ir því að for­seta­embættið hafi telj­andi mál­efna­lega þýðingu fyr­ir fólkið í land­inu.

Um leið og und­ir þessi orð er tekið skal full­yrt að all­ar til­raun­ir til að telja kjós­end­um trú um að for­seta­embættið sé eitt­hvað annað en það er sam­kvæmt stjórn­lög­um lands­ins séu dæmd­ar til að mis­heppn­ast.

For­seti Íslands vinn­ur eið eða dreng­skap­ar­heit að stjórn­ar­skránni við inn­setn­ingu í embættið. Mörg orð sumra fram­bjóðenda um það sem þeir ætla að gera nái þeir kjöri benda hins veg­ar til virðing­ar­leys­is fyr­ir stjórn­ar­skránni og ákvæðum henn­ar. Lof­orðin falla ein­fald­lega dauð við embættis­töku nema heitið þar sé mark­laust. Við slík svik stæði hníp­in þjóð í vanda.