Um birgðastöðu á hættutíma
Morgunblaðið, laugardag 12. mars 2022
Fyrir einu ári, í mars 2021, gaf almannavarna- og öryggismálaráð út stefnu stjórnvalda um mál sem undir ráðið falla. Þar er að finna upplýsingar um mikilvæg málefni sem eru hluti af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.
Í kaflanum um birgðir segir að þær aðstæður geti skapast „þar sem lífsnauðsynlegar vörur [séu] af skornum skammti“. Nefndar eru „ytri aðstæður“ auk hamfara eða faraldra innanlands. Innrásin og stríðið í Úkraínu fellur undir „ytri aðstæður“. Mikilvægt er talið að tiltækar séu áætlanir um samstarf þeirra sem flytja inn eða framleiða lífsnauðsynlegar vörur. Þar eru nefnd lyf, eldsneyti, vörur til framleiðslu matvæla, varahlutir og búnaður fyrir viðbragðsaðila og heilbrigðisþjónustu. Fæðuöryggi er lýst sem mikilvægum þætti og áríðandi sé að taka tillit til þess í skipulagi vegna nauðsynlegra birgða.
Frá höfninni í Helguvík á Reykjanesi.
Í stefnunni er gert ráð fyrir að forsætisráðuneytið leiði starfshóp allra ráðuneyta sem semji fyrir árslok 2021 viðbragðsáætlun um söfnun upplýsinga um birgðastöðu; leiðir til að bregðast við óásættanlegri birgðastöðu mikilvægra þátta og skömmtun og stýringu á úthlutun mikilvægra birgða.
Þessi viðbragðsáætlun hefur ekki séð dagsins ljós. Hvað sem því líður er líklegt að nú hefjist tími hér á landi eins og annars staðar þar sem hugað verður að hagvörnum á annan hátt en til þessa. Áhrif heimsfaraldursins undanfarin ár eru ef til vill aðeins smjörþefurinn af því sem koma skal. Spurningar um aðfangakeðjur og hverju þær skila setja vaxandi svip á fréttir hér og hvarvetna annars staðar.
Í skýrslu þjóðaröryggisráðs um mat á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum sem birt var í febrúar 2021 er að finna sérstaka kafla um stöðuna í eldsneytismálum og um fæðu- og matvælaöryggi – grunnstoðir nútíma samfélaga.
Verði skortur á jarðefnaeldsneyti hér hefur hann „bein áhrif á löggæslu, viðbúnaðar- og neyðarþjónustu, matvælaframleiðslu og á samgöngur“. Truflist eða minnki rafmagnsframleiðsla hefur skortur á jarðefnaeldsneyti bein áhrif á starfsemi sem notar varaafl, „svo sem fjarskipta-, net- og upplýsingakerfi, varmaflutning, heilbrigðisþjónustu og neysluvatnskerfi,“ segir í matsskýrslunni.
Skip koma að jafnaði á 10 til 12 daga fresti með bensín, gasolíutegundir, svartolíu og flugsteinolíu til landsins frá Evrópu, Bandaríkjum og einstaka sinnum frá Asíu.
Í skýrslu þjóðaröryggisráðs segir að birgðastaða olíu í landinu sé mjög mismunandi milli ára. Miðað við birgðir á árunum 2015-2017 eru birgðadagar á milli 18 og 25. Ísland hefur hvorki undirgengist reglur Alþjóðaorkumálastofnunarinnar né ESB um 90 daga birgðir af olíu. „Líta má svo á að hér sé um veikleika að ræða, enda stendur Ísland langt að baki nágrannalöndum í þessu efni,“ segir í skýrslunni.
Helguvíkurhöfn tekur ein við og geymir loftfaraeldsneyti. Þangað kemur eldsneyti með skipi á um það bil þriggja vikna fresti. Ekki er til áætlun um hvað gerist lokist Helguvíkurhöfn.
Í olíukreppunni fyrir hálfri öld var mikið rætt um hættuna af skorti á jarðefnaeldsneyti og innleiðingu 90 daga birgðareglunnar. Nú má segja að þjóðarbúið sé í svipuðum sporum. Hér er enn á ný verk að vinna til að skapa öryggi. Kaup og söfnun birgða þegar olíuverð fer með himinskautum eins og nú er ekki til marks um mikla fyrirhyggju.
Í þjóðaröryggisskýrslunni er minnt á hve matvælaframboð og -framleiðsla hér er háð innflutningi aðfanga, svo sem fóðurs, áburðar og umbúða. Þá hljóti fiskveiðar að taka mið af því ef olíubirgðir verða takmarkaðar. Í skýrslunni seegir: „Almennt þarf aukna árvekni um fæðuöryggi hérlendis, en þess má þó geta að áhættumatsnefnd hefur verið skipuð um málefnið á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.“
Í tíð Kristjáns Þórs Júlíussonar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var unnið að rannsóknum og útgáfu skýrslu um fæðuöryggi. Þá gerði hann alþingi grein fyrir framkvæmd aðgerðaáætlunar um matvælaöryggi í 17 liðum sem samþykkt var í júní 2019. Um gildi íslensks landbúnaðar fyrir þjóðaröryggi Íslands er fjallað í landbúnaðarstefnunni Ræktum Ísland! Góðar tillögur skortir ekki. Nú er tími aðgerða.
Sé vilji til að fara að fordæmi annarra þjóða við almannavarnir er nærtækt að líta til Finna. Jaakko Pekki, forstjóri finnsku neyðarbirgðastofnunarinnar (NESA), segir Finnar standa sérstaklega vel að vígi varðandi matvælaframleiðslu. Þeir framleiði sjálfir um 80% þeirra matvæla sem þeir neyti. Til að búa í haginn fyrir innlenda framleiðslu sé til dæmis safnað birgðum af tilbúnum áburði auk korns sem dugi til sex mánaða venjulegrar neyslu. Þá segir hann eldsneytisbirgðastöðuna „einstaklega góða“, birgðirnar dugi til fimm mánaða venjulegrar notkunar. Sama gildi um lyf. Framleiðendur og innflytjendur lyfja séu skyldaðir til að eiga neyðarbirgðir, til 3-10 mánaða venjulegrar neyslu. Forstjórinn sagði í samtali við finnska ríkisútvarpið, YLE, skynsamlegt fyrir almenning að eiga nauðsynjar til 72 stunda, þriggja sólarhringa, heima hjá sér.
Birgðastaða Íslands er veik. Fyrir stjórnvöldum liggja tillögur sem ekki hefur verið hrundið í framkvæmd. Ein þeirra snýr að því að bæta höfnina í Helguvík en þar „eru stærstu eldsneytisgeymar landsins og geta nýst fyrir viðbótareldsneytisbirgðir,“ eins og segir í matsskýrslu þjóðaröryggisráðs. Framkvæmdaaðilar bíða. Forsætisráðherrann, formaður þjóðaröryggisráðs og almanna- og öryggismálaráðs, ætti tafarlaust að gefa græna ljósið.