12.3.2022

Um birgðastöðu á hættutíma

Morgunblaðið, laugardag 12. mars 2022

Fyr­ir einu ári, í mars 2021, gaf al­manna­varna- og ör­ygg­is­málaráð út stefnu stjórn­valda um mál sem und­ir ráðið falla. Þar er að finna upp­lýs­ing­ar um mik­il­væg mál­efni sem eru hluti af þjóðarör­ygg­is­stefnu fyr­ir Ísland.

Í kafl­an­um um birgðir seg­ir að þær aðstæður geti skap­ast „þar sem lífs­nauðsyn­leg­ar vör­ur [séu] af skorn­um skammti“. Nefnd­ar eru „ytri aðstæður“ auk ham­fara eða far­aldra inn­an­lands. Inn­rás­in og stríðið í Úkraínu fell­ur und­ir „ytri aðstæður“. Mik­il­vægt er talið að til­tæk­ar séu áætlan­ir um sam­starf þeirra sem flytja inn eða fram­leiða lífs­nauðsyn­leg­ar vör­ur. Þar eru nefnd lyf, eldsneyti, vör­ur til fram­leiðslu mat­væla, vara­hlut­ir og búnaður fyr­ir viðbragðsaðila og heil­brigðisþjón­ustu. Fæðuör­yggi er lýst sem mik­il­væg­um þætti og áríðandi sé að taka til­lit til þess í skipu­lagi vegna nauðsyn­legra birgða.

Info-helguvikFrá höfninni í Helguvík á Reykjanesi.

Í stefn­unni er gert ráð fyr­ir að for­sæt­is­ráðuneytið leiði starfs­hóp allra ráðuneyta sem semji fyr­ir árs­lok 2021 viðbragðsáætl­un um söfn­un upp­lýs­inga um birgðastöðu; leiðir til að bregðast við óá­sætt­an­legri birgðastöðu mik­il­vægra þátta og skömmt­un og stýr­ingu á út­hlut­un mik­il­vægra birgða.

Þessi viðbragðsáætl­un hef­ur ekki séð dags­ins ljós. Hvað sem því líður er lík­legt að nú hefj­ist tími hér á landi eins og ann­ars staðar þar sem hugað verður að hag­vörn­um á ann­an hátt en til þessa. Áhrif heims­far­ald­urs­ins und­an­far­in ár eru ef til vill aðeins smjörþef­ur­inn af því sem koma skal. Spurn­ing­ar um aðfanga­keðjur og hverju þær skila setja vax­andi svip á frétt­ir hér og hvarvetna ann­ars staðar.

Í skýrslu þjóðarör­ygg­is­ráðs um mat á ástandi og horf­um í þjóðarör­ygg­is­mál­um sem birt var í fe­brú­ar 2021 er að finna sér­staka kafla um stöðuna í eldsneyt­is­mál­um og um fæðu- og mat­væla­ör­yggi – grunnstoðir nú­tíma sam­fé­laga.

Verði skort­ur á jarðefna­eldsneyti hér hef­ur hann „bein áhrif á lög­gæslu, viðbúnaðar- og neyðarþjón­ustu, mat­væla­fram­leiðslu og á sam­göng­ur“. Trufl­ist eða minnki raf­magns­fram­leiðsla hef­ur skort­ur á jarðefna­eldsneyti bein áhrif á starf­semi sem not­ar vara­afl, „svo sem fjar­skipta-, net- og upp­lýs­inga­kerfi, varma­flutn­ing, heil­brigðisþjón­ustu og neyslu­vatns­kerfi,“ seg­ir í mats­skýrsl­unni.

Skip koma að jafnaði á 10 til 12 daga fresti með bens­ín, gasol­íu­teg­und­ir, svartol­íu og flug­stein­ol­íu til lands­ins frá Evr­ópu, Banda­ríkj­um og ein­staka sinn­um frá Asíu.

Í skýrslu þjóðarör­ygg­is­ráðs seg­ir að birgðastaða olíu í land­inu sé mjög mis­mun­andi milli ára. Miðað við birgðir á ár­un­um 2015-2017 eru birgðadag­ar á milli 18 og 25. Ísland hef­ur hvorki und­ir­geng­ist regl­ur Alþjóðaorku­mála­stofn­un­ar­inn­ar né ESB um 90 daga birgðir af olíu. „Líta má svo á að hér sé um veik­leika að ræða, enda stend­ur Ísland langt að baki ná­granna­lönd­um í þessu efni,“ seg­ir í skýrsl­unni.

Helgu­vík­ur­höfn tek­ur ein við og geym­ir loft­fara­eldsneyti. Þangað kem­ur eldsneyti með skipi á um það bil þriggja vikna fresti. Ekki er til áætl­un um hvað ger­ist lok­ist Helgu­vík­ur­höfn.

Í ol­íukrepp­unni fyr­ir hálfri öld var mikið rætt um hætt­una af skorti á jarðefna­eldsneyti og inn­leiðingu 90 daga birgðaregl­unn­ar. Nú má segja að þjóðarbúið sé í svipuðum spor­um. Hér er enn á ný verk að vinna til að skapa ör­yggi. Kaup og söfn­un birgða þegar olíu­verð fer með him­inskaut­um eins og nú er ekki til marks um mikla fyr­ir­hyggju.

Í þjóðarör­ygg­is­skýrsl­unni er minnt á hve mat­væla­fram­boð og -fram­leiðsla hér er háð inn­flutn­ingi aðfanga, svo sem fóðurs, áburðar og umbúða. Þá hljóti fisk­veiðar að taka mið af því ef olíu­birgðir verða tak­markaðar. Í skýrsl­unni seeg­ir: „Al­mennt þarf aukna ár­vekni um fæðuör­yggi hér­lend­is, en þess má þó geta að áhættumats­nefnd hef­ur verið skipuð um mál­efnið á veg­um at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­is.“

Í tíð Kristjáns Þórs Júlí­us­son­ar sem sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra var unnið að rann­sókn­um og út­gáfu skýrslu um fæðuör­yggi. Þá gerði hann alþingi grein fyr­ir fram­kvæmd aðgerðaáætl­un­ar um mat­væla­ör­yggi í 17 liðum sem samþykkt var í júní 2019. Um gildi ís­lensks land­búnaðar fyr­ir þjóðarör­yggi Íslands er fjallað í land­búnaðar­stefn­unni Rækt­um Ísland! Góðar til­lög­ur skort­ir ekki. Nú er tími aðgerða.

Sé vilji til að fara að for­dæmi annarra þjóða við al­manna­varn­ir er nær­tækt að líta til Finna. Ja­ak­ko Pekki, for­stjóri finnsku neyðarbirgðastofn­un­ar­inn­ar (NESA), seg­ir Finn­ar standa sér­stak­lega vel að vígi varðandi mat­væla­fram­leiðslu. Þeir fram­leiði sjálf­ir um 80% þeirra mat­væla sem þeir neyti. Til að búa í hag­inn fyr­ir inn­lenda fram­leiðslu sé til dæm­is safnað birgðum af til­bún­um áburði auk korns sem dugi til sex mánaða venju­legr­ar neyslu. Þá seg­ir hann eldsneyt­is­birgðastöðuna „ein­stak­lega góða“, birgðirn­ar dugi til fimm mánaða venju­legr­ar notk­un­ar. Sama gildi um lyf. Fram­leiðend­ur og inn­flytj­end­ur lyfja séu skyldaðir til að eiga neyðarbirgðir, til 3-10 mánaða venju­legr­ar neyslu. For­stjór­inn sagði í sam­tali við finnska rík­is­út­varpið, YLE, skyn­sam­legt fyr­ir al­menn­ing að eiga nauðsynj­ar til 72 stunda, þriggja sól­ar­hringa, heima hjá sér.

Birgðastaða Íslands er veik. Fyr­ir stjórn­völd­um liggja til­lög­ur sem ekki hef­ur verið hrundið í fram­kvæmd. Ein þeirra snýr að því að bæta höfn­ina í Helgu­vík en þar „eru stærstu eldsneyt­is­geym­ar lands­ins og geta nýst fyr­ir viðbótar­eldsneyt­is­birgðir,“ eins og seg­ir í mats­skýrslu þjóðarör­ygg­is­ráðs. Fram­kvæmdaaðilar bíða. For­sæt­is­ráðherr­ann, formaður þjóðarör­ygg­is­ráðs og al­manna- og ör­ygg­is­málaráðs, ætti taf­ar­laust að gefa græna ljósið.