8.6.2024

Um 360 milljónir kjósa á ESB-þing

Morgunblaðið, laugardagur, 8. júní 2024

Nú í viku­lok­in er kosið til ESB-þings­ins í 27 aðild­ar­ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Um 360 millj­ón kjós­end­ur velja 720 þing­menn til fimm ára setu á þing­inu. Þeir skipt­ast nú í sjö þing­flokka:

Miðhægri: EPP, Europe­an Peop­le's Party; jafnaðar­menn: Progressi­ve Alli­ance of Social­ists and Democrats; frjáls­lynda: Renew Europe; græn­ingja: Greens/​Europe­an Free Alli­ance; til hægri við EPP: Europe­an Conservati­ves and Reformists (ECR); lengst til hægri: Identity and Democracy (ID) og lengst til vinstri: The Left.

Hefð er fyr­ir því að EPP, jafnaðar­menn og frjáls­lynd­ir fari með póli­tíska for­ystu inn­an ESB. Nú er EPP-full­trú­inn, Þjóðverj­inn Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar ESB; frjáls­lyndi Belg­inn Char­les Michel er for­seti leiðtogaráðs ESB og sósíal­íski Spán­verj­inn Josep Bor­rell er ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mála­stjóri ESB.

Istockphoto-1336804231-612x612Úr sal ESB-þingsins.

Þegar Ursula von der Leyen var val­in í valda­mesta embætti ESB árið 2019 var það að til­lögu flokks­syst­ur henn­ar, Ang­elu Merkel Þýska­landskansl­ara. Von der Leyen var sótt úr embætti varn­ar­málaráðherra Þýska­lands þvert á óskrifað fyr­ir­heit um að odd­vit­ar þing­flokka í kosn­ing­um til ESB-þings­ins skyldu vald­ir til for­ystu í valda­stofn­un­um ESB.

Í kosn­ing­un­um núna er Ursula von der Leyen odd­viti EPP-flokks­ins. Því er spáð að hann verði áfram stærsti þing­flokk­ur­inn inn­an ESB. Hvort það dugi odd­vita hans til að halda for­sæt­inu kem­ur í ljós. Stefnt er að því að ákvörðun um næsta for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar verði tek­in fyr­ir lok júní. Ný fram­kvæmda­stjórn kem­ur þó ekki til sög­unn­ar fyrr en í nóv­em­ber eft­ir af­greiðslu þings­ins á til­lög­um um ein­staka fram­kvæmda­stjóra og viðræður við þá í þing­nefnd­um.

Char­les Michel, for­seti leiðtogaráðsins, stjórn­ar fund­um leiðtoga ríkj­anna 27 þegar þeir ráða ráðum sín­um um stjórn­end­ur ESB næstu fimm árin. Hef­ur þegar verið boðað til óform­legs kvöld­verðar­fund­ar um málið mánu­dag­inn 17. júní.

Michel verður ekki í for­ystu­hlut­verki inn­an ESB á næsta kjör­tíma­bili. Hann olli upp­námi inn­an sam­bands­ins í vor þegar hann sagðist ætla að segja sig frá for­seta­embætt­inu og bjóða sig fram til ESB-þings­ins. Var hann tal­inn ofan af þeirri ráðagerð, hún myndi skapa glundroða í æðstu stjórn ESB. Varð Michel fyr­ir álits­hnekki vegna dómgreind­ar­skorts.

Michel er sagður bera kala til Ursulu von der Leyen eft­ir kynn­in á und­an­förn­um fimm árum. Hann kann að valda henni erfiðleik­um í leiðtogaráðinu. Hef­ur Emm­anu­el Macron Frakk­lands­for­seti kannað áhuga á að Ítal­inn Mario Drag­hi, fyrr­ver­andi banka­stjóri evr­unn­ar í Frankfurt og for­sæt­is­ráðherra Ítal­íu, verði for­seti nýrr­ar fram­kvæmda­stjórn­ar. Hef­ur fram­takið fallið í grýtt­an jarðveg en Drag­hi kynni þó að koma til álita í stað Michels.

Von der Leyen hef­ur lagt sig fram um að rækta gott sam­band við Gig­oriu Meloni for­sæt­is­ráðherra Ítal­íu. Flokk­ur henn­ar, Bræður Ítal­íu, verður að lík­ind­um öfl­ug­ur á hægri vængn­um á nýju ESB-þingi.

Jafnaðarmönn­um mis­lík­ar þetta flökt Ursulu von der Leyen til hægri. Sama gild­ir um miðju­mann­inn Macron Frakk­lands­for­seta en flokk­ur hans mynd­ar kjarna ESB-þing­flokks frjáls­lyndra. Flest bend­ir hins veg­ar til að Macron tapi veru­lega í kosn­ing­un­um í Frakklandi og Þjóðar­hreyf­ing Mar­ine Le Pen vinni góðan sig­ur.

Le Pen hef­ur und­ir­tök­in í ID-þing­flokkn­um, lengst til hægri á ESB- þing­inu. Ný­lega voru Þjóðverj­ar í AfD-flokkn­um rekn­ir úr ID eft­ir að leiðtogi flokks­ins sagði ekki alla SS-menn nazista hafa verið glæpa­menn. Þá hef­ur aðstoðarmaður hans verið sakaður um njósn­ir fyr­ir Kín­verja. Á ESB-þing­inu eru ID-menn auk þess grunaðir um að ganga er­inda Rússa með kröf­um um að vestrið hætti að styðja Úkraínu­menn með vopn­um.

For­ystu­menn AfD hafa eft­ir brottrekst­ur­inn úr ID rætt við öfga­fulla þjóðern­is­sinna í öðrum lönd­um um að stofna eig­in þing­flokk á ESB-þing­inu eft­ir kosn­ing­arn­ar. Hug­mynd­in kann að höfða til þing­manna frá Póllandi, Lit­há­en, Búlgaríu, Ung­verjalandi og Slóvakíu. Hóf­söm eða vin­sam­leg afstaða í garð Rússa myndi sam­eina þessa flokka. Alls þurfa 23 þing­menn frá sjö ríkj­um að taka hönd­um sam­an til að fá viður­kenn­ingu sem þing­flokk­ur.

Kann­an­ir fyr­ir ESB-þing­kosn­ing­arn­ar árið 2019 sýndu að lofts­lags­mál og hlýn­un jarðar voru ráðandi í hug­um kjós­enda. Á kjör­tíma­bil­inu hef­ur fram­kvæmda­stjórn ESB beitt sér fyr­ir „græn­um“ mál­um. Nú sýna kann­an­ir hins veg­ar að aðeins Sví­ar setja lofts­lags­mál í efsta sæti. Ná­grann­ar Rússa og íbú­ar fleiri ríkja setja varn­ir og ör­yggi sitt efst í spurn­ing­um um kosn­inga­mál.

Könn­un­ar­fyr­ir­tækið Eurobarometer lagði spurn­ing­ar fyr­ir íbúa ESB-landa í fe­brú­ar og mars 2024 og nú skipa lofts­lags­mál fimmta sæti í huga kjós­enda. Dan­ir töldu varn­ar­mál mik­il­væg­ust og sömu sögu er að segja um Þjóðverja, Hol­lend­inga, Finna, Pól­verja, Tékka, Eist­lend­inga, Letta og Lit­háa.

Mál­in fjög­ur fyr­ir ofan lofts­lags­mál eru bar­átt­an gegn fá­tækt, heil­brigðismál, at­vinnu­leysi auk varn­ar­mál­anna. Það er einkum í Aust­ur- og Suður-Evr­ópu sem efna­hags- og sam­fé­lags­mál­in ber hátt.

Niðurstaða þess­ar­ar könn­un­ar er skýrð á þann veg að kjós­end­ur líti á bar­átt­una gegn hlýn­un jarðar sem „lúx­us“ og hún verði að víkja fyr­ir öðrum brýnni verk­efn­um. Heims­far­ald­ur og stríð í Evr­ópu auk verðbólgu verði til þess að menn líti sér nær en verk­efni sem skili ef til vill ár­angri eft­ir nokkra ára­tugi verði ein­fald­lega að bíða.

Það eru skýr­ar vís­bend­ing­ar um breytt­ar áhersl­ur í evr­ópsk­um stjórn­mál­um sem eiga fullt er­indi til Íslend­inga og ís­lenskra stjórn­mála­manna.