1.3.2025

Um 22 ára stjórnmálaferil Bjarna Benediktssonar

Ræða á 45. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1. mars 2025.

Laugardaginn 1. mars 2025 var 90 mínútna dagskrá 45. landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem ég flutti inngangsræðu um það sem að mínu mati bar hæst í stjórnmálum og snerti 22 ára þing- og ráðherraferil Bjarna Benediktssonar. Dagskráin var í tilefni af því að Bjarni gaf ekki kost á sér til endurkjörs til formanns flokksins.

Við mat á framvindu samtímastjórnmála skortir fjarlægðina til að greina á milli aðalatriða og þess sem skiptir minna máli. Hættan er að festast um of í því sem veldur mestum tilfinningahita á líðandi stundu.

Frásagnir af slíkum atvikum skortir ekki þegar rætt er um stjórnmálaferil Bjarna Benediktssonar. Í stað þess að sækja að honum vegna málefna eða stjórnmálastarfa hefur oft verið vegið að honum persónulega og jafnvel níðangurslega.

Sú óafsakanlega lágkúra verður skiljanlegri þegar störf hans sem stjórnmálamanns eru skoðuð.

Óvild hóps auðamanna og fjölmiðlamanna þeirra magnaðist gagnvart Sjálfstæðisflokknum og forystu hans um það leyti sem Bjarni bauð sig fram til þings í kosningunum 2003.

Haustið 2002 höfðu álitsgjafar á borð við Hallgrím Helgason rithöfund komist að þeirri niðurstöðu að áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum gengju erinda eins hóps athafnamanna á kostnað annars.

Þá birti Hallgrímur greinina Baugur og Bláa höndin um að Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins veittist að „spútnikfyrirtækinu Baugi“. Gegn þeim ósköpum yrði að snúast á pólitískum vettvangi.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var á leið úr borgarstjórn og barðist til valda í Samfylkingunni. Hún brást við áskorun Hallgríms og flutti 9. febrúar 2003 ræðu í Borgarnesi þar sem hún hvatti athafnamenn til dáða gegn Davíð. Hún tók upp hanskann fyrir Baug gegn Bláu höndinni.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn héldu þingmeirihluta sínum í vorkosningunum 2003. Stjórnarsamstarf flokkanna hélt áfram að þeim loknum.

Fréttablaðið var þá í leynilegri eign Baugsmanna, undir ritstjórn Gunnars Smára Egilssonar. Reynir Traustason og Sigríður Dögg Auðunsdóttir voru í hópi blaðamanna sem beitt var gegn Davíð og Sjálfstæðisflokknum.

Þá voru dregnar átakalínur sem ná alveg fram á okkar dag, 22 árum síðar.

Sé spólað hratt yfir fjölmiðlunina fram til dagsins í dag sjáum við að sömu einstaklingar og þá börðust gegn Davíð og Sjálfstæðisflokknum hafa háð stríð við Bjarna.

1551486Bjarni Benediktsson setur 45. landsfund Sjállfstæðisflokksins, 28, febrúar 2025 (mynd: mbl.is/Anton Brink).

Fyrri hluta árs 2004 var hart tekist á um fjölmiðlamálið svonefnda.

Undir árslok 2003 hafði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins skipað nefnd til að skoða reglur um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi.

Í ársbyrjun 2004 átti Baugsveldið tvö dagblöð, sjónvarps- og útvarpsstöðvar auk annarra fyrirtækja á afþreyingamarkaði. Fyrirtæki sem höfðu um 70% markaðshlutdeild á matvörumarkaði í Reykjavík og um 51% á landinu öllu beindu auglýsingum til Baugsmiðlanna.

Með vísan til starfa fjölmiðlanefndar menntamálaráðherra og samkeppnislaga sem heyrðu undir viðskiptaráðherra lagði Davíð Oddsson forsætisráðherra fram svonefnt fjölmiðlafrumvarp til að sporna gegn samþjöppun á peninga- og smásölumarkaði.

Í stuttu máli fór þá allt á annan endann. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands neitaði að staðfesta lögin og dró ríkisstjórnin þau til baka.

Fjölmiðlafrumvarpið og afturköllun laganna eftir neitun Ólafs Ragnars var til meðferðar í allsherjarnefnd alþingis sem þá var undir formennsku Bjarna Benediktssonar.

Við flókna meðferð fjölmiðlamálsins fékk Bjarni eldskírn sína á þingi. Þrátt fyrir mikinn ágreining naut hann trausts andstæðinga málsins samhliða því sem hann ávann sér óskoraða virðingu samflokksmanna sinna.

Davíð Oddsson hvarf frá beinni þátttöku í stjórnmálum á þessu kjörtímabili og Geir H. Haarde var kjörinn flokksformaður 16. október 2005. Hann leiddi Sjálfstæðisflokkinn í kosningum vorið 2007 og myndaði síðan stjórn með Samfylkingunni.

Bjarni hafði komið inn sem 11. þingmaður SV-kjördæmis, jöfnunarþingmaður, árið 2003 en eftir kosningarnar 2007 var hann þriðji þingmaður kjördæmisins og augljóst ráðherraefni.

Sömdum við Geir um að ég sæti áfram sem dómsmálaráðherra til áramótanna 2008/09 og þá kæmi Bjarni í minn stað inn í stjórnina. Leit ég á þetta sem lokakjörtímabil mitt.

Bjarni varð formaður utanríkismálanefndar alþingis og í fjármálakreppunni miklu með tilheyrandi bankahruni í byrjun október 2008 reyndi verulega á þá nefnd eins og annað í æðstu stjórn landsins.

Í hlut Bjarna kom að leiða í gegnum þingið og utanríkismálanefnd þingsályktunartillögu forsætisráðherra um heimild til fjárhagslegrar fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta var lykilatriði svo losa mætti um afarkostina sem Bretar og Hollendingar settu til að tryggja endurgreiðslur til sín vegna ICESAVE-reikninganna.

Alþingi samþykkti heimildina 5. desember 2008. Síðan var ítarlegri efnahagsáætlun í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hrundið í framkvæmd.

Með henni var traust á íslenskum efnahag endurvakið, staða ríkissjóðs styrktist og endurreisn íslenska bankakerfsins hófst.

Ákvörðunin um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn kemur líklega næst neyðarlögunum sjálfum þegar litið er til þeirra góðu tækja sem ríkisstjórn Geirs og þingmeirihluti hennar lögðu í hendur minnihlutastjórninni sem Samfylking og Vinstrigræn mynduðu 1. febrúar 2009 undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur með stuðningi Framsóknarflokksins, undir formennsku Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins 29. mars 2009. Kepptu þeir um embættið Bjarni og Kristján Þór Júlíusson, þingmaður úr Norðausturkjördæmi. Bjarni fékk 990 atkvæði af 1705 greiddum atkvæðum eða 58,1%. Kristján Þór fékk 688 atkvæði eða 40,4%.

Við þetta urðu kynslóðaskipti í Sjálfstæðisflokknum. Kynslóðin sem náði undirtökum innan flokksins árið 1983 með formannskjöri Þorsteins Pálssonar afhenti formanni nýrrar kynslóðar keflið.

Þá náði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir góðu endurkjöri sem varaformaður á landsfundinum 2009.

Í þingkosningunum 2009 skipaði Bjarni efsta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi en Þorgerður Katrín færðist úr því í annað sætið. Frá 2013 hefur Bjarni verið fyrsti þingmaður kjördæmisins.

Á landsfundinum 2009 voru söguleg átök um hvort sækja ætti um aðild að Evrópusambandinu. Samþykkt var að hagsmunum Íslands væri áfram best borgið utan Evrópusambandsins.

Í samþykktinni var málamiðlunarákvæði um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, tæki alþingi eða ríkisstjórn ákvörðun um að sækja um aðild. Greiddi þjóðin þá atkvæði um efni umsóknar, áður en hún yrði send til Brussel og síðan greiddi þjóðin atkvæði að nýju um aðildarkjör, ef svo bæri undir að lokinni meðferð á umsókninni í viðræðum við ESB.

Þótt málsvarar ESB-aðildar sættu sig við þessa niðurstöðu á landsfundinum klufu þeir flokkinn síðar vegna hennar undir leiðsögn Þorsteins Pálssonar og forystu Þorgerðar Katrínar og stofnuðu Viðreisn vorið 2016.

Stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vildi aðild Íslands að ESB, umskipti á stjórnarskrá og niðurbrot fiskveiðistjórnarkerfisins. Ekkert af þessum markmiðum náðist. Þau hafa verið endurvakin af stjórninni sem mynduð var 21. desember 2024 með þátttöku Viðreisnar.

Jóhönnustjórninni tókst hins vegar að breyta neyðarlögunum til verri vegar og klúðra ICESAVE-málinu á ævintýranlegan hátt.

Í október 2008 gerðu forráðamenn Landsbankans grein fyrir því að eignir hans nægðu vel fyrir ICESAVE-skuldunum sem reyndist rétt þegar upp var staðið þótt öðru væri haldið fram árum saman.

Í anda þingsályktunarinnar frá 5. desember 2008 lagði Bjarni sig fram um að samið yrði um ICESAVE-uppgjörið. Það naut ekki stuðnings meirihluta þjóðarinnar eins og fram kom í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum í tíð vinstri stjórnarinnar. Sætti afstaða Bjarna gagnrýni innan Sjálfstæðisflokksins og var þingflokkur sjálfstæðismanna ekki einhuga í málinu.

Jóhönnustjórnin féll í kosningunum 2013. Þá hlaut Sjálfstæðisflokkurinn 26,7% atkvæða og 19 þingmenn og Framsóknarflokkurinn 24,4% og einnig 19 þingmenn.

Úrslitin sýndu að áform ríkisstjórnarflokkanna um að ýta Sjálfstæðisflokknum varanlega til hliðar eftir hrunið runnu út í sandinn. Bjarni náði því höfuðmarkmiði að tryggja Sjálfstæðisflokknum traustan sess þrátt fyrir allt sem á undan var gengið.

Ólafur Ragnar fól Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, stjórnarmyndun vorið 2013, flokkur hans hefði sótt svo mikið í sig veðrið frá kosningunum 2009.

Ég hallast að því að Ólafur Ragnar hafi viljað þakka Sigmundi Davíð að gera sér kleift að mynda minnihlutastjórnina 1. febrúar 2009. Dagbækur Ólafs sýna hve hart hann lagði að sér í þágu Jóhönnu og stjórnar hennar. Stundum var hún beinlínis í gjörgæslu hans.

Árið 2015 markaði mikilvæg þáttaskil í þróun stjórnmálanna.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs var alfarið á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Aðildarsinnar ákváðu að gera stjórninni lífið leitt með því að heimta engu að síður þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður.

Bjarni Benediktsson sagði réttilega pólitískt ómögulegt að ríkisstjórn andvíg aðild flytti slíka tillögu og þess vegna yrði engin þjóðaratkvæðagreiðsla.

Skoðun Bjarna var í samræmi við samþykkt landsfundarins frá 2009 um að ekki yrði gengið til þjóðaratkvæða um umsókn nema alþingi eða ríkisstjórn hefði tekið ákvörðun um að sækja um aðild. Frá 2009 hefur hvorki alþingi né ríkisstjórn tekið slíka ákvörðun.

Ríkisstjórnin sleit aðildarferlinu við ESB í mars 2015. Viðreisn viðurkennir þessi slit ekki eins og sést á sáttmála núverandi ríkisstjórnar um þjóðaratkvæðagreiðslu 2027. Hver veit nema þjóðin verði þá spurð um stuðning við 16 ára gamla aðildarumsókn sem siglt var í strand í janúar 2013.

Vegna bankahrunsins var 28. nóvember 2008 ákveðið að setja á fjármagnshöft. Var talað um að þau yrðu í skamman tíma, kannski 10 mánuði. Þau voru enn í gildi árið 2015. Jóhönnustjórnin lét eins og ekki væri unnt að losna undan þeim nema með aðild að ESB.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs vann að brottnámi haftanna og hvíldi framkvæmdin á Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.

Stjórnin birti 8. júní 2015 þríþætta áætlun um losun fjármagnshafta og 28. október 2015 kynnti fjármálaráðuneytið leið út úr höftunum með stöðugleikasamningi við kröfuhafa föllnu bankanna. Voru þá sjö ár liðin frá innleiðingu haftanna en þau hurfu endanlega í mars 2017.

„Hrein skuldastaða Íslands batnar verulega í kjölfar uppgjörs á grundvelli stöðugleikaskilyrða. Hreinar erlendar skuldir lækka um 3.740 ma.kr.,“ sagði seðlabankinn í lok október 2015.

Í árslok 2015 heiðraði Fréttablaðið þá Sigmund Davíð og Bjarna fyrir að hafa gert viðskipti ársins með afnámi haftanna.

Bjarni sagði margoft í þessu ferli að þannig yrði að þessum málum staðið að Íslendingar þyrftu ekki að horfa upp á röskun á lífskjörum vegna þess að gengi íslensku krónunnar félli. Við það var staðið.

Skuldastaðan gagnvart útlöndum varð hagstæðari en þekkst hafði í áratugi vegna þessa sögulega gjörnings.

Þjóðin andaði léttar eftir að þessi árangur náðist. Ríkisstjórnin eða einstakir ráðherrar sátu þó ekki á friðarstóli.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra 7. apríl 2016 og varaformaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, gegndi embættinu fram yfir kosningar í október 2016.

Í árslok 2016 var fjárhagsleg staða ríkissjóðs þannig að kostnaður íslenska ríkisins vegna hrunsins hafði verið endurheimtur og gott betur. Afgangur fjárlagaáranna 2014-2016 vó upp allan hallarekstur áranna á undan.

Þjóðarframleiðslan hafði náð sér á strik og var orðin meiri en þegar best lét fyrir fall bankanna.

Í fyrsta sinn í yfir 50 ár átti Ísland meira erlendis en það skuldaði, skuldastaða heimila og fyrirtækja var orðin betri en í lok síðasta góðæris, verðbólga var lítil og kaupmátturinn óx verulega ár frá ári.

Við þessar aðstæður myndaði Bjarni þriggja flokka ríkisstjórn 11. janúar 2017 með ráðherrum úr Viðreisn og Bjartri framtíð sem sprengdi stjórnina 14. september 2017.

Stjórn Bjartrar framtíðar vísaði til trúnaðarbrests þar sem ráðherrar flokksins hefðu ekki fengið vitneskju um trúnaðarsamtal dómsmálaráðherra og forsætisráðherra.

Gengið var til kosninga 28. október 2017. Þá þurrkaðist Björt framtíð út af þingi en flokkurinn var stofnaður árið 2012 til hliðar við Samfylkinguna.

Formenn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sátu á stöðugum fundum dögum saman í nóvember 2017 og sömdu 16 blaðsíðna sáttmála ríkisstjórnar sem Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, myndaði 30. nóvember.

Á árunum 1944 til 1947 leiddi Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, ríkisstjórn með þátttöku Alþýðuflokks og Sósíalistaflokks, nýsköpunarstjórnina. Um hana var ekki einhugur í þingflokki sjálfstæðismanna.

Þegar Katrín Jakobsdóttir myndaði stjórn sína kvarnaðist úr þingflokki Vinstri grænna en framsóknarmenn og sjálfstæðismenn stóðu einhuga að samstarfinu.

Bjarni varð fjármála- og efnahagsráðherra í þessari þriggja flokka stjórn til 10. október 2023 þegar hann varð utanríkisráðherra og síðan forsætisráðherra við lausnarbeiðni Katrínar 9. apríl 2024.

Hann færði sig á milli ráðuneyta 2023 vegna álits umboðsmanns alþingis um ábyrgð hans sem fjármálaráðherra við sölu hlutar ríkisins í Íslandsbanka.

Sem forsætisráðherra baðst Bjarni lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt 13. október 2024. Hann taldi að frekara samstarf stjórnarflokkanna myndi ekki skila neinum árangri.

Vinstri grænir höfðu þá ályktað gegn stjórnarsamstarfinu á landsfundi sínum en áskildu sér rétt til að rjúfa það þegar þeir teldu það henta sér.

Stjórnin tókst á við stórverkefni á borð við heimsfaraldurinn og afleiðungar jarðeldanna á Reykjanesi á farsælan hátt auk aðstoðar við stríðshrjáða Úkraínu Þessi stóru högg leiddu þó óhjákvæmilega til mikils kostnaðar af opinberri hálfu og ýttu undir verðbólgu.

Með traustri efnahagsstjórn og gerð kjarasamninga til langs tíma var lagður grunnur að lækkun verðbólgu sem dugað hefur til dagsins í dag.

Í kosningum 30. nóvember 2024 duttu Vinstri grænir út af þingi. Þá hafði flokkur reistur á grunni hugsjóna kommúnista og sósíalista átt þingmenn í 94 ár.

Tveir flokkar sem urðu ríkisstjórnum undir forsæti Bjarna að falli hurfu af þingi í kosningum vegna stjórnarslitanna og þingrofsins sem fylgdi þeim.

Útlendingamál voru Sjálfstæðisflokknum erfið í samstarfinu við Vinstri græna. Upp úr sauð í ársbyrjun 2024 þegar meirihlutinn í borgarstjórn leyfði tjaldbúðir á Austurvelli. Bjarni snerist gegn þeim í skorinorði færslu á Facebook 19. janúar og sagði „óboðlegt með öllu“ að Reykjavíkurborg hefði gefið leyfi fyrir tjaldbúðunum á þessum helga stað milli styttunnar af Jóni Sigurðssyni og Alþingishússins.

Fordæming hans hlaut miklar og góðar undirtektir og gjörbreytti á skömmum tíma tóninum og síðan umræðum um útlendingamál á alþingi.

Útlendingamálin og að lokum ágreiningur um hvalveiðar skýrði sífellt betur að þanþol milli stjórnarflokkanna var búið.

Í kosningabaráttunni haustið 2024 var slagkraftur Bjarna mikill.

Miðað við kannanir söxuðu sjálfstæðismenn jafnt og þétt á forskot Samfylkingarinnar og skorti þá líklega ekki nema nokkra daga til að fara upp fyrir hana, Samfylkingin endaði í 20,8% fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn í 19,4%.

Vinstri flokkarnir mynduðu ríkisstjórn 21. desember 2024 og 21. febrúar 2025 sameinuðust þeir gegn Sjálfstæðisflokknum þegar myndaður var nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur.

Útilokunarherferð vinstrisinna gegn Sjálfstæðisflokknum er ekki nýmæli. Vísbendingar eru hins vegar strax um að fylgi flokksins vaxi í borginni.

Góðir áheyrendur!

Tíminn er ekki vinur forystumanna í lýðræðisríkjum. Þeir vita að endurnýjunar er krafist hvernig sem þeir standa sig.

Nú 29. mars verða 16 ár liðin frá því að Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Ólafur Thors naut þess trúnaðar í 27 ár við allt aðrar aðstæður. Þegar Ólafur hætti 1961 kaus landsfundur fyrst formann.

Frá því að Bjarni var kjörinn formaður 2009 hefur hann verið endurkjörinn á sex landsfundum, þar af þrisvar sinnum með yfirlýstu mótframboði: Péturs Blöndal 2010, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur 2011 og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar 2022. Tvisvar hlaut hann 96% atkvæða, 2015 og 2018, en árið 2013 hlaut hann 79% atkvæða.

Bjarni hefur því notið mikils trausts og hollustu þúsunda landsfundarfulltrúa. Hann tilkynnti alfarið að eigin frumkvæði 6. janúar 2025 að hann myndi ekki bjóða sig fram til endurkjörs á þeim landsfundi sem við sitjum nú auk þess að afsala sér þingmennsku. Hann sagði:

„Árangurinn sem við höfum náð frá því að flokkurinn tók sæti í ríkisstjórn að nýju árið 2013 hefur farið fram úr mínum björtustu vonum. Við búum í góðu þjóðfélagi, höfum staðið af okkur storma og áföll og erum í mikilli sókn. Lífskjör hafa vaxið stórum skrefum. Við getum sagt að hvergi sé betra að búa en á Íslandi“

Undir þessi orð skal tekið. Bjarni getur gengið inn á nýjan vettvang stoltur af þeim árangri sem hann hefur náð með hag þjóðarinnar að leiðarljósi.

Bjarni hefur staðið vörð um meginstoðir stefnunnar í utanríkis- og varnarmálum, aðildina að NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin. Hann hefur jafnframt staðið gegn aðild Íslands að ESB.

Stjórnmálaumræðurnar breytast vegna ákvörðunar Bjarna Benediktssonar. Um árabil hefur hann hefur verið þungamiðja þeirra. Eftir stendur hins vegar allt sem áunnist hefur á árangursríkum og mögnuðum stjórnmálaferli. Fyrir það þökkum við á þessari stundu.