16.12.2023

Úkraínustríðið krefst viðbragða

Morgunblaðið, laugardagur 16. desember 2023.

Í alþjóðlegu sam­starfi er al­gengt að á loka­stig­um samn­ingaviðræðna sjái for­ystu­menn ein­stakra ríkja sér hag í því að taka mál í gísl­ingu – standa í vegi fyr­ir ein­róma af­stöðu þegar henn­ar er kraf­ist.

Mála­miðlan­ir taka tíma og skila mis­miklu eins og sannaðist á lofts­lags­ráðstefnu Sam­einuðu þjóðanna COP28 sem lauk miðviku­dag­inn 13. des­em­ber í Dúbaí. Mik­il­væg­ast þykir mörg­um að í fyrsta sinn skuli minnst á jarðefna­eldsneyti í COP-álykt­un. Fyr­ir þá sem standa utan mála­miðlana á þess­um vett­vangi vek­ur mesta undr­un að það sé ekki fyrr en á 28. COP-ráðstefn­unni sem minnst er á jarðefna­eldsneyti í loka­álykt­un.

Inn­an NATO hef­ur Recep Tayyip Er­dog­an, for­seti Tyrk­lands, staðið gegn aðild Svía að banda­lag­inu. Er­dog­an reyn­ir þannig að knýja fram viðbrögð við kröf­um sín­um á ýms­um sviðum án þess að þau séu á valdi Svía.

Í öld­unga­deild Banda­ríkjaþings hafa re­públi­kan­ar gripið til málþófs um fjár­stuðning við Úkraínu­menn í stríði þeirra við Rússa til að knýja á um aukn­ar fjár­veit­ing­ar til landa­mæra­vörslu gagn­vart Mexí­kó. Útlend­inga­mál ber hátt í Banda­ríkj­un­um og setja svip á bar­átt­una vegna kosn­inga á næsta ári.

Inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins hef­ur Vikt­or Or­bán, for­sæt­is­ráðherra Ung­verja­lands, lagst gegn fjár­stuðningi við Úkraínu­menn. Or­bán lýsti einnig and­stöðu við að Úkraínu­menn fengju samþykki við hraðferð inn í ESB.

Þegar Vla­dimír Selenskíj Úkraínu­for­seti heim­sótti Osló óvænt miðviku­dag­inn 13. des­em­ber var hann spurður um sam­tal sitt við Or­bán í Bu­enos Aires sunnu­dag­inn 10. des­em­ber við inn­setn­ingu nýs Arg­entínu­for­seta.

Selenskíj sagði að sam­talið hefði verið skrýtið: „Ég nefndi að sem ná­granna­ríki ætt­um við að geta hist og rætt sam­an. Ég lagði mig fram um að sýna hon­um að ég væri já­kvæður. Og ég talaði mjög hreint út við hann þegar ég sagði að hann hefði ekki neina ástæðu til að leggja stein í götu aðild­ar Úkraínu að ESB. Ég bað hann að gefa mér eina ástæðu fyr­ir því að hann gerði það – ekki tvær, ekki þrjár held­ur eina. Ég bíð enn eft­ir svari.“

Leiðtogaráð ESB kom sam­an í Brus­sel fimmtu­dag­inn 14. des­em­ber. Kvöldið fyr­ir fund­inn var til­kynnt að ákveðið hefði verið að opna fyr­ir greiðslur úr ESB-sjóðum til Ung­verja. Or­bán hefði upp­fyllt kröf­ur ESB varðandi um­bæt­ur á rétt­ar­kerf­inu. Að kvöldi 14. des­em­ber bauð leiðtogaráðið Úkraínu og Moldóvu faðminn. Selenskíj fékk já­kvætt svar.

Nor­rænu for­sæt­is­ráðherr­arn­ir og for­seti Finn­lands settu eng­in skil­yrði fyr­ir stuðningi við Selenskíj og þjóð hans á fundi sín­um í Osló. Álykt­un fund­ar­ins um stuðning­inn er ein­dreg­in og ótví­ræð, stutt skal við bakið á Úkraínu­mönn­um þar til yfir lýk­ur.

Stjórn­völd nor­rænu ríkj­anna skipa sér í sveit með Eystra­salts­ríkj­un­um við mat á ör­ygg­is­hags­mun­um sín­um vegna rúss­neskr­ar ógn­ar í Norður-Evr­ópu.

11511873-800x450Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litháens.

Gabrielius Lands­berg­is, ut­an­rík­is­ráðherra Lit­há­ens, var ómyrk­ur í máli um ör­ygg­is­mál­in í sam­tali við lit­háísku frétta­stof­una ELTA und­ir lok nóv­em­ber. Hann tel­ur að skip­an heims­mála eins og hún mótaðist eft­ir lok kalda stríðsins sé að hrynja fyr­ir aug­um okk­ar og nauðsyn­legt sé fyr­ir Lit­háa að end­ur­meta taf­ar­laust grunn­stefnu sína í ör­ygg­is­mál­um. Þar forðist menn hins veg­ar að ræða þá til­vistarógn sem kom­in sé til sög­unn­ar. Þeir láti sér nægja að leggja Úkraínu­mönn­um lið.

Sá stuðning­ur sam­eini þjóðina án þess að hún þori að ræða í botn bein áhrif Úkraínu­stríðsins á eigið ör­yggi. Við heild­armatið dugi þó ekki að líta til þess­ar­ar einu ógn­ar þótt hún yf­ir­gnæfi allt annað. Einnig verði að huga að sam­eig­in­leg­um vörn­um í ljósi þess að Banda­ríkja­menn, sem gegni lyk­il­hlut­verki fyr­ir ör­yggi Lit­há­ens, kunni að end­ur­meta ör­ygg­is­hags­muni sína og skuld­bind­ing­ar gagn­vart Evr­ópu.

Nor­ræn ör­ygg­is­mál hafa tekið stakka­skipt­um síðan Pút­in réðst inn í Úkraínu fyr­ir tæp­um tveim­ur árum. Finn­ar og Sví­ar hafa ekki aðeins sótt um aðild að NATO held­ur hafa þeir einnig gert tví­hliða samn­inga um varn­ar­sam­starf við Banda­ríkja­menn.

Sænska þings­ins bíður nú að samþykkja varn­ar­samn­ing við Banda­rík­in sem svip­ar mjög til tví­hliða varn­ar­samn­ings Íslands og Banda­ríkj­anna frá 1951. Spurn­ing­ar sem vakna í Svíþjóð vegna samn­ings­ins eru eins og þær sem Íslend­ing­ar fengu á nor­ræn­um fund­um um ör­ygg­is­mál fyr­ir um 40 árum: Er tryggt að Banda­ríkja­her komi ekki fyr­ir kjarna­vopn­um á Íslandi? Þegar svarað var að það yrði ekki gert án samþykk­is ís­lenskra stjórn­valda sáu alltaf ein­hverj­ir hér eða er­lend­is sér hag í því að gera svarið tor­tryggi­legt.

Norðmenn hafa samið við Banda­ríkja­her um viðveru í Nor­egi og Dan­ir eiga í viðræðum um varn­ar­samn­ing í Washingt­on.

Á fundi rík­is­odd­vita NATO-ríkj­anna í Vilnius í júlí 2023 var samþykkt að breyta her­stjórna­skipu­lagi NATO á þann veg að her­ir nor­rænu ríkj­anna yrðu ekki leng­ur und­ir sam­eig­in­legu NATO-her­stjórn­inni Brunss­um í Hollandi þar sem meg­in­lands­her­ir Evr­ópu tengj­ast.

Nor­rænu rík­in falla nú und­ir end­ur­reista NATO-her­stjórn í Nor­folk á aust­ur­strönd Banda­ríkj­anna og eru því bein­tengd við herafla Banda­ríkj­anna og Kan­ada. Varn­aráætlan­ir eru í end­ur­skoðun í sam­ræmi við þetta og þar skipt­ir ör­yggi sam­gangna á sjó og í lofti yfir Norður-Atlants­haf sköp­um fyr­ir trú­verðug­leika varn­anna.

Við lif­um mikla breyt­ing­ar­tíma í ör­ygg­is­mál­um, ef til vill þá mestu síðan NATO kom til sög­unn­ar fyr­ir 75 árum. Kraf­an er ekki um minni held­ur meiri varn­ir, einkum á norður­slóðum.

Þess­ar staðreynd­ir verður að ræða en ekki að ýta frá sér eins og gert var með jarðaefna­eldsneyti á 27 COP-fund­um.