Úkraína í dyragætt NATO
Morgunblaðið, laugardagur 15. júlí 2023.
Þrjú atriði má nefna eftir ríkisoddvitafund NATO í Vilníus, höfuðborg Litháens, 11. og 12. júlí, til marks um hve Vladimir Pútín Rússlandsforseti fer halloka á stjórnmálavettvangi samhliða nauðvörn herafla hans á vígvellinum.
Í fyrsta lagi hefur hindrunum fyrir aðild Svía að NATO verið rutt úr vegi. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti ætlar að leggja tillögu um aðildina fyrir tyrkneska þingið í haust. Viktor Órban, forsætisráðherra Ungverjalands, ætlar einnig að sjá til þess að ungverska þingið fullgildi aðild Svía.
Í öðru lagi virðist Erdogan hafa ákveðið að endurskoða afstöðu sína til Pútíns. Eftir sigur í kosningum í sumar hefur Tyrklandsforseti breytt um efnahagsstefnu. Þeir sem framkvæma hana telja gott samstarf vestur á bóginn lykil að árangri. Hættulegt sé að sitja á girðingunni og þykjast geta leitað sátta milli Rússa og Úkraínumanna.
Volodymyr Zelenskjí Úkraínuforseti var í Tyrklandi fyrir viku. Í flugvél hans heim til Kyív laugardaginn 8. júlí voru fimm foringjar úr Azov-hersveitinni sem Rússar tóku fasta þegar Mariupol féll í fyrra. Kremlverjar saka Azov-hermenn um grimmd og hægri öfgar. Þeir samþykktu að Tyrkir hefðu þá í sinni vörslu í fangaskiptum við Úkraínustjórn. Nú telur Pútín að Ergodan hafi svikið gefin loforð. Zelenskíj hrósaði sigri þegar hann sneri með mennina heim og lofaði þá fyrir hetjudáðir andspænis her Rússa.
Halli Erdogan sér til vesturs þrengir að Pútín í mörgu tilliti því að Tyrkland hefur verið eins konar öryggisventill fyrir rússneska auðmenn og stjórnarherra til að létta þeim byrðar vegna efnahagsþvingana og refsiaðgerða.
Í þriðja lagi telur Emmanuel Macron Frakklandsforseti að sjá megi fyrstu merki sundrungar í æðstu stjórn og her Rússlands. Macron sagði þetta á blaðamannafundi í Vilníus og vísaði til misheppnaðrar uppreisnar rússnesku Wagner-málalaliðanna á dögunum. Á ýmsum stigum stríðsins og rétt fyrir innrás Pútíns fyrir rúmum 500 dögum, hefur Macron viljað rækta sérstök tengsl við Pútín. Sá tími er liðinn. Frakklandsforseti vill nú styrkja úkraínska herinn með fullkomnum vopnum og tryggja sigur hans sem fyrst.
Volodymyr Zelenskíj og Jens Stoltenberg í Vilníus.
Í aðdraganda NATO-fundarins var rætt um hvort þar yrðu tímasettir áfangar á leið Úkraínu inn í NATO. Það var ekki gert. Þess í stað var ákveðið að auka enn hergagnaflutninga að vestan til að tryggja Úkraínumönnum sigur. Í krafti hans fengju þeir snarlega og án frekari skilyrða aðild að NATO. Skýrari geta vonir um sigur og áhrif hans fyrir Úkraínu varla verið.
Zelenskíj óttaðist fyrir fundinn að hann yrði skilinn eftir í lausu lofti án tímasetninga og síðan notaður sem skiptimynt í samningum stórvelda og/eða NATO við Rússa. Á blaðamannafundi í Vilníus síðdegis miðvikudaginn 12. júlí sagðist hann skilja að niðurstaða toppfundarins tæki mið af öryggishagsmunum. Úkraínumenn yrðu í NATO þegar stöðugleiki ríkti í öryggismálum. Í því fælist að við lok stríðsins yrði Úkraínu örugglega boðið í NATO og Úkraínumenn yrðu örugglega aðilar bandalagsins. Hann hefði ekki heyrt neitt annað á fundum sínum fyrr þennan sama dag.
Til að árétta öryggistryggingar gagnvart Úkraínu enn frekar en gert hafði verið á NATO-toppfundinum, komu leiðtogar G7-ríkjanna, helstu lýðræðisríkja heims, saman í Vilníus 12. júlí, sér saman um að hvert þeirra fyrir sig skyldi gera tvíhliða samning við Úkraínu um vopnasendingar þeirra.
Á þennan hátt vilja ríkin eyða öllum vafa um hernaðarlegan stuðning sinn og sýna Pútín svart á hvítu að hann geti ekki vænst þess að ná yfirhöndinni í stríðinu með því að draga það á langinn og fæla þannig aðrar þjóðir frá því að styðja Úkraínumenn.
Vestræn stuðningsríki Úkraínu hafa nú þegar sent þangað vopn fyrir tugi milljarða dollara. Þriðjudaginn 11. júlí sögðust Þjóðverjar enn ætla að senda þeim fleiri skriðdreka, Patriot-eldflaugakerfi og brynvarin farartæki fyrir 700 milljón evrur. Frakkar sögðust ætla að senda langdrægar eldflaugar og fulltrúar 11 ríkja sögðu að í ágúst myndu flugherir þeirra sameinast um F-16 orrustuþotna þjálfunarmiðstöð í Rúmeníu fyrir úkraínska flugmenn.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hélt ræðu í Vilníus að kvöldi miðvikudagsins 12. júlí og sagði að Pútín hefði brugðist bogalistin þegar hann veðjaði á veiklyndi vestrænna þjóða og leiðtoga við upphaf innrásarinnar í Úkraínu.
„Okkur verður ekki haggað. Við stöndum við bakið á Úkraínumönnum eins lengi og nauðsynlegt er,“ hrópaði Biden.
Bandaríkjaforseti fór frá Vilníus til Helsinki, höfuðborgar Finnlands, þar sem hann tók fimmtudaginn 13. júlí þátt í fundi með Finnlandsforseta og forsætisráðherrum ríkjanna fimm.
Norrænu forsætisráðherrarnir hittu Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, á fundi í Vestmannaeyjum 26. júní.
Þessir fundir með ráðamönnum frá Norður-Ameríku eru tímanna tákn í ljósi þeirrar ákvörðunar sem staðfest var á Vilníus-fundinum, að herstjórn NATO í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum skuli annast gerð og framkvæmd varnaráætlana fyrir Norðurlöndin, Atlantshaf og evrópska hluta norðurslóða (e. Arctic).
Í ályktun Vilníusfundarins er vikið að hervæðingu Rússa á norðurslóðum og minnt á að með skömmum fyrirvara efni þeir til æfinga á hafi úti. Í hánorðri geti þeir ógnað siglingum og frelsi til siglinga yfir Norður-Atlantshaf á liðsaukaleiðum NATO-þjóðanna og í því felist ógn við bandalagið. Á vegum þess verði brugðist við ógninni með nauðsynlegum og samhæfðum aðgerðum og æfingum.