13.11.2017

Tvær gamlar greinar um sögulegar sættir

Nú, mánudaginn 13. nóvember 2017, er komið að því að fulltrúar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og vinstri grænna (VG) hefji formlegar viðræður í því skyni að  mynda meirihlutastjórn. Af því tilefni birti ég hér tvær greinar sem ég skrifaði í Morgunblaðið í desember 1979 og janúar 1980. Þar velti ég fyrir mér þeim kosti að Sjálfstæðisflokkur og Alþýðubandalag, forveri VG, myndi ríkisstjórn.

Fyrri greinin birtist 11. desember 1979 undir fyrirsögninni List hins mögulega. Nokkrum dögum síðar, 20. desember 1979, vitnaði Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, til þessarar greinar minnar í grein sem hann ritaði í blaðið undir fyrirsögninni Sögulegar sættir. Síðari grein mína um þetta efni birti ég í blaðinu 15. janúar 1980 en þá lá fyrir að annarri lotu stjórnarmyndunarviðræðnanna væri lokið.

Stjórnarmyndunartilraunum lauk að þessu sinni í febrúar 1980 þegar Gunnar Thoroddsen og nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins mynduðu ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi.

Þegar Gunnar Thoroddsen, þáv. forsætisráðherra, varði stjórnarmyndun sína á landsfundi Sjálfstæðismanna, undir lok október 1980 sagði hann að Morgunblaðið hefði verið „sett í gang“ til að undirbúa það að Geir Hallgrímsson gæti myndað ríkisstjórn með sósíalistum. Gunnar sagði:

„Fyrst reið á vaðið ágætur maður og sérfræðingur í utanríkismálum, Björn Bjarnason, sem hefur ekki verið mjög bendlaður við vináttu við kommúnista, og mælti með því að þessi leið yrði könnuð. Og síðan kemur sjálfur Styrmir Gunnarsson og skrifar sögulega grein sem hann kallar Sögulegar sættir. Þar boðar hann, að nú sé tími til kominn, til að mynda stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalagsins,"sagði Gunnar, og veifaði ljósriti af þeirri grein eins og segir í Morgunblaðinu 31. október 1980.

Sagði Gunnar það taka út yfir allan þjófabálk og koma úr hörðustu átt, að þeir menn, sem í desember 1979 og janúar 1980 kröfðust þess og beittu sér fyrir því að mynda stjórn með Alþýðubandalaginu, væru nú í fararbroddi í árásum á sjálfstæðismenn í ríkisstjórn fyrir að starfa með Alþýðubandalaginu. „Það er ekki hægt að nota um þetta annað orð en hræsni," sagði Gunnar og bætti við: „Ég er sannfærður um það, að ef þessi stjórn segði af sér, og formaður Sjálfstæðisflokksins fengi í fjórða sinn umboð til að reyna stjórnarmyndun, þá myndi hann og vinir hans á Morgunblaðinu ekki hika við að reyna stjórn með Alþýðubandalaginu, ef þess væri nokkur kostur."

Allt veitir þetta sýn á stöðu stjórnmálamanna fyrir tæpum 40 árum. Þegar í greinunum er talað um alvarlegt ástand efnahagsmála er einkum vísað til þess að ekki hafði tekist að koma böndum á verðbólguna en lög um verðtryggingu voru sett af vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar, formanns Framsóknarflokksins, á árinu 1978. Þau voru á þessum tíma ekki farin að virka eins og síðar varð.

Rétt er að láta þess getið að það var hvorki fyrir tilstilli Geirs Hallgrímssonar né annarra að ég vakti máls á því 11. desember að ekki ætti að útiloka samstarf Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags í ríkisstjórn. Þetta álit mitt breyttist ekki um áramótin 1979/80 þegar sovéski herinn gerði innrás í Afganistan og spenna magnaðist milli austurs og vesturs. Það var einfaldlega sannfæring mín að ná mætti tökum á efnahagsvandanum með samstarfi þessara tveggja flokka eins og greinarnar tvær sem hér birtast bera með sér.

LIST HINS MÖGULEGA

Morgunblaðið 11. desember 1979

Að því var vikið í fréttaskýringu hér í blaðinu s.l. föstudag, að brýnasta verkefnið í íslenskum stjórnmálum væri nú að ná sáttum milli stjórnmálaflokkanna um lausn þess mikla vanda, sem að steðjar. Með hliðsjón af stefnu stjórnmálaflokkanna var talið, að mestur skyldleiki væri milli þeirra leiða, sem Sjálfstæðisflokkur, Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur hafa lagt til að farnar verði til að sigrast á verðbólgunni. Jafnframt var sú skoðun sett fram, að í raun hafi kjósendur verið að færast til hægri í kosningunum en báran hafi brotnað á Framsóknarflokknum. [...]

Sú setning, að stjórnmálin séu list hins mögulega, byggist á því, að stjórnmálamenn leiti með opnum huga og án fordóma þeirra úrræða, sem þykja best til þess fallin að ná settu marki. Við þær aðstæður, sem nú ríkja hér á landi, hlýtur markmiðið að vera það að ná sættum milli hinna stríðandi afla. Gífurlega mikið er í húfi. Sjaldan hefur þjóðin verið eins á vegi stödd vegna þess hve illa hefur til tekist um stjórn landsmálanna.

Allra síðustu daga hefur komið í ljós, að Steingrími Hermannssyni er það alls ekkert kappsmál að fara þannig með umboð sitt til myndunar meirihlutastjórnar, að sáttum verði náð milli ólíkra þjóðfélagsafla. Svo virðist sem persónulegir fordómar ráði ferð hans en ekki almenn stjórnmálaviðhorf. Í viðtali við Vísi síðastliðinn laugardag   segir   Steingrímur   meðal annars: „Ég hef alla tíð verið efins um samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Það er ef til vill arfur frá föður mínum en hann fór aldrei í stjórn undir forystu Sjálfstæðismanna. Það er mjög ríkt í mörgum Framsóknarmönnum að Framsóknarflokkurinn eigi að vera andstæðingur Sjálfstæðisflokksins. Tryggvi heitinn Þórhallsson sagði: „Allt er betra en íhaldið" og ég tek undir það!"[...]

Kæmi til tvíhliða viðræðna milli framsóknar og krata mundu deilur þeirra á milli standa um menn frekar en málefni. Það væri spurningin um skipan manna í ráðherraembætti sem réði úrslitum en málefni yrðu látin sigla sinn sjó, því að um þau yrði rifist á Alþingi. Engar raunverulegar sættir hefðu tekist. Stjórnmálamennirnir verða að kanna alla möguleika með opnum huga. Það hefur alls ekki verið gert og verður greinilega ekki gert undir forystu Steingríms Hermannssonar.

Einn er sá möguleiki, sem mönnum þykir jafnan fjarstæðukenndastur, þegar rætt er um samstarf stjórnmálaflokkanna. Það er samvinna milli Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags í ríkisstjórn. Í forystugrein Þjóðviljans í síðustu viku var hvatt til þess, að menn grafi stríðsaxirnar. Hvernig væri að kanna í þeim anda möguleika á samstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags?

Í samskiptum austurs og vesturs hafa Vesturlönd mótað þá reglu að ganga ekki til samninga við kommúnista nema þau geti samið í krafti eigin styrks. Birgir ísleifur Gunnarsson, formaður framkvæmdastjórnar Sjálfstæðisflokksins, sem fjallar fyrst og fremst um innviði flokksins, sagði meðal annars í grein um kosningarnar í Morgunblaðinu sl. laugardag: „Til lengdar getur enginn stjórnmálaflokkur þrifist á getuleysi annarra. Flokkurinn verður sjálfur að hafa stefnu og vera tilbúinn að standa og falla með henni. Þá leið valdi Sjálfstæðisflokkurinn ... Aðalatriðið er... að með þessu markvissa starfi hefur Sjálfstæðisflokkurinn verulega treyst innviði sína, skýrt betur fyrir sjálfum sér og öðrum þann hugsjónagrundvöll, sem flokkurinn hvílir á og styrkt sig í málefnabaráttunni."

Er ekki rétti tíminn nú að nota þennan aukna innri styrk og bættu málefnastöðu til að brjótast út úr hefðbundnu mynstri íslenskra stjórnmála og leita eftir þeim sáttum, sem eru forsendan fyrir því, að jafnvægisskilyrði skapist fyrir nýja framfarasókn? Í lífskjaramati sínu byggja Íslendingar á samanburði við árangur í þeim löndum, sem búa við efnahagskerfi frjálshyggjunnar, jafnt Sjálfstæðismenn sem Alþýðubandalagsmenn leggja þessa viðmiðun til grundvallar. Þessi samanburður verður okkur ekki hagstæður, fyrr en efnahagskerfinu hefur verið breytt hér á landi. Þau öfl, sem geta sameinast um friðsamlega leið að þessu markmiði, er að finna innan Sjálfstæðisflokksins og Alþýðubandalagsins. Vilji er allt sem þarf.

 

 

ANNARRI LOTU LOKIÐ

Morgunblaðið 15. janúar 1980

 

Stjórnarmyndunartilraun Geirs Hallgrímssonar er lokið án málefnaágreinings. Forseti íslands ræddi við Geir 27. desember og daginn eftir svaraði Geir tilmælum forseta um að hann tæki að sér myndun meirihlutastjórnar og lýsti sig reiðubúinn til þess að reyna það. Þennan tæpa sólarhring hafði formaður Sjálfstæðisflokksins notað til að ráðfærast við miðstjórn sína og þingflokk. Þar voru málin reifuð og Geir Hallgrímssyni veitt sjálfdæmi í meðferð sinni á umboðinu frá forseta án þess að skipuð væri formleg viðræðunefnd af hálfu flokksins.

Þessar æðstu valdastofnanir ræddu ýmsa möguleika. Snörp andstaða kom fram gegn samstarfi við kommúnista í Alþýðubandalaginu. Ekkert meirihlutamynstur var þó útilokað og sjálfur mun Geir einkum hafa staldrað við þjóðstjórn. Í áramótagrein í Morgunblaðinu 30. desember sagði hann: „... ber að stefna að sem víðtækastri samvinnu um stjórn landsins og kanna þar á meðal möguleika á myndun þjóðstjórnar.“ Í huga þeirra, sem höfðu minnst á þann möguleika, að Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðubandalagið könnuðu sameiginleg stjórnarmyndun, vakti eftirfarandi kafli í grein Geirs Hallgrímssonar sérstaka athygli: „Af því (samanburði á lífskjörum í mismunandi löndum) verður ekki nema ein ályktun dregin, að við hljótum að leitast við að læra af þjóðum í vestrænum iðnaðarlöndum, sem byggja á svokölluðum markaðsbúskap, þar sem ríkisafskiptin eru takmörkuð og frjáls samskipti einstaklinga í framleiðslu, kaupum og sölu ráða ferðinni með þeim árangri að verðmætasköpunin og velmegunin er hvergi meiri." Einmitt með þessari röksemd hafði því verið hreyft, að ef til vill bæri ekki jafn mikið á milli í efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins og Alþýðubandalagsins. Í raun stefndu báðir flokkar að því að tryggja þau lífskjör, sem aðeins er unnt að öðlast við markaðsbúskap. Lífskjörin, sem Guðmundur J. Guðmundsson vill tryggja láglaunafólki, byggja ekki á sósíalisma heldur markaðsbúskap.

Raunsæi sjálfstæðismanna

Undir    forystu    Geirs    Hallgrímssonar hafa farið fram viðræður milli Sjálfstæðisflokksins og Alþýðubandalagsins. Þær hafa verið með ýmsum hætti. Ef ýtt er til hliðar fordómum eiga þessir gömlu höfuðandstæðingar íslenskra stjórnmála auðvitað ýmislegt sameiginlegt. Framkvæmd sjálfstæðisstefnunnar hefur jafnan einkennst af raunsæi og ætíð hafa ýmsir flokksmenn talið forystuna of sveigjanlega í samstarfi við aðra flokka. Sjálfstæðismenn hafa að þessu leyti vanist því að sætta sig við málamiðlun. Þeir brugðust því ekki almennt harka-

lega við þeirri hugmynd, að þreifað yrði fyrir sér um samstarf við Alþýðubandalagið — já, kommúnistana sjálfa.

Slíkt samstarf krefst þess, að Sjálfstæðisflokkurinn gefi alls ekki eftir varðandi þau málefni, sem eru meginforsenda þess, að menn bera til hans traust. Þess vegna brá mörgum traustum sjálfstæðismanni, þegar hann las eftirfarandi í Þjóðviljanum 5. janúar s.l.:

„Athygli vekur hins vegar að fram mun hafa komið að mjög mismunandi sjónarmið séu til flestra mála innan Sjálfstæðisflokksins þar á meðal utanríkis-mála og margt óuppgert á heimavelli áður en hægt sé að ganga til samninga. Sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja leggja alla áherslu á stórhuga uppbyggingu atvinnulífs, bætta stjórnun án tillits til sérhagsmuna atvinnurekenda og eru jafnvel reiðubúnir til stefnubreytinga og endurskoðunar á utanríkismálastefnu Sjálfstæðisflokksins ..."

Sé þessi klausa byggð á reynslu einhverra þeirra alþýðubandalagsmanna, sem ræddu um stjórnarmyndun við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hljóta menn að draga í efa, að þeir þekki stefnu flokksins. Raunsæi sjálfstæðismanna sækir afl sitt til nokkurra úrslitaþátta og varnir Íslands í samstarfi við vestræn nágranna- og vinaríki vega þar einna þyngst.

Erfiðleikar Alþýðubandalagsins

Hugmyndin um stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags hefur valdið nokkru umróti meðal kommúnista. Svo virðist sem forysta flokksins hafi ekki þá stjórn á liðsmönnum sínum, að hún geti sætt þá við samvinnu við íhaldið, þótt hún sjálf sé ekki öndverð nánari tengslum við það. Forystusveitin lendir þar ekki í andstöðu við verkalýðsarm flokksins heldu svonefnda       menntamannaklíku.

Við slíkum árekstrum var að búast, því að það er menntamannaklíkan, sem vill að Alþýðubandalagið sé „stikkfrí“ í íslenskum stjórnmálum og taki helst aldrei þátt í stjórn landsins. Þessi klíka vill vera í flokki, þar sem hún hefur samband við „vitundarhreyfingarnar“ á tyllidögum og segir þeim, hvað þær skuli gera, en þess á milli fái hún að ráðskast með flokkinn. Sem dæmi um þá, sem falla undir hugtakið „vitundarhreyfingar“, má nefna auk verkalýðshreyfingarinnar, herstöðvaandstæðinga, rauðsokka, stúdenta og nú síðast farandverkamenn.

Innan Alþýðubandalagsins eru stöðug átök milli verkalýðsarmsins og menntamannaklíkunnar. Þeir fyrrnefndu vita sem er, að án áhrifa á landsstjórnina geta þeir ekki haldið velli í samtökum sínum. Hugsjónabarátta hinna síðarnefndu rekst á yeruleikann í íslensku þjóðfélagi. Í þingliði Alþýðubandalagsins eru harðnandi átök milli þingmanna af landsbyggðinni og úr Reykjavík. Þegar litið er til Alþýðubandalagsins, geta menn ekki heldur sniðgengið gömlu harðlínumennina, sem telja til dæmis Rauða herinn vera að rétta Afghanistan hjálparhönd, þegar hann leggur landið undir sig. Alþýðubandalagið er stjórnmálaflokkur í þeirri einkennilegu stöðu að hafa ekki gert það upp við sig, hvort hann vill vera þátttakandi í því þjóðskipulagi, sem hann eru hluti af, eða umbylta því. Í kosningabaráttunni kom þessi tvískinnungur til dæmis fram í sjónvarpsþætti, þegar Ragnar Arnalds vildi ekki kannast við byltingarkaflann í stefnuskrá flokksins.

Þjóðstjórn

Svarthöfði Vísis nefndi samstarf Sjálfstæðisflokksins og Alþýðubandalagsins „banvænt faðmlag". Með þeim orðum er glögglega lýst viðhorfi margra til þessarar samstarfshugmyndar. En menn geta ekki leyft sér þann munað að ímynda sér, að unnt sé að ná friði við núverandi aðstæður í efnahagsmálum nema allir flokkar séu með einum eða öðrum hætti reiðubúnir til að axla nokkra ábyrgð.

Strax 30. desember gaf Geir Hallgrímsson opinberlega til kynna gera tilraun til að mynda þjóðstjórn. Forystumenn annarra flokka gátu því ekki verið í neinum vafa um áform hans. Tíminn til 8. janúar var notaður til óformlegra viðræðna. Síðan settust formenn stjórnmálaflokkanna niður á formlegum fundi og skipaðir voru tveir menn frá hverjum flokki til að ræða um efnahagsmálin. Á sex dögum fékkst sú niðurstaða, að ekki væri á þessu stigi grundvöllur fyrir þjóðstjórninni. Greinargerð Geirs Hallgrímssonar um stjórnarmyndunarviðræður sínar gefur til kynna, að ekki hefur verið setið auðum höndum.

En á hverju strandaði? Þessari spurningu er ekki unnt að svara með því að benda á eitt atriði. Líklega verður henni best svarað með því að segja, að skort hafi pólitískan vilja. Forsenda þess, að raunhæfur árangur næðist, var, að óformlegu viðræðurnar leiddu til þess, að meirihlutasamstaða myndaðist milli stjórnmálaforingjanna, tveggja eða fleiri, um að láta slag standa og leita eftir fylgi við fastmótaða lausn innan flokka sinna.

Á þeirri stundu, sem menn fóru að skiptast á formlegum tillögum og senda þær til einkunnagjafar í Þjóðhagsstofnun við Rauðarárstíg, byrjaði að halla undan fæti. Í þessum viðræðum sannaðist enn, að það leiðir ekki til neinnar ingarlaust og raunar aðeins niðurstöðu að eiga skrifleg samskipti við efnahagsráðgjafa. Þótt þau tryggi, að allir hafi sömu upplýsingar, geta þau einnig leitt til óeðlilegs metings og tortryggni jafnvel út af blaðsíðutali, eins og nú mun hafa gerst. Þá hefur það komið fram hér í blaðinu, að Þjóðhagsstofnun og hagfræðideild Seðlabanka Íslands greinir á um niðurstöður.

Hvað tekur við?

Sé tekið mið af því, sem gerðist við stjórnarmyndunarviðræðurnar sumarið 1978, felur forseti Íslands Lúðvík Jósepssyni næst að reyna myndun meirihlutastjórnar eða einhverjum fulltrúa Alþýðubandalagsins, ef Lúðvík tilnefnir hann í sinn stað. Alþýðubandalagið hefur ekki sett fram neinar fastmótaðar tillögur í viðræðum flokkanna til þessa. Kommúnistar telja áreiðanlega nauðsynlegt að reyna að nýju myndun vinstri stjórnar. Litlar líkur eru á að það takist.

Mun Alþýðubandalagið snúa sér til Sjálfstæðisflokksins? Svar við þessari spurningu veltur á því, hvaða armur innan bandalagsins ræður mestu. Forystusveit Alþýðubandalagsins er ljóst, að Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki þátt í ríkisstjórn undir forsæti Alþýðubandalagsmanns. Grípi hún þannig á málum, að ekki skuli ræða við Sjálfstæðisflokkinn af þessum sökum, fær sú röksemd ekki staðist á sama tíma og rætt er við Benedikt Gröndal, sem sagði 1978, að ekki væri unnt fyrir forsætisráðherra að stjórna ráðuneyti, sem hefði aðra skoðun en hann í utanríkismálum. Þetta er grundvallarforsenda, sem ekki verður  sniðgengin  nú  á  tímum, þegar það er æ algengara að stjórnarleiðtogar komi saman til alþjóðlegra funda. Ræði Alþýðubandalagið ekki við Sjálfstæðisflokkinn, á meðan það hefur umboð frá forseta íslands, er þýðingarlaust og raunar aðeins tímasóun að gefa því boltann, ef þannig má að orði komast.

Lengra verður ekki litið að sinni. Á eftir Alþýðubandalaginu kemur Alþýðuflokkurinn. Talsmenn bæði framsóknar og krata hafa borið af sér, að þeir séu óformlega að þreifa fyrir sér um minnihlutastjórn inni við Rauðarárstíg, þar sem Framkvæmdastofnun ríkisins og Þjóðhagsstofnun eru til húsa. Er ennþá „allt betra en íhaldið" í augum Steingríms Hermannssonar?