Tuð pírata um pólitíska ábyrgð
Morgunblaðið, 17. desember 2022
Myndun meirihlutastjórnar í Danmörku nú í vikunni með aðild Jafnaðarmannaflokksins annars vegar og tveggja mið-hægri-flokka, Venstre og Moderaterne, hins vegar varpar ljósi á pólitíska ábyrgð. Samstarfsflokkar jafnaðarmanna féllu frá kosningaloforðum um að Mette Frederiksen forsætisráðherra sætti lagalegri ábyrgð vegna minkamálsins svonefnda, það er aðildar sinnar að ákvörðunum um útrýmingu allra eldisminka í Danmörku vegna COVID-19-faraldursins.
Ágreiningur um þessar ákvarðanir varð til þess í sumar að danska þingið var rofið og efnt til kosninga. Í kosningabaráttunni lofuðu talsmenn Venstre og Moderaterne að lögfræðingum yrði falið að rannsaka hvort Mette Frederiksen bæri lagalega ábyrgð á málinu. Niðurstaða slíkrar athugunar hefði getað leitt til ákæru og landsdómsmáls gegn forsætisráðherranum.
Meirihluta á danska þinginu þarf til þess að ákveða lögfræðilega rannsókn (d. advokatvurdering) á hlut forsætisráðherrans í minkamálinu. Á blaðamannafundi í tilefni stjórnarmyndunarinnar sagði Jakob Ellemann-Jensen, formaður Venstre: „Það verður ekki efnt til neins lögfræðilegs mats.“ Af hálfu nýju ríkisstjórnarinnar verður þess í stað hraðað svo sem verða má að greiða minkabændum bætur.
Sérstök rannsóknarnefnd skilaði skýrslu um minkamálið í sumar. Þá tilkynnti formaður Radikale venstre, sem studdi minnihlutastjórn jafnaðarmanna, að flutt yrði vantraust á ríkisstjórnina nema Mette Frederiksen boðaði til kosninga fyrir 4. október 2022. Farin yrði pólitíska leiðin til að kalla fram dóm kjósenda í minkamálinu.
Þessi leið var farin og Radikale venstre fengu hörmulega útreið í kosningunum 1. nóvember. Fylgið minnkaði um helming, aðeins 3,8% kjósenda studdu flokkinn, þingmönnum flokksins fækkaði úr 16 í sjö, formaðurinn axlaði pólitíska ábyrgð og sagði af sér.
Jafnaðarmannaflokkurinn styrkti á hinn bóginn stöðu sína undir
forystu Mette Frederiksen. Hún hafði áfram undirtökin á danska
þinginu eins og stjórnarmyndunin nú sýnir. Eftir að hafa rætt
myndun stjórnar í 43 daga tókst henni að ná saman með Venstre og
Moderaterne og kynnti Danadrottningu niðurstöðuna 14. desember.
Danska ríkisstjórnin. Flokksformenn í fremstu röðm frá vinstri: Jakob Ellemann-Jensen, Mette Frederiksen og Lars Løkke Rasmussen.
Danir kalla þetta miðjustjórn þar sem stærstu flokkar til vinstri og hægri taka höndum saman í fyrsta sinn síðan 1978. Moderaterne er klofningsflokkur úr Venstre sem Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi formaður Venstre og forsætisráðherra, stofnaði sumarið 2021. Hann sagði skilið við þingflokk Venstre eftir að hafa hætt sem flokksformaður eftir kosningarnar 2019. Lars Løkke er manna ánægðastur með nýju stjórnina og er nú utanríkisráðherra Dana.
Sé farið yfir dönsku atburðarásina með pólitíska ábyrgð að leiðarljósi blasir við að í kosningunum lögðu kjósendur blessun sína yfir hlut Mette Frederiksen í minkamálinu og höfnuðu Radikale venstre sem stilltu henni upp við vegg. Við þeirri köldu staðreynd geta Jakob Ellemann-Jensen og Lars Løkke Rasmussen ekki haggað. Á hinn bóginn geta flokkar þeirra og Jafnaðarmannaflokkurinn ásamt þremur þingmönnum frá Færeyjum og Grænlandi myndað meirihluta að baki ríkisstjórn og það tækifæri nýta þeir sér.
Pólitísk ábyrgð flokksformannanna þriggja er skýr. Að axla hana gagnvart eigin flokksmönnum er erfiðast fyrir Jakob Ellemann-Jensen. Hann gerir sér vonir um að styrkja stöðuna í eigin flokki sem ráðherra í stað þess að standa utan stjórnar og eiga á hættu að lenda úti í kuldanum eins og Lars Løkke forveri hans sem formaður Venstre árið 2019.
Jakob Ellemann-Jensen er nú varaforsætisráðherra og varnarmálaráðherra. Í hans hlut kemur að takast á við hitt danska pólitíska ábyrgðarmálið sem nú er á döfinni, það er hlut ráðherra í FE-hneykslinu (FE: Forsvarets Efterretningstjeneste – leyniþjónusta hersins). Í þessu óupplýsta máli kemur meðal annars við sögu Claus Hjort Frederiksen, fyrrverandi varnarmálaráðherra og áhrifamaður í Venstre. Spurt er um pólitíska ábyrgð hans og Trine Bramsen, Jafnaðarmannaflokknum, sem var varnarmálaráðherra þegar rannsókn vegna FE-málsins var hrundið af stað. Í dönskum fjölmiðlum segir að þetta kunni að vera pólitískt sprengiefni.
Í byrjun vikunnar stóð Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, fyrir sérstakri þingumræðu um pólitíska ábyrgð á Íslandi með þátttöku forsætisráðherra. Fyrir Þórhildi Sunnu vakti að lengja lífið í hjartans máli Pírata: Kröfunni um afsögn Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, vegna sölunnar á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars 2022. Tuði sínu halda Píratar áfram án þess að afsagnarkrafa þeirra sé reist á öðru en gamaldags pólitískri óvild. Bjarni skorast ekki undan að ræða og skýra pólitíska ábyrgð sína. Þá fékk hann öruggan pólitískan stuðning í hörðum formannskosningum á landsfundi flokks síns í byrjun nóvember.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði réttilega í svari til píratans í þingumræðunum mánudaginn 12. desember að í mikilli rýni vegna bankasölunnar hefði ekkert komið fram „sem kallar á að ýtrasta form pólitískrar ábyrgðar sé virkjað, þ.e. að ráðherrann segi af sér embætti eða hann hafi misst meirihlutastuðning á Alþingi vegna þessa máls“.
Pólitískt er bankasalan í nefnd á þingi. Sú nefnd skilar áliti um úttekt ríkisendurskoðunar. Hugi einhverjir þingmenn á sakamál, landsdómsmál gegn Bjarna Benediktssyni, ættu þeir að lesa bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um misheppnaða landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde áður en lengra er haldið.