17.12.2022

Tuð pírata um pólitíska ábyrgð

Morgunblaðið, 17. desember 2022

Mynd­un meiri­hluta­stjórn­ar í Dan­mörku nú í vik­unni með aðild Jafnaðarmanna­flokks­ins ann­ars veg­ar og tveggja mið-hægri-flokka, Ven­stre og Modera­ter­ne, hins veg­ar varp­ar ljósi á póli­tíska ábyrgð. Sam­starfs­flokk­ar jafnaðarmanna féllu frá kosn­ingalof­orðum um að Mette Frederik­sen for­sæt­is­ráðherra sætti laga­legri ábyrgð vegna minka­máls­ins svo­nefnda, það er aðild­ar sinn­ar að ákvörðunum um út­rým­ingu allra eld­isminka í Dan­mörku vegna COVID-19-far­ald­urs­ins.

Ágrein­ing­ur um þess­ar ákv­arðanir varð til þess í sum­ar að danska þingið var rofið og efnt til kosn­inga. Í kosn­inga­bar­átt­unni lofuðu tals­menn Ven­stre og Modera­ter­ne að lög­fræðing­um yrði falið að rann­saka hvort Mette Frederik­sen bæri laga­lega ábyrgð á mál­inu. Niðurstaða slíkr­ar at­hug­un­ar hefði getað leitt til ákæru og lands­dóms­máls gegn for­sæt­is­ráðherr­an­um.

Meiri­hluta á danska þing­inu þarf til þess að ákveða lög­fræðilega rann­sókn (d. advo­katvur­der­ing) á hlut for­sæt­is­ráðherr­ans í minka­mál­inu. Á blaðamanna­fundi í til­efni stjórn­ar­mynd­un­ar­inn­ar sagði Jakob Ell­emann-Jen­sen, formaður Ven­stre: „Það verður ekki efnt til neins lög­fræðilegs mats.“ Af hálfu nýju rík­is­stjórn­ar­inn­ar verður þess í stað hraðað svo sem verða má að greiða minka­bænd­um bæt­ur.

Sér­stök rann­sókn­ar­nefnd skilaði skýrslu um minka­málið í sum­ar. Þá til­kynnti formaður Radikale ven­stre, sem studdi minni­hluta­stjórn jafnaðarmanna, að flutt yrði van­traust á rík­is­stjórn­ina nema Mette Frederik­sen boðaði til kosn­inga fyr­ir 4. októ­ber 2022. Far­in yrði póli­tíska leiðin til að kalla fram dóm kjós­enda í minka­mál­inu.

Þessi leið var far­in og Radikale ven­stre fengu hörmu­lega út­reið í kosn­ing­un­um 1. nóv­em­ber. Fylgið minnkaði um helm­ing, aðeins 3,8% kjós­enda studdu flokk­inn, þing­mönn­um flokks­ins fækkaði úr 16 í sjö, formaður­inn axlaði póli­tíska ábyrgð og sagði af sér.

Jafnaðarmanna­flokk­ur­inn styrkti á hinn bóg­inn stöðu sína und­ir for­ystu Mette Frederik­sen. Hún hafði áfram und­ir­tök­in á danska þing­inu eins og stjórn­ar­mynd­un­in nú sýn­ir. Eft­ir að hafa rætt mynd­un stjórn­ar í 43 daga tókst henni að ná sam­an með Ven­stre og Modera­ter­ne og kynnti Dana­drottn­ingu niður­stöðuna 14. des­em­ber.

2260c711-5e2b-4d6f-86ba-074974c5c880Danska ríkisstjórnin. Flokksformenn í fremstu röðm frá vinstri: Jakob Ellemann-Jensen, Mette Frederiksen og Lars Løkke Rasmussen.

Dan­ir kalla þetta miðju­stjórn þar sem stærstu flokk­ar til vinstri og hægri taka hönd­um sam­an í fyrsta sinn síðan 1978. Modera­ter­ne er klofn­ings­flokk­ur úr Ven­stre sem Lars Løkke Rasmus­sen, fyrr­ver­andi formaður Ven­stre og for­sæt­is­ráðherra, stofnaði sum­arið 2021. Hann sagði skilið við þing­flokk Ven­stre eft­ir að hafa hætt sem flokks­formaður eft­ir kosn­ing­arn­ar 2019. Lars Løkke er manna ánægðast­ur með nýju stjórn­ina og er nú ut­an­rík­is­ráðherra Dana.

Sé farið yfir dönsku at­b­urðarás­ina með póli­tíska ábyrgð að leiðarljósi blas­ir við að í kosn­ing­un­um lögðu kjós­end­ur bless­un sína yfir hlut Mette Frederik­sen í minka­mál­inu og höfnuðu Radikale ven­stre sem stilltu henni upp við vegg. Við þeirri köldu staðreynd geta Jakob Ell­emann-Jen­sen og Lars Løkke Rasmus­sen ekki haggað. Á hinn bóg­inn geta flokk­ar þeirra og Jafnaðarmanna­flokk­ur­inn ásamt þrem­ur þing­mönn­um frá Fær­eyj­um og Græn­landi myndað meiri­hluta að baki rík­is­stjórn og það tæki­færi nýta þeir sér.

Póli­tísk ábyrgð flokks­formann­anna þriggja er skýr. Að axla hana gagn­vart eig­in flokks­mönn­um er erfiðast fyr­ir Jakob Ell­emann-Jen­sen. Hann ger­ir sér von­ir um að styrkja stöðuna í eig­in flokki sem ráðherra í stað þess að standa utan stjórn­ar og eiga á hættu að lenda úti í kuld­an­um eins og Lars Løkke for­veri hans sem formaður Ven­stre árið 2019.

Jakob Ell­emann-Jen­sen er nú vara­for­sæt­is­ráðherra og varn­ar­málaráðherra. Í hans hlut kem­ur að tak­ast á við hitt danska póli­tíska ábyrgðar­málið sem nú er á döf­inni, það er hlut ráðherra í FE-hneyksl­inu (FE: For­sva­rets Ef­ter­retn­ing­stjeneste – leyniþjón­usta hers­ins). Í þessu óupp­lýsta máli kem­ur meðal ann­ars við sögu Claus Hjort Frederik­sen, fyrr­ver­andi varn­ar­málaráðherra og áhrifamaður í Ven­stre. Spurt er um póli­tíska ábyrgð hans og Trine Bram­sen, Jafnaðarmanna­flokkn­um, sem var varn­ar­málaráðherra þegar rann­sókn vegna FE-máls­ins var hrundið af stað. Í dönsk­um fjöl­miðlum seg­ir að þetta kunni að vera póli­tískt sprengi­efni.

Í byrj­un vik­unn­ar stóð Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir, þingmaður Pírata, fyr­ir sér­stakri þingum­ræðu um póli­tíska ábyrgð á Íslandi með þátt­töku for­sæt­is­ráðherra. Fyr­ir Þór­hildi Sunnu vakti að lengja lífið í hjart­ans máli Pírata: Kröf­unni um af­sögn Bjarna Bene­dikts­son­ar, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, vegna söl­unn­ar á 22,5% hlut rík­is­ins í Íslands­banka í mars 2022. Tuði sínu halda Pírat­ar áfram án þess að af­sagn­ar­krafa þeirra sé reist á öðru en gam­aldags póli­tískri óvild. Bjarni skor­ast ekki und­an að ræða og skýra póli­tíska ábyrgð sína. Þá fékk hann ör­ugg­an póli­tísk­an stuðning í hörðum for­manns­kosn­ing­um á lands­fundi flokks síns í byrj­un nóv­em­ber.

Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra sagði rétti­lega í svari til pírat­ans í þingum­ræðunum mánu­dag­inn 12. des­em­ber að í mik­illi rýni vegna banka­söl­unn­ar hefði ekk­ert komið fram „sem kall­ar á að ýtr­asta form póli­tískr­ar ábyrgðar sé virkjað, þ.e. að ráðherr­ann segi af sér embætti eða hann hafi misst meiri­hlutastuðning á Alþingi vegna þessa máls“.

Póli­tískt er banka­sal­an í nefnd á þingi. Sú nefnd skil­ar áliti um út­tekt rík­is­end­ur­skoðunar. Hugi ein­hverj­ir þing­menn á saka­mál, lands­dóms­mál gegn Bjarna Bene­dikts­syni, ættu þeir að lesa bók Hann­es­ar Hólm­steins Giss­ur­ar­son­ar um mis­heppnaða lands­dóms­málið gegn Geir H. Haar­de áður en lengra er haldið.