25.11.2023

Trúnaðarbresturinn gagnvart WHO

Morgunblaðið, laugardagur 25. nóvember 2023.

Eft­ir COVID-19-far­ald­ur­inn myndaðist samstaða um gerð nýs alþjóðasátt­mála til að koma í veg fyr­ir, búa sig und­ir og bregðast við far­sótt­um í framtíðinni.

Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in,  World Health Organization, WHO, efndi til aukaþings í des­em­ber 2021 og kom á fót milli­ríkjaviðræðunefnd (INB) til að leggja grunn að WHO-sátt­mála, sam­komu­lagi eða ann­arri alþjóðlegri samþykkt um varn­ir gegn far­sótt­um, viðbúnað og viðbrögð. Ákveðið var að stefna að sátt­mála og er vinnu­skjalið kallað WHO CA+.

Sum­arið 2022 lá fyr­ir á ensku Zero Draft að þess­um sátt­mála eða óform­leg frumdrög. Þeim var dreift til aðild­ar­ríkja WHO í fe­brú­ar 2023, texta í átta köfl­um og 38 grein­um auk inn­gangs. Var fram­vindu­skýrsla um gerð sátt­mál­ans dags. 14. apríl 2023 lögð fram á 76. þingi WHO þá um vorið. Er ætl­un­in að ljúka gerð sátt­mál­ans á 77. þingi WHO árið 2024.

Milli­ríkjaviðræðunefnd­in kem­ur sam­an til átt­unda fund­ar síns 4. til 6. des­em­ber og eft­ir þann fund hefst loka­fer­ill um­sagna og texta­smíði fyr­ir WHO-þingið í maí 2024.

WHO-logo

Ein­hverj­ir kunna að undr­ast hvers vegna þess­ar dag­setn­ing­ar séu tí­undaðar og gang­ur máls­ins rak­inn á þenn­an hátt. Svarið er: Sam­hliða því sem unnið er að gerð þessa sátt­mála hef­ur orðið til hreyf­ing hér og ann­ars staðar gegn WHO og alþjóðleg­um far­sótt­ar­sátt­mála sem tek­ur mið af reynsl­unni af COVID-19-far­aldr­in­um.

Við þann sem þetta rit­ar var full­yrt að umræðulaust og með leynd væri unnið að því að lauma í gegn alþjóðasátt­mála þar sem WHO yrði í raun veitt umboð til að ráðskast með líf okk­ar og lík­ama kæmi til nýs heims­far­ald­urs. Gripu ís­lensk stjórn­völd ekki til ráðstaf­ana fyr­ir 1. des­em­ber 2023 og mót­mæltu öll­um slík­um áform­um af­söluðu þau sér full­veldi og fórnuðu þjóðinni á alt­ari WHO.

Var þess ein­dregið farið á leit að stuðlað yrði að op­in­ber­um umræðum um málið áður en það yrði um sein­an og við yrðum of­urseld WHO.

Ótti viðmæl­and­ans vakti áhuga á að kanna málið. Reynd­ist auðvelt að afla upp­lýs­inga um stöðu þess á vefsíðu WHO og í sam­tali við spjall­menni. Tíma­lín­an er nefnd hér að ofan til að sýna að texta­gerðin hef­ur þró­ast fyr­ir opn­um tjöld­um hjá WHO. Niðurstaðan er að ís­lenska ríkið af­sal­ar sér eng­um rétti með því að til­kynna ekki fyr­ir­vara vegna umræðuskjals­ins fyr­ir 1. des­em­ber 2023. Dag­setn­ing­in var sett á sín­um tíma fyr­ir milli­ríkjaviðræðunefnd­ina og skrif­stofu WHO svo tími gæf­ist til um­sagn­ar um texta fyr­ir 78. WHO-þingið í maí 2024.

Hitt vek­ur síðan at­hygli þegar róið er eft­ir upp­lýs­ing­um um far­sótt­ar­sátt­mál­ann á heima­miðum að þá verður að fara út á jaðarsvæði. Um sátt­mál­ann er til dæm­is rætt á Útvarpi Sögu. Á sjón­varps­stöð sem nefn­ist Kla.TV er birt­ur fyr­ir­lest­ur sem sviss­nesk­ur lög­fræðing­ur, Phil­ipp Kru­se, „bar­áttumaður gegn Covid-þving­un­um stjórn­valda“ eins og þar seg­ir, flutti í Reykja­vík 4. októ­ber 2023 á málþingi sam­tak­anna Frelsi og ábyrgð. Hann hvatti til sam­tals um hætt­una sem aðild­ar­ríkj­um WHO stafaði „af breytt­um far­ald­urs­sátt­mála (e. pand­emic treaty) þar sem rík­in [mundu] sam­kvæmt breyt­ing­un­um í raun fram­selja vald sitt í heil­brigðismál­um til WHO. [Yrði] nýi sátt­mál­inn samþykkt­ur [þýddi] það m.a. að ráðlegg­ing­ar þess­ar­ar alþjóðastofn­un­ar [yrðu] ekki leng­ur aðeins ráðgef­andi, held­ur bind­andi,“ sagði í kynn­ingu Kla.TV.

Skaut er­indið ýms­um skelk í bringu. Á net­inu er vefsíða, Mitt val, þar sem færðar eru 10 ástæður fyr­ir því að Ísland eigi að hafna far­sótt­ar­sátt­mála WHO. Þar er einnig opið bréf til for­seta Íslands, ís­lensku rík­is­stjórn­ar­inn­ar, alþing­is­manna og umboðsmanns alþing­is um að Ísland þurfi „að yf­ir­gefa WHO ef breyt­ing­ar á stjórn­ar­skrá stofn­un­ar­inn­ar verða ekki stöðvaðar“. Ekki er skýrt hverj­ar þess­ar breyt­ing­ar eru. Þá seg­ir einnig í opna bréf­inu að haustið 2023 hætti „Ísland full­veldi sínu varðandi lýðheilsu og heilsu­fars­hags­muni Íslend­inga ef við leyf­um WHO að verða yfirþjóðleg lög­gjaf­ar­stofn­un með óvinn­andi ákv­arðana­töku­vald“.

Tak­markið var að safna 10.000 nöfn­um und­ir opna bréfið en þau voru 2.615 þegar vefsíðan var skoðuð nú í vik­unni.

Eng­inn end­an­leg­ur texti að nýj­um far­sótt­ar­sátt­mála WHO ligg­ur fyr­ir. Hug­mynd­in að baki sátt­mál­an­um hef­ur verið kynnt og til­lög­ur að ákvæðum hans. Það vek­ur undr­un að eng­inn op­in­ber, inn­lend­ur aðili hafi tekið sam­an grein­ar­gerð um efni sátt­mál­ans til op­in­berr­ar kynn­ing­ar og umræðna hér. Vegna skorts á vönduðum upp­lýs­ing­um magn­ast rang­hug­mynd­ir sem sum­ar minna á sam­særis­kenn­ing­ar.

Texti WHO CA+ hef­ur orðið til í sam­starfi margra hagaðila, stjórn­valda, al­manna­sam­taka, fræði- og há­skóla­manna auk einkaaðila. Mark­miðið er að ferlið tryggi sann­gjarna lok­aniður­stöðu.

Í op­in­berri kynn­ingu á WHO CA+ er mik­il áhersla lögð á full­veldi ríkja. Í frum­varps­drög­un­um á að standa skýr­um stöf­um að ríki hafi full­veld­is­rétt til að ákveða sjálf og stjórna hvernig þau haga heilsu­gæslu sinni, þar á meðal sótt­vörn­um, viðbúnaði og viðbrögðum. Ríkj­um er ekki skylt að grípa til neinna sér­stakra aðgerða eða ákv­arðana að til­lögu WHO. Ráðið hef­ur ekki yfirþjóðlegt vald.

Samþykki Ísland aðild að sátt­mál­an­um geng­ur hann í gildi þegar nægi­lega mörg ríki hafa full­gilt hann. Sátt­mál­inn skuld­bind­ur ekki ís­lenska ríkið nema alþingi samþykki og það sam­ræm­ist stjórn­ar­skrá Íslands.

Tor­tryggni vegna far­sótt­ar­sátt­mál­ans teng­ist gagn­rýnu viðhorfi í garð stjórn­valda vegna COVID-19-aðgerða þeirra. Sé ekki unnið að op­in­berri skýrslu­gerð um þær aðgerðir all­ar, er það und­ar­legt. Eft­ir­leik far­ald­urs­ins er ekki lokið.