Trúnaðarbresturinn gagnvart WHO
Morgunblaðið, laugardagur 25. nóvember 2023.
Eftir COVID-19-faraldurinn myndaðist samstaða um gerð nýs alþjóðasáttmála til að koma í veg fyrir, búa sig undir og bregðast við farsóttum í framtíðinni.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, World Health Organization, WHO, efndi til aukaþings í desember 2021 og kom á fót milliríkjaviðræðunefnd (INB) til að leggja grunn að WHO-sáttmála, samkomulagi eða annarri alþjóðlegri samþykkt um varnir gegn farsóttum, viðbúnað og viðbrögð. Ákveðið var að stefna að sáttmála og er vinnuskjalið kallað WHO CA+.
Sumarið 2022 lá fyrir á ensku Zero Draft að þessum sáttmála eða óformleg frumdrög. Þeim var dreift til aðildarríkja WHO í febrúar 2023, texta í átta köflum og 38 greinum auk inngangs. Var framvinduskýrsla um gerð sáttmálans dags. 14. apríl 2023 lögð fram á 76. þingi WHO þá um vorið. Er ætlunin að ljúka gerð sáttmálans á 77. þingi WHO árið 2024.
Milliríkjaviðræðunefndin kemur saman til áttunda fundar síns 4. til 6. desember og eftir þann fund hefst lokaferill umsagna og textasmíði fyrir WHO-þingið í maí 2024.
Einhverjir kunna að undrast hvers vegna þessar dagsetningar séu tíundaðar og gangur málsins rakinn á þennan hátt. Svarið er: Samhliða því sem unnið er að gerð þessa sáttmála hefur orðið til hreyfing hér og annars staðar gegn WHO og alþjóðlegum farsóttarsáttmála sem tekur mið af reynslunni af COVID-19-faraldrinum.
Við þann sem þetta ritar var fullyrt að umræðulaust og með leynd væri unnið að því að lauma í gegn alþjóðasáttmála þar sem WHO yrði í raun veitt umboð til að ráðskast með líf okkar og líkama kæmi til nýs heimsfaraldurs. Gripu íslensk stjórnvöld ekki til ráðstafana fyrir 1. desember 2023 og mótmæltu öllum slíkum áformum afsöluðu þau sér fullveldi og fórnuðu þjóðinni á altari WHO.
Var þess eindregið farið á leit að stuðlað yrði að opinberum umræðum um málið áður en það yrði um seinan og við yrðum ofurseld WHO.
Ótti viðmælandans vakti áhuga á að kanna málið. Reyndist auðvelt að afla upplýsinga um stöðu þess á vefsíðu WHO og í samtali við spjallmenni. Tímalínan er nefnd hér að ofan til að sýna að textagerðin hefur þróast fyrir opnum tjöldum hjá WHO. Niðurstaðan er að íslenska ríkið afsalar sér engum rétti með því að tilkynna ekki fyrirvara vegna umræðuskjalsins fyrir 1. desember 2023. Dagsetningin var sett á sínum tíma fyrir milliríkjaviðræðunefndina og skrifstofu WHO svo tími gæfist til umsagnar um texta fyrir 78. WHO-þingið í maí 2024.
Hitt vekur síðan athygli þegar róið er eftir upplýsingum um farsóttarsáttmálann á heimamiðum að þá verður að fara út á jaðarsvæði. Um sáttmálann er til dæmis rætt á Útvarpi Sögu. Á sjónvarpsstöð sem nefnist Kla.TV er birtur fyrirlestur sem svissneskur lögfræðingur, Philipp Kruse, „baráttumaður gegn Covid-þvingunum stjórnvalda“ eins og þar segir, flutti í Reykjavík 4. október 2023 á málþingi samtakanna Frelsi og ábyrgð. Hann hvatti til samtals um hættuna sem aðildarríkjum WHO stafaði „af breyttum faraldurssáttmála (e. pandemic treaty) þar sem ríkin [mundu] samkvæmt breytingunum í raun framselja vald sitt í heilbrigðismálum til WHO. [Yrði] nýi sáttmálinn samþykktur [þýddi] það m.a. að ráðleggingar þessarar alþjóðastofnunar [yrðu] ekki lengur aðeins ráðgefandi, heldur bindandi,“ sagði í kynningu Kla.TV.
Skaut erindið ýmsum skelk í bringu. Á netinu er vefsíða, Mitt val, þar sem færðar eru 10 ástæður fyrir því að Ísland eigi að hafna farsóttarsáttmála WHO. Þar er einnig opið bréf til forseta Íslands, íslensku ríkisstjórnarinnar, alþingismanna og umboðsmanns alþingis um að Ísland þurfi „að yfirgefa WHO ef breytingar á stjórnarskrá stofnunarinnar verða ekki stöðvaðar“. Ekki er skýrt hverjar þessar breytingar eru. Þá segir einnig í opna bréfinu að haustið 2023 hætti „Ísland fullveldi sínu varðandi lýðheilsu og heilsufarshagsmuni Íslendinga ef við leyfum WHO að verða yfirþjóðleg löggjafarstofnun með óvinnandi ákvarðanatökuvald“.
Takmarkið var að safna 10.000 nöfnum undir opna bréfið en þau voru 2.615 þegar vefsíðan var skoðuð nú í vikunni.
Enginn endanlegur texti að nýjum farsóttarsáttmála WHO liggur fyrir. Hugmyndin að baki sáttmálanum hefur verið kynnt og tillögur að ákvæðum hans. Það vekur undrun að enginn opinber, innlendur aðili hafi tekið saman greinargerð um efni sáttmálans til opinberrar kynningar og umræðna hér. Vegna skorts á vönduðum upplýsingum magnast ranghugmyndir sem sumar minna á samsæriskenningar.
Texti WHO CA+ hefur orðið til í samstarfi margra hagaðila, stjórnvalda, almannasamtaka, fræði- og háskólamanna auk einkaaðila. Markmiðið er að ferlið tryggi sanngjarna lokaniðurstöðu.
Í opinberri kynningu á WHO CA+ er mikil áhersla lögð á fullveldi ríkja. Í frumvarpsdrögunum á að standa skýrum stöfum að ríki hafi fullveldisrétt til að ákveða sjálf og stjórna hvernig þau haga heilsugæslu sinni, þar á meðal sóttvörnum, viðbúnaði og viðbrögðum. Ríkjum er ekki skylt að grípa til neinna sérstakra aðgerða eða ákvarðana að tillögu WHO. Ráðið hefur ekki yfirþjóðlegt vald.
Samþykki Ísland aðild að sáttmálanum gengur hann í gildi þegar nægilega mörg ríki hafa fullgilt hann. Sáttmálinn skuldbindur ekki íslenska ríkið nema alþingi samþykki og það samræmist stjórnarskrá Íslands.
Tortryggni vegna farsóttarsáttmálans tengist gagnrýnu viðhorfi í garð stjórnvalda vegna COVID-19-aðgerða þeirra. Sé ekki unnið að opinberri skýrslugerð um þær aðgerðir allar, er það undarlegt. Eftirleik faraldursins er ekki lokið.